Ferill 624. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 930  —  624. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga


um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972 (gervigreindarfólk og sjálfvirk gagnagreining).

Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Gísli Rafn Ólafsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halldóra Mogensen, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Endurgerð af einstaklingi sem ætla má að sé raunveruleg, hvort sem um er að ræða mynd, myndband, hljóðupptöku eða annað efni, er óheimil án samþykkis viðkomandi einstaklings og afkomenda hans ef viðkomandi er látinn.

2. gr.

    Á eftir 10. gr. a laganna kemur ný grein, 10. gr. b, svohljóðandi:
    Auðkenna skal allar endurgerðir sem falla undir 6. mgr. 2. gr. með þeirri aðferð sem var notuð til þess að búa til endurgerðina.
    Með endurgerð sem fellur undir 6. mgr. 2. gr. skal tilvísun í upprunalegt verk ávallt fylgja birtingu á endurgerðinni.

3. gr.

    Á eftir 11. gr. a laganna kemur ný grein, 11. gr. b, svohljóðandi:
    Heimilt er án endurgjalds að gera rafræn eintök af verki sem aflað hefur verið með lögmætum hætti, enda sé tilgangur slíkra eintaka að útbúa sjálfvirkar gagnagreiningar og vinna málfræðilegar og tölfræðilegar upplýsingar. Óheimilt er að nota slík eintök í öðrum tilgangi.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarpið var lagt fram á 148. löggjafarþingi og 149. löggjafarþingi (446. mál) en gekk ekki til nefndar. Málið er nú endurflutt og bætt er við ákvæðum um gervigreindarfólk.
    Mjög mikil þróun hefur orðið í framleiðslu alls konar efnis á undanförnum mánuðum með tilkomu öflugra stafrænna tauganeta sem búa til texta, hljóð og myndir sem mjög erfitt er að greina hvort séu framleidd af manneskju eða tölvu. Svokallaðar djúpfalsanir (e. deep fake) eru þegar notaðar í pólitískum tilgangi. Það er því mjög mikilvægt að það sé skýrt í lögum að slíkar endurgerðir séu ekki heimilar nema með leyfi þess sem endurgerðin er af. Einnig er afar nauðsynlegt að allar endurgerðir verði sérstaklega merktar sem slíkar, þannig að enginn vafi leiki á því að um endurgerð sé að ræða.
    Það er í rauninni líklegt að það þurfi að merkja allt efni sem gæti fræðilega verið endurgerð. Þannig að ef mynd, myndband eða hljóð af einhverjum er ekki merkt þá ætti fólk að álykta sem svo að um einhvers konar endurgerð sé að ræða. Ekki er gengið svo langt í þessu frumvarpi, en það er ekki ólíklegt að slík merking gerist af sjálfu sér. Að til dæmis stjórnmálafólk merki sérstaklega þau myndbönd sem birtast af því sem upprunavottuð og raunveruleg.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í 2. gr. höfundalaga er einkaréttur höfunda skilgreindur. Í 1. gr. þessa frumvarps er áréttað að hvers konar endurgerð af einstaklingi sem ætla má að sé raunveruleg sé óheimil án samþykkis viðkomandi einstaklings. Þessi árétting er vegna þróunar í gervigreind sem getur á tiltölulega einfaldan og aðgengilegan hátt gert fólki kleift að búa til myndir, myndbönd, hljóð af hvaða einstaklingi sem er án þess að hægt sé að gera greinarmun á því hvort um raunverulega mynd, myndband eða hljóðupptöku sé að ræða eða einhvers konar endurgerð.

Um 2. gr.

    Með 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að allar endurgerðir sem falla undir þá skilgreiningu sem sett er í 1. gr. frumvarpsins séu auðkenndar sem endurgerðir og ef um breytingar á upprunalegu verki er að ræða þá skuli birtingu á endurgerð fylgja tilvísun í upprunalegt verk. Greininni er ætlað að ná bæði yfir verk sem gervigreind getur búið til, sem eru án upprunaverka, og breytinga á upprunalegum verkum, svo sem ljósmyndum. Sem dæmi má nefna tískuljósmyndir sem oft er lögð mikil vinna í að breyta með myndvinnslu eða kvikmyndir með tölvugerðum teikningum.

Um 3. gr.

    Framboð rafrænna gagna, þar á meðal vísindagreina, fer ört vaxandi. Áætlað er að fleiri en þrjár milljónir ritrýndra fræðigreina séu nú birtar á hverju ári. 1 Fyrir vikið er orðið erfitt fyrir rannsakendur að komast sjálfir yfir allt efni á tilteknu rannsóknarsviði. Þess í stað notast þeir í auknum mæli við sjálfvirka gagnagreiningu tölva (e. data mining eða data analysis) til að sækja gagnlegar upplýsingar úr stórum gagnasöfnum. Sjálfvirk gagnagreining gerir rannsakendum einnig kleift að finna ýmiss konar fylgni og mynstur sem ella væri erfitt að greina.
    Sjálfvirk gagnagreining krefst þess almennt að gerð séu afrit af þeim gögnum sem á að skoða. Torsótt væri fyrir rannsakendur að afla í hvert sinn samþykkis fyrir því frá öllum rétthöfum efnis í gagnasafni sem geta hæglega hlaupið á þúsundum. Því er aðkallandi að veita undanþágu frá einkarétti höfunda til eintakagerðar vegna sjálfvirkrar gagnagreiningar í þágu tækniþróunar og vísindarannsókna.
    Miklar framfarir hafa verið á undanförnum árum í máltækni. Ein helsta hindrun sem máltækni stendur frammi fyrir er takmarkaður aðgangur að efni fyrir tölvur til úrvinnslu. Þetta frumvarp leggur til að hægt verði að gera rafræn eintök af verkum sem aflað hefur verið með lögmætum hætti til þess að vinna úr þeim málfræðilegar og tölfræðilegar upplýsingar.
1     ncses.nsf.gov/pubs/nsb202333/publication-output-by-region-country-or-economy-and-by-scientific-field