Ferill 474. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 692  —  474. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Berglindi Hörpu Svavarsdóttur um liðskiptaaðgerðir.


     1.      Hver hefur þróunin verið á fjölda á biðlista eftir liðskiptaaðgerð á síðustu fimm árum?
    Fjöldi þeirra sem biðu eftir liðskiptaaðgerð á mjöðm fór lækkandi frá árinu 2018 til 2020 en jókst svo til ársins 2022 sökum heimsfaraldurs. Síðan þá hefur þeim farið fækkandi sem bíða eftir aðgerð á mjöðm. Varðandi þá sem bíða eftir liðskiptaaðgerð á hné fjölgaði þeim til ársins 2022 en á síðasta ári fækkaði þeim örlítið. Fleiri beiðnir um aðgerðir berast nú til þjónustuveitenda en fyrir nokkrum árum og fleiri aðgerðir eru gerðar nú en áður. Á vef embættis landlæknis má finna mælaborð sem sýnir fjölda liðskiptaaðgerða á mjöðm og hné og mælaborð sem sýnir fjölda á bið eftir völdum skurðaðgerðum. Mælaborð um bið eftir völdum skurðaðgerðum er uppfært tvisvar á ári en mælaborð um liðskiptaaðgerðir er uppfært mánaðarlega.

     2.      Hver er heildarfjöldi þeirra sem eru nú á biðlista eftir liðskiptaaðgerð hér á landi?
    Hinn 1. nóvember 2023 biðu 1.271 eftir liðskiptum í hné en 573 eftir liðskiptaaðgerð á mjöðm. Því til viðbótar eru 63 einstaklingar í bið eftir liðskiptaaðgerð á öxl á Landspítala.

     3.      Hve margar liðskiptaaðgerðir hafa verið framkvæmdar í kjölfar samnings um 700 liðskiptaaðgerðir sem gerður var á milli Sjúkratrygginga Íslands og einkarekinna heilbrigðisfyrirtækja hér á landi í lok mars 2023?
    Auk 700 aðgerða sem upphaflega var samið um var 145 liðskiptaaðgerðum bætt við samninga á árinu 2023. Sjúkratryggingar Íslands áætla að alls verði framkvæmdar um 664 aðgerðir á árinu. Þannig stefnir í að lokið verði 79% af umsömdum aðgerðum sem er 95% miðað við upphaflega áætlun upp á 700 aðgerðir.

     4.      Telur ráðherra að samningsgerð við einkarekin heilbrigðisfyrirtæki sé mikilvæg stefna til framtíðar til að stytta biðlista eftir liðskiptaaðgerðum?
    Heilbrigðisþjónustan er að stærstum hluta veitt af opinberum stofnunum samkvæmt því skipulagi sem lög um heilbrigðisþjónustu kveða á um en umtalsverður hluti þjónustunnar er þó á hendi sjálfstætt starfandi þjónustuveitenda. Meginreglan er að ríkið, sem kaupandi heilbrigðisþjónustu, skuli hafa frumkvæði að því að ákveða hvaða þjónusta er keypt, í hvaða magni og hvaða kröfur eru gerðar um árangur og gæði. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru þau sjónarmið höfð að leiðarljósi að í ákveðnum greinum sé þjóðhagslega hagkvæmt að skapa umhverfi sem býður upp á fjölbreytni í fjármögnun þjónustu og veitingu hennar meðal aðila, óháð rekstrarformi.
    Samningagerð við sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtæki um tiltekna þjónustu sem veitt er í opinbera kerfinu er hluti af þeirri þróun að tryggja rétta þjónustu á réttum stað. Með samningum tryggjum við aðgengi að tímalegu og jöfnu aðgengi að heilbrigðisþjónustu og þeir gera okkur betur kleift að skipuleggja heilbrigðisþjónustuna í landinu heildstætt. Þannig aukum við skilvirkni í heild innan okkar blandaða heilbrigðiskerfis og mætum þannig betur þörfum samfélagsins fyrir þjónustu.
    Á síðustu árum hefur mikil framþróun orðið í framkvæmd liðskiptaaðgerða á þann hátt að í sumum tilfellum er ekki talin þörf á að aðgerðin sé gerð á þriðja stigi heilbrigðisþjónustu eins og áður var talið þurfa. Árið 2023 var veitt fjármagn til samningagerðar við sjálfstætt starfandi þjónustuaðila um liðskiptaaðgerðir sem hefðu það markmið að stytta bið eftir aðgerð og létta á biðlistum sjúkrahúsa eftir liðskiptaaðgerðum. Sú viðbót hefur sýnt að með henni eigum við nú möguleika á að ná markmiðum um æskilegan aðgerðafjölda fyrir landið allt.

     5.      Hver er munurinn á kostnaði við liðskiptaaðgerðir eftir því hvort þjónustan er veitt af Landspítala eða af einkareknum heilbrigðisfyrirtækjum hér á landi samkvæmt síðasta útboði?

    Kostnaður við aðgerð og leguna alla er mismunandi milli sjúklinga hjá öllum þjónustuveitendum. Því er í samningum um liðskiptaaðgerðir samið um ákveðið meðaltalsverð sem er ætlað að endurspegla kostnaðinn sem liggur að baki hjá hverjum og einum.
    Fyrir aðgerð á Landspítala eru greiddar samkvæmt gildandi DRG-samningi 1.915.546 kr. fyrir liðskiptaaðgerð á mjöðm (frumaðgerð án aukakvilla) og 1.986.614 kr. fyrir liðskiptaaðgerð á hné (frumaðgerð án aukakvilla). Verðið byggir á kostnaðarmati norskra samanburðarsjúkrahúsa sem liggur til grundvallar verðlagningu fyrir aðgerðir sem gerðar eru á íslenskum sérgreinasjúkrahúsum. Fyrir aðgerð í Klíníkinni eru greiddar 1.215.000 kr., hvort sem er fyrir liðskiptaaðgerð á mjöðm eða hné. Fyrir aðgerð í Orkuhúsinu eru greiddar 1.200.000 kr. og hjá Cosan 1.070.000 kr. Verðlagningin byggir á niðurstöðu útboðs sem fram fór í mars og var undanfari samninga við þjónustuveitendur um framkvæmd liðskiptaaðgerða á árinu 2023.
    Verðmunurinn skýrist fyrst og fremst af því að Landspítali er þriðja stigs faggreinasjúkrahús með uppsett afl til að standa undir fjölbreyttri þjónustu á nóttu sem degi allan ársins hring. Rekstrarkostnaður aðgerðastofu sem sinnir afmarkaðri þjónustu á dagvinnutíma á virkum dögum er því töluvert lægri en á sjúkrahúsi. Almennt séð eru það því veikari sjúklingar (með meiri sjúkdómsbyrði) sem veljast til aðgerða á Landspítala frekar en á aðgerðastofu.