Ferill 524. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 913  —  524. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands vegna fitubjúgs.


     1.      Hvaða skilyrði þarf sjúklingur að uppfylla til þess að fá niðurgreiðslu á stoð- og hjálpartækjum vegna sjúkdómsins fitubjúgs (lipoedema)?
    Í reglugerð nr. 760/2021, um styrki vegna hjálpartækja, er eingöngu heimilt að samþykkja þrýstibúnað vegna blóðrásarmeðferðar. Fitubjúgur er aftur á móti bandvefssjúkdómur og uppfyllir því ekki skilyrði reglugerðarinnar. Sjúklingar með fitubjúg á efri stigum geta þróað með sér sogæðabjúg og í slíkum tilvikum væru skilyrði til greiðslu styrks í samræmi við fyrrgreinda reglugerð.

     2.      Hver hefur kostnaðarþátttaka Sjúkratrygginga Íslands verið vegna stoð- og hjálpartækja til einstaklinga með fitubjúg árlega síðastliðin fimm ár og hversu margar umsóknir hafa borist hvert ár?
    Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki upplýsingar um önnur hjálpartæki en þrýstibúnað sem sótt er um vegna fitubjúgs. Eins og fram kemur í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar eru ekki veittir styrkir vegna þrýstibúnaðar vegna fitubjúgs.

     3.      Hafa Sjúkratryggingar Íslands hafnað því að taka þátt í kostnaði vegna stoð- og hjálpartækja fyrir einstaklinga með fitubjúg á síðastliðnum fimm árum og hversu margar umsóknir hafa borist hvert ár?
    Eingöngu er heimilt að samþykkja þrýstibúnað vegna blóðrásarmeðferðar sbr. reglugerð nr. 760/2021. Við mat á fjölda umsókna einstaklinga með fitubjúg er gengið út frá ICD-kóðunum „E65-staðbundin offita“ og „E88.2-fituvefsæxli, ekki flokkað annars staðar“. Umræddar greiningar geta staðið með öðrum greiningum í umsóknum eða mögulega fyrir annað sjúkdómsástand. Í þeim tilfellum sem umsókn hefur verið samþykkt er líklegasta skýringin að viðkomandi sé einnig með sogæðabjúg og falli þar með undir ákvæði reglugerðar.
    Taka ber þessum tölum með þeim fyrirvara að við skráningu séu réttir/viðeigandi ICD-kóðar notaðir.
Úrskurður 2019 2020 2021 2022 2023 Alls
Samþykkt 1 4 10 14 16 45
Hafnað 1 3 19 23
Vísað frá 2 3 10 15
Alls 1 5 12 20 45 83


     4.      Hvaða kröfur eru gerðar til greiningar sjúklings og/eða meðferðar til að Sjúkratryggingar Íslands taki þátt í kostnaði við aðgerðir vegna fitubjúgs?
    Eins og fram kom í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur um fitubjúg á síðasta löggjafarþingi (þskj. 1665) eru ekki gerðar sérhæfðar fitusogsaðgerðir vegna fitubjúgs hér á landi í dag en hefðbundnar fitusogsaðgerðir eiga ekki við sem meðferð við fitubjúg. Aukin þekking hefur myndast á þessum sjúkdómi undanfarin ár og stórar rannsóknir eru í gangi erlendis til að kanna meðal annars árangur sérhæfðra fitusogsaðgerða og hvort þær aðgerðir geti talist viðurkennd og gagnreynd meðferð umfram þá meðferð sem nú er viðurkennd og ráðlögð við sjúkdómnum en hún felst helst í fyrirbyggjandi aðgerðum með mataræði og æfingum ásamt þrýstiumbúðum og sérhæfðu nuddi.
    Einungis kemur til greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í læknismeðferð eða aðgerð ef hún telst vera gagnreynd meðferð. Nokkrar umsóknir hafa borist siglinganefnd vegna aðgerða erlendis en þeim hefur verið synjað á þeim grundvelli að aðgerðirnar teljast ekki vera gagnreynd meðferð við sjúkdómnum.

     5.      Er unnið að undirbúningi þess að hægt verði að framkvæma aðgerðir vegna fitubjúgs hér á landi?
    Eins og fram kom í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur um fitubjúg á síðasta löggjafarþingi (þskj. 1665) er stöðugt unnið að þróun heilbrigðisþjónustu til að mæta þörfum íbúa. Fyrsta skrefið í eflingu þjónustu fyrir þau sem greind eru með fitubjúg hérlendis væri að kanna umfang sjúkdómsins, styrkja greiningarferli og skráningu, samhliða því sem lagt væri mat á meðferðarúrræði og gagnsemi þeirra. Gagnsemi skurðaðgerða þarf að vera ótvíræð áður en hugað er að framkvæmd þeirra hérlendis.