Ferill 565. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 713  —  565. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um viðhald fagþekkingar á hefðbundnu og fornu handverki.


Flm.: Birgir Þórarinsson, Ásmundur Friðriksson, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Jón Gunnarsson, Óli Björn Kárason, Teitur Björn Einarsson, Þórarinn Ingi Pétursson, Jódís Skúladóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og barnamálaráðherra í samráði við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, menningar- og viðskiptaráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að móta og hrinda í framkvæmd áætlun um viðhald fagþekkingar á hefðbundnu og fornu handverki fyrir lok árs 2024.

Greinargerð.

    Nauðsynlegt er að móta og hrinda í framkvæmd áætlun um viðhald fagþekkingar á hefðbundnu og fornu handverki á Íslandi. Hætt er við því að sú þekking, sem oft hvílir á herðum örfárra einstaklinga, glatist með tímanum. Gera þarf átak í handverksmenntun einstaklinga og fjölgun viðhaldsverkefna á menningarminjum.
    Friðlýst hús og mannvirki eru nú 557 að tölu og friðuð hús, sem bera fastanúmer, eru 4.124. Með lögum nr. 126/2022, er breyttu lögum nr. 80/2012, um menningarminjar, var umsagnarskylda húsa færð til ársins 1940 og eru þau hús sem falla undir lög um menningarminjar þá um 13.000 talsins. Aftur á móti ríkir óvissa um heildarfjölda friðaðra og umsagnarskyldra mannvirkja þar sem þau bera ekki öll fastanúmer. Tilgangur laga um menningarminjar skv. 1. mgr. 1. gr. laganna er að stuðla að verndun menningarminja og tryggja að íslenskum menningararfi verði skilað óspilltum til komandi kynslóða. Nauðsynlegt er því að tryggja að þekking á viðhaldi þessara húsa og mannvirkja glatist ekki.
    Húsasafn Þjóðminjasafns Íslands er kjarni safnkostsins á landsbyggðinni. Húsasafnið veitir innsýn í húsakost þjóðarinnar á fyrri tíð og þróun húsagerðar. Meðal húsa safnsins eru allir stærstu og merkustu torfbæir landsins og flestar torfkirkjur sem eru í upprunalegri gerð. Í húsasafninu er stærsta safn torfhúsa sem til er í heiminum. Þá sérhæfðu handverksþekkingu í hleðslu torfveggja og byggingu torfhúsa sem varðveist hefur á Íslandi er ekki að finna í nálægum löndum. Því hefur hún gildi á heimsvísu sem óáþreifanlegur menningararfur og það er á ábyrgð Íslendinga að hún glatist ekki.
    Lögð var fram þingsályktunartillaga á yfirstandandi löggjafarþingi (þskj. 120, 120. mál) um verndun og varðveislu skipa og báta sem eru hluti af alþýðumenningu og atvinnusögu Íslendinga. Um er að ræða ómetanleg menningarverðmæti sem varða sjávarútveg og sjósókn Íslendinga. Mikilvægt er að varðveita handverksþekkingu á viðhaldi og smíði tréskipa og báta en skv. 2. mgr. 3. gr. laga um menningarminjar teljast skip og bátar frá því fyrir 1950 til forngripa. Grundvöllur verndunar þessara menningarminja er viðhald handverksþekkingar.
    Árið 2006 varð Ísland aðili að samningi UNESCO um varðveislu menningarerfða. Tilgangur þess samnings er m.a. að varðveita menningarerfðir og tryggja að menningarerfðir viðkomandi samfélaga, hópa og einstaklinga séu virtar. Samkvæmt samningnum er færni sem samfélög telja hluta af menningararfleifð sinni skilgreind sem menningarerfðir. Þá kemur fram að menningarerfðir í þeim skilningi feli m.a. í sér hefðbundna verkkunnáttu. Tillaga Íslands og annarra norrænna ríkja um að smíði og notkun súðbyrðinga færi á skrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf heimsins var samþykkt í París árið 2021. Jafnframt er handverk við torfhleðslu, torfskurð og -stungu á samningsbundinni yfirlitsskrá Íslands um óáþreifanlegan menningararf.
    Hlutverk aðildarríkja þessa samnings er að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja varðveislu menningarerfða á yfirráðasvæði sínu í þeim tilgangi að móta heildarstefnu sem miðar að því að efla menningarerfðir í þjóðfélaginu. Einnig skulu aðildarríki samþykkja viðeigandi ráðstafanir sem stuðli að viðhaldi menningarerfða og miðlun þeirra. Öll aðildarríki skulu tryggja að menningarerfðir öðlist viðurkenningu og hljóti sinn sess í þjóðfélaginu, einkum með eflingu fagþekkingar í því skyni að varðveita menningarerfðir.
    Minjastofnun Íslands birti nýverið stefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda um vernd og rannsóknir á fornleifum og byggingararfi, í samræmi við a-lið 8. gr., a-lið 9. gr. og b-lið 11. gr. laga um menningarminjar, nr. 80/2012. Í þeirri stefnu kemur fram að mikilvægt sé að styðja við fagþekkingu á hverjum tíma og gæta þess að þekking á fornu handverki sem tengist viðhaldi fornleifa, byggingararfs og báta glatist ekki og sé miðlað áfram til komandi kynslóða. Þessi handverksþekking verði að vera til staðar í landinu svo að hægt sé að halda við menningararfi sem undir málaflokkinn heyrir. Einnig þurfi að efla þekkingu á smíðatólum og byggingarefnum fyrri tíma. Lögð er áhersla á nauðsyn þess að stuðla að stöðugri nýliðun og miðlun þekkingar milli kynslóða ásamt því að fjölga viðhaldsverkefnum. Varðveisla verkþekkingar er mikilvæg á fleiri sviðum byggingararfsins, svo sem í viðgerðum á eldri timburhúsum og við meðhöndlun bárujárns, sem fæstir iðnnemar kynnast lengur í námi sínu. Bent hefur verið á þann möguleika að styrkja iðnnema og iðnaðarmenn til að vinna með reynslumiklum handverksmönnum á þeim sviðum sem snúa að varðveislu séríslenskra byggingaraðferða og hefða. Í nýrri skýrslu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, Minjavernd – staða, áskoranir og tækifæri, er víða fjallað um mikilvægi þess að handverksþekkingu sé haldið við, m.a. í 3. kafla. 1
    Til þess að viðhalda þessari þekkingu þarf að tryggja henni sess í menntakerfi þjóðarinnar. Boða þarf til samtals milli skólayfirvalda iðnnáms á Íslandi og minjavörslu um það hvernig handverksþekkingunni verði best viðhaldið á Íslandi. Við Norska vísinda- og tækniháskólann (NTNU) í Þrándheimi er hefðbundið handverk kennt til bakkalárgráðu. Það nám er fjármagnað beint af ríkinu. Í Noregi hafa þrjú ráðuneyti sameinast um að fjármagna kennslu á háskólastigi í viðhaldi handverksþekkingar. Á Íslandi mætti sjá fyrir sér samstarf viðkomandi ráðuneyta um kennslu í fornu handverki á framhaldsskólastigi, hvort sem það væri í formi sérnáms eða einstakra áfanga. Benda má á að Byggðasafn Skagfirðinga hefur til margra ára rekið Fornverkaskólann. Tryggja mætti rekstrargrundvöll skólans og tengja hann formlegu iðnnámi við framhaldsskóla.
1     www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og-skrar/URN/Minjavernd_Skyrsla_starfshops_ Vefur.pdf