Ferill 121. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 121  —  121. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um fullgildingu og lögfestingu samningsviðauka nr. 16 við samninginn um verndun mannréttinda og mannfrelsis frá 4. nóvember 1950 (mannréttindasáttmála Evrópu).


Flm.: Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Dagbjört Hákonardóttir, Eyjólfur Ármannsson, Gísli Rafn Ólafsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halldóra Mogensen, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Jóhann Páll Jóhannsson, Oddný G. Harðardóttir, Tómas A. Tómasson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að undirrita og fullgilda samningsviðauka nr. 16 við samninginn um verndun mannréttinda og mannfrelsis frá 4. nóvember 1950 (mannréttindasáttmála Evrópu). Fullgilding samningsviðaukans skuli fara fram eigi síðar en við árslok 2024. Ríkisstjórnin skuli að því búnu stefna að því að efnisákvæði viðaukans verði lögfest svo fljótt sem verða má.


Greinargerð.

    Tillaga þessi var lögð fram á 152. löggjafarþingi (710. mál) og 153. löggjafarþingi (207. mál) en náði ekki fram að ganga. Tillagan er nú endurflutt í óbreyttri mynd.
    Samningsviðauki nr. 16 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis frá 4. nóvember 1950 (mannréttindasáttmála Evrópu) gekk í gildi 1. ágúst 2018 við fullgildingu tíu aðildarríkja á samningsviðaukanum: Albaníu, Armeníu, Eistlands, Finnlands, Frakklands, Georgíu, Litháens, San Marínós, Slóveníu og Úkraínu. Síðan þá hafa eftirfarandi lönd einnig fullgilt samningsviðaukann: Andorra, Aserbaísjan, Belgía, Bosnía og Hersegóvína, Grikkland, Holland, Lúxemborg, Moldóva, Rúmenía, Slóvakía og Svartfjallaland.
    Samningsviðaukinn heimilar æðstu dómstólum hvers aðildarríkis að óska eftir ráðgefandi áliti frá Mannréttindadómstól Evrópu þegar álitaefni kunna að rísa varðandi túlkun eða beitingu þeirra réttinda sem tryggð eru með mannréttindasamningi Evrópu eða tilheyrandi samningsviðaukum. Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu lætur uppi slíkt ráðgefandi álit sem inniber röksemdafærslu dómstólsins en er ekki bindandi.
    Beiðni um ráðgefandi álit þarf að varða mál sem liggur fyrir viðkomandi landsdómstól. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur sjálfdæmi um það hvort dómstóllinn veitir ráðgefandi álit.
    Að sögn Guido Raimondi, forseta Mannréttindadómstóls Evrópu árin 2015–2019, styrkir samningsviðauki nr. 16 samtal milli Mannréttindadómstóls Evrópu og æðstu dómstóla aðildarríkjanna. Samningsviðaukinn er undirstöðuatriði í sögu mannréttindasáttmála Evrópu og meiri háttar þróun í verndun mannréttinda í Evrópu.
    Fjögur önnur lönd hafa einnig undirritað samningsviðaukann en eiga eftir að fullgilda hann: Ítalía, Norður-Makedónía, Noregur og Tyrkland.