Ferill 563. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 877  —  563. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Eyjólfi Ármannssyni um Ríkisútvarpið og áfengisauglýsingar.


     1.      Telur ráðherra eðlilegt að Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu, sem á að stuðla að félagslegri samheldni í íslensku samfélagi skv. 1. gr. laga um Ríkisútvarpið, birti auglýsingar um ólöglega netsölu áfengis, sem er í andstöðu við einkasölu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, sbr. auglýsingu sante.is í útvarpi Rásar 2 morguninn 6. desember sl.?
    Ríkisútvarpinu ber að haga starfsemi sinni í samræmi við gildandi lög hverju sinni. Ríkisútvarpið starfar á grundvelli laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013 (hér eftir lög um Ríkisútvarpið). Auk laga um Ríkisútvarpið gilda lög um fjölmiðla, nr. 38/2011, í meginatriðum einnig um starfsemi Ríkisútvarpsins.
    Fjölmiðlanefnd er sem sjálfstæðum eftirlitsaðila falið eftirlit með framkvæmd m.a. 37. gr. laga um fjölmiðla og 7. gr. laga um Ríkisútvarpið, um viðskiptaboð, auk þess sem nefndin sinnir árlegu mati á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins ohf. skv. 15. gr. o.fl. Ákvæði um eftirlit með framangreindum ákvæðum er annars vegar ætlað að koma til móts við kröfur Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, í því efni og hins vegar að leggja áherslu á að stjórnvöldum beri að fylgja því eftir að starfað sé í samræmi við lög og markmið með fjölmiðlun í almannaþágu.
    Þess má geta að almenn viðmið um starfsemi almannaþjónustufjölmiðla í Evrópu hafa verið sett fram í formi tilmæla og ályktana ráðherranefndar Evrópuráðsins og hefur meginstefið í þeim verið áhersla á að tryggja sjálfstæði almannaþjónustufjölmiðla frá pólitískum afskiptum og ríkisvaldi.
    Með vísan til framangreinds tekur ráðherra ekki afstöðu til einstakra mála eða leggur mat á einstök mál sem varða auglýsingar á miðlum Ríkisútvarpsins.

     2.      Telur ráðherra að fyrrnefndar auglýsingar brjóti í bága við 20. gr. áfengislaga, sem fjallar um bann við auglýsingum á áfengi og upplýsingum um þjónustu tengda því, eða 37. gr. laga um fjölmiðla, sem kveður m.a. á um bann við duldum viðskiptaboðum og bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi?
    Fjölmiðlanefnd hefur eftirlit með framkvæmd 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla sem mælir fyrir um bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi í fjölmiðlum. Þá hefur lögreglan eftirlit með 20. gr. áfengislaga, nr. 75/1998, þar sem kveðið er á um almennt bann við áfengisauglýsingum. Ráðherra leggur ekki mat á einstök mál sem heyra undir verksvið sjálfstæðra eftirlitsstofnana eða lögreglu.

     3.      Hvað hafa fyrirtæki sem selja áfengi í vefsölu greitt háar fjárhæðir samtals til Ríkisútvarpsins vegna auglýsinga á árinu 2023?
    Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisútvarpinu hefur Ríkisútvarpið birt auglýsingar um vefsíður sem selja áfengi fyrir 200.000 kr. árið 2023. Í svörum Ríkisútvarpsins kom fram að þær auglýsingar sem vísað er til í fyrirspurninni falli að mati Ríkisútvarpsins undir sömu ákvæði og auglýsingar sem birtar hafi verið fyrir m.a. Vínbúðir ÁTVR, þar sem um ræði almennar auglýsingar um tilvist vefsíðna og „opnunartíma“ viðkomandi verslana.