Ferill 564. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 703  —  564. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um tilfærslu dýraeftirlits frá Matvælastofnun til sjálfstæðs dýravelferðarsviðs.


Flm.: Valgerður Árnadóttir, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Gísli Rafn Ólafsson, Greta Ósk Óskarsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Lenya Rún Taha Karim.


    Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra að undirbúa tilfærslu eftirlits með velferð dýra frá Matvælastofnun til sjálfstæðs dýravelferðarsviðs. Samhliða verði hugað að eftirfarandi aðgerðum til að tryggja dýravelferð:
     a.      Embætti yfirdýralæknis verði eflt þannig að það geti unnið sjálfstætt að eftirliti, fræðslu, gagnaöflun og faglegri stjórnsýslu varðandi dýravelferð.
     b.      Stjórnsýsla dýravelferðar verði óháð stjórnsýslu matvælaöryggis.
     c.      Valdheimildir til að sinna velferð dýra og til að grípa inn í þar sem er brýn nauðsyn verði auknar.
     d.      Úrræði til að bjarga dýrum úr slæmum aðstæðum verði tryggð með fjármagni til að halda úti dýraathvörfum með aðkomu hlutaðeigandi sveitarfélaga.
    Matvælaráðherra hafi í framangreindu skyni samráð við helstu hagsmunasamtök og fagaðila í greininni og leggi eigi síðar en á 155. löggjafarþingi fyrir Alþingi lagafrumvörp til að stuðla að nauðsynlegum breytingum á sviði dýravelferðar í samræmi við ályktun þessa.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður lögð fram á 153. löggjafarþingi (31. mál) og er nú endurflutt svo til óbreytt.
    Undanfarið hafa komið upp mörg dæmi sem sýna að ekki er hugað nægilega vel að velferð dýra sem haldin eru eða veidd hér á landi. Þar má einna helst nefna erfið mál sem hafa komið upp við blóðmerahald og hvalveiðar þar sem gögn sýna að dýrin hafa þjáðst að óþörfu. Það er ljóst að eftirliti er verulega ábótavant og valdheimildir til að grípa inn í, þar sem er brýn nauðsyn, ekki nægjanlega sterkar. Eftirlit og úrskurðarvald eru á sömu hendi í málaflokknum sem dregur úr nauðsynlegu aðhaldi.
    Þá fara hagsmunir í matvælamálum og dýravernd ekki alltaf saman og skapast hættulegt ójafnvægi þegar annar málaflokkurinn er látinn vega þyngra en hinn. Með tillögu þessari er lagt til að eftirlit með velferð dýra verði fært til sjálfstæðs dýravelferðarsviðs sem getur sinnt yfirumsjón og samræmingu á meðan Matvælastofnun eða annar aðili sér um eftirlit og gagnasöfnun. Nauðsynlegt er að stórefla hlut dýraverndar í stjórnsýslunni. Jafnframt þarf að auka valdheimildir stjórnsýsluaðila til að taka á erfiðum dýravanrækslumálum án tafar. Rétt er að athuga hvort færa þurfi embætti yfirdýralæknis að fullu til annars ráðuneytis í því skyni að tryggja að embættinu sé skylt og kleift að sinna öllum dýravelferðarmálum jafnt, hvort sem um er að ræða villt dýr, húsdýr eða gæludýr.
    Ríkisendurskoðun gerði nýlega úttekt um eftirlit Matvælastofnunar með velferð búfjár og komu fram fjölmargar athugasemdir við starfsemi Matvælastofnunar og tillögur að úrbótum. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í haust má m.a. lesa eftirfarandi: „Í skýrslunni eru lagðar fram sjö ábendingar til Matvælastofnunar sem snúa að því að stofnunin leggi meiri áherslu á að dýr njóti vafans með hliðsjón af markmiðum laga um velferð dýra, þrói frekar verklag um áhættu- og frammistöðumat, efli gæðastjórnunarkerfi, endurskoði gerð eftirlitsáætlana, tryggi betri yfirsýn með vöktun frávika, bæti ímynd sína og efli lögbundið samráð og samstarf við hagaðila. Sex ábendingum er beint til matvælaráðuneytis. Þær snúa að því að skýra þurfi stefnu um samræmi við erlendar kröfur, endurmeta þurfi kröfur um tilkynningarskylt dýrahald og endurskoða þurfi ábyrgð á skipan yfirdýralæknis, starfsemi og hlutverk fagráðs um velferð dýra, aðkomu ráðuneytisins að innri úttektum og gjaldskrá MAST.“
    Flutningsmenn tillögunnar eru efnislega sammála þeirri gagnrýni sem Ríkisendurskoðun viðhefur en telja Matvælastofnun ekki hæfa til að bæta nógsamlega úr. Í ljósi sögunnar og fyrri úttekta og gagnrýni á störf MAST sem ekki leiddu til úrbóta er nauðsynlegt til að uppfylla lög um velferð dýra að færa ábyrgð á eftirliti og eftirfylgni þeirra laga frá MAST til sjálfstæðrar eftirlitsstofnunar.