Ferill 553. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 973  —  553. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Evu Sjöfn Helgadóttur um dreifingu nektarmynda af ólögráða einstaklingum.


     1.      Eru verkferlar í grunnskólum um það hvernig skuli bregðast við ef ögrandi myndir eða nektarmyndir af börnum fara í dreifingu?
    Samkvæmt 3. mgr. 30. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, skulu grunnskólar hafa heildstæða stefnu um það hvernig fyrirbyggja eigi að líkamlegt, andlegt eða félagslegt ofbeldi eigi sér stað í skólastarfi. Skólar skulu einnig hafa áætlun um framkvæmd tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum, um hvernig brugðist er við tilvikum um einelti, annað ofbeldi og félagslega einangrun. Áætlun skal m.a. framfylgt með því að hver skóli setji sér skólareglur. Í skólareglum skal m.a. kveðið á um almenna umgengni, samskipti, stundvísi, ástundun náms og heilbrigðar lífsvenjur. Þá skal í skólareglum koma fram hvernig skólinn hyggst bregðast við brotum á þeim. Í 14. gr. sömu laga er kveðið á um ábyrgð nemenda, þar á meðal að nemendum beri að fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin. Á grundvelli 14. og 30. gr. laga um grunnskóla var sett reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum, nr. 1140/2011, sem kveður m.a. á um gerð skólareglna og inntak þeirra, sbr. IV. kafla reglugerðarinnar. Á grundvelli 9. gr. reglugerðarinnar hafa verið útbúin almenn viðmið um gerð skólareglna í grunnskólum þar sem m.a. kemur fram að í skólareglum skuli kveðið á um almenna umgengni sem miði m.a. að því að tryggja öryggi barnanna í skólanum og stuðla að velgengni þeirra í námi og starfi, þar á meðal um tæki og önnur verðmæti og notkun á rafeindatækjum sem skólinn á og tækjum sem nemendur koma með í skólann. Einnig er fjallað um mynd- og hljóðupptökur á skólatíma og birtingu þeirra og tölvu- og tækjanotkun í námi og kennslu.
    Á grundvelli framangreindra ákvæða laga um grunnskóla og reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila í skólasamfélaginu og með hliðsjón af leiðbeinandi viðmiðum um gerð skólareglna í grunnskólum geta skólar útfært skólareglur, m.a. um mynd- og hljóðupptökur á skólatíma og birtingu þeirra og viðbrögð við því ef myndefni af nemendum fer í dreifingu. Áréttað er þó að skólareglur ná hins vegar ekki yfir slíka dreifingu utan skólatíma eða skólastarfs og þá þarf að hafa til hliðsjónar önnur lög sem geta átt við þegar slíkar aðstæður koma upp, svo sem almenn hegningarlög, nr. 19/1940, eða barnaverndarlög, nr. 80/2002.
    Þá má nefna að í júní 2020 samþykkti Alþingi þingsályktun nr. 37/150, um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021–2025. Á grundvelli ályktunarinnar hefur m.a. forvarnarteymum verið komið til framkvæmda innan allra grunnskóla landsins. Í tengslum við þá aðgerð hefur verið unnið verklag og gátlisti fyrir forvarnarteymi grunnskóla og skólana til að styðjast við ásamt drögum að viðbragðsáætlun fyrir skólana að staðfæra. Viðbragðsferill fyrir starfsfólk í skóla- og frístundastarfi hefur einnig verið þróaður. Samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga hafa m.a. skólastjórnendur leik- og grunnskóla og skólaskrifstofur fengið kynningu á viðbragðsáætlun þegar grunur vaknar um brot gegn barni, þar á meðal ef nektarmynd af barni fer í dreifingu, og jafnframt hefur starfsfólk skóla verið hvatt til þess að nýta sér gagnvirkan viðbragðsferil sem Samband íslenskra sveitarfélaga útbjó.
     2.      Hyggst ráðherra bregðast við því að upp undir 30% stúlkna í 10. bekk hafa sent af sér ögrandi mynd eða nektarmynd, eins og fram kemur í skýrslunni Ungt fólk 2022? Ef svo er, hvernig?
    Á undanförnum árum hefur á vegum ríkis og sveitarfélaga verið unnið að margháttuðu fræðslu- og forvarnarstarfi gagnvart hvers konar ofbeldi gegn börnum. Gefnar hafa verið út handbækur og leiðbeiningar til skóla og annarra aðila sem starfa með börnum og ungmennum. Fjölmargir aðilar koma að fræðslu með einum eða öðrum hætti, m.a. Menntamálastofnun, Barna- og fjölskyldustofa, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, fjölmiðlanefnd og Heimili og skóli auk fjölmargra annarra aðila.
    Í tengslum við þingsályktun frá árinu 2020 nr. 37/150, um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, hefur á vef forsætisráðuneytisins verið sett upp mælaborð um stöðu aðgerða ályktunarinnar. Samkvæmt mælaborðinu er framgangur flestra aðgerða kominn vel á veg eða lokið. Líkt og rakið er í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar hefur m.a. verið komið á fót forvarnarteymum innan allra grunnskóla landsins. Hlutverk forvarnarteyma grunnskóla er að tryggja fræðslu í öllum árgöngum um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni sem hæfir aldri og þroska nemenda. Starfsfólki skóla og fulltrúum forvarnarteymanna var að auki boðið á örnámskeið um grunnatriði um kynferðislegt ofbeldi og áreitni gegn börnum og ungmennum, ferli mála, tilkynningarskyldu og einkenni ofbeldis. Allt efni sem unnið hefur verið fyrir skólana er aðgengilegt í vefgáttinni StoppOfbeldi, þar á meðal náms- og fræðsluefni, viðbragðsáætlun, viðbragðsferill, gátlisti og örnámskeið. Allt það umfangsmikla starf sem unnið hefur verið gegn hvers konar ofbeldi gegn börnum er mikilvægur liður í því að tryggja farsæld barna og ungmenna til framtíðar en ofbeldi, af hvaða tagi sem er, á aldrei að líðast.
    Að lokum má geta þess að mennta- og barnamálaráðuneyti hefur í hyggju að gefa út leiðbeinandi viðmið um farsímanotkun barna í grunnskólum sem verða unnin í víðtæku samráði við aðila skólasamfélagsins. Í leiðbeiningunum verður fjallað um hvernig unnt er að tryggja örugga farsímanotkun grunnskólanemenda í skólastarfi, þar á meðal með fullnægjandi fræðslu.