Ferill 482. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 530  —  482. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um fjölgun flugleggja með Loftbrú til að stuðla að þátttöku barna og ungmenna í æskulýðsstarfi.


Flm.: Jódís Skúladóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Inga Sæland, Eyjólfur Ármannsson, Jakob Frímann Magnússon, Þórarinn Ingi Pétursson, Logi Einarsson.


    Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að fjölga flugleggjum með Loftbrú til að stuðla að þátttöku barna og ungmenna í æskulýðsstarfi.

Greinargerð.

    Markmið þessarar tillögu er að fjölga flugleggjum með Loftbrú fyrir börn og ungmenni sem taka þátt í æskulýðsstarfi eins og það er skilgreint skv. 2. málsl. 1. gr. æskulýðslaga, nr. 70/2007, og 2. gr. íþróttalaga, nr. 64/1998. Í æskulýðslögum er hugtakið æskulýðsstarf skilgreint sem skipulögð „félags- og tómstundastarfsemi þar sem börn og ungmenni starfa saman í frístundum sínum að hugsjónum, markmiðum og áhugamálum sem þau sjálf meta að verðleikum“. Í íþróttalögum segir: „Meginmarkmið aðgerða ríkis og sveitarfélaga á sviði íþróttamála skal vera að stuðla að því að allir landsmenn eigi þess kost að iðka íþróttir við sem hagstæðust skilyrði. Samstarf ríkis og sveitarfélaga við hina frjálsu íþróttahreyfingu skal taka mið af gildi íþróttaiðkunar fyrir uppeldis- og forvarnastarf.“
    Á vef Stjórnarráðsins segir að samkvæmt lögum sé „stjórnvöldum ætlað, í samstarfi við félög og félagasamtök á sviði æskulýðsmála, að stuðla að því að ungt fólk eigi þess kost að taka þátt í skipulögðu félags- og tómstundastarfi við sem fjölbreyttust skilyrði.“ Mikilvægur liður í slíkri þátttöku eru fjölliðamót, landsmót og stærri samkomur sem iðulega eru fjarri heimili þátttakenda. Slíkum ferðalögum fylgir ærinn kostnaður, bæði fyrir heimili og félög sem sinna æskulýðsmálum.
    Afsláttarkjör Loftbrúar ná til rúmlega 60 þúsund íbúa á Vestfjörðum, hluta af Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi, Hornafirði og Vestmannaeyjum. Með fjölgun flugleggja til handa börnum og ungmennum vegna þátttöku í æskulýðsstarfi gætu stjórnvöld létt undir starfi íþrótta- og æskulýðshreyfinga víða um land af myndarbrag og skapað hagstæðari skilyrði fyrir þátttöku. Sömuleiðis má segja að slíkt fyrirkomulag stuðli að byggðajafnrétti en börn á landsbyggðinni búa við annað aðgengi að stórum viðburðum í æskulýðsstarfi sem mætti taka á með auknum stuðningi í gegnum Loftbrú, sem hefur sannað sig sem jöfnunartæki fyrir íbúa á landsbyggðinni.
    Hér á landi hafa einstaklingar haldið uppi æskulýðsstarfi af elju og metnaði í sjálfboðavinnu um áratugaskeið. Framlag þeirra er ómetanlegt félagsstarfi og samfélaginu í heild sinni. Verðmæti sem lögð eru til æskulýðs- og félagsstarfa margfaldast í höndum sjálfboðaliða sem inna af höndum óeigingjarnt starf í þágu barna og ungmenna og stuðla að bættri lýðheilsu, aukinni virkni og samfélagsvitund meðal þeirra.