Ferill 227. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 230  —  227. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um forgangsröðun gangakosta á Austurlandi.


Flm.: Ragnar Sigurðsson, Ásmundur Friðriksson, Jón Gunnarsson, Vilhjálmur Árnason.


    Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að endurskoða forgangsröðun gangakosta á Austurlandi þannig að Suðurfjarðagöng komi í stað hringtengingar frá Neskaupstað til Seyðisfjarðar samhliða uppbyggingu Suðurfjarðavegar. Ráðherra geri úttekt á hagkvæmni Suðurfjarðaganga miðað við vetrarþjónustu og þá fjármuni sem verja skal til Suðurfjarðavegar og hringtengingar.

Greinargerð.

    Á Austfjörðum er brýn þörf á jarðgangakostum til að tryggja góðar heilsársvegasamgöngur milli byggða, tengja atvinnusvæði, styrkja byggðaþróun og bæta umferðaröryggi. Í greinargerð með þingsályktunartillögu þeirri sem samþykkt var sem samgönguáætlun fyrir árin 2020 til 2034 segir að meta eigi valkosti á jarðgöngum með tilliti til fýsileika, kostnaðar og félagshagfræðilegs ábata. Á grunni slíkrar greiningar skuli forgangsraða jarðgangakostum til lengri tíma. Í þingsályktunartillögu innviðaráðherra um samgönguáætlun fyrir árin 2024 til 2038, sem liggur nú í samráðsgátt stjórnvalda, er lögð til eftirfarandi forgangsröðun jarðganga: Fjarðarheiðargöng, Siglufjarðarskarðsgöng, Hvalfjarðargöng 2, göng milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur, göng milli Ísafjarðar og Súðavíkur, breikkun á Breiðadalslegg og Seyðisfjarðar- og Mjóafjarðargöng.
    Þannig er í bæði núgildandi og ósamþykktri samgönguáætlun gert ráð fyrir því að næstu jarðgöng hér á landi verði göng undir Fjarðarheiði. Ekki er lengur gert ráð fyrir því að hringtenging frá Seyðisfirði með göngum til Mjóafjarðar og þaðan með göngum til Neskaupstaðar verði næst á eftir Fjarðarheiðargöngum heldur eru þær fyrirætlanir nú í sjöunda sæti forgangslista ef ný samgönguáætlun verður samþykkt óbreytt. Í nýrri samgönguáætlun er jafnframt ráðgert að áfangaskipta uppbyggingu Suðurfjarðavegar, sem tengir Stöðvarfjörð og Breiðdalsvík við Fjarðabyggð. Verða áætluð verklok Suðurfjarðavegar á tímabilinu 2034– 2038 að óbreyttri samgönguáætlun.
    Flutningsmenn tillögu þessarar telja ótækt að íbúar á Austfjörðum bíði í rúman áratug eftir Suðurfjarðavegi nú þegar áform um slíkan veg liggja fyrir. Vegarkaflinn frá Breiðdalsvík að Fáskrúðsfirði er sá hættulegasti á Íslandi samkvæmt úttektum EuroRap, samtaka um gæðamat á vegakerfi Evrópu. Hættulegar einbreiðar brýr þykja ekki fullnægjandi kostur í nútímasamfélagi. Á umræddum vegarkafla er að finna fjórar slíkar brýr, þar á meðal brú yfir Sléttuá í Reyðarfirði sem ber þyngstu umferð einbreiðra brúa á Austurlandi. Yfir þá brú komast stór vinnutæki ekki og þurfa þeir sem þeim stjórna iðulega að fara yfir á vaði til að komast fyrir fjarðarbotninn.
    Flutningsmenn telja brýnt að samgöngubótum í Fjarðabyggð verði forgangsraðað betur. Í stað ganga frá Norðfirði til Seyðisfjarðar gegnum Mjóafjörð, sem ætla má að séu á dagskrá eftir tuttugu til þrjátíu ár miðað við samgönguáætlun, ætti fremur að horfa til þess að tengja saman Fáskrúðsfjörð, Stöðvarfjörð og Breiðdalsvík. Þannig mætti stækka atvinnusvæði á Austfjörðum, forgangsraða betur í þágu umferðaröryggis, efla suðurfirði Fjarðabyggðar til muna og ekki síst spara ríkissjóði umtalsverð fjárútlát til samgöngumála á Austurlandi næstu áratugi.