Ferill 200. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 700  —  200. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um áhrif verðbólgu á námslán.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða áhrif hefur verðbólgu- og vaxtahækkun undanfarinna tveggja ára haft á skuldir námsmanna hjá Menntasjóði námsmanna?
     2.      Til hvaða mótvægisaðgerða hyggst ráðherra grípa til stuðnings þessum hópi?


    Hækkun námslána vegna verðlagsbreytinga síðustu tveggja ára nemur 11,3 milljörðum kr. á árinu 2021 og 21,9 milljörðum kr. á árinu 2022. Þetta þýðir að meðalskuld námslánaskuldabréfa hafi hækkað annars vegar um 150 þús. kr. á árinu 2021 og hins vegar um 350 þús. kr. á árinu 2022.
    Lánþegar sem tóku námslán samkvæmt eldri lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, greiða af þeim miðað við ákveðna prósentu tekna ársins á undan. Það geta einnig greiðendur námslána sem taka námslán samkvæmt núgildandi lögum um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020, séu þeir undir 40 ára aldri þegar námi lýkur.
    Mismunandi afborgunarkjör námslána eftir lánaflokkum eru sýnd í eftirfarandi töflu.

Veitt Endurgreiðsluími Gjalddagar Verðtryggt Vextir Hlutfall tekna
V-lán 1976–1982 20 ár 1. júlí og 1. nóv. X 0,0% 4,4%
S-lán 1982–1992 40 ár 1. mars og 1. sept. X 0,0% 3,4%
R-lán 1992–2005 Óákveðið 1. mars og 1. sept. X 0,4% 3,4%
G-lán 2005– Óákveðið 1. mars og 1. sept. X 0,4% 3,4%
H-lán 2020– Breytilegt Gjalddagi 1. hvers mánaðar X Breytilegir* Val um endurgreiðslur**
*    Vextir miðast við sömu kjör og ríkissjóði bjóðast á hverjum tíma hjá SÍ að viðbættu vaxtaálagi. Þó er þak á vöxtum þeirra sem velja verðtryggt lán 4% og 9% á óverðtryggðum lánum.
**     Námsmenn sem hefja greiðslur fyrir 40 ára aldur (35 ára aldur hefji námsmaður nám eftir 2023) geta valið um að endurgreiða námslán sín sem tekjutengd námslán (verðtryggð eða óverðtryggð) eða sem jafngreiðslulán (verðtryggð eða óverðtryggð). Þeir sem eru eldri en 40 ára þegar greiðslur hefjast hafa einungis val um jafngreiðslulán (verðtyggt eða óverðtryggt).

    Eins og fram kemur í töflunni eru afborganir námslána í öllum eldri lánaflokkum (V-, S-, R- og G-lána) tekjutengdar, þ.e. heildarupphæð afborgunar tekur mið af tekjum ársins á undan. Tekjurnar eru uppreiknaðar með ársbreytingu á vísitölu neysluverðs sem og endurgreiðsluhlutfalli. Föst afborgun sem greidd er 1. mars ár hvert kemur til frádráttar á upphæð tekjutengdrar afborgunar sem greidd er 1. september ár hvert.
    Undantekning á þessu eru þeir lánþegar sem fá lán samkvæmt nýjum lögum (H-lán) og velja eða geta ekki valið vegna aldurs annað en að endurgreiða námslán sín sem jafngreiðslulán. Afborganir þeirra lána taka mið af upphæð láns við námslok sem og aldri lántaka þar sem greiða skal upp lánið fyrir 66 ára aldur. Áhrif verðbólgu og vaxta hefur áhrif á árlega upphæð endurgreiðslu þeirra sem endurgreiða námslán sem jafngreiðslulán.
    Fyrir þau lán sem veitt voru samkvæmt eldri lögum (lánaflokkar V-, S-, R- og G-lán) og greiðendur H-lána sem endurgreiða lánin sem tekjutengd lán þá hefur verðbólga og hækkun höfuðstóls námsláns vegna hennar engin áhrif á upphæð afborgunar. Þetta þýðir að greiðslubyrði lántaka breytist ekki með breytingum á verðbólgu. Upphæð afborgunar fylgir breytingum á launum lánþega til hækkunar eða lækkunar. Hækkun verðbólgu hefur hins vegar áhrif á fjölda endurgreiðsluára greiðanda, þ.e. hversu langan tíma það tekur að greiða upp námslánið, og jafnframt hefur hún áhrif á væntar hærri afskriftir sjóðsins þar sem námslán falla niður við andlát.
    Eins og sést á framangreindri umfjöllun og það að verðbólga hefur ekki áhrif á afborganir stærsta hluta lánþega, þ.e. greiðslubyrði þessara lántaka helst óbreytt þrátt fyrir hækkun verðbólgu vegna afborgunarskilmála námslánanna, er það mat ráðherra að ekki sé tilefni til að grípa til sérstakra aðgerða fyrir þennan hóp greiðenda námslána að svo stöddu. Í skýrslu um endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna, sem verður lögð fyrir Alþingi á haustþingi 154. löggjafarþings, verður gerð nánar grein fyrir málefnum sem tengjast fyrirspurninni.