Ferill 572. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 859  —  572. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um vopnaflutninga til Ísraels.

     1.      Hversu margar umsóknir um flutning hergagna með íslenskum loftförum til Ísraels hafa verið afgreiddar frá því að ábyrgð á leyfisveitingum færðist til ráðuneytisins árið 2019? Hversu margar þeirra hafa verið samþykktar hvert ár?
    Engin umsókn hefur borist um flutning hergagna með íslensku loftfari til Ísraels frá árinu 2019.

     2.      Hversu margar umsóknir um flutning hergagna um íslenska lofthelgi þar sem Ísrael er viðtökuland hafa verið afgreiddar frá því að ábyrgð á leyfisveitingum færðist til ráðuneytisins? Hversu margar þeirra hafa verið samþykktar hvert ár?
    Ein umsókn hefur borist um flutning hergagna um íslenska lofthelgi þar sem Ísrael var viðtökuland og var það árið 2022. Þeirri umsókn var hafnað á grundvelli ákvæða reglugerðar nr. 464/2019.

     3.      Um hvers konar hergögn var að ræða í þeim umsóknum sem spurt er um í 1. og 2. tölul. og hvert var magn þeirra?
    Í þeirri einu umsókn sem hefur verið afgreidd frá árinu 2019, sbr. svar við 2. tölul. fyrirspurnarinnar, var um að ræða umsókn vegna 43 kg af skotfærum.

     4.      Telur ráðuneytið að flutningur hergagna til Ísraels sé í samræmi við 3. gr. reglugerðar nr. 464/2019 um flutning hergagna með loftförum? Hefur það mat breyst frá samþykkt ályktunar nr. 1/154 um afstöðu Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs?

    Allar umsóknir sem berast um heimild fyrir hergagnaflutningum eru metnar í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 464/2019 um flutning hergagna með loftförum, þ.m.t. 3. gr. reglugerðarinnar. Í 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er skýrt kveðið á um hvenær skuli hafna flutningi hergagna.
    Engin umsókn hefur borist um flutning hergagna til Ísrael frá því að Alþingi samþykkti ályktun nr. 1/154 um afstöðu Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs og hefur því ekki komið til þess að ráðuneytið þurfi að meta umsókn um hergagnaflutninga til Ísraels eftir að ályktunin var samþykkt.

    Alls fór ein vinnustund í að taka svarið saman.