Ferill 306. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 310  —  306. mál.




Beiðni um skýrslu


frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um leiðréttingu námslána.


Frá Birni Leví Gunnarssyni, Andrési Inga Jónssyni, Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, Ásthildi Lóu Þórsdóttur, Dagbjörtu Hákonardóttur, Eyjólfi Ármannssyni, Gísla Rafni Ólafssyni, Guðmundi Inga Kristinssyni, Halldóru Mogensen, Ingu Sæland, Jakobi Frímanni Magnússyni, Loga Einarssyni, Oddnýju G. Harðardóttur, Tómasi A. Tómassyni og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra flytji Alþingi skýrslu um leiðréttingu verðtryggðra námslána. Í skýrslunni verði lagt mat á:
     a.      hversu mikil hækkun námslána varð vegna efnahagshrunsins 2008,
     b.      hvernig hækkun námslána dreifðist á lánþega,
     c.      hvernig greiðslubyrði af námslánum hefur þróast frá efnahagshruninu 2008 og hversu mikill hluti af aukinni greiðslubyrði er vegna verðtryggðrar stökkbreytingar lánanna,
     d.      hver kostnaðurinn væri við að lækka höfuðstól stökkbreyttra námslána vegna efnahagshrunsins 2008 á sambærilegan hátt og verðtryggð húsnæðislán voru leiðrétt í kjölfar hrunsins.

Greinargerð.

    Hinn 18. maí 2014 tóku gildi lög nr. 35/2014 sem kváðu á um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Markmið þeirra laga var að lækka höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána vegna þeirra áhrifa sem bankahrunið hafði á efnahag Íslands. Í þeirri aðgerð gleymdist að huga að námslánum, sem stökkbreyttust á nákvæmlega sama hátt. Í þessari skýrslubeiðni er því beðið um mat á því umfangi sem efnahagshrunið 2008 hafði á námslán, með tilliti til leiðréttingarinnar sem fasteignalán fengu.