Ferill 468. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 509  —  468. mál.
Leiðréttur texti.

Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld o.fl. (gistináttaskattur, áfengisgjald o.fl.).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um gistináttaskatt, nr. 87/2011.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Á eftir „gistináttaeiningu“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: fyrir hvern dvalargest.
     b.      2. og 3. málsl. 1. mgr. falla brott.
     c.      Á eftir 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                 Með gistináttaeiningu er átt við leigu á gistiaðstöðu í allt að einn sólarhring, þ.m.t. yfir nótt. Með gistiaðstöðu er átt við húsnæði eða svæði sem leigt er út í þeim tilgangi að þar sé dvalið yfir nótt, svefnaðstaða sé fyrir hendi eða hægt sé að koma henni fyrir og leigan sé almennt til skemmri tíma en eins mánaðar.
                 Greiða skal gistináttaskatt fyrir gistiaðstöðu á:
              a.      gististað sem hefur rekstrarleyfi í flokki II–IV, sbr. 3. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007,
              b.      tjaldstæði og stæði fyrir húsbíla, tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi,
              c.      skemmtiferðaskipi á meðan það dvelur í höfn hér á landi eða annars staðar á tollsvæði ríkisins, sbr. 2 gr. tollalaga, nr. 88/2005.
     d.      2. mgr. orðast svo:
                 Gistináttaskattur af hverri gistináttaeiningu fyrir hvern dvalargest skal vera sem hér segir:
Fyrir gistiaðstöðu skv. a-lið 3. mgr. 300 kr.
Fyrir gistiaðstöðu skv. b-lið 3. mgr. 300 kr.
Fyrir gistiaðstöðu skv. c-lið 3. mgr. 300 kr.
     e.      Í stað „Tilgreina skal“ í 3. mgr. kemur: Skattskyldir aðilar skv. 4. gr. sem eru í starfsemi sem fellur undir lög um virðisaukaskatt skulu tilgreina.

2. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Ekki skal greiða gistináttaskatt í eftirfarandi tilvikum:
     a.      við sölu gistingar sem ekki ber virðisaukaskatt samkvæmt lögum um virðisaukaskatt,
     b.      við sölu gistingar til dvalargesta sem eru yngri en 18 ára,
     c.      við sölu gistingar til dvalargesta um borð í skemmtiferðaskipi ef skipið leggst að höfn og fyrir liggur með sannanlegum hætti að skipið hafi verið í nauðum statt vegna áreksturs, sjóskemmda, veikinda eða ófriðar,
     d.      fyrir gistiaðstöðu sem áhöfn skipsins og annað starfsfólk þess hefur til umráða um borð í skipinu.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                 Öllum þeim sem selja gistináttaeiningar skv. a- og b-lið 3. mgr. 2. gr. og rekstraraðilum skemmtiferðaskipa skv. c-lið 3. mgr. 2. gr., sem notuð eru í starfsemi sem fellur undir lög um virðisaukaskatt, ber skylda til að innheimta gistináttaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Rekstraraðilum skemmtiferðaskipa skv. c-lið 3. mgr. 2. gr., sem ekki eru notuð í starfsemi sem fellur undir lög um virðisaukaskatt, ber að standa skil á gistináttaskatti í ríkissjóð.
     c.      Í stað „ríkisskattstjóra“ í 3. mgr. og „Ríkisskattstjóri“ í 4. mgr. kemur: Skattinum; og: Skatturinn.
     d.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Rekstraraðilum skemmtiferðaskipa, sem ekki eru notuð í starfsemi sem fellur undir lög um virðisaukaskatt, er heimilt að skrá sig á gistináttaskattskrá skv. 4. mgr. í eigin nafni.

4. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Skatturinn annast álagningu gistináttaskatts skv. 2. gr.
    Skattskyldir aðilar skulu greiða gistináttaskatt fyrir hvert uppgjörstímabil miðað við fjölda seldra gistináttaeininga.
    Uppgjörstímabil gistináttaskatts hjá skattskyldum aðilum skv. a- og b-lið 3. mgr. 2. gr. og hjá rekstraraðilum skemmtiferðaskipa skv. c-lið 3. mgr. 2. gr., sem notuð eru í starfsemi sem fellur undir lög um virðisaukaskatt, skulu vera þau sömu og uppgjörstímabil virðisaukaskatts skv. 1. málsl. 1. mgr. 24. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988. Gjalddagi er fimmti dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.
    Uppgjörstímabil gistináttaskatts hjá rekstraraðilum skemmtiferðaskipa skv. c-lið 3. mgr. 2. gr., sem ekki eru notuð í starfsemi sem fellur undir lög um virðisaukaskatt, telst vera sá tími á meðan skipið er innan tollsvæðis ríkisins hverju sinni. Gjalddagi er sami dagur og þegar skip yfirgefur tollsvæði ríkisins.
    Eigi síðar en á gjalddaga skv. 3. mgr. skulu skattskyldir aðilar ótilkvaddir skila Skattinum skýrslu um fjölda seldra gistinátta á uppgjörstímabilinu og standa skil á greiðslu skattsins til innheimtumanns ríkissjóðs. Beri gjalddaga gistináttaskatts skv. 3. og 4. mgr. upp á helgidag eða almennan frídag færist hann yfir á næsta virka dag á eftir.
    Skýrslur vegna gistináttaskatts skulu vera á því formi sem Skatturinn ákveður.

5. gr.

    Á eftir „gistináttaeininga“ í 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: fyrir hvern dvalargest.

6. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. ber ekki að greiða gistináttaskatt vegna sölu gistináttaeiningar fyrir hvern dvalargest sem afhent er á árinu 2024 eða síðar enda sé sölureikningur fyrir heildarverði gistingar gefinn út fyrir 1. janúar 2024.

II. KAFLI

Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 3. gr. laganna:
     a.      Á eftir „íslenskum aðilum“ í 2. tölul. kemur: eða föstum starfsstöðvum.
     b.      Við 2. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ekki skiptir máli hvar starfsemin fer fram.
     c.      Við bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
              11.      Allir aðilar sem njóta gjafa, þó ekki tækifærisgjafa, frá íslenskum aðilum eða föstum starfsstöðvum.
              12.      Allir aðilar sem njóta hvers konar annarra tekna, eða ígildi tekna, en þeirra sem taldar eru upp í öðrum töluliðum þessa ákvæðis frá íslenskum aðilum eða föstum starfsstöðvum, þó ekki af vörusölu.

8. gr.

    Í stað orðsins „eignum“ í 5. tölul. 1. mgr. 8. gr. og orðsins „skuldum“ í 4. tölul. 1. mgr. 49. gr. laganna kemur: eignum og skuldum.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. mgr. 15. gr. laganna:
     a.      Orðin „eða íbúðarhúsnæðis til eigin nota“ í 1. málsl. falla brott.
     b.      Orðin „eða noti hið keypta húsnæði fyrir eigin íbúð í a.m.k. tvö ár eftir kaupdag“ í 3. málsl. falla brott.
     c.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði þetta tekur jafnframt til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota enda sé það í tengslum við lok búrekstrar og húsnæðið sé notað fyrir eigin íbúð í a.m.k. tvö ár eftir kaupdag.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 30. gr. laganna:
     a.      3. mgr. 2. tölul. B-liðar 1. mgr. fellur brott.
     b.      Á eftir „A-liðar“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: eða 1.–8. tölul. C-liðar.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 70. gr. laganna:
     a.      3. mgr. 2. tölul. orðast svo: Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal tekjuskattur eftirlaunaþega og lífeyrisþega sem um ræðir í 2. tölul. 3. gr. reiknast af tekjuskattsstofni skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 66. gr. án persónuafsláttar.
     b.      Við bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
              11.      Tekjuskatt aðila sem um ræðir í 11. tölul. 1. mgr. 3. gr. skal reikna sem hér segir:
                          a.      Af tekjuskattsstofni með skatthlutfalli skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 66. gr., án persónuafsláttar ef um mann er að ræða.
                          b.      20% af tekjuskattsstofni, sbr. 2. tölul. 61. gr., ef um lögaðila skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. er að ræða.
                          c.      37,6% af tekjuskattsstofni, sbr. 2. tölul. 61. gr., ef um aðra lögaðila er að ræða.
              12.      Tekjuskatt aðila sem um ræðir í 12. tölul. 1. mgr. 3. gr. skal reikna sem hér segir:
                          a.      Af tekjuskattsstofni með skatthlutfalli skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 66. gr., án persónuafsláttar gr. ef um mann er að ræða.
                          b.      20% af tekjuskattsstofni, sbr. 2. tölul. 61. gr., ef um lögaðila skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. er að ræða.
                          c.      37,6% af tekjuskattsstofni, sbr. 2. tölul. 61. gr., ef um aðra lögaðila er að ræða.

12. gr.

    Við 4. mgr. 92. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Hvað fasteignir og lausafé varðar þá liggur upplýsingaskylda á rekstraraðilum stafrænna vettvanga, m.a. um leigusala, hið leigða og greiðslufyrirkomulag. Með stafrænum vettvangi er átt við hugbúnað, þ.m.t. smáforrit, sem gerir leigusölum kleift að tengjast notendum með það fyrir augum að veita þjónustu, með beinum eða óbeinum hætti, fyrir viðkomandi notendur og býður eftir atvikum upp á greiðslufyrirkomulag. Ráðherra skal setja reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd upplýsingaöflunar á grundvelli þessa ákvæðis þar sem nánar er fjallað um m.a. skráningarskyldu, hvaða upplýsingum skuli skila og fyrirkomulag upplýsingaskipta til skattyfirvalda og milli ríkja.

13. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. A-liðar 7. gr. teljast styrkir til hreinorkubíleigenda úr Orkusjóði, sbr. lög nr. 76/2020, á tímabilinu 1. janúar 2024 til og með 31. desember 2024 ekki til tekna hjá mönnum að uppfylltum skilyrðum laganna.

III. KAFLI

Breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.

14. gr.

    Í stað orðanna „og 10. tölul. 1. mgr.“ og „og 10. tölul. 70. gr.“ í 2. málsl. A-liðar 2. gr. laganna kemur: 10., 11. og 12. tölul. 1. mgr.; og: 10., 11. og 12. tölul. 70. gr.

15. gr.

    Í stað orðanna „og 10. tölul.“ í 6. tölul. 5. gr. laganna kemur: 10., 11. og 12. tölul.

16. gr.

    Í stað orðanna „og 10. tölul.“ í 2. málsl. 4. mgr. 9. gr. laganna kemur: 10., 11. og 12. tölul.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.

17. gr.

    Við 3. mgr. 42. gr. A laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Seljandi vinnu sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskipti eiga sér stað.

V. KAFLI

Breyting á lögum um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995.

18. gr.

    Á eftir 3. gr. laganna kemur ný grein, 3. gr. a, svohljóðandi:
    Heimilt er að lækka áfengisgjald skv. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. um 50% að uppfylltum öllum eftirtöldum skilyrðum:
     1.      Áfengur drykkur er framleiddur af litlum framleiðanda. Framleiðandi telst lítill ef heildarframleiðsla hans á næstliðnu almanaksári á vörum, sem heyra undir þá vöruliði sem tilgreindir eru í 1. tölul. 1. mgr. 3. gr., var lægri en sem nemur 2.500.000 sentilítrum af hreinum vínanda.
     2.      Áfengur drykkur er framleiddur af sjálfstæðum framleiðanda. Framleiðandi telst sjálfstæður ef hann uppfyllir eftirtalin skilyrði:
                  a.      Framleiðandi framleiðir vörur sem heyra undir þá vöruliði sem tilgreindir eru í 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. á starfsstöð sinni, með eigin framleiðslutækjum, og á grundvelli eigin framleiðsluleyfis.
                  b.      Öðrum aðila sem hefur leyfi til að framleiða áfenga drykki er óheimilt að eiga eða stjórna framleiðanda í gegnum beina eða óbeina eignaraðild umfram 50% hlut í framleiðanda, ráða yfir meira en 50% atkvæðisréttar eða á annan hátt hafa yfirráð yfir framleiðanda.
     3.      Framvísað er gögnum á því formi sem Skatturinn ákveður sem staðfesta á fullnægjandi hátt að framleiðandi uppfylli öll framangreind skilyrði.
    Heimild til lækkunar á áfengisgjaldi skv. 1. mgr. á hverju almanaksári fyrir hvern framleiðanda afmarkast við sem nemur samtals 550.000 sentilítrum af hreinum vínanda sem áfengisgjald reiknast af skv. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr.

VI. KAFLI

Breyting á tollalögum, nr. 88/2005.

19. gr.

    2. málsl. b-liðar 1. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna fellur brott.

VII. KAFLI

Breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993.

20. gr.

    Á eftir orðinu „golfbifreiðar“ í 2. málsl. p-liðar 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: körtur og beltabifreiðar, þ.m.t. vélsleðar.

VIII. KAFLI

Breyting á lögum um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019.

21. gr.

    Við 13. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tilkynninguna má senda í stafrænt pósthólf á vegum stjórnvalda, sbr. lög um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, og telst það ávallt nægileg birting.

IX. KAFLI

Breyting á höfundalögum, nr. 73/1972.

22. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á töflu í 3. mgr. 11. gr. laganna:
     a.      Tollskrárnúmerið 8517.1200 ásamt skýringu og hlutfalli af tollverði fellur brott.
     b.      Við töfluna bætast tvö ný tollnúmer ásamt skýringu og hlutfalli af tollverði, svohljóðandi:

8517.1300 Snjallsímar 1
8517.1400 Aðrir símar fyrir farsímanet eða önnur þráðlaus net 1

23. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Höfundar verka skv. 3. mgr. 11. gr. eiga rétt á bótum samkvæmt sömu málsgrein sem nema 1% af tollverði vara í tollskrárnúmerum 8517.1300 og 8517.1400, sem fluttar voru inn á árinu 2022. Bæturnar skulu greiðast til samtaka höfundaréttarfélaga í samræmi við 4. mgr. 11. gr. eigi síðar en 31. desember 2023.

X. KAFLI

Breyting á lögum um útflutning hrossa, nr. 27/2011.

24. gr.

    6. gr. laganna fellur brott.

XI. KAFLI

Breyting á búvörulögum, nr. 99/1993.

25. gr.

    Í stað „2026“ í 1. málsl. 6. mgr. 38. gr. laganna kemur: 2027.

XII. KAFLI

Breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.

26. gr.

    14. gr. laganna orðast svo:
    Fyrir ýmis vottorð og leyfi greiðast eftirfarandi gjöld:
     1.      Fyrir borgaralega hjónavígslu 11.000 kr.
     2.      Lögskilnaðarleyfi 6.500 kr.
     3.      Leyfi til skilnaðar að borði og sæng 5.400 kr.
     4.      Ættleiðingarleyfi 5.400 kr.
     5.      Fyrir vottorð sem einstakir menn óska eftir í þágu verslunar eða atvinnu 2.700 kr.
     6.      Fyrir löggildingu leiðarbókar eða véladagbókar 2.700 kr.
     7.      Fyrir sakavottorð gefin út samkvæmt beiðni einstakra manna 2.700 kr.
     8.      Fyrir veðbókarvottorð 2.200 kr.
     9.      Fyrir önnur embættisvottorð 2.700 kr.
     10.      Fyrir umsókn og tilkynningu um íslenskan ríkisborgararétt:
                  a.      Fyrir umsókn um ríkisborgararétt 27.000 kr.
                  b.      Fyrir tilkynningu um ríkisborgararétt 13.500 kr.
     11.      Fyrir ökuskírteini (fullnaðarskírteini) fyrir flokkana A, B, BE, C, CE, D og DE og til farþegaflutninga í atvinnuskyni 8.600 kr.
     12.      Fyrir bráðabirgðaökuskírteini og ökuskírteini fyrir flokkana M og T 4.300 kr.
     13.      Fyrir ökuskírteini 65 ára og eldri 1.800 kr.
     14.      Fyrir friðlýsingu æðarvarpa 12.000 kr.
     15.      Beiðni til mannanafnanefndar um að setja nýtt nafn á mannanafnaskrá 4.300 kr.
     16.      Fyrir útgáfu könnunarvottorðs 4.800 kr.
    Fyrir útgáfu vegabréfa til útlanda, diplómatískra vegabréfa og þjónustuvegabréfa greiðast eftirfarandi gjöld:
     1.      Fyrir útgáfu vegabréfa til útlanda fyrir 18–66 ára:
                  a.      Almennt gjald 14.000 kr.
                  b.      Fyrir skyndiútgáfu 28.000 kr.
                  c.      Fyrir neyðarvegabréf 7.500 kr.
                  d.      Útgáfa vegabréfa til öryrkja fer skv. 2. tölul.
     2.      Fyrir útgáfu vegabréfa til útlanda fyrir aðra:
                  a.      Almennt gjald 6.000 kr.
                  b.      Fyrir skyndiútgáfu 12.000 kr.
                  c.      Fyrir neyðarvegabréf 3.000 kr.
     3.      Fyrir útgáfu diplómatískra vegabréfa og þjónustuvegabréfa:
                  a.      Fyrir 18–66 ára 11.000 kr.
                  b.      Skyndiútgáfa fyrir 18–66 ára 22.000 kr.
                  c.      Fyrir aðra 4.300 kr.
                  d.      Skyndiútgáfa fyrir aðra 8.600 kr.
    Fyrir umsóknir á grundvelli laga um útlendinga greiðast eftirfarandi gjöld:
     1.      Fyrir umsókn um vegabréf til útlendinga fer skv. 1. og 2. tölul. 2. mgr.
     2.      Fyrir umsókn um ferðaskilríki flóttamanna fer skv. 2. tölul. 2. mgr.
     3.      Fyrir umsókn um vegabréfsáritun skal Útlendingastofnun gefa út gjaldskrá á mánaðarfresti sem tekur mið af miðgengi evru mánaðarins á undan fyrir útgáfu nýrrar gjaldskrár og námunda niður að næsta hundraði. Fyrir umsóknir sem mótteknar eru erlendis er gjald innheimt í evrum.
                  a.      Vegabréfsáritun, 6–12 ára, 40 evrur.
                  b.      Vegabréfsáritun, 13 ára og eldri, 80 evrur.
                  c.      Vegabréfsáritun, framlenging, 30 evrur.
                  d.      Vegabréfsáritanir samkvæmt fyrirgreiðslusamningi 35 evrur.
     4.      Fyrir umsókn um langtímavegabréfsáritun 12.200 kr.
     5.      Fyrir útgáfu landsáritunar í tengslum við útgáfu dvalarleyfis 8.400 kr.
     6.      Fyrir umsókn um dvalarleyfi 16.000 kr. Eigi skal þó greiða fyrir dvalarleyfi skv. 66. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, sé samningur samkvæmt þeirri grein í gildi og þar sé kveðið á um undanþágu frá greiðslu.
     7.      Fyrir umsókn um endurnýjun dvalarleyfis 16.000 kr.
     8.      Fyrir umsókn um bráðabirgðadvalarleyfi 16.000 kr.
     9.      Fyrir umsókn um ótímabundið dvalarleyfi 22.000 kr.
     10.      Fyrir flýtiafgreiðslu umsóknar um dvalar- og atvinnuleyfi 48.000 kr.
     11.      Fyrir endurútgáfu dvalarleyfisskírteinis 8.000 kr.
     12.      Fyrir útgáfu og endurútgáfu dvalarskírteinis fyrir aðstandendur EES-borgara sem ekki eru EES- eða EFTA-borgarar 8.000 kr.

XIII. KAFLI

Breyting á lögum um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39/1971.

27. gr.

    Á eftir 11. gr. laganna kemur ný grein, 11. gr. a, svohljóðandi:
    Ráðuneytinu er heimilt, án þess að starf sé auglýst laust til umsóknar, að ákveða að starfsmaður Íslandsstofu flytjist um afmarkaðan tíma til starfa sem viðskiptafulltrúi í sendiráði enda liggi fyrir samþykki framkvæmdastjóra Íslandsstofu og starfsmannsins sjálfs.

28. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2024.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast 22.–23. gr. þegar gildi.
    Ákvæði 1.–6. gr. gilda um þær gistináttaeiningar sem seldar eru frá og með gildistöku þeirra greina.
    Ákvæði 10. gr. a laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, fellur úr gildi 1. janúar 2034.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og varðar ýmsar breytingar á lögum um skatta og gjöld ásamt fleiri lögum. Um er að ræða breytingar sem snúa að gistináttaskatti, áfengisgjaldi á áfenga drykki sem framleiddir eru af litlum, sjálfstæðum framleiðendum og breytingar á skattskyldu erlendra aðila af tekjum frá föstum starfsstöðvum hér á landi auk þess sem kveðið er skýrt á um að ekki skipti máli hvar starfsemin fer fram svo lengi sem laun, eða hliðstæðar greiðslur, stafi frá íslenskum aðila eða fastri starfsstöð hér á landi. Jafnframt er kveðið á um skattskyldu gjafa og hvers konar annarra tekna, eða ígildi þeirra, sem ekki eru taldar upp í tekjuskattslögum frá íslenskum aðilum og föstum starfsstöðvum hér á landi. Auk þess er lögð til breyting þess efnis að fella brott persónuafslátt til eftirlaunaþega og lífeyrisþega sem búsettir eru erlendis. Þá er um að ræða breytingar sem snúa að upplýsingaskyldu sem lögð er á rekstraraðila stafrænna vettvanga (e. digital platforms) sem hafa milligöngu, eða aðra aðkomu, um að koma á viðskiptum milli kaupenda og seljenda, og eftir atvikum greiðsluþjónustu, breytingar sem kveða á um að tímabundnir styrkir til kaupa á hreinorkubílum teljist ekki til skattskyldra tekna hjá mönnum á árinu 2024, breytingar í tengslum við afnám tollfrelsis til skemmtiferðaskipa í siglingum innan tollsvæðis ríkisins, afnám vörugjalda af körtum og beltabifreiðum, þ.m.t. vélsleðum, sem eingöngu eru knúnar rafhreyfli og að gjöld fyrir vegabréfsáritanir verði miðuð við evrur í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Þá er um að ræða breytingar sem lúta að heimild fyrir innheimtumenn ríkissjóðs til að senda rafræna tilkynningu um fyrirhugaða stöðvun atvinnurekstrar í stafrænt pósthólf aðila og takmörkun á gildistíma ákvæðis um skattlagningu kauprétta í sprotafyrirtækjum við tíu ár til samræmis við reglur EES-samningsins um ríkisaðstoð.
    Í frumvarpinu er jafnframt að finna tillögur að breytingum á málaflokkum sem eru á forræði annarra ráðuneyta. Lagðar eru til breytingar á höfundalögum sem er ætlað að tryggja höfundum verka samkvæmt ákvæðinu áfram sömu bætur og þeir hafa notið frá árinu 2016. Í annan stað er lagt til að gjald vegna útflutnings hrossa verði fellt brott þar sem lagastoð skortir fyrir gjaldtökunni. Í þriðja lagi er lögð til framlenging greiðslumarks um eitt ár. Greiðslumark var framlengt út árið 2026 við fyrri endurskoðun búvörusamninga og á því ekki að falla niður samkvæmt samningi um starfsskilyrði í sauðfjárrækt fyrr en 1. janúar 2027. Þá er í fjórða lagi lagt til að heimilt verði að ráða starfsmenn Íslandsstofu tímabundið, án auglýsingar, til starfa sem viðskiptafulltrúa í sendiráðum.
    Loks er um að ræða smærri breytingar sem tengjast orðalagi og gildandi framkvæmd sem talið er nauðsynlegt að lögfesta. Hér má nefna orðalagsbreytingar í tengslum við gengishagnað og gengistöp, sbr. 8. og 49. gr. tekjuskattslaga, ákvæði um frestun skattlagningar söluhagnaðar af landi bújarða og ófyrnanlegum náttúruauðæfum á bújörðum, þ.e. afli hann sér sams konar eignar eða íbúðarhúsnæðis til eigin nota í tengslum við lok búrekstrar, sbr. 4. mgr. 15. gr. tekjuskattslaga.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í frumvarpinu er lagt til að gildissvið laga um gistináttaskatt, nr. 87/2011, sem koma aftur til framkvæmda á árinu 2024, verði víkkað þannig að lögin taki til rekstraraðila skemmtiferðaskipa og nái til þess tímabils þegar skipin dvelja innan tollsvæðis ríkisins. Talið er nauðsynlegt og rétt, m.a. út frá sanngirnis- og samkeppnissjónarmiðum gagnvart hótel- og gistiþjónustu hér á landi, að farþegar sem gista um borð í skemmtiferðaskipum innan tollsvæðis ríkisins greiði einnig gistináttaskatt. Þá er jafnframt lagt til að greiða skuli gistináttaskatt af hverri seldri gistináttaeiningu fyrir hvern dvalargest, að undanskildum börnum undir 18 ára aldri. Breytingin er í samræmi við framkvæmdina í flestum öðrum löndum Evrópu þar sem gistináttaskattur er innheimtur. Þar er skatturinn greiddur af hálfu einstaklings vegna gistiaðstöðu sem hann hefur til ráðstöfunar í allt að sólarhring.
    Tillaga um lækkun áfengisgjalds á áfenga drykki sem framleiddir eru af litlum, sjálfstæðum framleiðendum miðar að því að með löggjöf um gjald á áfengi sé aflað tekna fyrir ríkið og um leið sé neyslu áfengis stýrt með gjaldtöku. Horft var til þess hvernig þessum málum er háttað í nágrannaríkjum, sbr. kafla 3.5.
    Lagt er til að fellt verði brott ákvæði í tollalögum, nr. 88/2005, sem kveður á um tollfrelsi til handa skemmtiferðaskipum sem skráð eru erlendis en eru notuð í siglingum innan íslenska tollsvæðisins í allt að fjóra mánuði á hverju tólf mánaða tímabili. Að baki tillögunni búa samkeppnis- og jafnræðissjónarmið milli aðila, til að mynda gististaða og veitingahúsa, auk þess sem hér kann að vera um að ræða fjárhagslega hagsmuni fyrir ríkissjóð.
    Heimild fyrir innheimtumenn ríkissjóðs til að senda rafræna tilkynningu um fyrirhugaða stöðvun atvinnurekstrar í stafrænt pósthólf aðila í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda (Ísland.is) er í takt við stafræna þróun stjórnvalda þar sem umhverfisvernd, hagræðing í rekstri og skilvirk og örugg samskipti við aðila eru jafnframt höfð að leiðarljósi.
    Brottfall ákvæðis um gjald í stofnverndarsjóð íslenska hestsins samkvæmt lögum um útflutning hrossa, nr. 27/2011, byggist á úrskurði yfirskattanefndar nr. 217/2021 þar sem nefndin komst að þeirri niðurstöðu að lagastoð fyrir innheimtu gjaldsins væri ekki nægileg.
    Nauðsynlegt þykir að framlengja greiðslumark í búvörulögum, nr. 99/1993, út árið 2026 en það var framlengt við endurskoðun búvörusamninga og á ekki að falla niður samkvæmt samningi um starfsskilyrði í sauðfjárrækt fyrr en 1. janúar 2027.
    Nauðsyn þess að miða vegabréfsáritanir sem mótteknar eru erlendis við evrur tengist skuldbindingum Íslands skv. 16. gr. reglugerðar (ESB) nr. 810/2009, um samræmda útgáfu áritana, en Ísland er skuldbundið af gerðinni og hefur hún verið innleidd með lögum um útlendinga, nr. 80/2016, og reglugerð um vegabréfsáritanir, nr. 795/2022.
    Breytingar á lögum um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39/1971, tengjast mannauðsstjórnun og hagkvæmnissjónarmiðum og nauðsyn þess að kveða á um heimild til handa utanríkisráðuneytinu til að ráða starfsmenn Íslandsstofu tímabundið, án auglýsingar, til starfa sem viðskiptafulltrúa í sendiráðum.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Gistináttaskattur.
    Gistináttaskattur kemur aftur til framkvæmda á árinu 2024 en álagningu hans var frestað tímabundið vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um gistináttaskatt, nr. 87/2011. Í fyrsta lagi er lagt til að gildissvið laganna verði víkkað þannig að lögin taki til rekstraraðila skemmtiferðaskipa, þ.e. bæði rekstraraðila skemmtiferðaskipa sem eingöngu eru notuð til að sigla um strendur landsins og rekstraraðila skemmtiferðaskipa sem sigla með farþega milli landa. Skattskyldan samkvæmt frumvarpinu nær eingöngu til þess tímabils þegar skipin dvelja innan tollsvæðis ríkisins. Talið er rétt, m.a. út frá sanngirnis- og samkeppnissjónarmiðum gagnvart hótel- og gistiþjónustu hér á landi, að farþegar sem gista um borð í skemmtiferðaskipum innan íslenskrar lögsögu greiði einnig gistináttaskatt. Algengt er að farþegar skipanna dvelji í landi að degi til, heimsæki ferðamannastaði og nýti innviði samfélagsins. Í öðru lagi er lagt til að greiða skuli gistináttaskatt af hverri seldri gistináttaeiningu fyrir hvern dvalargest, að undanskildum börnum undir 18 ára aldri. Í gildandi lögum er eingöngu miðað við selda gistináttaeiningu. Í flestum löndum Evrópu þar sem gistináttaskattur er innheimtur er skatturinn greiddur af hálfu einstaklings vegna gistingar yfir nótt. Í þriðja lagi er lagt til að gistináttaskattur verði í öllum tilvikum 300 kr.
    Breytingarnar taka til gistináttaeininga sem seldar verða frá árinu 2024. Með sölu er átt við það tímamark þegar gistiþjónusta er veitt. Sé gistiþjónusta innt af hendi á árinu 2024 ber að innheimta gistináttaskatt og skiptir þá ekki máli þó að samningur um sölu gistiþjónustu hafi verið gerður á árinu 2023. Það er meginregla skv. 1. mgr. 13. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, að gefa skuli út sölureikning við það tímamark þegar þjónusta er innt af hendi en lögin heimila þó að sölureikningur sé gefinn út fyrir það tímamark, sbr. 2. mgr. 13. laganna. Þá skal miða við að afhending hafi farið fram á útgáfudegi sölureiknings. Ef sölureikningur er gefinn út í síðasta lagi í lok árs 2023 fyrir gistingu sem verður innt af hendi á árinu 2024 eða síðar ber ekki að innheimta gistináttaskatt. Sömu reglur giltu þegar ákvæði til bráðabirgða I í lögum um gistináttaskatt tók gildi 31. mars 2020 en í ákvæðinu var mælt fyrir um að gistináttaskattur skyldi ekki innheimtur á tímabilinu 1. apríl 2020 til og með 31. desember 2021. Þá var ekki innheimtur gistináttaskattur á tímabilinu þó að samningur um gistingu hafi komist á milli aðila fyrir gildistöku bráðabirgðaákvæðisins.
    Vinna stendur nú yfir með hagaðilum um gjaldtöku í ferðaþjónustu til framtíðar. Verið er að skoða og leggja mat á ólíkar leiðir að breyttu gjalda- og skattaumhverfi sem gæti orðið megintekjustofn gjaldtöku í ferðaþjónustu í stað gistináttaskatts. Meðal annars er til skoðunar innleiðing á gjaldi sem einnig hefði þann tilgang að stýra álagi á ferðamannastöðum.

3.2. Söluhagnaður eigna sem ekki er heimilt að fyrna.
    Lagðar eru til breytingar á 4. mgr. 15. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, sem ætlað er að gera textann skýrari og til samræmis við skattframkvæmd án þess að um efnisbreytingu sé að ræða. Heimild ákvæðisins um frestun skattlagningar söluhagnaðar um tvö ár, sem og, heimild til lækkunar söluhagnaðar á móti stofnverði, tekur til öflunar bújarða og ófyrnanlegra náttúruauðæfa á bújörðum annars vegar og stofnverðs íbúðarhúsnæðis til eigin nota hins vegar. Ekki kemur sérstaklega fram í ákvæðinu að öflun íbúðarhúsnæðisins þurfi að vera í tengslum við lok búreksturs en í framkvæmd hefur ákvæðið verið túlkað á þann veg, m.a. með tilliti til lögskýringargagna að baki ákvæðinu, sbr. nýlegan úrskurð yfirskattanefndar nr. 65/2023. Rétt þykir að festa þessa framkvæmd í sessi þannig að skilyrði þeirrar ívilnunar sem ákvæðið mælir fyrir um komi skýrt fram í texta þess. Þá er lagt til að umfjöllun um íbúðarhúsnæði sé færð í nýjan málslið þannig að ákvæðið sé auðskiljanlegra.

3.3. Upplýsingaskylda rekstraraðila stafrænna vettvanga.
    Lagðar eru til breytingar á 92. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, sem snýr að því að leggja upplýsingaskyldu á rekstraraðila stafrænna vettvanga sem hafa milligöngu um, eða aðra aðkomu, að koma á viðskiptum milli leigjenda og leigusala, og eftir atvikum greiðsluþjónustu, í tengslum við fasteignir og lausafé hér á landi. Upplýsingaskyldan kemur til með að byggjast á alþjóðlegri fyrirmynd sem flest ríki Evrópu hafa tekið upp og yrði því um að ræða samsvarandi skyldu hér á landi og gildir víða annars staðar.

3.4. Skattskylda styrkja til hreinorkubíleigenda.
    Virðisaukaskattsívilnun fyrir hreinorkubíla rennur sitt skeið á enda í lok árs 2023. Í stað þess kerfis tekur gildi nýtt tímabundið stuðningskerfi fyrir almenning og fyrirtæki sem sótt geta um styrki til kaupa á hreinorkubílum úr Orkusjóði. Hinu nýja kerfi er ætlað að styðja enn frekar við kaup vistvænna ökutækja hér á landi og styðja þannig við loftslagsmarkmið stjórnvalda. Litið er sérstaklega til tekjulægri hópa og er lagt til að þessir tímabundnu styrkir teljist ekki til skattskyldra tekna hjá mönnum á árinu 2024.

3.5. Lægra áfengisgjald á tiltekið magn áfengra drykkja sem framleiddir eru af litlum, sjálfstæðum framleiðendum.
    Lagðar eru til breytingar á lögum um gjald á áfengi og tóbaki, nr. 96/1995, um að heimila 50% lækkun á áfengisgjaldi fyrir tiltekið magn áfengra drykkja sem falla undir 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna og framleiddir eru af litlum og sjálfstæðum framleiðendum. Undir 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. fellur öl sem flokkast í vörulið 2203 í tollskrá og vörur sem innihalda blöndur af öli og óáfengum drykk og flokkast í vörulið 2206 í tollskrá (hér eftir nefnt bjór). Tillagan tekur mið af því að löggjöf um gjald á áfengi er hvort tveggja ætlað að afla ríkinu tekna og um leið stýra neyslu áfengis með gjaldtöku. Enn fremur var litið til þess hvernig þessum málum er háttað í nágrannaríkjum. Í tuttugu ríkjum Evrópusambandsins, þar á meðal í Danmörku og Finnlandi, er veittur afsláttur af almennu áfengisgjaldi fyrir bjór sem framleiddur er af litlum og sjálfstæðum framleiðendum. Byggist það á heimild í tilskipun Evrópuráðsins 92/83/EBE. Í Danmörku er veittur 50% afsláttur af áfengisgjaldi fyrir fyrstu 370 þús. lítrana. Afslátturinn fer síðan lækkandi eftir því sem magnið eykst allt þar til hann fellur brott við 20 milljón lítra markið. Í Finnlandi er veittur 50% afsláttur af áfengisgjald fyrir fyrstu 500 þús. lítrana. Afslátturinn fer síðan lækkandi eftir því sem magnið eykst og leggst endanlega af við 10 millj. lítra. Aðeins þeir framleiðendur sem framleiða undir 20 millj. lítra á ári eiga rétt á lægra áfengisgjaldi í Finnlandi. Í Svíþjóð er enginn afsláttur veittur af áfengisgjaldi vegna framleiðslu hjá litlum og sjálfstæðum framleiðendum. Hinn 1. janúar 2019 tóku gildi reglur í Noregi sem kveða á um afslátt af áfengisgjaldi á bjór á styrkleikabilinu 3,7–4,7%, sem framleiddur er af litlum og sjálfstæðum framleiðanda. Samkvæmt reglunum telst framleiðandi lítill sem framleiðir undir 500 þús. lítrum af bjór á hverju ári. Með sjálfstæðum framleiðanda er átt við framleiðanda sem er óháður öðrum áfengisframleiðendum, bæði hvað varðar fjárhag og eignarhald. Í norsku reglunum er afsláttur fyrir hvern framleiðanda bundinn við 200 þús. lítra af bjór á ári og er hann þrepaskiptur; 20% fyrir fyrstu 50 þús. lítrana, 15% fyrir 50–100 þús. lítra, 10% fyrir 100–150 þús. lítra og 5% fyrir 150–200 þús. lítra.

3.6. Afnám tollfrelsis skemmtiferðaskipa í siglingum innan íslenskrar lögsögu.
    Lagt er til að fellt verði brott ákvæði 2. málsl. b-liðar 1. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, nr. 88/2005, sem kveður á um tollfrelsi til handa skemmtiferðaskipum sem skráð eru erlendis en eru notuð í innanlandssiglingum í allt að fjóra mánuði á hverju tólf mánaða tímabili. Með skemmtiferðaskipi í innanlandssiglingum er átt við skemmtiferðaskip sem tekur farþega um borð hér á landi, siglir með þá á milli hafna hér á landi (venjulega í kringum landið) og skilar þeim síðan aftur í land hér á landi. Farþegarnir fara ekki með skipinu til útlanda. Í fyrrnefndu tollfrelsi felst að skipin njóta ekki eingöngu tollfrelsis af þeim vörum sem koma með skipunum hingað til lands. Skipin njóta einnig tollfrelsis af öllum þeim vörum sem keyptar eru til nota fyrir farþega og áhöfn um borð í skipunum í þá fjóra mánuði sem þau dvelja hér við land á hverju tólf mánaða tímabili. Samkvæmt upplýsingum frá tollgæslusviði Skattsins kaupa skipin flestar vörur beint erlendis frá eða frá geymslusvæðum fyrir ótollafgreiddar vörur hér á landi, sem eru síðan afhentar um borð í skipin hér á landi án þess að greidd séu af þeim aðflutningsgjöld, þ.m.t. virðisaukaskattur. Tollfrelsi til handa skemmtiferðaskipum í innanlandssiglingum á sér enga hliðstæðu í tollalögum. Þá eru skemmtiferðaskip í innanlandssiglingum í samkeppni við margs konar starfsemi í landi sem greiðir aðflutningsgjöld af aðföngum til rekstursins beint eða óbeint. Verður því ekki annað séð en að tollfrelsi til handa skemmtiferðaskipum í innanlandssiglingum raski samkeppni og jafnræði milli aðila. Fyrir liggja upplýsingar um að alls ellefu skemmtiferðaskip, sem skráð eru erlendis, hafi stundað siglingar hringinn í kringum Ísland síðastliðið sumar 2023 án þess að eiga viðkomu í erlendri höfn í hverri ferð. Ferðirnar um landið voru tæplega 60 á tímabilinu og var heildarfjöldi gesta um 16.600. Hér kann að vera um að ræða fjárhagslega hagsmuni fyrir ríkissjóð. Jafnframt hafa samtök fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu bent á þá samkeppnisröskun sem felist í siglingu þessara skipa um landið. Einnig eru dæmi um svokölluð „hótelskip“, þ.e. skip sem eru í sömu höfn í lengri tíma í beinni samkeppni við innlenda rekstraraðila, til að mynda gististaði og veitingahús.

3.7. Afnám vörugjalda af körtum og beltabifreiðum, þ.m.t. vélsleðum, sem eingöngu eru knúnar rafhreyfli.
    Vörugjald af bifhjólum, þ.m.t. fjórhjólum og sexhjólum, körtum, golfbifreiðum og beltabifreiðum, þ.m.t. vélsleðum, var lækkað úr 70% í 30% á árinu 2000. Í fyrstu var gjaldið óháð því hvers konar aflvélum tækin voru búin. En með lögum nr. 156/2010 um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., lögum um bifreiðagjald, nr. 39/1988, og lögum um olíugjald og kílómetragjald, nr. 87/2004, voru bifhjól sem eingöngu eru knúin rafhreyfli undanþegin vörugjaldi. Þá voru golfbifreiðar, sem eingöngu eru knúnar rafhreyfli, undanþegnar vörugjaldi með lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., lögum um bifreiðagjald og lögum virðisaukaskatt, nr. 117/2018. Til samræmis við fyrri breytingar er nú lagt til að körtur og beltabifreiðar, þ.m.t. vélsleðar, sem knúnar eru rafhreyfli, verði einnig undanþegnar vörugjaldi. Tillagan er í samræmi við markmið stjórnvalda um orkuskipti.

3.8. Rafræn tilkynning um fyrirhugaða stöðvun atvinnurekstrar send í stafrænt pósthólf.
    Lagt er til að lögfest verði heimild fyrir innheimtumenn ríkissjóðs til að senda rafræna tilkynningu um fyrirhugaða stöðvun atvinnurekstrar í stafrænt pósthólf aðila í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda (Ísland.is). Framkvæmdin hefur verið sú að innheimtumenn senda tilkynninguna með almennum pósti á lögheimili aðila en verði ákvæðið að lögum mun tilkynningin eingöngu verða send í stafrænt pósthólf aðilans og telst það fullnægjandi tilkynning í skilningi 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Með þessu er umhverfisvernd, hagræðing í rekstri og skilvirk og örugg samskipti við aðila höfð að leiðarljósi. Útsending tilkynningar á pappír er á skjön við stafræna þróun stjórnvalda og þykir því ástæða til að heimila innheimtumönnum ríkissjóðs að senda tilkynninguna eingöngu í stafrænt pósthólf. Breytt fyrirkomulag birtingar hefur í för með sér hagræðingu og sparnað fyrir ríkissjóð vegna minni umsýslu starfsmanna m.a. vegna prentunar og þar sem ekki þarf að greiða póstburðargjöld. Verði ákvæðið að lögum eykst gagnsæi við meðferð mála og gögnum er miðlað með öruggum hætti til aðila. Tæknileg lausn er nú þegar til staðar í Tekjubókhaldskerfi ríkisins til þess að senda tilkynningarnar rafrænt í stafrænt pósthólf á Ísland.is og því fylgir tillögunni, ef hún verður að lögum, enginn kostnaður.

3.9. Bætur til höfunda samkvæmt höfundalögum.
    Í 3. mgr. 11. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, er kveðið á um árlega greiðslu sanngjarnra bóta til höfunda fyrir eftirgerð höfundaverka til einkanota samkvæmt sérstakri fjárheimild í fjárlögum. Bæturnar nema tilteknu hlutfalli af tollverði innfluttra vara í tilteknum tollskrárnúmerum eins og nánar er kveðið á um í töflu í ákvæðinu. Í töflunni er m.a. að finna tollskrárnúmerið 8517.1200 fyrir síma fyrir farsímanet eða önnur þráðlaus net með möguleika á hljóð- og myndupptöku. Hinn 1. janúar 2022 voru gerðar breytingar á tollskrá, sbr. q-lið 61. tölul. 1. gr. auglýsingar nr. 128/2021 um breytingu á viðauka I við tollalög nr. 88/2005, með síðari breytingum. Meðal annars var fellt brott tollskrárnúmerið 8517.1200. Í stað þess komu tvö ný tollskrárnúmer inn á tollskrá, annars vegar tollskrárnúmerið 8517.1300 fyrir snjallsíma og hins vegar tollskrárnúmer 8517.1400 fyrir aðra síma fyrir farsímanet eða önnur þráðlaus net. Ekki var gerð breyting á tollskrárnúmerum í töflunni í 3. mgr. 11. gr. höfundalaga til samræmis við framangreinda breytingu á tollskrá. Þar af leiðandi er ekki til staðar lagaheimild til að greiða rétthöfum bætur vegna innflutnings á árinu 2022 á tækjum í tollskrárnúmerum 8517.1300 og 8517.1400. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á höfundalögum sem eiga annars vegar að tryggja rétthöfum bætur vegna innflutnings á árinu 2022 á vörum í tollskrárnúmerum 8517.1300 og 8517.1400 og hins vegar tryggja þeim bæturnar framvegis.

3.10. Gjald í stofnverndarsjóð íslenska hestakynsins.
    Samkvæmt lögum, nr. 124/2018, um breytingu á lögum um útflutning hrossa, nr. 27/2011, sem eru á forræði matvælaráðherra, er kveðið á um innheimtu sérstaks gjalds af hverju útfluttu hrossi. Gjaldið er föst krónutala, eða 3.500 kr. Tekjur af gjaldinu eiga samkvæmt lögunum að renna í stofnverndarsjóð íslenska hestakynsins. Sjóðurinn er í umsýslu Bændasamtaka Íslands og starfar eftir reglugerð um hann, nr. 1123/2015. Innheimta gjaldsins var áður í höndum Bændasamtakanna en var flutt til ríkisins árið 2019.
    Skatturinn hóf ekki innheimtu gjaldsins fyrr en 2021, þá miðað við útflutning hrossa allt frá ársbyrjun 2019. Sú innheimta var kærð til yfirskattanefndar sem komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði nr. 217/2021 að lagastoð fyrir henni væri ekki nægileg. Gjaldið af útfluttum hrossum var því ekki innheimt af ríkinu frá ársbyrjun 2019. Eftir úrskurð yfirskattanefndar var það niðurstaða þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið að leita annarra leiða fremur en að halda innheimtunni til streitu. Með vísan til framangreinds er lagt til að ákvæðið verði fellt brott.

3.11. Greiðslumark samkvæmt búvörulögum.
    Við fyrri endurskoðun búvörusamninga var greiðslumark framlengt út árið 2026. Það á því ekki að falla niður samkvæmt samningi um starfsskilyrði í sauðfjárrækt fyrr en 1. janúar 2027. Því er lögð til sú tæknilega breyting í 1. málsl. 6. mgr. 38. gr. laganna að í stað ártalsins 2026 komi 2027.

3.12. Aukatekjur ríkissjóðs.
    Í frumvarpinu er lagt til að gjöld fyrir vegabréfsáritanir verði miðuð við evrur í samræmi við skuldbindingar Íslands skv. 16. gr. reglugerðar (ESB) nr. 810/2009, um samræmda útgáfu áritana, en Ísland er skuldbundið af gerðinni og hefur hún verið innleidd með lögum um útlendinga, nr. 80/2016, og reglugerð um vegabréfsáritanir, nr. 795/2022. Breytingartillagan tekur mið af því að Ísland er skuldbundið að lögum að fylgja fjárhæðarviðmiðum Evrópusambandsins um vegabréfsáritanir auk þess sem misræmi getur verið á fjárhæðum samkvæmt gildandi lögum eftir því hvort einstaklingur sækir um vegabréfsáritun í sendiráði Íslands erlendis, en þá er miðað við gjald í gjaldmiðli viðkomandi lands, eða á Íslandi. Svo ætti hins vegar ekki að vera þar sem skv. 2. mgr. 20. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, skal greiða í mynt hlutaðeigandi ríkis í samræmi við skráð gengi hverju sinni. Það er þó vandkvæðum háð enda Ísland skuldbundið að lögum um að fylgja fjárhæðarviðmiðum Evrópusambandsins um vegabréfsáritanir. Önnur fordæmi fyrir því að miða gjöld við fjárhæðir í evrum má m.a. finna í 87. gr. d laga um ársreikninga, nr. 3/2006, o-lið 2. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, og ýmsum ákvæðum laga um dreifingu vátrygginga, nr. 62/2019.
    Breytingartillagan gerir ráð fyrir því að 14. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, verði endurskoðuð í heild sinni og ákvæðum raðað saman eftir skyldleika innan hennar.
    Þá er gert ráð fyrir því að fyrir umsókn um vegabréfsáritun skuli Útlendingastofnun gefa út gjaldskrá á mánaðarfresti er taki mið af miðgengi evru mánaðarins á undan fyrir útgáfu nýrrar gjaldskrár og námundi niður að næsta hundraði. Æskilegt er að verð í íslenskum krónum verði jafnframt aðgengileg, t.d. á vef stofnunarinnar. Fyrir umsóknir sem eru mótteknar erlendis verður gjald innheimt í evrum.

3.13. Utanríkisþjónusta Íslands.
    Á grundvelli mannauðsstjórnunar og hagkvæmnissjónarmiða er lagt til að mælt verði fyrir um heimild utanríkisráðuneytisins til að ráða starfsmenn Íslandsstofu, án auglýsingar, tímabundið til starfa sem viðskiptafulltrúa í sendiráðum.

3.14. Aðrar breytingartillögur.
    Samkvæmt 10. gr. a laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, verða tekjur, að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins, af nýtingu kaupréttar, sem annars hefðu verið skattlagðar sem laun, skattlagðar sem fjármagnstekjur. Þar sem almennt ber að tímabinda ákvæði um ríkisaðstoð samkvæmt leiðbeiningum eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) er lagt til að takmarka gildistíma ákvæðisins við tíu ár til samræmis við reglur EES-samningsins um ríkisaðstoð.
    Lagt er til að bætt verði við skilyrði fyrir endurgreiðslu á virðisaukaskatti skv. 42. gr. A laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, um að seljandi þeirrar vinnu sem ákvæðið tekur til sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskipti eiga sér stað. Sams konar skilyrði gildir fyrir aðrar endurgreiðslur á virðisaukaskatti, sbr. 42. og 43. gr. laganna.
    Þá er lögð til orðalagsbreyting í samræmi við gildandi framkvæmd í tengslum við gengishagnað og gengistöp, sbr. 8. og 49. gr. tekjuskattslaga, nr. 90/2003, og í tengslum við frestun skattlagningar söluhagnaðar af landi bújarða og ófyrnanlegum náttúruauðæfum á bújörðum, þ.e. vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota í tengslum við lok búrekstrar, sbr. 4. mgr. 15. gr. laganna.
    Gert er ráð fyrir nokkrum breytingum á 3. gr. og 70. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, sem fjalla um skattskyldu erlendra aðila með tekjur hér á landi. Breytingarnar snúa að því að gera orðalag ákvæðanna skýrara varðandi þá skattskyldu sem þar er mælt fyrir um en jafnframt er þar mælt sérstaklega fyrir um skattskyldu á gjöfum úr landi og öðrum tekjum sem ekki eru sérstaklega taldar upp í öðrum töluliðum ákvæðanna. Breytingarnar ættu að hafa takmörkuð áhrif í þeim tilvikum sem tvísköttunarsamningar eiga við. Þá er einnig lögð til sú breyting að fella niður persónuafslátt í þeim tilfellum þegar erlendir lífeyrisþegar fá lífeyristekjur frá Íslandi en persónuafsláttur er almennt veittur í því ríki þar sem viðkomandi er heimilisfastur (búsettur) en auk þess geta lífeyrisþegar sem búsettir eru innan Evrópska efnahagssvæðisins, Sviss eða í Færeyjum sótt um að vera skattlagðir hér á landi líkt og innlendir aðilar (og fá þar með persónuafslátt) ef þeir fá meiri hluta tekna sinna frá Íslandi.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Í ljósi ákvæða 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar var þess sérstaklega gætt við undirbúning frumvarpsins að orðalag breytinganna væri skýrt og að öðru leyti í samræmi við kröfur sem leiða má af stjórnarskrárákvæðunum. Í 40. gr. stjórnarskrárinnar segir að engan skatt megi á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Þá segir í 1. mgr. 77. gr. að skattamálum skuli skipað með lögum, ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Að öðru leyti gefur efni frumvarpsins ekki tilefni til að ætla að það stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst skattskylda aðila, bæði einstaklinga og lögaðila. Við gerð þess var haft samráð við dómsmálaráðuneytið, matvælaráðuneytið, menningar- og viðskiptaráðuneytið, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, utanríkisráðuneytið og Skattinn vegna einstakra ákvæða þess.
    Áform um frumvarpið voru kynnt almenningi í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 25. september til 6. október 2023 (mál nr. S-172/2023). Sjö umsagnir bárust, frá Cruise Iceland, Félagi atvinnurekenda, Félagi rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði (FRÍSK), Fyrirtækjum í hótel- og gistiþjónustu (FHG), Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF) og ein frá einstaklingi.
    Flestar umsagnirnar snúa að gistináttaskatti. Í þeim kemur fram að gistináttaskattur ýti undir ójafnræði keppinauta á sama markaði þar sem hótel og gistihús þurfi að skila gistináttaskatti, en hvorki heimagisting (Airbnb) né hótelskip. Þá leggi Ísland eitt Norðurlandanna á gistináttaskatt. Skref í rétta átt væri að afnema gistináttaskattinn til að jafna stöðu þessara gististaða að einhverju leyti.
    Fyrirhuguðum breytingum um lægra áfengisgjald af ákveðnu magni áfengra drykkja sem framleiddir eru af litlum, sjálfstæðum framleiðendum er fagnað en bent á að útfærsla áformanna liggi ekki fyrir. Umsagnaraðilar telja óskynsamlegt og ekki standast jafnræðisreglu að mismuna áfengisframleiðendum eftir stærð þegar teknar eru ákvarðanir um ívilnandi aðgerðir eins og þá sem lögð sé til í áformaskjalinu. Efni sé til að lækka áfengisskatta almennt en ekki eingöngu á takmörkuðu magni.
    Að lokum er því fagnað og talið sanngjarnt að sölu á aðgangsmiðum í kvikmyndahús verði skipað í lægra þrep virðisaukaskatts, sem stuðli að bættara rekstrarumhverfi kvikmyndahúsa. Lagt er til að myndefni eftir pöntun (T-VOD) verði fært í neðra skattþrep virðisaukaskatts til samræmis við skatt af afnotagjöldum sjónvarpsstöðva.
     Áformaðar lagabreytingar hafa tekið breytingum frá því að áform um samningu frumvarps voru kynnt almenningi í samráðsgátt stjórnvalda. Á það m.a. við um gistináttaskatt og virðisaukaskatt á aðgangsmiða kvikmyndahúsa, en fallið hefur verið frá áformum um lækkun hans þar sem slík breyting þarfnast frekari skoðunar með tilliti til EES-reglna um ríkisaðstoð.
    Í frumvarpinu er m.a. að finna breytingar á lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2024. Vegna eðlis málsins og tengsla við frumvarp til fjárlaga voru frumvarpsdrög ekki sett í samráðsferli samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og þingsályktunartillagna, sbr. 10. gr. reglna um starfshætti ríkisstjórnar, þar sem kveðið er á um að heimilt sé að víkja frá þessu ef mál eru sérlega brýn eða aðrar gildar ástæður eru fyrir hendi. Sjá ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 1. gr., 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. og 2. málsl. 2. mgr. 9. gr. samþykktarinnar. Frumvarpinu, sem þykir sérlega brýnt og efnismikið, var jafnframt skorinn þröngur stakkur í tímaramma.

6. Mat á áhrifum.
6.1. Mat á fjárhagsáhrifum.
    Tillögur frumvarpsins eru af margvíslegum toga og sama má segja um mat á áhrifum þeirra.
    Breytingar á gistináttaskatti má ætla að leiði til alls 1,8 milljarða kr. tekjuauka fyrir ríkissjóð, þar af 1,6 milljarða kr. í gistináttaskatt og 0,2 milljarða kr. í hliðaráhrif á virðisaukaskatt þar sem hann er lagður á söluverð gistingar að gistináttaskatti meðtöldum. Gistináttaskattur mun miðað við þessar forsendur skila alls 3,1 milljarði kr. í tekjur árið 2024. Þar af er búist við að 0,25 milljarðar kr. verði lagðir á vegna sölu gistingar um borð í skipum við Ísland sem hingað til hafa verið undanþegin skattinum, bæði skipum sem selja ferðir til og frá Íslandi með viðkomu í einni eða fleiri höfnum hérlendis og skipum sem einkum selja siglingu við eða kringum Ísland. Búist er við að áhrif af hækkun gistináttaskatts á gistingu í landi skiptist þannig að 0,3 milljarðar kr. af hækkuninni verði af gistingu einstaklinga sem búsettir eru hérlendis en 1,2 milljarðar kr. af gistingu erlendra ferðamanna.
    Lagðar eru til breytingar á skattskyldu erlendra aðila af tekjum frá föstum starfsstöðvum hér á landi auk þess sem kveðið er skýrt á um að ekki skipti máli hvar starfsemin fari fram svo lengi sem laun, eða hliðstæðar greiðslur, stafi frá íslenskum aðila eða fastri starfsstöð hér á landi. Jafnframt er kveðið á um skattskyldu gjafa og hvers konar annarra tekna, eða ígildi þeirra, sem ekki eru taldar upp í tekjuskattslögum frá íslenskum aðilum og föstum starfsstöðvum hér á landi. Ekki er gert ráð fyrir að breytingin hafi mikil fjárhagsáhrif í för með sér þar sem flestir tvísköttunarsamningar mæla fyrir um að vinnuríkið sé eitt með skattlagningarrétt við þessar aðstæður.
    Þá er lögð til breyting þess efnis að fella brott persónuafslátt eftirlaunaþega og lífeyrisþega sem búsettir eru erlendis en persónuafsláttur er almennt eingöngu í boði fyrir þá sem teljast heimilisfastir (búsettir) hér á landi. Ekki er gert ráð fyrir að breytingin hafi mikil fjárhagsáhrif í för með sér þar sem flestir tvísköttunarsamningar Íslands heimila eingöngu heimilisfestarríki skattlagningarrétt á lífeyri.
    Skattfrelsi styrkja úr Orkusjóði til einstaklinga vegna kaupa á hreinorkubílum hefur í för með sér tekjutap fyrir ríki og sveitarfélög sem gróflega má áætla um 1 milljarð kr. fyrir ríkissjóð og um 0,5 milljarð kr. fyrir sveitarfélög á árinu 2024.
    Gert er ráð fyrir að lækkun áfengisgjalds fyrir tiltekið magn af bjór sem framleiddur er af litlum og sjálfstæðum framleiðendum leiði til tekjutaps fyrir ríkissjóð sem nemur tæpum 0,2 milljörðum kr. hvað innlenda framleiðslu varðar. Þar við bætist tekjutap vegna innflutts bjórs, en ekki var unnt að leggja nákvæmt mat á stærð hinna erlendu framleiðenda. Þó er gert ráð fyrir að afslátturinn vegna innflutta hlutans sé mun minni en hins innlenda.
    Gera má ráð fyrir því að þær breytingar sem lagðar eru til á tollalögum, nr. 88/2005, um afnám tollfrelsis til handa skemmtiferðaskipum sem skráð eru erlendis en eru notuð í innanlandssiglingum í allt að fjóra mánuði á hverju tólf mánaða tímabili, kunni að hafa fjárhagslega hagsmuni í för með sér fyrir ríkissjóð haldi rekstraraðilar þessara skipa viðteknum hætti og bjóði áfram upp á siglingar hringinn í kringum landið. Fjárhæðir í því samhengi liggja ekki fyrir en hins vegar liggja fyrir upplýsingar um að alls ellefu skemmtiferðaskip, sem skráð eru erlendis, hafi stundað siglingar í kringum Ísland sumarið 2023 án þess að eiga viðkomu í erlendri höfn í hverri ferð. Ferðirnar um landið voru, sem fyrr segir, tæplega 60 á tímabilinu og var heildarfjöldi gesta um 16.600.
    Aðrar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu hafa samanlagt ekki teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs, sveitarfélaga, einstaklinga og lögaðila verði frumvarpið óbreytt að lögum.
    Áhrif á mælda verðbólgu á árinu 2024 af hækkun gistináttaskatts verða óveruleg. Hið sama gildir um aðrar tillögur þessa frumvarps.

6.2. Mat á jafnréttisáhrifum.
    Ekki hefur farið fram ítarleg greining á jafnréttisáhrifum frumvarpsins. Í þeim tilvikum sem tillögur frumvarpsins eru til þess fallnar að hafa bein og tafarlaus áhrif á verðlag og þar með á notendur og atvinnurekstraraðila eru slík áhrif hlutfallslega lítil að umfangi. Búast má við að verð hækki á gistiþjónustu en upplýsingar úr staðgreiðsluskrá benda til að konur séu fjölmennari meðal starfsmanna í greininni. Notendur gistiþjónustu skiptast hins vegar tiltölulega jafnt eftir kynjum. Einstakar tillögur frumvarpsins gætu haft í för með sér ýmist jákvæð eða neikvæð áhrif á eigendur fyrirtækja, sem á heildina litið eru oftar karlar en konur. Karlar eru líklega í meiri hluta í hópi eigenda þeirra rafmagnsknúnu ökutækja sem lagt er til að afnema vörugjöld á. Nokkrar tillögur frumvarpsins eru tæknilegs eðlis og hafa hvorki fjárhagsleg né önnur áhrif í för með sér fyrir einstaklinga og heimili.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1.–6. gr.

    Í a-lið 1. gr. er lagt til að greiddur verði gistináttaskattur af hverri seldri gistináttaeiningu fyrir hvern dvalargest. Það þýðir að greiða ber gistináttaskatt fyrir hvern einstakling sem dvelur í gistiaðstöðu að því tilskildu að einhver af undanþágum skv. 2. gr. frumvarpsins eigi ekki við.
    Í 1. mgr. c-liðar 1. gr. frumvarpsins er að finna skilgreiningu á gistináttaeiningu. Miðað er við að dvalargestur hafi umráð yfir gistiaðstöðunni í allt að einn sólarhring, þ.m.t. yfir nótt. Kjósi dvalargestur að nýta aðstöðuna í styttri tíma, t.d. ekki yfir nótt, ber engu að síður að innheimta gistináttaskatt.
    Í 2. mgr. c-liðar 1. gr. er tilgreind sú gistiaðstaða sem lögin taka til, verði frumvarpið samþykkt. Í fyrsta lagi eru gististaðir sem hafa rekstrarleyfi samkvæmt flokkum II, III og IV í 3. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Í öðru lagi eru tjaldstæði og stæði fyrir húsbíla, tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi. Í þriðja lagi eru skemmtiferðaskip. Með skemmtiferðaskipum er átt við skip sem bjóða upp á flutningaþjónustu á sjó og eru eingöngu starfrækt í skemmti- eða tómstundarskyni, auk þess sem þau eru með aðstöðu til gistingar o.fl. og gistinætur um borð eru að jafnaði ein eða fleiri. Í ljósi þessa ásamt því að gert er ráð fyrir að dvalargestur hafi umráð yfir gistiaðstöðu í skipi í allt að einn sólarhring hverju sinni ber ekki að greiða gistináttaskatt af fargjaldi farþegaflutningaskipa eins og t.d. Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi og Breiðafjarðarferjunni Baldri. Bæði skemmtiferðaskip sem eingöngu sigla um strendur Íslands og skemmtiferðaskip sem sigla með farþega milli landa eru skattskyld samkvæmt lögunum en skattskyldan nær eingöngu til þess tímabils þegar skipin dvelja innan tollsvæðis íslenska ríkisins. Hér er hvort tveggja átt við þegar skip tekur höfn, innri eða ytri, sbr. nánar hafnarreglugerðir sem settar eru með stoð í 4. gr. hafnalaga, nr. 61/2003, og þegar skip er á siglingu innan tollsvæðisins. Tollsvæði ríkisins er landið ásamt eyjum og útskerjum sem því tilheyra, svo og 12 mílna landhelgi umhverfis það eins og hún er afmörkuð skv. 1. gr. laga um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, nr. 41/1979, sbr. einnig 2. gr. tollalaga, nr. 88/2005.
    Í d-lið 1. gr. er kveðið á um að gistináttaskattur af hverri gistináttaeiningu skuli vera 300 kr. fyrir hvern dvalargest.
    Í e-lið 1. gr. er lögð til breyting á 3. mgr. 2. gr. laganna til að taka af allan vafa um að ákvæðið gildi einungis fyrir þá starfsemi sem heyrir undir lög um virðisaukaskatt. Samkvæmt 7. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, skal reikna virðisaukaskatt af skattverði og til skattverðs teljast m.a. allir skattar og gjöld sem seljandi á að standa skil á vegna sölunnar. Þess vegna myndar gistináttaskattur stofn til virðisaukaskatts hjá þeim sem eru í starfsemi sem heyrir undir lög um virðisaukaskatt. Skemmtiferðaskip, óháð því hvar það er skráð, telst vera í skattskyldri starfsemi samkvæmt lögum um virðisaukaskatt ef það tekur farþega um borð hér á landi, siglir með þá milli hafna hér á landi og skilar þeim aftur frá borði hér á landi. Slík skip teljast stunda innanlandssiglingar, sbr. umfjöllun í kafla 3.6., þar sem farþegarnir fara ekki með skipinu úr landi. Skemmtiferðaskip, sem skráð eru erlendis, teljast hins vegar ekki í skattskyldri starfsemi samkvæmt lögum um virðisaukaskatt ef þeir farþegar sem koma með þeim til landsins fara með þeim aftur til útlanda. Sama gildir um skemmtiferðaskip skráð eru erlendis, sem koma með farþega til landsins og skila þeim hér í land og taka aðra farþegar um borð sem fara með skipinu til útlanda. Hjá þessum aðilum getur gistináttaskattur, eðli máls samkvæmt, ekki myndað stofn til virðisaukaskatts samkvæmt lögum nr. 50/1988.
    Í 2. gr. eru undanþágur frá lögum um gistináttaskatt tæmandi taldar. Af a-lið leiðir að ekki ber að greiða gistináttaskatt ef sala á gistingu er 2.000.000 kr. eða minna á hverju 12 mánaða tímabili enda ber salan ekki virðisaukaskatt, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988. Eðli máls samkvæmt á a-liðurinn við um þá aðila sem eru í skattskyldri starfsemi samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. A-liðurinn tekur því til skemmtiferðaskipa sem stunda innanlandssiglingar en ekki til skemmtiferðaskipa sem sigla með farþega á milli landa. Í b-lið er miðað við að greiða skuli gistináttaskatt frá og með deginum þegar dvalargestur verður 18 ára. Skv. c-lið er ekki innheimtur gistináttaskattur vegna dvalargesta um borð í skemmtiferðaskipi ef skipið leggst að höfn þar sem það var í nauðum statt vegna áreksturs, sjóskemmda, veikinda eða ófriðar. Að því er varðar undanþáguna skv. d-lið er gert ráð fyrir að hún gildi eingöngu um þá meðlimi áhafnarinnar og aðra starfsmenn sem eru skráðir til starfa í umræddri siglingu. Rekstraraðilum skemmtiferðaskipa ber því að greiða gistináttaskatt vegna gistiaðstöðu fyrir áhafnarmeðlimi og aðra starfsmenn ef þeir eru ekki við störf heldur eru eins og hverjir aðrir dvalargestir.
    Í 3. gr. eru þeir aðilar tilgreindir sem eru skattskyldir samkvæmt lögum um gistináttaskatt. Í fyrsta lagi eru þeir skattskyldir sem selja gistináttaeiningar skv. a- og b-lið 3. mgr. 2. gr. Í öðru lagi eru þeir skattskyldir sem reka skemmtiferðaskip skv. c-lið 3. mgr. 2. gr. sem notuð eru í starfsemi sem fellur undir lög um virðisaukaskatt. Í þriðja lagi eru þeir skattskyldir sem reka skemmtiferðaskip skv. c-lið 3. mgr. 2. gr. sem eru ekki notuð í starfsemi sem fellur undir lög um virðisaukaskatt. Enn fremur er lagt til að rekstraraðilum skemmtiferðaskipa, sem ekki eru notuð í starfsemi sem fellur undir lög um virðisaukaskatt, verði heimilt að skrá sig í eigin nafni á gistináttaskrá Skattsins í stað þess að umboðsmenn þeirra skrái sig á skrána líkt og gerð er krafa um skv. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, þegar erlendir aðilar eru í skattskyldri starfsemi hér á landi.
    Í 4. gr. er að finna ákvæði um álagningu og innheimtu gistináttaskatts. Gerður er greinarmunur á þeim sem eru í skattskyldri starfsemi hér á landi samkvæmt lögum um virðisaukaskatt og þeim sem eru það ekki, sbr. umfjöllun um e-lið 1. gr. frumvarpsins. Þeim sem falla undir gildissvið ákvæðisins ber að greiða gistináttaskatt miðað við fjölda seldra gistináttaeininga á hverju uppgjörstímabili sem eru tveir mánuðir líkt og greinir í 1. málsl. 1. mgr. 24. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988. Það þýðir að aðilar sem skila virðisaukaskatti árlega eða tvisvar á ári þurfa að skila gistináttaskatti á tveggja mánaða fresti. Skemmtiferðaskipum, sem skráð eru erlendis og eru ekki í skattskyldri starfsemi hér á landi samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, ber að greiða gistináttaskatt þann dag er skipið yfirgefur tollsvæði ríkisins. Í öllum tilvikum ber skattskyldum aðilum að skila á gjalddaga skýrslu til innheimtumanns ríkissjóðs um fjölda seldra gistináttaeininga á því tímabili sem um ræðir.
    5. gr. þarfnast ekki skýringar.
    Í 6. gr. er lagt til að nýju ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lögin um að ekki beri að greiða gistináttaskatt vegna sölu gistináttaeiningar fyrir hvern dvalargest sem afhent er á árinu 2024 eða síðar enda sé sölureikningur fyrir heildarverði gistingar gefinn út fyrir 1. janúar 2024. Líkt og kemur fram í umfjöllun í kafla 3.1 er með sölu átti við það tímamark þegar gistiþjónusta er veitt. Byggist það á þeirri meginreglu í 1. mgr. 13. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, að gefa skuli út sölureikning þegar þjónusta er innt af hendi. Það þýðir að ef gistiþjónusta er innt af hendi á árinu 2024 eða síðar ber að innheimta gistináttaskatt og skiptir þá ekki máli þó að samningur um sölu gistiþjónustu hafi verið gerður fyrir 1. janúar 2024. Í 2. mgr. 13. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, er að finna undanþágu frá meginreglunni í 1. mgr. Þar er kveðið á um að heimilt sé að gefa út reikning fyrir afhendingu. Sé reikningur gefinn út fyrir afhendingu telst afhendingin samkvæmt lögunum þá hafa farið fram á útgáfudegi reikningsins. Með 6. gr. frumvarpsins er verið að árétta framangreint, um að ekki beri að greiða gistináttaskatt vegna sölu á gistináttaeiningu sem afhent er á árinu 2024 eða síðar ef sölureikningur fyrir heildarverði gistingar er gefinn út fyrir 1. janúar 2024.

Um 7. gr., 11. gr. og 14.–16. gr.

    Í umræddum greinum frumvarpsins eru lagðar til breytingar á skattskyldu erlendra aðila af tekjum frá Íslandi. Breytingarnar snúa að 3. og 70. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, þar sem fjallað er um skattskyldu, og ákvæðum laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, þar sem fjallað er um innheimtu staðgreiðsluskatts.
    Ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. mælir fyrir um skattskyldu erlendra manna (manna með takmarkaða skattskyldu) vegna launa og hliðstæðra tekna frá íslenskum aðilum. Lagðar eru til tvær breytingar á töluliðnum. Sú fyrri snýr að því að bæta við orðunum „eða föstum starfsstöðvum“. Með því er verið að taka af vafa um að ákvæðið afmarkist ekki við umræddar tekjur frá íslenskum aðilum heldur taki einnig til slíkra tekna frá föstum starfsstöðvum hér á landi, sbr. 3. gr. a laganna, en þær teljast að jafnaði ekki til „aðila“ nema að stofnaður sé lögaðili utan um reksturinn. Við mat á því hvort þær tekjur sem 3. gr. laganna tekur til stafi „frá“ fastri starfsstöð ber að horfa til þess hvort tekjurnar séu raunverulega tengdar föstu starfsstöðinni fremur en hvaðan greiðsla kemur. Seinni breytingin snýr að því að bæta við málslið í lok töluliðarins þar sem segir: „Ekki skiptir máli hvar starfsemin fer fram.“ Hér er lögð til breyting á skattframkvæmd, m.a. samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar nr. 91/2007 þar sem ákvæðið hefur verið túlkað á þá leið að það taki ekki til tekna vegna starfs sem innt er af hendi fyrir íslenskan aðila erlendis ef starfið tengist erlendri starfsemi aðilans. Breytingunni er ætlað að kveða skýrt á um að ekki skipti máli hvar starfsemin fer fram svo lengi sem laun, eða hliðstæðar greiðslur, stafi frá íslenskum aðila eða fastri starfsstöð hér á landi.
    Þá er lögð til breyting á 3. mgr. 2. tölul. 70. gr. laganna þess efnis að fella brott persónuafslátt til eftirlaunaþega og lífeyrisþega sem búsettir eru erlendis. Persónuafsláttur er almennt eingöngu í boði fyrir þá menn sem teljast heimilisfastir (búsettir) hér á landi. Sambærileg réttindi fá menn almennt í því ríki sem þeir búa. Með persónuafslætti er leitast við að tryggja að maður fái ákveðna lágmarksfjárhæð skattfrjálsa og er sú fjárhæð almennt ákveðin og veitt af því ríki þar sem viðkomandi er búsettur. Er það m.a. vegna þess að það ríki er eitt með yfirsýn yfir heildartekjur skattaðilans og útgjöld hans falla að jafnaði til í því ríki. Það getur því metið getu skattaðilans til að greiða skatta. Ekki er fyrirséð að breytingin hafi mikil áhrif á núverandi réttarástand þar sem flestir tvísköttunarsamningar Íslands heimila eingöngu búseturíkinu skattlagningarrétt á lífeyri. Þá ber að hafa í huga að ef maður er búsettur innan Evrópska efnahagssvæðisins og er með meiri hluta tekna sinna frá Íslandi þá getur hann sótt um að vera skattlagður líkt og hann væri með heimilisfesti hér á landi, sbr. 70. gr. a laganna.
    Þá er lagt til að tveir nýir töluliðir bætist við 3. gr. og 70. gr. Í þeim fyrri er mælt fyrir um skattskyldu gjafa frá íslenskum aðilum og föstum starfsstöðvum hér á landi. Undantekning eru tækifærisgjafir, enda sé verðmæti þeirra ekki meira en sem almennt gerist um slíkar gjafir. Skattskylda sú sem frumvarpið mælir fyrir um yrði sambærileg þeirri sem gildir þegar móttakandi er með ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi og nýtur gjafa, sbr. 4. tölul. A-liðar 7. gr. Í þeim seinni er mælt fyrir um skattskyldu hvers konar annarra tekna, eða ígildi þeirra, sem ekki eru taldar upp í öðrum töluliðum ákvæðisins, frá íslenskum aðilum og föstum starfsstöðvum hér á landi, þó ekki tekna af vörusölu. Í framkvæmd hefur verið litið svo á að 3. gr. hafi að geyma tæmandi talningu á þeim tekjutegundum sem teljast skattskyldar hér á landi í hendi erlendra aðila. Hér er lögð til breyting þar á og er henni ætlað vítt gildissvið þannig hún grípi önnur tilvik sem ekki falla undir aðra töluliði 3. gr. Tekjur erlendra aðila af vörusölu sæta almennt ekki afdráttarskatti og er lagt til að ákvæðið taki ekki til þeirra.
    Taka ber fram að skattlagningarréttur skv. 3. gr. ræðst að stórum hluta af ákvæðum tvísköttunarsamninga þar sem þeir eiga við. Þannig er ekki viðbúið að framangreindar breytingar hafi mikil áhrif á erlenda aðila sem beitt geta tvísköttunarsamningum sem Ísland hefur gert.
    Til samræmis við umræddar breytingar eru lagðar til breytingar á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.

Um 8. gr.

    Í greininni er lagt til að í stað orðanna „eignum“ í 5. tölul. 8. gr. og „skuldum“ í 14. tölul. 49. gr. komi „eignum og skuldum“. Eðli máls samkvæmt getur gengishagnaður og gengistap myndast jafnt af eignum og skuldum í erlendri mynt eftir því hvernig gengið þróast gagnvart íslensku krónunni. Í framkvæmd hefur verið farið með hagnað og tap af gengisbreytingum erlendra eigna og skulda sem vaxtatekjur eða vaxtagjöld og er því ekki um efnisbreytingu að ræða heldur verið að gera orðalagið skýrara.

Um 9. gr.

    Gert er ráð fyrir því að orðin „eða íbúðarhúsnæði til eigin nota“ og „eða noti hið keypta húsnæði fyrir eigin íbúð í a.m.k. tvö ár eftir kaupdag“ í 4. mgr. 15. gr. laganna falli brott og í staðin komi nýr málsliður. Ákvæðið hefur í framkvæmd verið túlkað á þá leið að öflun íbúðarhúsnæðis þurfi að vera í tengslum við lok búreksturs og er sú framkvæmd fest í sessi með þeirri lagabreytingu sem hér er lögð til í nýjum málslið.

Um 10. gr.

    Í a-lið er lagt til að málsgrein sem kveður á um tiltekna takmörkun á þeim frádráttarheimildum sem mælt er fyrir um í 2. mgr. sama ákvæðis verði felld brott. Í b-lið er lagt til að þá takmörkun verði að finna í ákvæðinu sjálfu í stað þess að hún sé í annarri málsgrein sem telja verður óvenjulegt og óskýrt. Ekki er því um að ræða efnisbreytingu heldur verið að skýra ákvæðin.

Um 12. gr.

    Hinn 9. nóvember 2022 var skrifað undir aðild Íslands að marghliða samkomulagi lögbærra stjórnvalda um sjálfvirk skil á upplýsingum um tekjur sem aflað er í gegnum stafræna vettvanga sem unnin er og útgefin af Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París (e. Multilateral Competent Authority Agreement on Automatic Exchange of Information). Samkomulagið er gert á grundvelli alþjóðasamnings um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum, sem innleiddur var í íslenskan rétt með samnefndum lögum nr. 74/1996. Reglurnar snúa að upplýsingaskyldu sem lögð er á rekstraraðila stafrænna vettvanga sem hafa milligöngu, eða aðra aðkomu, um að koma á viðskiptum milli kaupenda og seljenda, og eftir atvikum greiðsluþjónustu. Dæmi um þetta væri Airbnb þar sem seljendur (leigusalar) geta skráð eignir sínar til útleigu á stafrænan vettvang sem haldið er úti af Airbnb og mikill fjöldi notenda (leigjenda) skoðar reglulega í leit af eignum til útleigu. Vettvangurinn tengir þannig saman leigusala og leigjendur gegn þóknun auk annarrar þjónustu sem kanna að vera veitt samhliða. Reglurnar hafa verið teknar upp víðast hvar í Evrópu og er lagt til að taka upp sambærilega reglur á Íslandi sem myndu taka gildi í byrjun næsta árs, verði frumvarpið að lögum, með fyrstu skil á upplýsingum til skattyfirvalda árið eftir. Lagt er til að reglurnar verði í samræmi við fyrirmynd Efnahags- og framfarastofnunarinnar, eða eftir atvikum tilskipun (ESB) 2021/514 sem mælir fyrir um innleiðingu fyrirmyndarinnar á Evrópska efnahagssvæðinu. Með því er leitast við að tryggja að sambærilegar reglur gildi hér á landi og annars staðar í Evrópu og öðrum löndum sem tekið hafa reglurnar upp.
    Frumvarpið gengur út frá því að ráðherra setji reglugerð þar sem fjallað yrði nánar um fyrirkomulag og framkvæmd ákvæðisins en í því felst m.a. heimild til að kveða nánar á um hvaða rekstraraðilar stafrænna vettvanga teljast skráningarskyldir og hverjir ekki sem og hvaða upplýsinga skuli afla og hvernig skuli tryggja að upplýsingarnar séu réttar. Enn fremur yrði í reglugerð mælt fyrir um hvernig standa ætti skil á upplýsingunum til skattyfirvalda og hvernig þeim yrði deilt milli skattyfirvalda.

Um 13. gr.

    Lagt er til nýtt ákvæði til bráðabirgða til eins árs við lög um tekjuskatt þar sem kveðið er á um að styrkir til hreinorkubíleigenda úr Orkusjóði, sbr. lög nr. 76/2020, á tímabilinu 1. janúar 2024 til og með 31. desember 2024 teljist ekki til skattskyldra tekna hjá mönnum að uppfylltum skilyrðum laganna. Þar sem um er að ræða tímabundið stuðningskerfi til kaupa á hreinorkubílum úr Orkusjóði er gildistími ákvæðisins takmarkaður við eitt ár.

Um 17. gr.

    Lagt er til að bætt verði við skilyrði fyrir endurgreiðslu á virðisaukaskatti skv. 42. gr. A laga um virðisaukaskatt að seljandi vinnu sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskipti eigi sér stað. Að öðrum kosti getur sú staða komið upp að ríkissjóður endurgreiði aðila virðisaukaskatt án þess að seljandi vinnu, sem ákvæðið tekur til, sé með opið virðisaukaskattsnúmer og skilar þar með ekki virðisaukaskatti í ríkissjóð.

Um 18. gr.

    Lagt er til að heimilt verði að lækka áfengisgjald af áfengum drykkjum skv. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um gjald á áfengi og tóbaki, nr. 96/1995, að uppfylltum öllum þeim skilyrðum sem tilgreind eru í ákvæðinu. Ákvæðið gildir bæði fyrir innlenda framleiðslu á bjór og bjór sem fluttur er til landsins.
    Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. ákvæðisins þarf framleiðandinn að teljast lítill. Við mat á því hvort framleiðandi teljist lítill er horft til framleiðslu hans á síðastliðnum tólf mánuðum. Framleiðendur sem eru að hefja starfsemi koma þar af leiðandi fyrst til skoðunar þegar reksturinn er kominn yfir á annað almanaksár. Með ársframleiðslu er átt við heildarframleiðslu framleiðanda á bjór, óháð styrkleika bjórsins, þ.m.t. þann hluta framleiðslunnar sem seldur er hér á landi. Ársframleiðsla sem nemur 2.500.000 sentilítrum af hreinum vínanda samsvarar um 500 þús. lítrum af bjór miðað við 5% alkóhólstyrkleika. Skv. 2. tölul. 1. mgr. ákvæðisins þarf framleiðandinn að vera sjálfstæður. Framleiðandi telst sjálfstæður ef hann uppfyllir skilyrðin a- og b-liðar 2. tölul. 1. mgr. ákvæðisins. Með öðrum framleiðanda áfengis í b-lið er átt við framleiðanda hvers konar áfengis, ekki eingöngu þess áfengis sem fellur undir 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Framvísa þarf gögnum árlega sem staðfesta að framleiðandi uppfylli öll skilyrði ákvæðisins.
    Heimild til lækkunar á áfengisgjaldi er bundin við sem nemur 550.000 sentilítrum af hreinum vínanda á hverju almanaksári fyrir hvern framleiðanda. Um er að ræða það magn sem áfengisgjald reiknast af skv. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Það samsvarar um 200 þús. lítrum af bjór miðað við 5% alkóhólstyrkleika. Greiða ber almennt áfengisgjald skv. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. fyrir það magn sem fer upp fyrir þessi mörk.

Um 19. gr.

    Lagt er til að fellt verði brott ákvæði 2. málsl. b-liðar 1. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, nr. 88/2005. Í tillögunni felst að skemmtiferðaskip, sem skráð eru erlendis en notuð eru í innanlandssiglingum hér við land í allt að fjóra mánuði á ári á hverju tólf mánaða tímabili, njóta ekki lengur tollfrelsis. Rekstraraðilum skipanna ber því að greiða aðflutningsgjöld af vistum og öðrum nauðsynjum sem koma með skipunum til landsins. Enn fremur ber þeim að greiða aðflutningsgjöld af þeim vörum sem keypt eru fyrir skipin til nota fyrir farþega og áhöfn á meðan dvalið er hér við land.

Um 20. gr.

    Lagt er til að körtur og beltabifreiðar, þ.m.t. vélseðlar, sem knúnar eru rafhreyfli, verði undanþegnar vörugjaldi líkt og nú þegar gildir um golfbifreiðar og bifhjól sem knúin eru rafhreyfli. Tillagan er í samræmi við markmið stjórnvalda um orkuskipti.

Um 21. gr.

    Gert er ráð fyrir því að innheimtumönnum ríkissjóðs verði heimilt að senda rafræna tilkynningu um fyrirhugaða stöðvun atvinnurekstrar í stafrænt pósthólf aðila í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda (Ísland.is). Tilkynningin mun eingöngu verða send í stafrænt pósthólf aðila og telst það ávallt nægileg birting tilkynningar en framkvæmdin hefur verið sú að innheimtumenn ríkissjóðs senda tilkynninguna með almennum pósti á lögheimili aðila. Tilkynningin telst birt viðtakanda þegar hún er aðgengileg í stafrænu pósthólfi en þarf ekki að vera komin til vitundar hans. Er birtingarhátturinn til samræmis við lög um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt, nr. 105/2021, og stefnu stjórnvalda sem þar kemur fram. Birting tilkynningar telst fullgild þó svo viðtakanda sé ekki sent hnipp um nýtt skjal á Ísland.is en sendi innheimtumenn ríkissjóðs hnipp er það umfram lagaskyldu.
    Tilkynning um stöðvun atvinnurekstrar er íþyngjandi en beinist eingöngu að aðilum í atvinnurekstri sem eru í vanskilum. Stöðvun atvinnurekstrar er heimil vegna vanskila, m.a. á virðisaukaskatti, staðgreiðslu opinberra gjalda, staðgreiðslu tryggingagjalds og áfengisgjaldi.
    Verði ákvæði þetta að lögum gengur það framar 18. gr. sömu laga og 39. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, þar sem aðili þarf ekki að samþykkja rafræna meðferð þegar tilkynning um fyrirhugaða stöðvun atvinnurekstrar er send. Þá gengur ákvæðið einnig framar 5. gr. laga um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt, nr. 105/2021, þar sem aðili getur ekki óskað eftir að fá gögn á annan hátt en í stafrænt pósthólf, t.d. á pappír.

Um 22. gr.

    Lagt er til að tollskrárnúmer 8517.1200, ásamt skýringu og hlutfalli af tollverði, verði fellt brott úr töflu í 3. mgr. 11. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, og í stað þess komi tvö ný tollskrárnúmer, 8517.1300 og 8517.1400, ásamt skýringu og hlutfalli af tollverði, 1%. Tillögunni er ætlað að tryggja höfundum verka samkvæmt ákvæðinu áfram sömu bætur og þeir hafa notið frá árinu 2016.

Um 23. gr.

    Lagt er til að bætt verði við höfundalög, nr. 73/1972, ákvæði til bráðabirgða sem tryggir höfundum verka skv. 3. mgr. 11. gr. laganna rétt til bóta vegna innflutnings á árinu 2022 á tækjum í tollskrárnúmerum 8217.1300 og 8517.1400. Bæturnar nema 1% af tollverði varanna. Skulu bæturnar greiðast í samræmi við 4. mgr. 11. gr. laganna og eigi síðar en 31. desember 2022.

Um 24. gr.

    Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 217/2021 var ákvörðun tollgæslustjóra um að ákvarða kæranda gjald vegna útflutnings hrossa á árunum 2019 og 2020 felld úr gildi þar sem ekki var talið að ákvæði tollalaga gætu yfirleitt tekið til gjaldtökunnar eins og um hana væri búið í lögum og í ljósi forsögu hennar, svo sem nánar var rakið í úrskurðinum. Var ekki talið að umrætt gjald gæti yfirleitt talist til útflutningsgjalda í skilningi tollalaga, þ.e. gjalda sem greiða bæri við tollmeðferð vöru við útflutning. Þar sem lagastoð fyrir gjaldtökunni er ekki nægileg er lagt til að 6. gr. laga um útflutning hrossa, nr. 27/2011, verði felld brott og annarra leiða leitað.

Um 25. gr.

    Um tæknilega breytingu er að ræða en greiðslumark var framlengt út árið 2026 við fyrri endurskoðun búvörusamninga og á því ekki að falla niður samkvæmt samningi um starfsskilyrði í sauðfjárrækt fyrr en 1. janúar 2027.

Um 26. gr.

    Lagt er til að gjöld fyrir vegabréfsáritanir verði miðuð við evrur í samræmi við skuldbindingar Íslands skv. 16. gr. reglugerðar (ESB) nr. 810/2009, um samræmda útgáfu áritana, sem hefur verið innleidd með lögum um útlendinga, nr. 80/2016, og reglugerð um vegabréfsáritanir, nr. 795/2022. Gert er ráð fyrir því að 14. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, verði endurskoðuð í heild sinni og ákvæðum raðað saman eftir skyldleika innan hennar. Þá er jafnframt gert ráð fyrir því að fyrir umsókn um vegabréfsáritun skuli Útlendingastofnun gefa út gjaldskrá á mánaðarfresti er taki mið af miðgengi evru mánaðarins á undan fyrir útgáfu nýrrar gjaldskrár og námundi niður að næsta hundraði. Æskilegt er að verð í íslenskum krónum verði jafnframt aðgengileg t.d. á vef stofnunarinnar. Fyrir umsóknir mótteknar erlendis verður gjald innheimt í evrum.

Um 27. gr.

    Ákvæði þetta mælir fyrir um heimild utanríkisráðuneytisins til að ráða starfsmenn Íslandsstofu tímabundið, án auglýsingar, til starfa sem viðskiptafulltrúa í sendiráðum. Íslandsstofa er sjálfseignarstofnun sem heyrir undir utanríkisráðuneyti samkvæmt forsetaúrskurði og vinnur að viðskipta- og menningarmálum erlendis sem er hluti af lögbundnum verkefnum utanríkisþjónustunnar og mikið samstarf um. Um er að ræða vistaskiptafyrirkomulag sambærilegt því sem kveðið er á um í 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Slíkt vistaskiptafyrirkomulag hefur til að mynda verið viðhaft um árabil varðandi starfsfólk annarra ráðuneyta sem sent er til starfa í sendiráði Íslands í Brussel. Starfsmenn frá utanríkisráðuneyti hafa í gegnum tíðina starfað í vistaskiptum innan Íslandsstofu en í ljósi náins samstarfs utanríkisráðuneytisins og Íslandsstofu er vilji til að festa það samstarf enn frekar í sessi. Mikilvægt er að skýr lagaheimild sé fyrir hendi um þetta fyrirkomulag vistaskipta.

Um 28. gr.

    Gert er ráð fyrir því að lögin öðlist gildi 1. janúar 2024. Þrátt fyrir það er gert ráð fyrir að 22. og 23. gr. öðlist þegar gildi en í þeim eru lagðar til breytingar á höfundalögum sem eiga annars vegar að tryggja rétthöfum bætur vegna innflutnings á árinu 2022 á vörum samkvæmt ákveðnum tollskrárnúmerum og hins vegar tryggja þeim þær bætur framvegis og tekur gildistakan mið af því.
    Í 3. mgr. er lagt til að ákvæði 10. gr. a laga um tekjuskatt falli úr gildi 1. janúar 2034. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld, nr. 42/2023, er ákvæði 10. gr. a laganna ætlað að hvetja til nýsköpunar þannig að sprotafyrirtækjum verði gert kleift í ríkara mæli að laða til sín hæfileikaríkt starfsfólk með því að bjóða því kauprétt í félaginu sem hluta af endurgjaldi fyrir vinnuframlag þess. Að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins verða tekjur af nýtingu kaupréttar, sem annars hefðu verið skattlagðar sem laun, skattlagðar sem fjármagnstekjur. Um er að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu 9. gr. laganna að skattleggja skuli tekjur manns samkvæmt kaupréttarsamningi sem launatekjur. Samkvæmt leiðbeiningum eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) ber almennt að tímabinda ákvæði um ríkisaðstoð þar sem ótímabundið ákvæði um ríkisaðstoð kann að leiða til mismununar ef aðstæður sem ákvæðið beinist að breytast. Af þeim sökum þykir rétt að takmarka gildistíma ákvæðisins við tíu ár í því skyni að það verði talið samrýmast reglum EES-samningsins um ríkisaðstoð. Gert er ráð fyrir því að ákvæðið verði tekið til endurskoðunar að þeim tíma liðnum.