Ferill 279. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 470  —  279. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um fjölda starfandi lögreglumanna.


     1.      Hver er heildarfjöldi starfandi lögreglumanna á landinu? Hvert er hlutfall menntaðra og ómenntaðra lögreglumanna?
    Heildarfjöldi starfandi lögreglumanna á landinu er 895 og þar af eru 704 menntaðir lögreglumenn. Afleysingamenn eru 79 talsins og þá sinna 112 lögreglunemar afleysingastörfum hjá lögregluembættum landsins.
    Þannig eru rúmlega 78% starfandi lögreglumanna menntaðir lögreglumenn og rúmlega 90% starfandi lögreglumanna menntaðir lögreglumenn eða lögreglunemar.

     2.      Hefur þróun fjölda lögreglumanna haldist í hendur við fólksfjölgun í landinu á liðnum áratug?
    Heildarfjöldi starfandi lögreglumanna var 20,4 á hverja 10.000 íbúa árið 2013 og 20,2 á hverja 10.000 íbúa árið 2023.

     3.      Hver var fjöldi lögreglumanna á hverja 10.000 ferðamenn á liðnu ári og hver var fjöldinn fyrir áratug?
    Á árinu 2013 var heildarfjöldi lögreglumanna 8,1 á hverja 10.000 ferðamenn en á árinu 2023 var heildarfjöldi lögreglumanna 4,6 á hverja 10.000 ferðamenn.

     4.      Liggur fyrir þarfagreining um þann fjölda lögreglumanna sem þörf er á vegna fjölgunar ferðamanna?
    Embætti ríkislögreglustjóra hefur unnið að greiningu á mannaflaþörf á grundvelli markmiða löggæsluáætlunar fyrir árin 2019–2023 um öryggis- og þjónustustig. Við þá vinnu er horft til mikillar fjölgunar íbúa og ferðamanna sem valdið getur margvíslegu álagi á lögreglu á ýmsum sviðum. Þá er horft til þess að á síðustu árum hafa auknar kröfur á lögreglu leitt til þess að fleiri lögreglumenn sinna sérverkefnum sem ekki snúa að útkalli eða rannsókn brota.
    Á síðustu árum hefur lögreglan fengið umtalsverðar viðbótarfjárheimildir til þess að efla löggæslu með margvíslegum hætti. Þessu fé hefur verið varið í ýmis brýn verkefni, svo sem að fjölga lögreglunemum og styrkja almenna löggæslu. Í mars sl. voru kynntar aðgerðir til þess að efla löggæslu hér á landi og var af því tilefni bætt við samtals 80 stöðugildum til að mæta veikleikum og efla löggæslu um allt land.

     5.      Hver er fjöldi starfandi lögreglumanna á Íslandi á hverja 100.000 íbúa í evrópskum samanburði?
    Samkvæmt tölum Eurostat fyrir árið 2020 voru að meðaltali 333,4 lögreglumenn á hverja 100.000 íbúa í Evrópu en á Íslandi er hlutfallið 201,9 lögreglumenn á hverja 100.000 íbúa. Vegna mismunandi löggæsluskipulags landa er samanburður erfiður enda misjafnt hvað er talið með og hvað ekki. Sem dæmi má nefna að sum lönd telja landamæraverði með en önnur ekki. Heilt yfir er hlutfall lögreglumanna lægra á Norðurlöndunum en þegar sunnar og austar dregur í álfunni.

     6.      Liggur fyrir þarfagreining um æskilegan fjölda lögreglumanna á landinu í heild og skipt eftir landshlutum?
    Vísað er til svars við 4. tölul. fyrirspurnarinnar.