Ferill 538. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 888  —  538. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um aðgerðir í þingsályktun um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða aðgerðum í þingsályktun um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna, nr. 40/149, er lokið og hver var framgangur þeirra?
     2.      Hvaða aðgerðir eru komnar til framkvæmda en ekki lokið og hver er staða þeirra nú?
     3.      Hvaða aðgerðir eru í framkvæmd til lengri tíma og hver er framgangur þeirra?


    Þingsályktun um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna var samþykkt á Alþingi í júní 2019. Alþingi hefur verið gerð grein fyrir stöðu aðgerða þingsályktunarinnar í nokkur skipti á undanförnum árum.
          Þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði á 150. löggjafarþingi fram skýrslu (369. mál, þingskjal 459) um framgang aðgerða þingsályktunarinnar. Þá var tólf aðgerðum lokið eða töldust til lengri tíma verkefna og fimm í vinnslu.
          Það var einnig gert í svari við fyrirspurn til ráðherra á 150. löggjafarþingi (562. mál, þingskjal 1091).
          Í skýrslu forsætisráðherra á 151. löggjafarþingi um framkvæmd ályktana Alþingis frá 2019 (235. mál, þingskjal 241) var fjórtán aðgerðum lokið eða töldust til lengri tíma verkefna og þrjár í vinnslu.
          Í skýrslu forsætisráðherra á 152. löggjafarþingi um framkvæmd ályktana Alþingis frá 2020 (30. mál, þingskjal 30) var sextán aðgerðum lokið eða töldust til lengri tíma verkefna og ein í vinnslu.
          Í skýrslu forsætisráðherra á 153. löggjafarþingi um framkvæmd ályktana Alþingis frá 2021 (396. mál, þingskjal 431) var öllum aðgerðum lokið eða töldust til lengri tíma verkefna.
          Í skýrslu forsætisráðherra á 154. löggjafarþingi um framkvæmd ályktana Alþingis frá 2022 (448. mál, þingskjal 474) er umfjöllun um þingsályktunina óbreytt.
          Á tímabilinu hafa sérfræðingar matvælaráðuneytisins og forvera þess jafnframt komið fyrir atvinnuveganefnd Alþingis og gert grein fyrir stöðu aðgerðanna.
    Hér að aftan er í stuttu máli farið yfir stöðu allra 17 aðgerðanna samkvæmt því sem spurt er um:

1. tölul. – Hvaða aðgerðum í þingsályktun um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna, nr. 40/149, er lokið og hver var framgangur þeirra?
Innleiddar verði viðbótartryggingar gagnvart innfluttu kalkúnakjöti, kjúklingakjöti og eggjum.
    Lauk með setningu reglugerðar 877/2019 í september 2019.

Óskað verði eftir viðbótartryggingum vegna innflutts svínakjöts og nautakjöts.
    Lauk með setningu reglugerðar 1155/2019 í desember 2019.

Bönnuð verði dreifing alifuglakjöts nema sýnt sé fram á að ekki hafi greinst kampýlóbakter í því.
    Lauk með breytingu á matvælalögum sem samþykkt var á Alþingi með lögum nr. 93/2019 í júní 2019 (6. gr.).

Opinberum eftirlitsaðilum verði tryggð heimild til að leggja stjórnvaldssektir á matvælafyrirtæki sem brjóta gegn banni við dreifingu alifuglakjöts án sönnunar fyrir því að ekki hafi greinst í því kampýlóbakter.
    Lauk með breytingu á matvælalögum sem samþykkt var á Alþingi með lögum nr. 93/2019 í júní 2019 (9. gr.).

Tryggð verði skjótari innleiðing reglugerða Evrópusambandsins þegar stöðva þarf innflutning á tilteknum vörum með skömmum fyrirvara.
    Lauk með breytingu á lögum um dýrasjúkdóma sem samþykkt var á Alþingi með lögum nr. 93/2019 í júní 2019 (4. gr.).

Sett verði á fót áhættumatsnefnd.
    Lauk með setningu reglugerðar 670/2019 í júlí 2019.

Settur verði á fót sjóður með áherslu á eflingu nýsköpunar í innlendri matvælaframleiðslu.
    Lauk með setningu laga um Matvælasjóð, nr. 31/2020, í apríl 2020.

Mótuð verði matvælastefna fyrir Ísland.
    Lauk með stefnumótun sem var kynnt í desember 2020. Ný matvælastefna var unnin í matvælaráðuneytinu og kynnt á Matvælaþingi 2022, sú stefna var síðan samþykkt með ályktun Alþingis 20/153 (matvælastefna til 2040) í maí 2023.

Könnuð verði þróun tollverndar og greind staða íslensks landbúnaðar gagnvart breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi.
    Lauk með skýrslu starfshóps um efnið sem birt var á vef Stjórnarráðsins 10. nóvember 2020.

Tollskrá fyrir landbúnaðarvörur verði endurskoðuð.
    Lauk með endurskoðun sem kynnt var á vef Stjórnarráðsins 11. nóvember 2019.

Ráðist verði í átak um aukið eftirlit í kjölfar afnáms leyfisveitingakerfisins.
    Lauk með samningi sem gerður var við Matvælastofnun um átaksverkefni á þessu sviði sem lauk í lok apríl 2020. Lokaskýrslu var skilað í maí 2020.

Tryggð verði aukin fræðsla til ferðamanna um innflutning afurða úr dýraríkinu.
    Lauk með því að Matvælastofnun var falin framkvæmd verkefnisins og stofnunin gerði það m.a. með vinnslu á fræðsluefni fyrir ferðamenn í formi bæklinga, fræðslumyndbands og veggspjalda sem dreift var á helstu komustöðum ferðamanna til landsins. Efnið er jafnframt birt á enskri útgáfu vefsíðu MAST.

Innleidd verði stefna opinberra aðila um innkaup á matvælum.
    Innkaupastefnan og aðgerðaáætlun hennar var birt í byrjun maí 2019 og samþykkt í ríkisstjórn 17. maí sama ár.
    Vinna við eftirfylgni og innleiðingu stóð að meginþunga yfir 2019–2021. Verkefnið var unnið af vinnuhópi fulltrúa matvælaráðuneytis, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, Ríkiskaupa og Umhverfisstofnunar. Stefnan er enn í gildi, sbr. samþykkt ríkisstjórnarinnar, en innleiðingaraðgerðinni samkvæmt þingsályktuninni er lokið.

Ráðist verði í átak um betri merkingar matvæla.
    Hinn 1. febrúar 2019 var undirritað samkomulag um þátttöku í átaki um betri merkingar matvæla. Aðilar samkomulagsins voru sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Bændasamtök Íslands, Neytendasamtökin, Samtök verslunar og þjónustu, Félag atvinnurekenda og Samtök iðnaðarins. Markmið átaksins var að tryggja rétt neytenda til upplýsinga um uppruna, framleiðsluhætti, lyfjanotkun og umhverfisáhrif matvæla. Í kjölfarið var skipaður samráðshópur aðila til þess að halda utan um verkefnið og gera tillögur um hvernig betur megi upplýsa neytendur og fyrirtæki um réttindi og skyldur á skýran og einfaldan hátt, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Hópurinn skilaði skýrslu um málið í september 2020 með 12 megintillögum. Unnið hefur verið að framgangi þeirra eftir því sem svigrúm hefur leyft. Bændasamtök Íslands hafa unnið að gerð nýs íslensks búvörumerkis sem samtökin eiga og reka. Það fékk nafnið „Íslenskt staðfest“ og var gefið út opinberlega í mars 2022. Matvælaráðuneytið fylgist áfram með þróun regluverks á sviðinu í gegnum EES-samninginn með það í huga að vinna að bættri upplýsingagjöf til neytenda eftir því sem tækifæri gefast, en átakinu samkvæmt þingsályktuninni er lokið.

2. tölul. – Hvaða aðgerðir eru komnar til framkvæmda en ekki lokið og hver er staða þeirra nú?
    Öllum aðgerðum er annaðhvort lokið eða eru í framkvæmd til lengri tíma.

3. tölul. – Hvaða aðgerðir eru í framkvæmd til lengri tíma og hver er framgangur þeirra?
Innleidd verði reglugerð (EB) nr. 206/2009 um innflutning dýraafurða til einkaneyslu.
    Áðurnefnd EB-reglugerð er fallin úr gildi. Í stað hennar hefur komið reglugerð (ESB) nr. 2019/2122 með síðari breytingum. Til umfjöllunar er í sameiginlegu EES-nefndinni að innleiða hana á Evrópska efnahagssvæðinu en tímasetning liggur ekki fyrir.

Tekið verði til skoðunar að setja á fót sérstakan tryggingasjóð vegna tjóns sem framleiðendur geta orðið fyrir vegna búfjársjúkdóma.
    Eftir skoðun á málinu var horfið frá fyrirætlunum um að setja á fót sérstakan tryggingasjóð vegna búfjársjúkdóma en unnið hefur verið að sambærilegum markmiðum með ýmsum hætti. Má þar nefna:
          Starfshóp og skýrslu um tryggingamál bænda sem birt var á vef Stjórnarráðsins 4. október 2022. Stjórn Bjargráðasjóðs hefur verið falið að skoða frekari útfærslur á þeim niðurstöðum en þeirri vinnu er ekki lokið. Þar verður ekki eingöngu fjallað um tjón vegna búfjársjúkdóma.
          Í skýrslu um eflingu kornræktar, „Bleikir akrar“, sem kynnt var í mars 2023 eru m.a. tillögur um uppskerutryggingar í kornrækt. Þær verða til skoðunar á framkvæmdatíma verkefnisins sem er frá 2024–2028.
          Allt fyrirkomulag viðbragða stjórnvalda þegar riðuveiki í sauðfé kemur upp er til endurskoðunar (þ.m.t. bótagreiðslur), í ljósi breyttra forsendna við fund verndandi arfgerðarinnar ARR í íslenska fjárstofninum.

Átak verði gert til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi.
    Í fyrstu skýrslunni um framgang aðgerða þingsályktunarinnar. (369. mál, þingskjal 459, 150. löggjafarþing) um framgang aðgerða þingsályktunarinnar er ítarlega farið yfir framgang aðgerðarinnar fram til nóvember 2019 og vísast til þeirrar umfjöllunar.
    Veittir hafa verið styrkir úr sýklalyfjaónæmis- og súnusjóði til að fjármagna verkefni undir formerkjum „Einnar heilsu“ (e. One Health) í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi. Um er að ræða átaksverkefni heilbrigðis- og matvælaráðuneyta. Styrktar hafa verið grunnrannsóknir í sýklalyfjaónæmi, tilteknar skimanir fyrir ónæmun sýklum og umframkostnaður vegna rannsókna í almannaþágu í því skyni að rekja uppruna sýkla sem dreifast á milli manna og dýra, þ.e. súnur. Þá hefur sjóðurinn fjármagnað sérstök verkefni Matvælastofnunar um vöktun á sýklalyfjaþoli í lifandi dýrum, matvælum, fóðri, áburði og sáðvöru. Stofnunin gefur út árlegar skýrslur um stöðu þessara mála hérlendis auk fræðsluverkefna. Sjóðurinn hafði alls 90 m.kr. til ráðstöfunar og henni er ekki lokið. Auglýst verður eftir umsóknum í árslok 2023 eða snemma árs 2024.
    Matvælaráðuneytið hefur frá 2020 einnig gert samninga við Matvælastofnun og Tilraunastöð HÍ í meinafræði á Keldum um að fjármagna og sinna ákveðnum rannsóknum tengdum sýklalyfjaónæmi. Til stendur að framlengja þá a.m.k. út árið 2024. Tæpar 80 m.kr. eru veittar til þess árið 2023.
    Þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setti af stað vinnu 2019 til að móta viðbrögð ef greinast sýklalyfjaónæmar bakteríur í dýrum, sláturafurðum og matvælum. Skilað var skýrslu 2021 þar sem voru m.a. lögð fram fjögur markmið til þess að ná því grunnmarkmiði að varðveita möguleika á árangursríkri meðferð á bakteríusýkingum hjá fólki og dýrum auk tillagna að viðbrögðum við sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum. Skýrslan var birt á vef Stjórnarráðsins 10. september 2021.
    Í kjölfarið var ákveðið að víkka verkefnið út og skipa nýjan hóp undir forystu Þórólfs Guðnasonar, fyrrverandi sóttvarnalæknis, sem hefur það hlutverk að auka þverfaglegt samstarf á þessu sviði og móta framtíðarsýn í málaflokknum til næstu 10 ára. Þá er hópnum falið að móta aðgerðaáætlun í málefnum sýklalyfjaónæmis til næstu 5 ára og leggja til leiðir til að koma aðgerðum til framkvæmda auk þess að vinna að vitundarvakningu í samfélaginu um sýklalyfjaónæmi. Hópurinn starfar á vegum heilbrigðisráðuneytisins en verkefnið er unnið í samstarfi þess, matvælaráðuneytis og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis.