Ferill 247. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 748  —  247. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um dvalarleyfisskírteini.


     1.      Hver tekur ákvörðun um útlit og efni dvalarleyfisskírteina sem gefin eru út skv. 54. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, og eftir hvaða lögum, reglum, viðmiðum og leiðbeiningum er farið við þá ákvörðun?
    Í framkvæmd er það Útlendingastofnun sem tekur ákvörðun um útlit og efni dvalarleyfisskírteina í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 54. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016. Líkt og þar greinir skal Útlendingastofnun gefa út skírteini til staðfestingar á veitingu dvalarleyfis. Skírteinið skal gefið út á nafn útlendingsins sem er handhafi dvalarleyfisins. Í því skyni að unnt sé að bera kennsl á rétthafa dvalarleyfis og staðreyna að handhafi þess sé sá sem hann kveðst vera skal tekin stafræn mynd af umsækjanda og prentuð á skírteinið. Þá skal á skírteininu m.a. koma fram nafn útlendings, ríkisfang hans, nafn atvinnurekanda þegar það á við og gildistími dvalarleyfisins. Loks kveður málsgreinin á um að ráðherra sé heimilt að ákveða að dvalarleyfisskírteini skuli innihalda örflögu með þeim upplýsingum sem skráðar eru á kortið auk fingrafara handhafa.
    Auk framangreinds fer um útlit og efni íslenskra dvalarleyfisskírteina eftir þeim kröfum sem settar eru fram í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1030/2002/EB um sameiginlegt útlit á dvalarleyfisskírteinum sem Ísland er bundið af. Til að bregðast við breytingum á þeirri reglugerð og breyttum kröfum á þessu sviði með sem skilvirkustum hætti var með lögum nr. 56/2023, sem samþykkt voru á Alþingi 9. júní sl., kveðið á um í 2. mgr. 54. gr. laga um útlendinga að ráðherra bæri að setja í reglugerð nánari ákvæði um útlit og eiginleika dvalarleyfisskírteinis. Í skýringum við ákvæðið kemur fram að breytingar á reglugerðinni séu dýnamískar og taki mið af þeim tæknilegu lausnum sem til staðar eru hverju sinni. Því sé mikilvægt að ráðherra geti brugðist við á skjótan hátt svo dvalarleyfisskírteini hérlendis fullnægi þeim kröfum sem reglugerðin gerir hverju sinni, svo sem um öryggis- og útlitskröfur. Vinna við setningu slíkrar reglugerðar er hafin innan ráðuneytisins.

     2.      Hvaða upplýsingar koma fram á dvalarleyfisskírteinum sem gefin eru út nú og á hvorri hlið skírteinisins koma þær fram?
    Á framhlið skírteinanna er mynd af handhafa kortsins, nafn hans, kyn, þjóðerni, fæðingardagur, upplýsingar um tegund dvalarleyfis, gildistími skírteinis, athugasemdir um hvort atvinnuþátttaka sé heimil og rithandarsýnishorn. Á bakhlið skírteinanna eru nánari upplýsingar um tegund dvalarleyfis, hvenær þarf að endurnýja dvalarleyfið og hvort það telji upp í ótímabundið dvalarleyfi, auk upplýsinga um útgáfudag, útgáfustað, útgefanda, fæðingardag handhafa og kennitölu viðkomandi. Á bakhlið er einnig smærri mynd af handhafa.

     3.      Hvaða breytingar hafa verið gerðar á útliti og efni dvalarleyfisskírteina frá árinu 2013? Hvers vegna voru þær breytingar gerðar?
    Frá árinu 2013 hafa verið gerðar breytingar á dvalarleyfisskírteinum til að bæta öryggi þeirra. Bætt hefur verið við véllesanlegu svæði og örgjörva. Véllesanlega svæðið inniheldur sambærilegar upplýsingar og fram koma í vegabréfum. Örgjörvinn inniheldur sömu upplýsingar og fram koma á skírteininu. Útliti skírteinanna hefur auk þess verið breytt til að draga úr fölsunarhættu.