Ferill 492. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 704  —  492. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Kristrúnu Frostadóttur um endurskoðun á bakvaktafyrirkomulagi ljósmæðra.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er staðan á viðræðum við Ljósmæðrafélag Íslands um endurskoðun á bakvöktum og bakvaktafyrirkomulagi sem frestað var þegar samkomulag var gert um framlengingu á kjarasamningi Ljósmæðrafélags Íslands og íslenska ríkisins 14. apríl sl. en samkvæmt bókun með samkomulaginu átti vinna við endurskoðun að hefjast 17. apríl sl. og ljúka 31. janúar 2024?
     2.      Hver er staðan á viðræðum við Ljósmæðrafélag Íslands um endurskoðun annarra sérmála sem sett voru í verkáætlun í samkomulagi sem gert var um framlengingu á kjarasamningi Ljósmæðrafélags Íslands og íslenska ríkisins 14. apríl sl.?


    Verkáætlanir varðandi slíkar viðræður eru tvískiptar, annars vegar fara þær fram á bandalagsgrundvelli og hins vegar snúa þær að sérmálum stéttarfélaga.
    Meðal atriða í viðræðuáætlun á bandalagsgrundvelli er skoðun á fyrirkomulagi bakvakta. Samtal um slík mál fara fram við bandalög en ekki einstök stéttarfélög. Vegna anna við önnur verkefni, þar á meðal áfangasamkomulag um jöfnun launa milli markaða, er umræða um bakvaktir ekki hafin. Á hinn bóginn hefur kjara- og mannauðssýsla ríkisins verið í virku samtali vegna þeirra sérmála sem Ljósmæðrafélagið óskaði eftir að sett yrðu inn í viðræðuáætlunina en þau eru:
     1.    Hvíldartímalöggjöf og hvíldartímaákvæði kjarasamninga skulu höfð til hliðsjónar við skipulag vinnu, kafli 2.4. Kallað hefur verið eftir gögnum frá öllum heilbrigðisstofnunum og unnið er að því að greina frávik á hvíldartíma. Einnig verður yfirvinna ljósmæðra greind yfir sumarmánuðina júní til ágúst á árunum 2022 og 2023, enda getur mikil yfirvinna orðið til þess að ekki næst að virða ákvæði um lögbundna lágmarkshvíld.
     2.    Mat á verkefnum og skyldum ljósmæðra og röðun þeirra til launa í stofnanasamningum, gr. 1.2.1 og 11.3.1. Stofnanasamningar eru ekki á forræði samninganefndar ríkisins, heldur stofnananna sjálfra í samræmi við fjárheimildir sem þær hafa í fjárlögum. Engu að síður hefur Kjara- og mannauðssýsla ríkisins verið í sambandi við hlutaðeigandi stofnanir og reynt eftir atvikum að liðka fyrir gerð stofnanasamnings.