Ferill 188. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 190  —  188. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um endurvinnslu í hringrásarhagkerfinu.


Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis-, orku og loftslagsráðherra að gera framkvæmdaáætlun um endurvinnslu í hringrásarhagkerfinu sem hafi það að markmiði að allar vörur séu endurvinnanlegar og fram komi skýrt og skilmerkilega á hverri vöru hvernig standa skuli að endurvinnslu hennar. Endurvinnsluferli verði gerð gagnsæ og rekjanleg.
    Ráðherra leggi fyrstu framkvæmdaáætlunina fram í formi tillögu til þingsályktunar eigi síðar en á vorþingi 2025.

Greinargerð.

    Tillaga þessi til þingsályktunar var fyrst flutt á 153. löggjafarþingi (34. mál) og er nú endurflutt með smávægilegum breytingum. Mikilvægi hringrásarhagkerfis er augljóst í heimi takmarkaðra auðlinda. Ef við vinnum ekki markvisst að því að skipta út öllum framleiðsluferlum sem nýta takmarkaðar auðlindir klárum við þær að lokum með tilheyrandi skaða fyrir allt og alla sem treysta á það framleiðsluferli. Tilgangur þessarar þingsályktunartillögu er að allar auðlindir sem við notum hafi skilgreindan endurvinnsluferil. Ef vara er ekki endurvinnanleg þarf að finna aðra vöru í staðinn fyrir hana sem fyrst.
    Plast er gott dæmi um vöru sem þarf vel skilgreint endurvinnsluferli. Þrátt fyrir það er oft mjög óljóst hvernig á að endurvinna tilteknar plastumbúðir eða hvort plastið skilar sér alla leið í endurvinnslu. Þetta á einna helst við um umbúðir sem eru bæði úr plasti og öðrum efnum sem þarf að aðskilja fyrir endurvinnslu.
    Árið 2021 kom í ljós að Íslendingar áttu plastfjall í Svíþjóð sem búið var að greiða fyrir að færi í endurvinnslu en í ljós kom að plastið var geymt óendurunnið í vöruskemmu. 1 Þrátt fyrir að endurvinnsla á plasti sé einna best skilgreinda endurvinnsluferlið sem við höfum verða samt svona atvik. Framkvæmdaáætlun um endurvinnslu í hringrásarhagkerfinu er ætlað að koma í veg fyrir að svona stíflur geti myndast, t.d. með því að ábyrgðarkeðjan og rekjanleiki endurvinnsluferla sé ávallt gagnsær og aðgengilegur.
    Tilgangur framkvæmdaáætlunar er að stjórnvöld greini stöðu allra framleiðsluferla með tilliti til hringrásareiginleika þeirra og leggi fram áætlun um betrumbætur. Það gæti þurft skýrari lagasetningu í einhverjum tilvikum um það hvernig á að hætta notkun á ákveðnum efnum, t.d. jarðefnaeldsneyti, um það hvernig á að stuðla að rannsóknum á nýjum leiðum til þess að ná fullu hringrásarhagkerfi og þess háttar.
    Nauðsyn þess að koma á hringrásarhagkerfi ætti að vera augljós öllum. Átta milljarðar manna bjuggu á þessari jörð um það leyti sem þessi þingsályktunartillaga birtist í fyrsta skipti, einungis ellefu árum eftir að mannkyn taldist vera sjö milljarðar. Við höfum þar til nýlega í mannkynssögunni ekki þurft að hafa áhyggjur af því að ganga á náttúrulegar auðlindir jarðar. Það hefur breyst hratt eftir að mannfólki fór að fjölga í kjölfar iðnbyltingarinnar og áhrifin af þeirri fjölgun hafa stigmagnast síðan þá.
    Dæmi um neikvæð áhrif eru mörg og misalvarleg. Staðbundin áhrif eru algengust en nokkur dæmi eru um hnattræn áhrif. Barátta Clairs Pattersons gegn blýmengun, vegna þess að blý var sett í bensín, er fyrsta dæmið sem við höfum um baráttu gegn hnattrænni mengun. Áhrif CFC-efna á ósonlagið er annað dæmi. Hlýnun loftslags vegna losunar gróðurhúsalofttegunda er enn eitt dæmið um skammsýni okkar varðandi afleidd áhrif af ákvörðunum okkar. Baráttan gegn blýi í bensíni var gríðarlega erfið, en það tókst að fá löggjafa til þess að hlusta. Gríðarlegur stuðningur fékkst til þess að koma í veg fyrir eyðingu ósonlagsins. En andstaðan við aðgerðir vegna hnattrænnar hlýnunar er enn mjög mikil.
    Sumir segja að hnattræn hlýnun sé bara fín. Jörðin hafi oft verið heitari áður en hún er nú, að það sé ekkert sem þurfi að gera. Það er satt að hitastig á jörðinni hefur verið hærra löngu fyrir þá uppbyggingu sem samfélag manna hefur staðið að á undanförnum árþúsundum. Það samfélag hefur byggt upp gríðarlega mikið magn alls konar innviða sem tryggja lífsgæði átta milljarða manna og mun þurfa, að öðru óbreyttu, að standa undir 2–3 milljarða fjölgun í viðbót á þessari öld. Hlýnun loftslags hefur áhrif á þessa innviði sem leiðir til þess að við þurfum að aðlagast þeim breytingum. Það tekur tíma og kostar gríðarlega fyrirhöfn. Það tekst líklega, en eftir því sem hlýnun eykst verður það æ erfiðara. Bæði jörðin og samfélag manna munu taka stórkostlegum breytingum vegna þeirrar hlýnunar.
    Þess vegna þurfum við hringrásarsamfélag, sem tekur tillit til heildaráhrifa þess sem við gerum en ekki bara staðbundinna áhrifa og skammtímaáhrifa, til þess að stuðla að stöðugra samfélagi sem gengur ekki á auðlindir á kostnað framtíðarkynslóða og gengur ekki á náttúruna að óþörfu, svo að við getum bæði verið með samfélag manna og villtrar náttúru.
1     heimildin.is/grein/14445/