Ferill 109. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 109  —  109. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um neytendalán og lögum um fasteignalán til neytenda (afnám verðtryggingar lána til neytenda).

Flm.: Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


I. KAFLI
Breyting á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 2. mgr. fellur brott.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. er óheimilt að verðtryggja neytendalán og fasteignalán til neytenda.

II. KAFLI
Breyting á lögum um neytendalán, nr. 33/2013.
2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á i-lið 5. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Lán tengd“ í upphafi liðarins kemur: Lán í.
     b.      Í stað orðanna „tilgreint í eða bundið“ í 1. og 2. tölul. kemur: í.

3. gr.

    Í stað orðsins „tengd“ í 1. málsl. 3. mgr. og 5. mgr. 10. gr. laganna kemur: í.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. a laganna:
     a.      Í stað orðsins „tengd“ í 1. mgr. kemur: í.
     b.      Í stað orðsins „tengist“ í a-lið 1. mgr. kemur: er í.
     c.      Í stað orðanna „sem tengjast“ í fyrirsögn greinarinnar kemur: í.

5. gr.

    Í stað orðanna „áfallna vexti og verðbætur“ í b-lið 3. mgr. 16. gr. laganna kemur: og áfallna vexti.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. a laganna:
     a.      Í stað orðanna „sem tengist“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: í.
     b.      Í stað orðanna „tengist ekki“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: er ekki í.
     c.      Í stað orðanna „sem tengjast“ í fyrirsögn greinarinnar kemur: í.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
     a.      1. tölul. 1. mgr. fellur brott.
     b.      Í stað orðsins „tengt“ í 3. tölul. 1. mgr. kemur: í.
     c.      2. mgr. fellur brott.

8. gr.

    Í stað orðanna „sem tengjast“ í g- og r-lið 1. mgr. 30. gr. laganna kemur: í.

III. KAFLI
Breyting á lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016.
9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Orðið „verðbætur“ í 10. tölul. fellur brott.
     b.      Í stað orðanna „Lán tengt“ í upphafi 13. tölul. kemur: Lán í.
     c.      Í stað orðanna „tilgreint í eða bundið“ í a- og b-lið 13. tölul. kemur: í.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 12. gr. laganna:
     a.      7. tölul. fellur brott.
     b.      Í stað orðsins „tengist“ í 8. tölul. kemur: er í.

11. gr.

    2. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
    Lánveitandi eða lánamiðlari skal afhenda neytanda niðurgreiðslutöflu fyrir fasteignalán þar sem miðað er við að vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans. Lánveitandi eða lánamiðlari skal bjóða neytanda að fá afhenta niðurgreiðslutöflu fyrir önnur fasteignalán en þau sem greinir í 1. málsl.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      1. tölul. 1. mgr. fellur brott.
     b.      Í stað orðsins „tengt“ í 3. tölul. 1. mgr. kemur: í.

13. gr.

    Í stað orðanna „vöxtum, verðlagi eða gengi“ í 3. mgr. 16. gr. laganna kemur: þeim.

14. gr.

    2. málsl. 3. mgr. 18. gr. laganna fellur brott.

15. gr.

    3. mgr. 19. gr. laganna fellur brott.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „tengd“ í 1. málsl. kemur: í.
     b.      Í stað orðsins „tengist“ í 1. tölul. kemur: er í.
     c.      Í stað orðanna „sem tengjast“ í fyrirsögn greinarinnar kemur: í.

17. gr.

    Í stað orðanna „sem tengjast“ í 4. mgr. 23. gr. laganna kemur: í.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „sem tengist erlendum“ í 1. málsl. 1. mgr. og 1. málsl. 3. mgr. kemur: í erlendum.
     b.      Í stað orðanna „tengist ekki“ í 2. tölul. 2. mgr. og 1. málsl. 3. mgr. kemur: er ekki í.
     c.      Í stað orðanna „sem tengjast“ í fyrirsögn greinarinnar kemur: í.

19. gr.

    Í stað orðanna „sem tengjast“ í fyrirsögn X. kafla laganna kemur: í.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 36. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „áfallna vexti og verðbætur“ í 2. tölul. kemur: og áfallna vexti.
     b.      Í stað orðanna „sem tengist“ í 3. málsl. 2. tölul. kemur: í.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 53. gr. laganna:
     a.      Orðið „verðlags“ í 8. tölul. fellur brott.
     b.      Í stað orðanna „sem tengjast“ í 15. og 24. tölul. kemur: í.

22. gr.

    Í stað orðanna „sem tengjast“ í 1. tölul. 1. mgr. 61. gr. laganna kemur: í.

23. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 152. og 153. löggjafarþingi (50. mál) og er nú lagt fram að nýju með nokkrum breytingum. Með frumvarpinu er lagt til að framvegis verði óheimilt að verðtryggja neytendalán og fasteignalán til neytenda. Í því felst að eftir gildistöku slíkra laga yrði óheimilt að veita neytendum lán með skilmálum um verðtryggingu miðað við hvers konar verðvísitölur, svo sem neysluverð, gengi gjaldmiðla eða hlutabréfa. Að sama skapi er lagt til að úr lögum um neytendalán, nr. 33/2013, og lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016, verði felld brott ákvæði sem gera ráð fyrir slíkri verðtryggingu enda yrðu þau þá óþörf. Eftir sem áður yrði heimilt að breytilegir vextir óverðtryggðra lána til neytenda tækju mið af opinberum viðmiðum eða vísitölum að því leyti sem gert er ráð fyrir í viðkomandi lögum.

Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Um langt árabil hefur verið hávær krafa í samfélaginu um afnám verðtryggingar lána til neytenda og margar viðhorfskannanir sýnt fram á víðtækan stuðning við þær kröfur. Ýmsir sérfræðingar hafa verið fengnir til að gera skýrslur og sérfræðingahópar skipaðir til að fjalla um málefnið. Þá hafa ítrekað verið lögð fram frumvörp um að afnema eða setja skorður við verðtryggingu með ýmsum hætti sem ekki hafa náð fram að ganga þrátt fyrir að slík markmið hafi margoft komið fram í stjórnarsáttmálum fyrri ríkisstjórna.
    Markmið frumvarps þessa er að stöðva veitingu verðtryggðra lána til neytenda og taka afgerandi skref í átt að fullu afnámi þess lánafyrirkomulags. Ekki er gert ráð fyrir því að sú breyting hafi afturvirk áhrif, en að eldri verðtryggð lán muni þó með tímanum hverfa úr umferð, jafnvel þótt ekki kæmi annað til en eðlilegar uppgreiðslur þeirra. Þar sem kveðið er á um heimildir til verðtryggingar með lögum er ekki fær önnur leið að settu marki en sú að breyta þeim lögum til að girða fyrir veitingu verðtryggðra lána til neytenda.

Meginefni frumvarpsins.
    Með 1. gr. frumvarps þessa er lagt til að óheimilt verði að verðtryggja neytendalán og fasteignalán til neytenda. Með þessu er gert ráð fyrir því að áhrif breytingarinnar muni ná til allra lána sem framvegis yrðu veitt samkvæmt lögum um neytendalán, nr. 33/2013, eða lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016.
    Með því að afnema heimild til verðtryggingar lána til neytenda yrði girt fyrir að fleiri slík lán yrðu veitt, en eldri lánum sem eftir standa mun fækka í tímans rás með uppgreiðslum á þeim. Þannig er hér um að ræða eitt skref af fleirum í nauðsynlegri endurskipulagningu á lánaumhverfi neytenda á Íslandi. Enn fremur þarf að skapa hvata og stuðning til að liðka fyrir því að heimili sem það kjósa geti breytt eldri verðtryggðum lánum í óverðtryggð lán. Ákveðin skref í þá átt voru tekin með afnámi stimpilgjalda á lánum, lækkun á lántökugjaldi og öðrum kostnaði við endurfjármögnun lána. Lokaskrefið á þeirri vegferð er að koma böndum á sjálft vaxtastigið, einkum í húsnæðislánum, sem hefur einkennst af talsverðum sveiflum.

Markmið og áhrif.
    Samþykkt frumvarpsins hefði einkum áhrif á tvo hópa, annars vegar lánveitendur á borð við banka, sparisjóði og aðrar lánastofnanir, og hins vegar neytendur, þ.e. almenning.
    Áhrifin á lánveitendur yrðu þau helst að þeir gætu ekki lengur veitt verðtryggð lán til neytenda. Til framtíðar myndu uppgreiðslur eldri verðtryggðra lána draga úr umfangi verðtryggðra útlána þeirra. Slík þróun er þegar hafin en fyrir um þremur árum var hlutfall verðtryggðra fasteignalána til neytenda komið niður í 75% og var um mitt ár 2022 komið undir 44%. Á sama tímabili hafa hrein og ný verðtryggð útlán verið neikvæð vegna uppgreiðslu þeirra eða breytinga í óverðtryggð lán sem njóta sívaxandi eftirspurnar. Frumvarpið er til þess fallið að styðja við þessa þróun og stuðla að umbreytingu á lánaumhverfi íslenskra neytenda með því að hverfa frá verðtryggðu kerfi í nafnvaxtaumhverfi.
    Áhrifin á neytendur yrðu m.a. þau að lánaskilmálar yrðu skiljanlegri og lánskjör gegnsærri. Þannig yrði samanburður á lánskjörum auðveldari sem gæti stuðlað að virkari samkeppni. Þá myndu neytendur losna við þann óstöðugleika í fjármálum heimila sinna sem leiðir af óvissu um hvað þau muni skulda á hverjum gjalddaga. Slík tilhneiging er reyndar nú þegar byrjuð að koma fram, þar sem sú þróun hefur orðið að neytendur leita nú í stórauknum mæli í óverðtryggð lán. Er því jafnvel óvíst hvort samþykkt frumvarpsins hefði veruleg áhrif á fjármálamarkaði við þær aðstæður.
    Samþykkt frumvarpsins hefði engin sérstök áhrif á stjórnsýslu ríkisins, enda leggur það ekki neinar nýjar skyldur á herðar stjórnvöldum. Þvert á móti gæti það stuðlað að skilvirkara opinberu eftirliti með lánastarfsemi vegna minna flækjustigs í skilmálum lána til neytenda. Jafnframt væri það til þess að fallið að gera peningastefnu Seðlabanka Íslands skilvirkari, en mikil útbreiðsla verðtryggingar lánsfjár hefur verið talin hamla framgangi hennar.
    Með samþykkt frumvarpsins yrði tekið afgerandi skref til þess að afnema verðtryggingu á lánamarkaði fyrir neytendur og koma á sambærilegu lánaumhverfi við flest önnur lönd þar sem lánsfé er einfaldlega verðlagt með vöxtum. Það myndi draga úr verðbólgusveiflum og skapa þannig forsendur fyrir lægri vöxtum en ella, neytendum til hagsbóta.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um I. kafla.

    Í kaflanum er kveðið á um afnám heimildar til verðtryggingar lána til neytenda.

Um 1. gr.

    Með greininni yrði kveðið skýrt á um að framvegis væri óheimilt að verðtryggja neytendalán og fasteignalán til neytenda, eins og kemur fram í b-lið greinarinnar. Þar sem breytingin næði einnig til viðmiðunar við hlutabréfavísitölur sem er þegar óheimil í slíkum lánum skv. 2. málsl. 2. mgr. 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, yrði sá málsliður óþarfur og er því lagt til í a-lið greinarinnar að hann falli brott.

Um II. kafla.

    Ákvæði þessa kafla fela í sér ýmsar lagatæknilegar breytingar á lögum um neytendalán, nr. 33/2013, í því skyni að fella út vísanir til verðtryggingar miðað við vísitölu neysluverðs eða gengisvísitölur í lánum til neytenda til samræmis við þá meginbreytingu sem felst í 1. gr. frumvarpsins. Jafnframt er lagt til að gerð verði skýrari aðgreining milli annars vegar lána í íslenskum krónum og hins vegar lána í erlendum gjaldmiðlum.

Um 2.–8. gr.

    Með þessum greinum yrði orðalagi ýmissa ákvæða laganna breytt þannig að allar vísanir til verðtryggingar yrðu felldar brott en þó gert ráð fyrir því að raunveruleg lán í erlendum gjaldmiðlum yrðu áfram leyfileg að sömu skilyrðum uppfylltum og áður. Ekki er gerður neinn greinarmunur á vísitölutengingu eða gengisviðmiðun sem grundvelli verðtryggingar neytendalána enda yrði hvorugt heimilt skv. 1. gr. frumvarpsins.

Um III. kafla.

    Ákvæði þessa kafla fela í sér ýmsar lagatæknilegar breytingar á lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016, í því skyni að fella út vísanir til verðtryggingar miðað við vísitölu neysluverðs eða gengisvísitölur í lánum til neytenda til samræmis við þá meginbreytingu sem felst í 1. gr. frumvarpsins. Jafnframt er lagt til að gerð verði skýrari aðgreining milli annars vegar lána í íslenskum krónum og hins vegar lána í erlendum gjaldmiðlum.

Um 9.–22. gr.

    Með þessum greinum yrði orðalagi ýmissa ákvæða laganna breytt þannig að allar vísanir til verðtryggingar yrðu felldar brott en þó gert ráð fyrir því að raunveruleg lán í erlendum gjaldmiðlum yrðu áfram leyfileg að sömu skilyrðum uppfylltum og áður. Ekki er gerður neinn greinarmunur á vísitölutengingu eða gengisviðmiðun sem grundvelli verðtryggingar neytendalána enda yrði hvorugt heimilt skv. 1. gr. frumvarpsins.