Ferill 494. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1051  —  494. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um þvingaða lyfjagjöf við brottvísun.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu oft hefur þvinguð lyfjagjöf verið framkvæmd í tengslum við brottvísun, sbr. svar á þskj. 517 á yfirstandandi löggjafarþingi? Óskað er upplýsinga tíu ár aftur í tímann þar sem fram komi hvaða heilbrigðisstétt þeir einstaklingar tilheyra sem tóku þátt í að gefa lyfin og hvar viðkomandi störfuðu, sem og dagsetning lyfjagjafar og eftir atvikum dagsetning brottvísunar. Jafnframt komi fram kyn þess einstaklings sem lyfin voru gefin og hvort viðkomandi hafi verið yngri en 18 ára.

    Eins og fram kemur í tilvitnuðu svari á þskj. 517 hafa komið upp tilvik þar sem einstaklingur hefur við handtöku, sem undanfari flutnings úr landi í fylgd, farið í slíkt ástand að nauðsynlegt hefur verið að gefa honum róandi lyf í þeim tilgangi að tryggja öryggi hans, sem og annarra. Slík þvinguð lyfjagjöf er einungis og ávallt ákveðin af heilbrigðisstarfsfólki, ekki að beiðni stoðdeildar ríkislögreglustjóra. Lyfjagjöfin sjálf er einnig ávallt framkvæmd af heilbrigðisstarfsmanni. Í slíkum aðstæðum er framkvæmd brottvísunar eða frávísunar frestað þar til ástand viðkomandi er metið þannig af lækni að óhætt sé að flytja viðkomandi og því er lyfjagjöfin sem slík ekki framkvæmd í beinum tengslum við brottvísun.
    Ef upp koma tilvik þar sem þörf er á að óska eftir aðkomu heilbrigðisstarfsmanna í aðdraganda flutnings úr landi bókar lögregla það hjá sér en skráir ekki sérstaklega hver aðkoma viðkomandi starfsmanna var enda fær lögregla ekki upplýsingar um hvað fer á milli heilbrigðisstarfsmanna og skjólstæðinga þeirra. Þá skráir lögregla ekki niður upplýsingar um viðkomandi heilbrigðisstarfsmann. Lögreglan býr þar af leiðandi ekki yfir upplýsingum um hver aðkoma heilbrigðisstarfsmanna var í þeim tilvikum sem óskað var eftir aðstoð þeirra.