Ferill 182. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 629  —  182. mál.
Undirskriftir.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024–2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá innviðaráðuneyti, Landssamtökunum Þroskahjálp, Grýtubakkahreppi, Eyjafjarðarsveit, Ísafjarðarbæ, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins.
    Nefndinni bárust níu umsagnir sem eru aðgengilegar á síðu málsins á vef Alþingis.
    Í 4. mgr. 2. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, kemur fram að ráðherra skuli á hverju kjörtímabili leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu ríkisins um málefni sveitarfélaga ásamt aðgerðaáætlun. Í henni skuli mörkuð stefna fyrir næstu fimmtán ár og jafnframt tilgreina sérstaklega þær aðgerðir sem ráðast skuli í á fyrstu fimm árum gildistíma hennar. Markmið stefnumótandi áætlunar er m.a. að draga saman meginþætti langtímastefnumörkunar ríkisins í þeim málaflokkum sem snúa að verkefnum sveitarfélaga og stuðla að samræmingu ríkis og sveitarfélaga á þeim sviðum með heildarhagsmuni sveitarstjórnarstigsins að leiðarljósi, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 1245/2018.
    Tillaga þessi á sér nokkurn aðdraganda og var við vinnuna lögð áhersla á gott samráð við íbúa, sveitarstjórnir og aðra hagsmunaaðila um landið allt, líkt og kemur fram í samráðskafla greinargerðar með tillögunni. Aflað var innleggs í grænbók um stöðu og valkosti í sveitarstjórnarmálum, haldnir voru samráðsfundir undir yfirskriftinni Vörðum leiðina saman og var liður í undirbúningi við ritun draga að hvítbók könnun á viðhorfi ungs fólks til málaflokka ráðuneytis sveitarstjórnarmála.

Umfjöllun nefndarinnar.
Samstarfssamningar sveitarfélaga.
    Í kafla 1.2 í III. þætti tillögunnar kemur fram að fækkun samninga milli sveitarfélaga um framsal ákvörðunarvalds verði einn mælikvarði sem stuðst verður við til þess að ná markmiði um að sjálfstjórn og ábyrgð sveitarfélaga verði virt og tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu.
    Í IX. kafla sveitarstjórnarlaga er fjallað um samvinnu sveitarfélaga og samninga um starfrækslu verkefna. Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 92. gr. er sveitarfélögum heimilt að hafa samvinnu sín á milli um framkvæmd afmarkaðra verkefna. Ef í samningi um samvinnu felst framsal á valdi til töku ákvarðana um rétt eða skyldu manna í skilningi stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, getur hún hins vegar aðeins farið fram á vegum byggðasamlags eða á þann hátt að eitt sveitarfélag taki að sér verkefni fyrir annað eða önnur sveitarfélög, nema lög veiti sérstaka heimild fyrir öðru formi samstarfs.
    Í umsögn Eyjafjarðarsveitar kemur fram að fækkun samninga af þessu tagi milli sveitarfélaga sé ekki endilega til þess fallin að efla sveitarfélög eða þjónustu við íbúa þeirra. Þvert á móti geti verið mikilvægt að sveitarfélög geri með sér samninga í ýmsum málaflokkum, svo sem á sviði barnaverndar eða annarra félagsmála. Í umsögn Grýtubakkahrepps kemur fram að fækkun samninga milli sveitarfélaga með framsali á ákvörðunarvaldi ætti ekki að vera markmið í sjálfu sér, heldur færi samstarf sveitarfélög nær hvert öðru og geti þannig verið undanfari sameiningar. Með sameiningu fækki samstarfssamningum sjálfkrafa, en það ætti þó ekki að vera sjálfstætt markmið.
    Vísað er til umsagnar sveitarfélagsins um hvítbók þar sem tekin eru dæmi um lagabreytingar sem hafa kallað á nýja samstarfssamninga sem fela í sér framsal valds.
    Sveitarstjórnarlög byggjast m.a. á þeirri forsendu að skipulag og starfsaðstæður sveitarfélaga séu með þeim hætti að þau geti sjálf borið ábyrgð á framkvæmd verkefna sem þeim er falið að sinna, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Í því felst að sveitarfélög skulu vera sjálfbær, bæði faglega og rekstrarlega. Í því felst ekki að sveitarfélög þurfi eða eigi að rækja verkefni sín sjálf að öllu leyti heldur er sveitarfélögum tryggður þessi réttur til samvinnu um rækslu þeirra verkefna sem þau geta ekki leyst af hendi á eigin vegum eða þau telja hagkvæmara að leysa með þeim hætti. Til mótvægis við 2. tölul. 1. mgr. 3. gr., en einnig til skýringar á nánara inntaki ákvæðisins, er því í 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. tilgreint að það sé einnig forsenda þess sem frumvarp til sveitarstjórnarlaga byggist á að sveitarfélög hafi möguleika til samvinnu. Nefndin undirstrikar mikilvægi þess að sveitarfélög hafi fjárhagslega burði til þess að sinna verkefnum sínum líkt og lög gera ráð fyrir og þarf við vinnu við fækkun samstarfssamninga sveitarfélaga að huga vel að þeim þáttum í samstarfi við sveitarfélög, sér í lagi þau sem fámennari eru. Þá er mikilvægt að tekið sé tillit til lagabreytinga á undanförnum árum þar sem aukin ábyrgð hefur verið lögð á herðar sveitarfélaga.

Fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni.
    Eitt lykilviðfangsefna tillögunnar er fjölbreyttara atvinnulíf með áherslu á fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni. Fram kemur í greinargerð að tillagan styðji við verkþætti innan byggðaáætlunar, m.a. við framfarir á sviði þjónustu og eftirfylgni þeirrar ákvörðunar stjórnvalda að auglýsa öll störf án staðsetningar nema eðli þeirra kalli á ákveðna staðsetningu. Þá er ein af áherslum til að ná markmiði um að sveitarfélög verði öflug og sjálfbær og ýti undir lýðræðislega virkni íbúa að fylgt verði eftir ákvörðun stjórnvalda um að auglýsa öll opinber störf án staðsetningar nema eðli þeirra kalli á ákveðna staðsetningu.
    Í umsögn Ísafjarðarbæjar kemur fram að líta þurfi til reynslunnar. Dæmi séu um að ráðið hafi verið í störf með staðsetningu en þeir starfsmenn hafi flutt störfin með sér á höfuðborgarsvæðið án þess að önnur störf hafi komið í staðinn. Skoða þurfi hvort hægt sé að festa störf miðað við staðsetningu og hvort það væri mögulegt að forstöðumenn ríkisstofnana þurfi að rökstyðja það ef störfin flytjast annað eða bjóða upp á ný störf í staðinn. Í umsögn Samtaka atvinnulífsins kemur m.a. fram að samtökunum þyki þetta markmið verulega aðfinnsluvert og að fyrirtæki á markaði séu í samkeppni við hið opinbera um starfsfólk. Fjölgun opinberra starfsmanna skýrist ekki af heimsfaraldri og að sú þróun sé ekki sjálfbær enda leiði fjölgun opinberra starfa og hækkandi launakostnaður til þess að minna svigrúm verði fyrir fjárfestingu og annan rekstur. Ótækt sé að hið opinbera verði ofan á í samkeppni um sérhæft starfsfólk í stórum stíl. Jafnframt sjá samtökin frekar fyrir sér flutning starfa frá höfuðborgarsvæðinu, eða að gera þau óstaðbundin, í stað þess að fjölga opinberum störfum markvisst á landsbyggðinni.
    Nefndin telur mikilvægt að viðfangsefni tillögunnar sem miðar að fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni nái fram að ganga. Mikilvægt sé að íbúar á landsbyggðinni hafi á sem flestum sviðum aðgang að sérhæfðri þjónustu sem veitt er af sérfræðimenntuðu fólki. Fjölgun sérfræðimenntaðra stuðli að öflugra og fjölbreyttara atvinnulífi sem er ein grunnstoð tekjuöflunar sveitarfélaga og geri líklegra að sveitarfélög geti sinnt lögbundnum verkefnum. Þá getur fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni falið í sér flutning starfa á landsbyggðina.

Fjármögnun lögbundinna verkefna.
    Í sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, er starfsemi sveitarfélaga markaður ákveðinn rammi. Í 7. gr. þeirra er fjallað um almennar skyldur sveitarfélaga og mælir ákvæðið fyrir um verkefni sveitarfélaga sem skiptast í grófum dráttum annars vegar í lögbundin verkefni og hins vegar ólögbundin verkefni. Í umfjöllun um sveitarfélög á Norðurlöndum er hefðbundið að greina verkefni þeirra í þessa tvo flokka, en um flest þeirra verkefna sem sveitarfélög sinna hér á landi er mælt fyrir í lögum. Til þess að sveitarfélög geti sinnt þeim verkefnum sem þeim eru falin verða þau að hafa til þess fjárhagslega burði. Byggjast sveitarstjórnarlög m.a. á þeirri forsendu að skipulag og starfsaðstæður sveitarfélaga séu þannig að þau geti sjálf borið ábyrgð á framkvæmd þeirra verkefna sem þeim er falið að sinna, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna.
    Í tillögunni eru aðgerðir sem miða að því að sveitarfélög hafi fjárhagslega burði til þess að sinna þeim verkefnum sem þeim eru falin. Þar má nefna endurskoðun sveitarstjórnarlaga, tekjustofna og fjármálainnviða og að tryggður verði faglegur ferill kostnaðarmats lagafrumvarpa þar sem kostnaður kann að falla á sveitarfélög.
    Við umfjöllun málsins fyrir nefndinni komu fram sjónarmið og viðbrögð við fjármögnun lögbundinna verkefna sveitarfélaga, m.a. í tengslum við íbúafjölda, fjárhagsstöðugleika og tilflutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Fram kemur í umsögn Samtaka atvinnulífsins að óraunhæft sé að fámenn sveitarfélög sinni jafn viðamiklum verkefnum og fjölmenn sveitarfélög. Reynslan sýni að umbætur á sveitarstjórnarstigi tengist yfirleitt breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, þ.e. tilflutningi verkefna. Það krefjist þess að sveitarfélög ráði sérfræðimenntað fólk til starfa til að geta staðið undir lögbundinni þjónustu. Í umsögn Reykjavíkurborgar kemur fram að hlutverk sveitarfélaga sé fyrst og fremst að veita almenningi ákveðna þjónustu. Aðaláhættan í rekstri sveitarfélaga felist í því að lagðar séu á þau skyldur sem þau geti ekki fjármagnað með tekjustofnum sínum. Þá kemur m.a. fram í umsögn Bláskógabyggðar að fámenn sveitarfélög séu líklegri en þau fjölmennu til þess að lenda í fjárhagsvanda. Þau hafi ekki öll aðgang að sértækum gæðum í náttúru eða öflugu atvinnulífi.

Endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga.
    Lög nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, eru meginlagaheimild sveitarfélaga til að leggja á skatta og þjónustugjöld. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. eru tekjustofnar sveitarfélaga fasteignaskattur, úthlutuð framlög til sveitarfélaga skv. III. kafla og útsvör. Auk þess hafa sveitarfélög tekjur af eignum sínum, eigin atvinnurekstri og stofnunum sem reknar eru í almenningsþágu, svo sem vatnsveitum, rafmagnsveitum, hitaveitum o.fl., enn fremur ýmsar aðrar tekjur, svo sem af holræsagjaldi, lóðarleigu, leyfisgjöldum o.fl., allt eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um.
    Þriðja aðgerð tillögunnar felur í sér að afstaða verði tekin til þess hvernig staðið verði að því að styrkja tekjustofna sveitarfélaga og auka fjárhagslega sjálfbærni þeirra. Er lagt upp með að byggja á greiningu fráfarandi tekjustofnanefndar um nýja tekjustofna og/eða tilfærslu tekjustofna milli ríkis og sveitarfélaga. Meginsjónarmið þessarar tillögu er að sveitarfélögum séu tryggðir nauðsynlegir tekjustofnar í samræmi við þau verkefni sem þeim eru falin með lögum sem geti staðið undir þeirri þjónustu sem íbúar kalla eftir.
    Við umfjöllun í nefndinni kom m.a. fram að tekjustofnar og endurskoðun þeirra væru grundvallaratriði þegar kemur að rekstri sveitarfélaga. Þá kom fram að sveitarfélög hafi sum hver mjög viðkvæma og sveiflukennda tekjustofna. Þau sem væru í þeim aðstæðum þyrftu fjölbreyttari tekjustofna til þess að vega á móti þeim sveiflum. Fram kemur í umsögn Ísafjarðarbæjar að tryggja verði sveitarfélögum tekjustofna til að standa undir lögbundnum verkefnum sínum. Þá verði að horfa til nýrra tekjustofna, svo sem hlutdeildar í fjármagnstekjuskatti, gistináttaskatts og annars sem nefnt er í skýrslu tekjustofnanefndar. Þá er bent á í umsögn Reykjavíkurborgar að mikilvægt sé að hraðað verði heildarendurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga. Auk þess kemur fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga að endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga sé aðkallandi verkefni enda sé fjárhagsleg sjálfbærni sveitarstjórnarstigsins ein helsta forsenda þess að það fái þrifist hér á landi.
    Nefndin undirstrikar mikilvægi þess að ráðist verði í endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga. Þá tekur nefndin undir það sem fram kom við umfjöllun málsins að slík endurskoðun sé grundvallaratriði þegar kemur að rekstri og fjárhagslegri sjálfbærni þeirra.

Endurskoðun regluverks um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
    Fimmta aðgerð tillögunnar miðar að því að endurskoða lagaumhverfi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Starfsemi sjóðsins hafi aukist jafnt og þétt undanfarin ár og þá hafi einnig orðið verulegar breytingar á starfsemi sjóðsins.
    Við umfjöllun um málið fyrir nefndinni komu fram sjónarmið þess efnis að brýnt sé að fylgja eftir boðuðum breytingum á regluverki jöfnunarsjóðs og lögðu umsagnaraðilar áherslu á að þessi aðgerð nái fram að ganga. Þá kom fram við umfjöllun nefndarinnar að mikilvægt sé að sjóðurinn sinni raunverulega því hlutverki að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum, en aðstæður sveitarfélaga séu afar ólíkar og koma þurfi til móts við þær.
    Nefndin bendir á að fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga (478. mál), og hefur umhverfis- og samgöngunefnd málið til umfjöllunar. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að því sé ætlað að ná fram þeim markmiðum sem fram koma í þingsályktun um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023 sem samþykkt var á 150. löggjafarþingi.

Þjónusta við fatlað fólk.
    Fimmtánda aðgerð aðgerðaáætlunarinnar miðar að því að ábyrgð, hlutverk, fjármögnun og skipulag í samstarfi sveitarfélaga og ríkis í þjónustu við fatlað fólk verði afmarkað með skýrari hætti. Verði m.a. tekið mið af því að samkvæmt samkomulagi ríkis og sveitarfélaga færist ábyrgð á notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA) og þróun hennar til sveitarfélaga árið 2025. Fram kemur í greinargerð með tillögu þeirri sem hér er til umfjöllunar að tímabært sé að endurskilgreina hlutverk ríkis og sveitarfélaga, en nauðsynlegt sé að sveitarfélögum sé gert kleift að sinna lögbundinni þjónustu sinni við þennan hóp með sóma.
    Hinn 1. janúar 2011 tóku gildi breytingar á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra. Með því færðust málefni fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga, en í 4. gr. laga nr. 152/2010, um breytingu á lögum nr. 59/1992, var m.a. gert ráð fyrir því að sveitarfélög beri ábyrgð á framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar, sem og kostnaði vegna hennar samkvæmt lögunum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum.
    Í umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar kemur fram að samtökin telji mikilvægt að þær aðgerðir sem finna megi í tillögu þeirri sem hér er til umfjöllunar taki fullt tillit til stefnu í landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Einnig árétta samtökin efasemdir sem þau hafa haft um að falla frá kröfu í lögum um lágmarksfjölda fólks á hverju þjónustusvæði fyrir fatlað fólk. Benda samtökin m.a. á að vandséð sé að fámenn sveitarfélög hafi burði til þess að bjóða upp á þá þjónustu sem þeim er skylt að sinna samkvæmt lögum. Í umsögn Reykjavíkurborgar kemur fram að tryggja verði fulla fjármögnun á þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk. Þá kemur fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga að nauðsynlegt sé að sátt náist um fjármögnun á þjónustu við fatlað fólk svo að þessi aðgerð nái fram að ganga.
    Nefndin tekur undir það, sem fram kom við umfjöllun málsins og kemur fram í áætluninni, að langvarandi umræður um kostnaðarskiptingu séu líklegar til þess að koma niður á þjónustu ásamt því að valda vanlíðan meðal fatlaðs fólks. Mikilvægt sé að sátt náist um málaflokkinn og að komist verði að samkomulagi um fjármögnun þjónustunnar.

Búsetufrelsi.
    Ellefta aðgerð tillögunnar snýr að búsetufrelsi. Verkefnismarkmið aðgerðarinnar miðar að því að áskoranir búsetufrelsis verði greindar út frá gildandi lögum. Skoðað verði sérstaklega hvort ástæða sé til breytinga á gildandi lögum um lögheimili og aðsetur í tengslum við búsetufrelsi og að unnið verði út frá þeirri meginreglu að skipulag sveitarfélaga ráði því hvar heimilt sé að skrá lögheimili og einnig hvar sveitarfélögum sé skylt að veita þjónustu við íbúa.
    Ábyrgð og framkvæmd skipulagsmála hvílir fyrst og fremst á herðum sveitarfélaga. Eitt af þeim lögbundnu hlutverkum sem sveitarfélög hafa er gerð skipulagsáætlana og útgáfa framkvæmdaleyfa, en auk þess hafa sveitarfélög eftirlit með framkvæmd áætlana.
    Í þeim umsögnum sem bárust nefndinni og við umfjöllun málsins komu fram sjónarmið um að sama orðalag verði tekið upp í tillöguna varðandi skýringu á hugtakinu búsetufrelsi og notað er í drögum að hvítbók um skipulagsmál, þ.e. að skýrt verði tekið fram að með búsetufrelsi sé ekki opnað fyrir að fólk geti valið sér búsetu utan þeirra svæða sem sveitarfélög skipuleggja fyrir íbúðarbyggð. Í umsögn Eyjafjarðarsveitar kemur fram að fjármunir þurfi að fylgja ef sambærileg þjónusta og skilyrði skal vera óháð því hvar fólk velur að búa. Í því samhengi er snjómokstur nefndur ásamt því að heilbrigðisþjónusta sé vanfjármögnuð og búsetuúrræði af skornum skammti. Geti það haft í för með sér að eldri borgarar einangrist. Mikilvægt sé að ganga út frá því að sveitarfélög hafi sveigjanleika til að ákveða þjónustustig á mismunandi svæðum út frá aðstæðum á hverjum stað. Fram kemur í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga að nokkur umræða hafi skapast um hvað felist í hugtakinu og hvaða þýðingu það hafi fyrir þjónustu við íbúa sveitarfélaga, sér í lagi í tengslum við aukna búsetu fólks í frístundabyggð, í atvinnuhúsnæði eða á tjaldsvæðum. Mikilvægt sé að stjórnvöld hafi sameiginlegan skilning á hugtakinu. Sambandið leggur sérstaka áherslu á að skoðað verði hvort þörf sé á lagabreytingu í þessum efnum og unnið út frá þeirri meginreglu að skipulag sveitarfélaga ráði því hvar heimilt sé að skrá lögheimili og hvar sveitarfélögum sé skylt að veita þjónustu við íbúa.
    Nefndin fagnar því að ráðuneytið hyggist skoða möguleika á auknu búsetufrelsi íbúa sveitarfélaga. Það er hins vegar grundvallaratriði að slíkar breytingar skerði ekki sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga, sbr. 78. gr. stjórnarskrárinnar, eða taki völdin af sveitarfélögum í skipulagsmálum þar sem þau hafa lögbundið hlutverk. Auk þess undirstrikar nefndin að huga þarf að því að breytingar á lögum um lögheimili, sem tillagan miðar að, verði ekki til þess fallnar að takmarka fjárhagslega burði sveitarfélaga til þess að sinna þeim verkefnum sem þeim eru falin að lögum. Við þá vinnu er nauðsynlegt að gott samráð fari fram við sveitarfélög um allt land enda er staða þeirra ólík, bæði landfræðilega og fjárhagslega. Auk þess bendir nefndin á að í sumum tilfellum er lögheimilisskráning grundvöllur tiltekinna réttinda, svo sem réttar til niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar hjá þeim íbúum sem eiga ekki kost á fullri hitun með jarðvarma því að þeir búa á svokölluðum köldum svæðum.

Tækniþróun og stafræn umbreyting.
    Sextánda aðgerð tillögunnar felur í sér heildstæða stefnumörkun um stafræna umbreytingu sveitarfélaga og samstarf sveitarfélaga við ríkið til að ná þeim markmiðum.
    Við umfjöllun um málið kom m.a. fram að tækniþróun og stafræn umbreyting stjórnsýslu sveitarfélaga sé nýtt í margvíslegum tilgangi. Sveitarfélög geti til að mynda nýtt tæknina til að þjónusta íbúa, sem getur í mörgum tilvikum aukið gæði þeirrar þjónustu sem veitt er. Auk þess hafi þessi þáttur sterk tengsl við búsetufrelsi innan sveitarfélaga enda geti stafræn umbreyting leitt til þess að þjónusta sé aðgengileg öllum íbúum óháð búsetu. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga komu fram sjónarmið um að afar brýnt sé að bæði ríki og sveitarfélög vinni saman að heildstæðri stefnu um stafræna umbreytingu. Að öðrum kosti sé hætta á að stafræn umbreyting sveitarfélaga verði ekki nægilega skilvirk og samlegðartækifæri fari forgörðum. Sambandið myndi því kjósa að aðgerðin yrði útvíkkuð þannig að um sameiginlega stefnu ríkis og sveitarfélaga væri að ræða og að ábyrgð á framfylgd hennar yrði bæði hjá sambandinu og viðkomandi ráðuneytum.
    Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram hafa komið við meðferð málsins og undirstrikar mikilvægi stafrænnar þróunar innan sveitarfélaga. Áherslur af þessu tagi liggja þvert á þær aðgerðir sem á að ráðast í á grundvelli áætlunarinnar, svo sem að auka búsetufrelsi og sinna fjölbreyttari þjónustu við íbúa.

Breytingartillögur nefndarinnar.
    Nefndin leggur til þrjár efnislegar breytingar við tillöguna. Í forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, kemur fram að forsætisráðuneyti fari með mál er varða sérstök áherslumál á sviði samhæfingar, þar á meðal sjálfbæra þróun, sbr. c-lið 8. tölul. 1. mgr. 1. gr. Með hliðsjón af því og yfirstandandi stefnumótun í forsætisráðuneyti á sviði sjálfbærni er talið rétt að ráðuneytið taki þátt í samvinnu um skilgreiningu sjálfbærniviðmiða í starfsemi sveitarfélaga. Leggur nefndin því til breytingu þess efnis við fyrstu aðgerð aðgerðaáætlunarinnar.
    Í forsetaúrskurði kemur fram að innviðaráðuneyti fari með sveitarstjórnarmál, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 7. gr., og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti náttúruvernd og sjálfbæra þróun, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 11. gr. Frá upphafi hefur verið ljóst að ráðuneytin myndu eiga með sér náið samráð um markvissari aðgerðir á sviði umhverfis- og loftslagsmála innan sveitarfélaga. Í ljósi gagnaöflunar umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis innan sveitarfélaga í tengslum við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum leggur nefndin til að ábyrgð á sjöundu aðgerð aðgerðaáætlunarinnar verði á hendi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis í samstarfi við innviðaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Þá leggur nefndin til tæknilegar breytingar sem ekki er ætlað að hafa efnisleg áhrif. Lögð er til orðalagsbreyting í I. kafla. Auk þess eru lagðar til breytingar á tímabili þeirra aðgerða sem ætlunin er að ráðast í á grundvelli aðgerðaáætlunarinnar, en áætlunin er tímasett frá árinu 2024 og þykir því eðlilegt að einstakar aðgerðir séu ekki tímasettar fyrr. Því er lagt til að þær aðgerðir sem voru tímasettar frá árinu 2023 verði tímasettar frá árinu 2024. Þá leggur nefndin til nokkrar breytingar sem eru tæknilegs eðlis og þarfnast ekki skýringa.

    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

     1.      Í stað „Sjálfbærar byggðir og sveitarfélög um allt land“ í I. kafla komi: Byggðir og sveitarfélög um allt land verði sjálfbær.
     2.      Við liðinn Samstarfsaðilar í 1. aðgerð bætist: og forsætisráðuneyti.
     3.      Í stað „2023–2025“ í liðnum Tímabil í 2. aðgerð aðgerðaáætlunarinnar komi: 2024– 2025.
     4.      Í stað „2023–2024“ í liðnum Tímabil í 3. aðgerð aðgerðaáætlunarinnar komi: 2024.
     5.      Í stað „2023–2024“ í liðnum Tímabil í 4. aðgerð aðgerðaáætlunarinnar komi: 2024.
     6.      Í stað „2023–2024“ í liðnum Tímabil í 5. aðgerð aðgerðaáætlunarinnar komi: 2024.
     7.      Við 6. aðgerð.
                  a.      Í stað „viðeigandi“ í liðnum Samstarfsaðilar komi: hlutaðeigandi.
                  b.      Í stað „2023–2024“ í liðnum Tímabil komi: 2024.
     8.      Við 7. aðgerð.
                  a.      Í stað „Innviðaráðuneyti“ í liðnum Ábyrgð komi: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
                  b.      Í stað „Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti“ í liðnum Samstarfsaðilar komi: Innviðaráðuneyti.
     9.      Í stað „2023–2028“ í 8. aðgerð aðgerðaáætlunarinnar komi: 2024–2028.
     10.      Í stað „2023–2024“ í 11. aðgerð aðgerðaáætlunarinnar komi: 2024.
     11.      Í stað „2023–2024“ í 12. aðgerð aðgerðaáætlunarinnar komi: 2024.
     12.      Í stað „viðeigandi“ í liðnum Samstarfsaðilar í 13. aðgerð aðgerðaáætlunarinnar komi: hlutaðeigandi.
     13.      Í stað „Iðan“ í liðnum Samstarfsaðilar í 14. aðgerð aðgerðaáætlunarinnar komi: IÐAN.
     14.      Við 16. aðgerð.
                  a.      Í stað „viðeigandi“ í liðnum Samstarfsaðilar komi: hlutaðeigandi.
                  b.      Í stað „2023–2024“ í liðnum Tímabil komi: 2024.
     15.      Í stað „viðeigandi“ í liðnum Samstarfsaðilar í 17. aðgerð aðgerðaáætlunarinnar komi: hlutaðeigandi.

    Orri Páll Jóhannsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.
    Þórunn Sveinbjarnardóttir og Andrés Ingi Jónsson skrifa undir álitið með fyrirvara um fjármögnun áætlunarinnar og óljósa notkun hugtaksins búsetufrelsi. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar undir álitið með fyrirvara um fjármögnun verkefna.

Alþingi, 24. nóvember 2023.

Bjarni Jónsson,
form.
Halla Signý Kristjánsdóttir, frsm. Andrés Ingi Jónsson,
með fyrirvara.
Ingibjörg Isaksen. Njáll Trausti Friðbertsson. Vilhjálmur Árnason.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir,
með fyrirvara.
Þórunn Sveinbjarnardóttir,
með fyrirvara.
Orri Páll Jóhannsson.