Ferill 610. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 916  —  610. mál.
Texti felldur brott.




Frumvarp til stjórnarskipunarlaga


um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum (kjörgengi til forseta Íslands).

Flm.: Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Stefán Vagn Stefánsson, Jóhann Friðrik Friðriksson.


1. gr.

    4. gr. stjórnarskrárinnar orðast svo:
    Kjörgengur til forseta er hver maður, sem fullnægir skilyrðum kosningarréttar til Alþingis, að fráskildu búsetuskilyrðinu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Forseti lýðveldisins gegnir veigamiklu hlutverki í stjórnkerfi landsins. Starfsskyldur forseta koma fram, ásamt fleiru, í II. kafla stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Þó er um grunnskyldur forseta að ræða í kaflanum, en hlutverk forseta er almennt talið víðfeðmara en einungis það sem fram kemur í stjórnarskránni. Mikilvægi embættisins er óumdeilt og það er vissulega sjálfsagt að ákveðin kjörgengisskilyrði séu fyrir því að einstaklingur geti boðið sig fram til að gegna því.
    Frumvarp þetta er lagt fram með það að markmiði að breyta skilyrði í stjórnarskránni um að einstaklingur sé ekki kjörgengur til forseta fyrr en við 35 ára aldur.
    Um er að ræða skilyrði um lágmarksaldur sem hefur haldist óbreytt frá staðfestingu stjórnarskrárinnar. Lágmarksaldursskilyrði til opinberra embætta miðast almennt við kosningarrétt, þ.e. 18 ára aldur, en aðeins í tveimur öðrum tilvikum er gerð krafa um 35 ára aldur við veitingu opinbers embættis. Það eru lágmarksaldursskilyrði sem gilda um hæstaréttardómara og landsréttardómara, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 13. gr. og 1. tölul. 2. mgr. 21. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016. Héraðsdómarar geta verið yngri, þeir þurfa einungis að hafa náð 30 ára aldri eins og fram kemur í 29. gr. sömu laga. Þó að um sé að ræða sömu eða sambærileg skilyrði fyrir dómendur snýr frumvarp þetta einungis að breytingu á stjórnarskránni að því er varðar embætti forseta lýðveldisins.
    Kjörgengisskilyrði til forseta eru tæmandi talin í 4. gr. stjórnarskrárinnar og er löggjafanum óheimilt að bæta við þau með setningu almennra laga. Auk kröfunnar um að hafa náð 35 ára aldri þarf forsetaefni að vera íslenskur ríkisborgari. Hins vegar er ekki gerð krafa um að forsetaefni sé búsett hér á landi eða hafi verið það í tiltekinn tíma. Áður voru einnig gerð skilyrði um að forsetaefni væri lögráða og með „óflekkað mannorð“, en þau skilyrði voru afnumin með samþykkt stjórnarskipunarlaga nr. 65/1984. Þó gildir skilyrðið um óflekkað mannorð enn sem kjörgengisskilyrði fyrir frambjóðendur til Alþingis, sem hefur vakið furðu meðal fræðimanna í stjórnskipunarrétti. Engar kröfur eru gerðar um menntun eða aðra sérþekkingu enda hefur verið talið óþarft og jafnvel óviðeigandi að setja skilyrði um almenna menntun forsetaefnis þar sem talið er að þeir sem veljast til forsetaembættis hljóti að fullnægja almennum kröfum í því efni.
    Krafist er mun hærri lágmarksaldurs frambjóðenda til embættis forseta lýðveldisins en almennt er gert í íslenskri löggjöf. Í athugasemdum við stjórnarskrárfrumvarpið frá árinu 1944 kemur fram að „ekki þykir hlýða, að yngri maður en 35 ára geti orðið forseti“ þar sem forseti þarf að búa yfir, auk margs annars, „lipurð og mannþekkingu, sem ekki fæst nema með nokkrum aldri“. Vegna þessarar afstöðu löggjafans á þeim tíma var ákveðið að festa í stjórnarskrána það kjörgengisskilyrði að frambjóðandi til forseta skyldi hafa náð 35 ára aldri á kjördag. Á þessu ári verða liðin 80 ár frá staðfestingu stjórnarskrárinnar, og þar með umræddu ákvæði, og tíðarandinn annar. Það þykir sjálfsagt að forseti lýðveldisins skuli hafa öðlast ákveðna lífsreynslu og mannþekkingu, sem vissulega öðlast almennt með aldrinum. Hins vegar hlýtur að teljast álitamál hvert aldurstakmarkið á að vera hvað þau atriði varðar.
    Almennt er talið að einstaklingur þurfi að hafa sýnt kjósendum fram á hæfni sína til að ná kjöri til embættis. Það á við hvort sem um er að ræða forsetakosningar, alþingiskosningar eða sveitarstjórnarkosningar. Í lýðræðissamfélagi fær þjóðin traust til að velja sér fulltrúa í embætti á vegum ríkisins. Ekki er gerð krafa um ákveðna menntun, ákveðna hæfileika eða ákveðna kunnáttu í slíkri kosningu, enda er gert ráð fyrir að kjósendur kynni sér frambjóðendur og taki upplýsta ákvörðun er þeir greiða atkvæði hverju sinni. Hins vegar virðist svo ekki vera í forsetakosningum þar sem sett er skilyrði um að forseti megi ekki vera yngri en 35 ára. Þó er ekki gerð sérstök krafa í lögum um að forsætisráðherra eða forseti Alþingis séu eldri en 18 ára, en þeir fara með forsetavald, ásamt forseta Hæstaréttar, í ákveðnum tilfellum, sbr. 8. gr. stjórnarskrárinnar.
    Það er mat flutningsmanna að afnema eigi skilyrði um að forsetaefni skuli hafa náð 35 ára aldri á kjördag. Fjölmargir einstaklingar undir 35 ára aldri gætu hæglega staðist kröfur þjóðarinnar hvað embættið varðar og sinnt því vel. Rétt eins og þjóðinni er treyst til að ákveða hæfi frambjóðenda á grundvelli menntunar og fyrri starfa, þá eigi henni einnig að vera treystandi til að taka ákvörðun um hvort frambjóðandi búi yfir „lipurð og mannþekkingu“, sérstaklega í ljósi þess að upplýsingaflæði innan samfélagsins hefur batnað til muna frá samþykkt stjórnarskrárinnar, t.d. með tilkomu alnetsins. Fólk getur auðveldlega tekið upplýstar ákvarðanir og frambjóðendur hafa aukin tækifæri til að koma hæfi sínu, eiginleikum og reynslu til skila. Það að einstaklingur þurfi að vera orðinn 35 ára til að geta orðið forseti lýðveldisins er tímaskekkja og sýnir ákveðið vantraust gagnvart kjósendum til að velja hæfasta einstaklinginn í embættið.
    Einstaklingar öðlast lífsreynslu með aldrinum og almennt eru þeir sem hafa lifað lengur reynslumeiri en þeir yngri. Hins vegar gildir það ekki jafnt um alla og ætti alls ekki að teljast meginregla fyrir því að öðlast ákveðin réttindi eða gegna ákveðnum skyldum. Við erum eins mismunandi og við erum mörg. Við öðlumst lífsreynslu og innsæi, öflum okkur menntunar og þróum hæfileika mishratt. Þegar einstaklingur nær 18 ára aldri á honum að vera treystandi til að haga lífsháttum sínum eins og honum sýnist og bjóða fram krafta sína á hvaða sviði sem er. Aldur er ekki hæfnisviðmið og á ekki að leggja til grundvallar því hvort einstaklingur hafi öðlast ákveðna reynslu eða hæfni. Það er hans að sanna hæfi sitt fyrir kjósendum eins og gert er ráð fyrir í kosningum til Alþingis og sveitarstjórnar, en alþingismenn, ráðherrar, sveitarstjórnarfulltrúar og sveitarstjórar þurfa einungis að hafa náð 18 ára aldri til að geta sinnt þeim embættum.