Ferill 488. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.

Þingskjal 891  —  488. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um aðgerðir gegn olíuleit.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig hefur ráðherra fylgt eftir því markmiði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að ekki verði gefin út nein leyfi til olíuleitar? Óskað er upplýsinga um hvaða aðgerðir, reglugerðir, tilmæli, fyrirmæli eða leiðbeiningar, formlegar eða óformlegar, hafi beinst frá ráðuneytinu til viðeigandi stofnana. Ef ekki er um slíkt að ræða er þess óskað að fram komi hvernig ráðuneytið sjái fyrir sér að framfylgja þessu markmiði stjórnarsáttmálans.

    Orkustofnun gefur út leyfi til olíuleitar, sbr. lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001. Orkustofnun er fullkunnugt um framangreint markmið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að ekki verði gefin út nein leyfi til olíuleitar og engin vinna á sér stað á Orkustofnun í tengslum við undirbúning leyfisveitinga eða útboða. Ljóst er að stofnunin fer ekki í nýtt ferli leyfisveitinga samkvæmt lögunum án virks samráðs við ráðuneytið enda myndi slíkt ferli m.a. kalla á viðbótarfjármagn og fjölgun starfsfólks. Þá er byggt inn í lög nr. 13/2001 virkt samráð við stofnanir innan lands, sbr. 4., 7. og 24. gr. laganna, áður en til leyfisveitinga kemur, auk þess sem skylt er að auglýsa í Lögbirtingablaði og Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins eftir umsækjendum áður en leyfi til rannsókna og vinnslu á kolvetni er veitt og skal umsóknarfrestur ekki vera skemmri en 90 dagar.
    Ráðherra telur ljóst með hliðsjón af framangreindu að þetta markmið stjórnarsáttmálans sé tryggt og að ekki sé þörf á frekari aðgerðum til að framfylgja því.