Ferill 110. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 110  —  110. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um eflingu landvörslu.


Flm.: Jódís Skúladóttir, Orri Páll Jóhannsson.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að hlutast til um að gerð verði markviss áætlun um eflingu landvörslu. Sérstök áhersla verði lögð á fjölgun starfa og heilsársstöðugilda í landvörslu með auknu fjármagni. Við áætlunargerðina verði skoðað hvort þörf sé á endurskipulagningu verkefna í landvörslu.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður flutt á 153. löggjafarþingi (274. mál) og gekk til umhverfis- og samgöngunefndar að lokinni fyrri umræðu. Tillagan er endurflutt óbreytt en með lítils háttar breytingum á greinargerð til samræmis við helstu ábendingar umsagnaraðila.
    Alls bárust sex umsagnir um tillöguna, m.a. frá Breiðafjarðarnefnd, Landvarðafélagi Íslands, Landvernd, Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarði. Mikil ánægja var með framlagningu málsins og áhersla lögð á að efla þurfi landvörslu um allt land, sér í lagi þar sem spár gera ráð fyrir frekari fjölgun ferðamanna til landsins. Mikilvægt er að mæta aukinni þjónustuþörf með uppbyggingu helstu ferðamannastaða.
    Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með náttúruverndarsvæðum samkvæmt lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, en landverðir starfa, skv. 80. gr. sömu laga, í þjóðgörðum og á öðrum náttúruverndarsvæðum víðs vegar um landið, svo sem innan þjóðgarðsins á Þingvöllum og Vatnajökulsþjóðgarðs. Landverðir geta með fræðslu og stýringu haft mikil og jákvæð áhrif á ferðahegðun og upplifun á þeim verndarsvæðum sem þeir starfa á. Með landvörslu má draga verulega úr álagi á fjölförnum ferðamannastöðum.
    Landverðir annast daglegan rekstur og umsjón í samræmi við stjórnunar- og verndaráætlanir, sinna fræðslu og upplýsingagjöf, sinna eftirliti á náttúruverndarsvæðum ásamt því að taka á móti gestum í gestastofum.
    Störf landvarða eru margbreytileg en það ræðst meðal annars af fjölbreyttri náttúru, ólíkum fjölda og samsetningu ferðamanna og mismunandi aðstæðum á svæðunum. Mikil fjölgun ferðamanna undanfarin ár hefur í för með sér aukin verkefni og víða er ágangur á viðkvæm svæði kominn að þolmörkum. Landverðir skipa lykilhlutverk í umsjón og eftirliti með svæðum en einnig fræðslu og upplýsingagjöf til fólks. Í umsögn Vatnajökulsþjóðgarðs er bent á að landvörslustöðvar séu lykilþáttur í þjónustuneti þjóðgarða og gegni auk þess mikilvægu öryggishlutverki, en aukinn fjöldi ferðamanna hefur óhjákvæmilega í för með sér aukna slysahættu. Þá eru þær mikilvægur hlekkur í uppbyggingu innviða á verndarsvæðum.
    Utanvegaakstur er vandamál í náttúruvernd sem hefur gríðarleg og oft óafturkræf áhrif á viðkvæma náttúru. Einna áhrifaríkast hefur verið að nota forvirkar aðferðir, nýta landverði til að upplýsa fólk og reyna þannig að hafa áhrif og koma í veg fyrir skemmdarverk sem oft eru framkvæmd af gáleysi. Þessi aðferð hefur borið góðan árangur á ýmsum svæðum innan Vatnajökulsþjóðgarðs, til að mynda við Kreppubrú á norðurhálendinu þar sem vegalandvarsla hefur verið til staðar, sem og í samstarfi Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs að Fjallabaki. Þannig hefur dregið úr utanvegaakstri á svæðunum þrátt fyrir mikla fjölgun ferðamanna á undanförnum árum. Vegalandvarsla, þar sem gestir eru boðnir velkomnir á svæðið af landverði og upplýstir um ástand vega og þjónustu, hefur tvímælalaust áhrif út fyrir hlutaðeigandi svæði.
    Í umsögn Vatnajökulsþjóðgarðs er fjallað um fjármögnun landvörslu. Sérstaklega er sjónum beint að aukinni kröfu um öflun sértekna á friðlýstum svæðum og bent á mikilvægi þess að fjármögnun svæða í grunnþáttum landvörslu sé tryggð, óháð fjölda ferðamanna. Um það segir í umsögninni að kostun landvörslu megi ekki alfarið vera háð fjölda heimsóknargesta eða sértekjuöflun. Verndargildi svæða geti verið hátt, viðkvæmni mikil svo og áhrif af umgengni, jafnvel þótt gestir séu fáir. Á slíkum svæðum þurfi ekki síður að tryggja landvörslu svo að markmiði um verndun og aðgengi sé náð.
    Til þess að standa vörð um íslenska náttúru, eina af okkar mikilvægu auðlindum, er ljóst að efla verður landvörslu á markvissan hátt og fjölga landvörðum bæði á háannatíma og á heilsársgrundvelli. Þá er rétt að vísa til þess að Landvarðafélag Íslands hefur nýlega sett fram framtíðarsýn um landvörslu sem er mikilvægt innlegg í þennan brýna málaflokk.