Ferill 466. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1008  —  466. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um greiðslufyrirkomulag vegna búsetu á dvalar- og hjúkrunarheimilum.


     1.      Telur ráðherra tilefni til að breyta fyrirkomulagi greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum, svo sem að afnema svokallað vasapeningakerfi en taka þess í stað upp sértækar greiðslur fyrir húsaleigu og annan kostnað sem fylgir heimilishaldi?
    Ráðherra er ekki andvígur því að endurskoða fyrirkomulag greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum en telur mikilvægt að ráðast ekki í breytingar nema að vel athuguðu máli með áherslu á að tryggja áfram jafnt aðgengi fólks að þessari mikilvægu þjónustu sem á henni þarf að halda, óháð efnahag.
    Umræða um að breyta fyrirkomulagi greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum hefur komið upp reglulega og ýmsar tillögur að breytingum hafa komið fram. Núgildandi fyrirkomulag er þannig að lífeyrisgreiðslum úr almannatryggingakerfi einstaklinga er ráðstafað til að greiða dvalarkostnað íbúa. Íbúinn heldur þó eftir tiltekinni lágmarksfjárhæð til persónulegra nota.
    Þegar rýnt hefur verið í fyrirkomulagið hefur m.a. verið skoðað hvort greiðslur almannatrygginga ættu að renna óskert til einstaklinga og þeir sæju sjálfir um að greiða fyrir dvöl sína. Auk þess hefur verið litið til þess hvort íbúar á dvalar- og hjúkrunarheimilum greiði húsaleigu sem taki mið af raunverulegum húsnæðiskostnaði, fermetrafjölda og annarri aðstöðu á því heimili þar sem þeir búa. Sömuleiðis að þeir greiði sérstaklega fyrir mat og þrif og ýmsa aðra þjónustu og geti jafnvel átt val að einhverju leyti um hvaða þjónustu þeir kjósa að nýta sér og greiða fyrir.
    Þótt framangreind sjónarmið séu að mörgu leyti skiljanleg hefur útfærsla þeirra reynst torveld og fyrir því eru ýmsar ástæður. Í fyrsta lagi er mikilvægt að tryggja öllum sem á þurfa að halda aðgang að dvalar- og hjúkrunarrýmum, óháð efnahag. Núverandi kerfi byggist á því að þeir sem metnir eru samkvæmt færni- og heilsumati í mestri þörf fyrir slíka búsetu og þjónustuna sem fylgir hafa forgang í þau rými sem losna. Ef húsaleiga og greiðslur fyrir aðra þjónustu yrði mismunandi há milli heimila gæti það leitt til þess að einstaklingur sem biði í brýnni þörf yrði að afþakka rými í ljósi kostnaðar. Í þessu sambandi er rétt að nefna að enn er töluverður munur á einkarýmum íbúa á milli hjúkrunarheimila og jafnvel innan þeirra og enn eru þess dæmi að tveir deili sama rými, þótt það heyri til undantekninga núorðið.
    Annað sem bent hefur verið á í þessari umræðu er að yfir 70% einstaklinga á hjúkrunarheimilum eru með minnisskerðingu/heilabilun eða aðra færniskerðingu sem gerir þeim ókleift að sjá sjálfir um fjármál sín. Greiðslur fyrir húsnæði og aðra þjónustu í þeirra þágu og sömuleiðis val um þjónustu ef slíkt stæði til boða yrði því óhjákvæmilega í mörgum tilvikum að vera á hendi einhvers annars, svo sem aðstandanda eða fjárhaldsmanns.

     2.      Hver var afraksturinn af vinnu starfshóps um breytt greiðslufyrirkomulag á hjúkrunarheimilum sem skipaður var vorið 2016 af Eygló Harðardóttur, þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra?
    Starfshópurinn lauk störfum með tillögum til þáverandi félags- og barnamálaráðherra í apríl 2019. Í meginatriðum fólu þær í sér að allir íbúar á dvalar- og hjúkrunarheimilum myndu sjálfir greiða fyrir búsetuna af tekjum sínum, þ.e. húsnæðiskostnað og önnur útgjöld við heimilishald, svo sem fæði og þrif, en heilbrigðisþjónusta yrði á ábyrgð ríkisins. Hætt yrði að fella niður greiðslur almannatrygginga til íbúanna. Jafnframt yrðu gerðar breytingar á bótakerfum svo öllum væri kleift að greiða fyrir búsetuna og halda eftir lágmarksupphæð sem væri ekki lægri en ráðstöfunarfé frá Tryggingastofnun ríkisins. Þeir sem ekki gætu með tekjum sínum staðið undir búsetugjaldinu og jafnframt haldið eftir fjárhæð sem svaraði fyrrnefndu ráðstöfunarfé myndu fá sérstaka viðbót á lífeyri. Vinna hópsins fól ekki í sér greiningu á raunkostnaði við húsnæði eða önnur útgjöld við heimilishald, svo sem fæði og þrif, til grundvallar ákvörðun um hæfilegt búsetugjald íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum.
    Þá var það niðurstaða hópsins að ef tekin væri ákvörðun um að vinna í frekari breytingum í þessum anda væri þörf á frekari greiningum og útreikningum.