Ferill 426. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 605  —  426. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur um könnun á kostum og göllum þess að taka upp annan gjaldmiðil.


     1.      Er ríkisstjórnin reiðubúin að leggja tillögu Vilhjálms Birgissonar, formanns Starfsgreinasambandsins, lið er hann fjallar um á Facebook-síðu sinni 22. september 2023 og gangast fyrir því að óháðir erlendir aðilar kanni kosti þess og galla að taka upp annan gjaldmiðil á Íslandi?
    Kostir Íslands í gjaldmiðilsmálum hafa verið rannsakaðir nokkuð ítarlega á síðustu árum. Árið 2012 gaf Seðlabanki Íslands út skýrsluna Valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum. Í þessari ítarlegu úttekt var niðurstaðan sú að raunhæfir valkostir Íslands í gjaldmiðilsmálum væru í raun tveir; að halda í íslenska krónu með sjálfstæðri peningastefnu og ákveðnum þjóðhagsvarúðartækjum eða að taka upp evru í kjölfar inngöngu í ESB og Evrópska myntbandalagið. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að ekki er hægt að komast að afdráttarlausri niðurstöðu um hvort hagkvæmara sé fyrir ríki að halda eigin gjaldmiðli eða gerast aðili að stærra myntsvæði. Stundum geta komið svo alvarleg efnahagsáföll að auðveldara verður að eiga við þau með sveigjanlegu gengi. Á öðrum tímum getur sveigjanlegt gengi hins vegar beinlínis aukið á efnahagslegan óstöðugleika, auk þess sem eigin gjaldmiðill getur virkað sem viðskiptahindrun og þannig dregið úr efnahagslegri velsæld. Það er því ekki til það gengisfyrirkomulag sem hentar öllum ríkjum á öllum tímum.
    Niðurstöður starfshóps um endurmat á peningastefnu Íslands árið 2018 eru á svipuðum nótum. Í skýrslu starfshópsins, Framtíð íslenskrar peningastefnu, er reynsla Íslands af mismunandi fyrirkomulagi peningastefnu og gengismála í gegnum tíðina rakin. Skýrsluhöfundar komast að þeirri niðurstöðu að sérhver peningastefna hefur kosti og galla. Það skiptir ekki höfuðmáli hvaða stefna er valin, heldur að farið sé eftir þeim leikreglum sem hvert fyrirkomulag krefst á hverjum tíma. Starfshópurinn mat sérstaklega kosti þess að taka upp myntráð sem felur í sér varanlega gengisfestu og hefur þannig að einhverju leyti sömu kosti og galla og aðild að myntbandalagi. Niðurstaða starfshópsins var að gríðarlega erfitt væri að tryggja efnahagslegan stöðugleika undir myntráði og það gæti aðeins gerst með miklum kerfisbreytingum hér innan lands, svo sem á vinnumarkaði. Jafnframt var það mat starfshópsins að upptaka myntráðs skapaði óásættanlega áhættu fyrir fjármálastöðugleika þar sem íslenskar fjármálastofnanir standi eftir án lánveitanda til þrautavara. Af þessum ástæðum gæti starfshópurinn ekki mælt með þeim kosti fyrir Ísland við núverandi aðstæður.
    Ráðherra telur því að kostir Íslands í gjaldmiðilsmálum séu vel rannsakaðir og liggi nokkuð skýrt fyrir. Frekari úttektir erlendra sérfræðinga séu því ekki líklegar til að bæta þar miklu við að svo stöddu. Það eru tveir raunhæfir valkostir – annars vegar að halda íslenskri krónu með sjálfstæðri peningastefnu og ákveðnum þjóðhagsvarúðartækjum og hins vegar að ganga í ESB og Evrópska myntbandalagið og taka upp evru. Við blasir að síðarnefndi kosturinn felur í sér mun víðtækari ákvörðun en svo að hún varði eingöngu gjaldmiðilinn og felur slík nálgun í sér mikla einföldun. Innganga í Evrópusambandið myndi kalla á heildstæða umræðu í öllum geirum samfélagsins enda hefði hún víðtæk áhrif á mun fleiri þætti en eingöngu peningastefnuna.

     2.      Myndi ríkisstjórnin gera það að skilyrði að Samtök atvinnulífsins féllust á slíka tillögu?
    Samtök atvinnulífsins marka ekki stefnu forsætisráðherra í þessum efnum.