Ferill 212. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 215  —  212. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020 (vernd gegn uppsögn vegna tæknifrjóvgunar).

Flm.: Ingibjörg Isaksen, Halla Signý Kristjánsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Gísli Rafn Ólafsson, Oddný G. Harðardóttir, Hildur Sverrisdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    1. málsl. 50. gr. laganna orðast svo: Óheimilt er að segja starfsmanni upp störfum á grundvelli þess að hann hafi tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingar- eða foreldraorlofs skv. 12. eða 46. gr., er í fæðingar- eða foreldraorlofi eða á þeim tíma sem hann undirgengst tæknifrjóvgun nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Starfsmenn sem undirgangast tæknifrjóvganir og meðferðir þeim tengdar, sbr. 1., 2. og 3. mgr. 1. gr. laga um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, nr. 55/1996, hafa í dag ekki vernd gegn uppsögn á því tímabili sem meðferð stendur yfir. Flutningsmenn vilja að það sé skýrt í íslenskum lögum að óheimilt sé að segja starfsmanni upp á því tímabili sem hann undirgengst tæknifrjóvgun og meðferðir þeim tengdar þar sem oft getur verið um að ræða langt og erfitt ferli. Frjósemismeðferðir geta tekið á bæði andlega og líkamlega og starfsmenn sem þurfa að undirgangast slíkar meðferðir hafa ekki sömu möguleika og aðrir til þess að halda fyrir sig áformum sínum um að eignast barn og standa því höllum fæti gagnvart vinnuveitanda sínum á þeim tíma sem þeir freista þess að eignast barn og stofna til fjölskyldu.
    Evrópudómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í máli C-506/06 frá 26. febrúar 2008 (Sabine Mayr gegn Bäckerei und Konditorei Gerhard Flöckner OHG) að kona sem gengst undir glasafrjóvgun (e. vitro fertilization treatment IVF), þegar eggfrumur úr henni hafa verið frjóvgaðar en þeim ekki enn verið komið fyrir í legi konunnar, sé ekki þunguð í skilningi laga og njóti þar af leiðandi ekki verndar gegn uppsögn samkvæmt ákvæðum tilskipunar 92/85/ EBE. Aftur á móti teljist það mismunun á grundvelli kynferðis að segja upp konu sem undirgengst slíka meðferð og brot á tilskipun 76/207/EBE, þar sem einungis konur gangist undir slíkar meðferðir.
    Flutningsmenn telja mikilvægt að þeim starfsmönnum sem undirgangast tæknifrjóvganir og meðferðir þeim tengdar sé tryggð vernd gegn uppsögn í íslenskum lögum með sama hætti og þeim sem hafa tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingar- eða foreldraorlofs og leggja því til þessa breytingu á 50. gr. laganna. Hafa ber í huga að heimilt er að geyma fósturvísa í allt að 10 ár, það er ekki skoðun flutningsmanna að vernd gegn uppsögn eigi við allan þann tíma heldur einungis á þeim tíma sem starfsmaður undirgengst virka meðferð og getur sýnt fram á staðfestingu þess eðlis.