Ferill 253. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 878  —  253. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um útvistun verkefna Samkeppniseftirlitsins.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða reglur í lögum og reglugerðum annars vegar og verklagsreglum hins vegar gilda um útvistun Samkeppniseftirlitsins á verkefnum?
     2.      Hvaða markmið liggja að baki því að Samkeppniseftirlitið útvisti verkefnum?
     3.      Til hverra hefur Samkeppniseftirlitið útvistað rannsóknarverkefnum árlega frá árinu 2012?
     4.      Hvernig er gengið úr skugga um og staðfest að hæfisreglur séu uppfylltar vegna aðkeyptrar vinnu?
     5.      Hver er árlegur kostnaður vegna útvistunar Samkeppniseftirlitsins á sérhverju verkefni vegna rannsókna frá árinu 2012? Óskað er eftir því að sérhvert verkefni verði tilgreint og hver vann það. Jafnframt er óskað eftir yfirliti um árlega aðkeyptan kostnað vegna almannatengsla, auk kostnaðar við auglýsingar.
     6.      Hefur Samkeppniseftirlitið útvistað öðrum verkefnum en að framan greinir og ef svo er, hver eru þau og hvað kostaði hvert þeirra?
     7.      Hefur Samkeppniseftirlitið útvistað verkefnum til sama aðila oftar en einu sinni? Ef svo er, hversu oft til hvers aðila og um hvaða verkefni var að ræða?
     8.      Veldur skortur á viðeigandi sérfræðiþekkingu innan stofnunarinnar því að verkefnum er útvistað? Ef svo er, hvaða sérfræðiþekkingu skortir innan stofnunarinnar?
     9.      Hvernig er háttað mati á reynslu af útvistun verkefna og hvernig verður hún nýtt við þróun starfseminnar á næstu árum?


    Í samkeppnislögum, nr. 44/2005, reglugerðum með stoð í þeim lögum eða verklagsreglum Samkeppniseftirlitsins er ekki að finna heimildir til þess að útvista lögbundnum verkefnum stofnunarinnar. Ráðuneytið þekkir ekki dæmi þess að lögbundnum verkefnum Samkeppniseftirlitsins hafi verið útvistað. Ekki er því fyllilega ljóst hvað átt er við með „útvistun verkefna“ í fyrirspurninni.
    Með „útvistun verkefna“ í fyrirspurninni kann að vera átt við skipun svokallaðra eftirlitsaðila, eða kunnáttumanna, sem er þekkt úrræði í samkeppnisrétti til að fylgja eftir skilyrðum sem sett eru fram í ákvörðunum samkeppnisyfirvalda. Algengast er að eftirlitsaðilar séu skipaðir til að fylgjast með framkvæmd sátta eða skilyrða í samrunamálum. Ekki er þar hins vegar um að ræða útvistun á verkefnum eða úrræðum Samkeppniseftirlitsins. Eftirlitsaðili hefur hvorki með höndum verkefni sem með lögum eru falin Samkeppniseftirlitinu né hefur hann með höndum valdheimildir sem Samkeppniseftirlitinu eru veittar með lögum. Eftirlitsaðila er ætlað að auðvelda aðila að ná sátt eða auðvelda aðila, sem skilyrði samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins beinist að, að uppfylla skilmála slíkrar sáttar eða skilyrði að öðru leyti. Um eftirlitsaðila er nánar fjallað í svari við fyrirspurn í 592. máli á 150. löggjafarþingi (þskj. 1746) og vísast til þess. Þá vísast til umfjöllunar í 6. kafla og 7. viðauka skýrslu ríkisendurskoðanda um stjórnsýsluúttekt á Samkeppniseftirlitinu frá því í júlí 2022.
    Sé með orðalagi fyrirspurnarinnar um „útvistun verkefna“ átt við aðkeypta þjónustu, er bent á að Samkeppniseftirlitið, líkt og flest önnur stjórnvöld, nýtir aðkeypta þjónustu í ýmsum tilgangi, þ.m.t. upplýsingatækniþjónustu, þrif o.fl. Þá aflar Samkeppniseftirlitið faglegrar ráðgjafarþjónustu, einkum lögfræðilegrar og hagfræðilegrar, þegar það er metið nauðsynlegt til að stofnunin geti sinnt lögbundnum verkefnum sínum og tryggt að ákvarðanir byggist á traustum forsendum. Þá nýtir Samkeppniseftirlitið lögmannsþjónustu þegar mál eru rekin fyrir dómstólum og í undantekningartilfellum þegar mál eru rekin fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins hefur stofnunin einnig nýtt þjónustu ráðningarfyrirtækja við ráðningu starfsfólks.
    Í 5. tölul. fyrirspurnarinnar er sérstaklega spurt um kostnað vegna kaupa á almannatengslaþjónustu og auglýsingum. Samkeppniseftirlitið hefur upplýst ráðuneytið um að stofnunin kaupi almennt ekki þjónustu almannatengla, þ.e. þjónustu sem felst í miðlun upplýsinga, samskiptum við fjölmiðla o.s.frv. Þær auglýsingar sem stofnunin hefur keypt eru einkum starfsauglýsingar og auglýsingar um opinbera fundi. Undir þennan lið má einnig fella kostnað við birtingu í Stjórnartíðindum. Kostnaður við slíkar auglýsingar nam á árunum 2012–2022 samtals um 4,8 millj. kr., eða að meðaltali um 440 þús. kr. á ári. Þá hefur eftirlitið frá árinu 2015 keypt kynningar í gegnum Facebook og Google. Samanlagður kostnaður vegna þess nemur frá árinu 2015 um 990 þús. kr., eða um 125 þús. kr. á ári.
    Líkt og framar greinir hefur Samkeppniseftirlitið ekki heimild til að útvista lögbundnum verkefnum sínum og tekur svar þetta mið af því. Samkeppniseftirlitið býr hins vegar við almennt frelsi og sjálfstæði um hvernig það hagar störfum sínum og vinnu við þau verkefni sem stofnuninni eru fengin lögum samkvæmt. Í því samhengi má minna á að Samkeppniseftirlitið er sjálfstætt stjórnvald og eftirliti ráðuneytisins með starfsemi þess því þröngur stakkur sniðinn, sbr. m.a. 2. mgr. 13. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Eftirlit ráðherra er almennt, en ekki sértækt, og tekur t.d. ekki til þess hvernig málsmeðferð er háttað í afmörkuðum verkefnum.