Ferill 639. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 985  —  639. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um stefnu í málefnum innflytjenda.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er ástæða þess að ráðherra hvarf frá því að leggja fram tillögu til þingsályktunar um stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks þegar þingmálaskrá 154. löggjafarþings var endurskoðuð?

    Í nóvember síðastliðnum var birt fyrsta grænbókin sem unnin hefur verið hérlendis í málefnum innflytjenda og flóttafólks en grænbókin hefur verið birt á íslensku, ensku og pólsku. Í grænbókinni er mat lagt á stöðuna í málefnum innflytjenda og flóttafólks hér á landi auk þess sem áskoranir og tækifæri eru greind til framtíðar. Í framhaldinu er gert ráð fyrir að unnin verði hvítbók sem feli í sér fyrstu drög að stefnu Íslands í málefnum innflytjenda og flóttafólks, en stefnt er að því að hvítbókin verði birt í samráðsgátt stjórnvalda í lok maí næstkomandi og að í kjölfarið verði unnin umrædd tillaga til þingsályktunar.
    Vinna við gerð tillögu að heildstæðri stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks stendur því enn yfir í víðtæku samráði við hagaðila og almenning um land allt en í því sambandi má nefna að um þessar mundir standa yfir opnir samráðsfundir víðs vegar um land. Þykir því ljóst að ekki næst að leggja fram tillögu til þingsályktunar um stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks á yfirstandandi löggjafarþingi. Stefnt er að því að leggja fram á Alþingi fyrrnefnda tillögu til þingsályktunar á haustþingi 2024 eftir að yfirstandandi vinnu lýkur við gerð tillögu að stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks.