Ferill 516. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 993  —  516. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Rögnu Sigurðardóttur um ívilnanir við endurgreiðslu námslána heilbrigðisstarfsfólks.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Telur ráðherra að nýta eigi heimild í lögum nr. 60/2020, um Menntasjóð námsmanna, til ívilnunar við endurgreiðslu námslána vegna námsgreina, sbr. 27. gr. laganna, og vegna námsgreina á sérstökum svæðum, sbr. 28. gr.?
     2.      Er fyrirhugað að nýta heimild til ívilnunar við endurgreiðslu námslána vegna náms í heilbrigðisgreinum? Hefur ráðherra hafið vinnu við gerð skýrslu um mikilvægi þess að bregðast við viðvarandi eða fyrirsjáanlegum skorti á starfsfólki í starfsstéttum, til að mynda í stétt lækna, hjúkrunarfræðinga og í öðrum heilbrigðisstéttum, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 27. gr.?
     3.      Er fyrirhugað að nýta heimild í 28. gr. til að hvetja lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk til að starfa á landsbyggðunum?
     4.      Hvenær hyggst ráðherra auka fjármagn til Menntasjóðs námsmanna til að standa undir ofangreindum ívilnunum, sbr. 4. tölul. 2. mgr. 27. gr. og 28. gr.?

    Eins og fram kemur í lögum um Menntasjóð námsmanna og í greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 60/2020 þurfa annars vegar skv. 27. gr. laganna að liggja fyrir upplýsingar um viðvarandi mönnunarvanda í ákveðnum starfsstéttum eða að slíkur vandi sé fyrirsjáanlegur. Í kjölfar þess þarf að liggja fyrir skýrsla sem byggð er á slíkum upplýsingum, um mikilvægi þess að bregðast við skortinum sem stjórnvöld vinna í samráði við hlutaðeigandi atvinnurekendur eða samtök atvinnurekenda. Er hér um að ræða landlæga þörf.
    Skilyrði ívilnunar skv. 27. gr. laganna er að lánþegi Menntasjóðs námsmanna sem hennar nýtur skuli hafa lokið prófgráðu í námi til starfsréttinda í viðkomandi starfsgrein og nýti þau réttindi til starfa í viðkomandi starfsstétt þar sem ríkir mönnunarvandi.
    Ívilnunarheimild skv. 28. gr. laga um Menntasjóð námsmanna varðar möguleika á ívilnun fyrir endurgreiðslu námslána ef fyrir liggur tillaga frá sveitarfélagi eða sveitarfélögum um þörf fyrir menntað starfsfólk í viðkomandi sveitarfélagi. Í kjölfar tillögu frá sveitarfélagi er Byggðastofnun ætlað að vinna skýrslu um tillöguna í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Forsenda fyrir beitingu ívilnunar skv. 28. gr. laganna er að skortur sé á starfsfólki í sveitarfélagi með menntun í ákveðinni starfsstétt. Að uppfylltum þessum skilyrðum og eftir staðfestingu menntayfirvalda um að þörf sé á beitingu heimildarákvæðis laganna, eru gerðar kröfur til þeirra lánþega Menntasjóðs námsmanna sem ívilnunar njóta um 50% starfshlutfall hið minnsta og skuldbindingu um búsetu í viðkomandi sveitarfélagi um tveggja ára skeið að lágmarki.
    Hinn 1. júní 2023 höfðu ekki borist neinar umsóknir á grundvelli 27. og 28. gr. laga nr. 60/2020 til ráðuneytisins. Ívilnunarheimildum hefur þar af leiðandi enn ekki verið beitt og ef til kæmi yrði það ekki mögulegt nema að fenginni sérstakri fjárveitingu á grundvelli aukinnar fjárheimildar í viðkomandi málaflokki í fjárlögum líkt og 4 tölul. 2. mgr. ákvæðanna beggja gerir kröfu um. Ákveði ráðherra að nýta þessar heimildir þarf því samhliða að óska eftir ákvörðun Alþingis um auknar fjárheimildir í fjárlögum til Menntasjóðs námsmanna.
    Samkvæmt d-lið 3. tölul. 6. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, fer heilbrigðisráðherra með málefni heilbrigðisstofnana og þ.m.t. mönnun þeirra. Möguleg skýrslugerð skv. 2. tölul. 2. mgr. 27. gr. laga um Menntasjóð námsmanna vegna mönnunarvanda á heilbrigðisstofnunum er því á verksviði viðkomandi stjórnvalda.
    Undanfari að beitingu ívilnunarheimilda í lögunum er frumkvæði, annars vegar frá hlutaðeigandi atvinnurekendum eða samtökum atvinnurekenda í viðkomandi starfsgrein og hins vegar frá sveitarfélögum, þar sem fyrir liggja upplýsingar um skort á menntuðu starfsfólki í tilteknum starfsgreinum. Komi slíkar kröfur fram og mönnunarvandinn er staðfestur af hálfu Byggðastofnunar kann að koma til álita að ráðherra leiti eftir stuðningi Alþingis við fjármögnun umræddra ívilnana hjá Menntasjóði námsmanna.