Ferill 144. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 144  —  144. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um fullgildingu og lögfestingu valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.


Flm.: Guðmundur Ingi Kristinsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Dagbjört Hákonardóttir, Eyjólfur Ármannsson, Gísli Rafn Ólafsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Jóhann Páll Jóhannsson, Kristrún Frostadóttir, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Tómas A. Tómasson, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að fullgilda valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Fullgilding bókunarinnar skal fara fram eigi síðar en við árslok 2024. Ríkisstjórnin skal stefna að því að lögfesta bókunina og samninginn um réttindi fatlaðs fólks samtímis.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var áður lögð fram á 152. og 153. löggjafarþingi (49. mál) og er nú lögð fram efnislega óbreytt. Alls bárust sjö umsagnir um málið á 153. löggjafarþingi, frá m.a. Öryrkjabandalagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands og NPA-miðstöðinni. Umsagnaraðilar lýstu allir yfir stuðningi við málið.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 13. desember 2006. Íslensk stjórnvöld undirrituðu hann 30. mars 2007 ásamt valfrjálsri bókun við samninginn. Markmið samningsins er að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra, ásamt því að efla eðlislæga mannlega reisn þess og vinna að virðingu fyrir henni. Samningurinn felur í sér bann við hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og að fötluðu fólki sé tryggð jöfn og árangursrík réttarvernd gegn mismunun á öllum sviðum.
    Alþingi samþykkti 11. júní 2012 þingsályktun nr. 43/140, um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014. Samkvæmt lið F.1 í III. kafla ályktunarinnar átti að leggja fram frumvarp til fullgildingar samningsins eigi síðar en á vorþingi 2013. Með þingsályktun nr. 61/145, sem var samþykkt 20. september 2016, var ríkisstjórninni veitt heimild til að fullgilda samninginn, sem var gert 23. september 2016. Með þingsályktun nr. 33/149, sem var samþykkt 3. júní 2019, var ríkisstjórninni falið að undirbúa lögfestingu samningsins og leggja fram frumvarp sem fæli í sér lögfestingu hans og aðlögun íslenskra laga að honum eigi síðar en 13. desember 2020. Það hefur ekki verið gert þrátt fyrir að slík fyrirætlan komi fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
    Valfrjáls bókun um kæruleið fyrir einstaklinga og hópa einstaklinga vegna brota á samningnum var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 13. desember 2006, um leið og samningurinn sjálfur. Íslensk stjórnvöld undirrituðu bókunina 30. mars 2007 ásamt samningnum. Þegar tillaga sú til þingsályktunar er varð að þingsályktun nr. 61/145 var til meðferðar á Alþingi var samþykkt breytingartillaga við hana þess efnis að auk samningsins sjálfs skyldi jafnframt fullgilda valfrjálsu bókunina fyrir árslok 2017. Með þeirri breytingu var þingsályktunartillagan samþykkt einróma, en þrátt fyrir það hefur bókunin ekki enn verið fullgilt af hálfu Íslands.
    Ljóst er að á undanförnum árum hafa réttindi fatlaðs fólks fengið aukið vægi, ekki aðeins hér á landi heldur einnig á alþjóðlegum vettvangi. Til vitnis um það hafa 184 ríki nú þegar fullgilt samninginn um réttindi fatlaðs fólks og af þeim hafa 100 ríki fullgilt valfrjálsu bókunina. Í tengslum við úttektir mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála á Íslandi hafa íslensk stjórnvöld ítrekað verið hvött af öðrum ríkjum til að fullgilda valfrjálsu bókunina, nú síðast við þriðju allsherjarúttekt á stöðu mannréttindamála 25. janúar 2022. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við því hafa hingað til verið á þá leið að segja að fullgilding hennar sé til skoðunar, án þess að endanleg eða afgerandi afstaða hafi verið tekin.
    Með fullgildingu valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks yrði stuðlað að aukinni vernd þeirra réttinda sem koma fram í samningnum. Yrði þannig komið á fót sambærilegri kæruleið við þá sem lengi hefur verið til staðar vegna þeirra réttinda sem varin eru í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og við þá sem var samþykkt að koma á fót með fullgildingu þriðju valfrjálsu bókunarinnar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins samkvæmt þingsályktun nr. 28/151. Þar með yrði nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks gert kleift að taka við erindum frá einstaklingum og hópum einstaklinga á Íslandi. Með því að stíga þetta skref yrði vernd þessara mikilvægu réttinda aukin og er því lagt til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að fullgilda valfrjálsu bókunina og hefja undirbúning að lögfestingu hennar.