Ferill 350. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 791  —  350. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um eignarskerðingarmörk vaxtabóta.


    Ástæða er til að benda á varðandi svarið hér að neðan að vaxtabótakerfið byggist á lagskiptum útreikningum sem geta leitt til bjagaðrar og jafnvel óraunhæfrar niðurstöðu sé einn áhrifaþáttur tekinn fyrir sérstaklega án þess að breyta öðrum þar sem mikil fylgni getur verið á milli einstakra áhrifaþáttasamhliða. Nauðsynlegt er að hafa það hugfast og ber að taka svarinu með þeim fyrirvara.
    Til grundvallar útreiknings við mat á vaxtabótum ársins 2024 er hér stuðst við frumálagningu Skattsins 2023 ásamt niðurstöðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um fasteignamat ársins 2024. Tekjustofn til útreiknings vaxtabóta er frábrugðinn tekjuskattsstofni að því leyti að fjármagnstekjur eru meðtaldar ásamt launum frá alþjóðastofnunum. Í þeirri áætlun sem hér er sett fram er miðað við þá forsendu að tekjustofn til útreiknings vaxtabóta hækki milli tekjuáranna 2022 og 2023 um 9,9% eða sem svarar til meðalhækkunar launavísitölu það sem af er árinu. Grunnur að útreikningi vaxtabóta 2024 miðað við nýtt fasteignamat gerir þannig ráð fyrir að laun hafi einnig hækkað. Til að einangra áhrif hækkunar fasteignamats eða eignarskerðingarmarka er nýr grunnur álagningar hermdur í reiknilíkani með og án nýrra forsendna fasteignamats eða eignarskerðingarmarka. Mismunurinn á niðurstöðum hermunar á þessum tveimur grunnum felur þá í sér áhrifin af þessum forsendum.

     1.      Hversu mörg heimili verða fyrir aukinni skerðingu vaxtabóta vegna áhrifa af hækkun fasteignamats og raunrýrnun eignarskerðingarmarka árið 2024?
    Fasteignamati er ætlað að gefa mynd af markaðsvirði eigna og nýtt fasteignamat á þannig að gefa mynd af metinni hækkun fasteignaverðs á markaði. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur gefið út að fasteignamat fyrir árið 2024 hækki um 11,7% að meðaltali á landsvísu en það miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2023.
    Eignatenging vaxtabóta er reiknuð út frá þeim forsendum að þær lækka þegar eignir að frádregnum skuldum fara yfir mörk sem eru:
     *      Einhleypir/einstætt foreldri 7.500.000 kr.
     *      Hjón/sambúðarfólk 12.000.000 kr.
    Gera má ráð fyrir að miðað við að framangreind meðalhækkun eigi við um allar fasteignir þá muni sú aukning í eignamyndun að öllu öðru óbreyttu hafa áhrif á útreikning vaxtabóta fyrir um 12.500 eigendur fasteigna, eða sem svarar til um 95% þeirra sem fengu greiddar vaxtabætur árið 2022.

     2.      Hver verða áhrif af aukinni skerðingu vaxtabóta fyrir ríkissjóð?
    Gera má ráð fyrir að hækkun fasteignamats um 11,7% að meðaltali myndi leiða til þess að öllu öðru óbreyttu að greiðslur til vaxtabóta lækki um 350 millj. kr. árið 2024 vegna hærri nettóeignar heimila í fasteignum.

     3.      Hversu mörg heimili missa allan rétt til vaxtabóta?
    Réttur til vaxtabóta fellur niður þegar nettóeign verður:
     *      Einhleypir/einstætt foreldri 12.000.000 kr.
     *      Hjón/sambúðarfólk 19.200.000 kr.
    Mat á fjölda þeirra sem myndu missa réttinn til vaxtabóta vegna hærri nettóeignar árið 2024 væri um 2.400 eigendur fasteigna ef verðlagshækkanir hefðu ekki líka áhrif á forsendur vaxtabóta að öðru leyti.

     4.      Hver yrði kostnaður af 33% hækkun eignarskerðingarmarka vaxtabóta fyrir ríkissjóð og hvernig myndi sá aukni stuðningur dreifast eftir tekjutíundum og aldurshópum?
    Gera má ráð fyrir að greiðslur til vaxtabóta myndu aukast um tæpar 290 millj. kr. ef eignarskerðingarmörk yrðu hækkuð um 33% ef allar aðrar forsendur fyrir rétti fasteignaeigenda til vaxtabóta væru óbreyttar á sama tíma.
    Mynd 1 sýnir hvernig hrein aukning vaxtabóta myndi dreifast eftir tekjutíundum samkvæmt þessum útreikningi, skilgreindum sem tekjustofn til útreiknings vaxtabóta og mynd 2 sýnir hvernig aukningin dreifist eftir aldurshópum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.






Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.