Ferill 292. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 425  —  292. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um alvarleg atvik tengd fæðingum.


    Kallað var eftir svörum frá Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri en þessar stofnanir bera ábyrgð á upplýsingum í fæðingaskrá. Svörin komu í ítarlegri samantekt sem fylgir fyrirspurninni sem fylgiskjal.

     1.      Hversu margar mæður á hverju ári síðastliðin 10 ár á Íslandi hafa látist eftir barnsburð? Hvernig er fjöldinn samanborið við annars staðar á Norðurlöndum?
    Tíðni mæðradauða á Íslandi, samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, er 8,1 fyrir hverjar 100.000 fæðingar síðastliðin 40 ár. Síðastliðin 10 ár er tíðni mæðradauða 2,2 fyrir hverjar 100.000 fæðingar sem er mjög lág tíðni í alþjóðlegum samanburði. Miðað við tæpar 4.000–5.000 fæðingar á ári þá deyr ein kona á Íslandi á rúmlega tíu ára fresti að meðaltali (sjá nánar í fylgiskjali og nýlega grein í Læknablaðinu þar sem er greint frá mæðradauða á Íslandi á árunum 1976–2015).

     2.      Hversu margar mæður á hverju ári síðastliðin 10 ár á Íslandi hafa verið lagðar inn vegna mikils blóðmissis við fæðingu? Hvernig er fjöldinn samanborið við annars staðar á Norðurlöndum?
    Ekki er hægt að svara þessari spurningu nema með umfangsmikilli skoðun á gögnum mismunandi heilbrigðisstofnana sem svartími fyrirspurnar leyfir ekki. Tiltölulega fáar konur koma í endurinnlögn vegna mikilla blæðinga eftir fæðingu, þ.e. eftir að þær hafa verið útskrifaðar heim eftir fæðingu og sængurlegu. Slík vandamál hafa oftast verið leyst áður en konan fer heim af sjúkrastofnun.

     3.      Hver er tíðni burðarmálsdauða á hverju ári síðastliðin 10 ár á Íslandi sundurliðað eftir sjúkrastofnunum? Hvernig er tíðnin samanborið við annars staðar á Norðurlöndum?
    Ef burðarmálsdauði er greindur á minni stöðum eru konur yfirleitt sendar áfram á stærri fæðingardeildir til frekari rannsókna og framköllunar á fæðingu og er fæðingin þá skráð þar. Þar af leiðandi er ekki hægt að verða við beiðni um sundurliðun eftir sjúkrastofnunum innan tímaramma fyrirspurnar.
    Vegna fárra fæðinga á Íslandi sveiflast tölur töluvert milli ára sem gerir samanburð líka erfiðan. Þó má sjá að Ísland stendur vel í samanburði við Norðurlöndin þar sem í mörg ár er Ísland með lægstan eða næstlægstan burðarmálsdauða.
    Hér má benda á að mikilvægt er að skoða burðarmálsdauða í samhengi við tíðni keisaraskurða því í löndum með háa tíðni keisaraskurða er því oft haldið fram að mikill fjöldi keisaraskurða sé nauðsyn til að bjarga börnum. Hins vegar er Ísland með eina lægstu tíðni keisaraskurða í Evrópu en jafnframt með mjög lágan burðarmálsdauða (sjá nánar í fylgiskjali).

     4.      Hversu margar mæður á hverju ári síðastliðin 10 ár á Íslandi hafa hlotið örorku eftir barnsburð? Hvernig er fjöldinn samanborið við annars staðar á Norðurlöndum?
    Þessar tölur liggja ekki fyrir.



Fylgiskjal.


Um fæðingar.

www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s0425-f_I.pdf