Ferill 623. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1106  —  623. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um kostnað við leiðtogafund Evrópuráðsins.


     1.      Hver var heildarkostnaður ríkissjóðs og annarra opinberra aðila við leiðtogafund Evrópuráðsins sem haldinn var í Reykjavík 16. og 17. maí 2023?
    Í maí 2023 lauk sex mánaða formennsku Íslands í Evrópuráðinu með sögulegum og afar vel sóttum leiðtogafundi 16. og 17. maí í Reykjavík sem var fjórði leiðtogafundurinn í 75 ára sögu Evrópuráðsins. Þetta var í þriðja sinn sem Ísland fór með formennsku í Evrópuráðinu frá inngöngu árið 1950, en áður leiddi Ísland starfsemina árin 1955 og 1999. Um er að ræða eitt umfangsmesta verkefni sem Ísland hefur tekið að sér á alþjóðavettvangi.
    Á vettvangi Evrópuráðsins er leiðtogafundurinn metinn árangursríkur þegar horft er til efnislegrar niðurstöðu, þátttöku og framkvæmdar. Var m.a. um að ræða mikilvægan stuðning Íslands við þjóðarétt, lýðræðisleg gildi og málstað Úkraínu. Markvisst er nú unnið að innleiðingu samþykkta Reykjavíkuryfirlýsingarinnar á vettvangi Evrópuráðsins.
    Leiðtogafundinn sóttu fulltrúar allra 46 aðildarríkja Evrópuráðsins, þar af 37 þjóðarleiðtogar og forsætisráðherrar, auk háttsettra fulltrúa alþjóðastofnana og fimm áheyrnarríkja ráðsins. Samtals komu 65 erlendar sendinefndir og hátt í eitt þúsund gestir til landsins til að taka þátt í fundinum auk meira en 200 erlendra blaða- og fjölmiðlamanna.
    Við kostnaðarþátttöku var hefðbundnum viðmiðum Evrópuráðsins fylgt. Ráðið greiddi ferðakostnað síns starfsfólks, þ.m.t. allra túlka sem að fundinum komu. Hádegisverður leiðtoga og sendinefnda í Hörpu 17. maí var einnig í boði Evrópuráðsins. Allar erlendar sendinefndir og fjölmiðlafólk greiddu allan eigin ferða- og gistikostnað og sóttu ferðamanna- og veitingastaði á eigin vegum. Ekki liggja fyrir heildartekjur íslenskrar ferðaþjónustu í tengslum við leiðtogafundinn sem þó má ætla að hafi verið umtalsverðar.
    Um 370 manns störfuðu við uppsetningu og framkvæmd fundarins, þ.e. starfsfólk Stjórnarráðsins, Evrópuráðsins, Hörpu og verktaka, auk 645 íslenskra lögreglumanna, 96 erlendra lögreglumanna og 117 annarra starfsmanna á vegum lögreglu.
    Síðbúin ákvörðun Evrópuráðsins um að halda leiðtogafund á Íslandi leiddi til þess að í fjárlögum 2023 var eingöngu gert ráð fyrir að haldinn yrði umfangsminni utanríkisráðherrafundur í lok formennsku Íslands. Í sameiginlegu minnisblaði forsætis-, dómsmála- og utanríkisráðuneyta, sem lagt var fyrir ríkisstjórn 31. mars 2023, nam áætlaður heildarkostnaður Íslands við leiðtogafundinn 1.324 millj. kr., þar af var hlutur utanríkisráðuneytisins áætlaður 432 millj. kr. Samkvæmt uppgjöri utanríkisráðuneytisins og upplýsingum frá ríkislögreglustjóra og innviðaráðuneyti nam heildarkostnaður stjórnvalda við leiðtogafund Evrópuráðsins alls 2.005 millj. kr. sem skýrist fyrst og fremst af umfangi fundarins.

     2.      Hvernig skiptist kostnaðurinn á milli opinberra aðila og á milli verkþátta, svo sem öryggisgæslu, skipulagningar o.s.frv.?
    Utanríkisráðuneytið leiddi undirbúningsvinnu fyrir leiðtogafundinn í samstarfi við forsætisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, embætti ríkislögreglustjóra, lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, Vegagerðina, Reykjavíkurborg, ISAVIA, tollgæslusvið ríkisskattstjóra og fleiri. Þar að auki var samstarf haft við önnur ráðuneyti, meðal annars innviðaráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið, og náið samstarf við skrifstofu Evrópuráðsins í Strassborg. Skipulag og framkvæmd leiðtogafundarins í Reykjavík var alfarið í höndum íslenskra stjórnvalda.
    Helstu útgjaldaliðir lögreglu voru eftirfarandi:
     a.      Undirbúnings- og skipulagsvinna að undanskildum þjálfunarkostnaði: 225 millj. kr.
     b.      Þjálfunarkostnaður: 123 millj. kr.
     c.      Fundurinn sjálfur: 843 millj. kr.
     d.      Fjárfesting – Kaup og leiga á búnaði, þar með talinn tækni- og hugbúnaður: 369 millj. kr.
    Heildarútgjöld lögreglu reyndust nokkru hærri en áætlun gerði ráð fyrir af ófyrirséðum ástæðum:
     *      Meiri þörf reyndist fyrir aðstoð erlendra lögreglumanna og sérhæfðan búnað erlendis frá (svo sem sérhæfða bíla) og lengri þjálfun og undirbúning en gert hafði verið ráð fyrir.
     *      Erlendar sendinefndir reyndust stærri en hægt var að gera ráð fyrir í upphafi svo að leggja þurfti til fleiri bíla og sérþjálfaða ökumenn frá lögreglu auk búnaðar.
     *      Sendinefndir dvöldu lengur á landinu en gert hafði verið ráð fyrir og því varði viðbúnaður lögreglunnar lengur en rekstraráætlun hafði gert ráð fyrir. Þá voru nokkrar sendinefndir með sérstaka viðbótardagskrá sem fól í sér aukna vinnu fyrir lögregluna.
    Helstu kostnaðarliðir utanríkisráðuneytis voru eftirfarandi:
     a.      Kostnaður við umgjörð fundarins: 106 millj. kr.
     b.      Laun og annar kostnaður vegna þess starfsfólks Stjórnarráðsins sem kom að undirbúningi og framkvæmd fundarins, þ.m.t. öryggisvottanir: 90 millj. kr.
     c.      Samgöngur: 61 millj. kr.
     d.      Kostnaður við leigu og kaup á nauðsynlegum búnaði, meðal annars vegna túlkaþjónustu: 103 millj. kr.
     e.      Önnur aðkeypt þjónusta, þ.m.t. kostnaður við streymi og sjónvarpsútsendingu, listamenn, prentun og merkingar: 63 millj. kr.
    Heildarkostnaður utanríkisráðuneytisins reyndist nema 423 millj. kr., en áætlun hafði gert ráð fyrir að kostnaður við fyrrgreinda þætti gæti numið 432 millj. kr.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem utanríkisráðuneytið fékk frá innviðaráðuneytinu nam samanlagður heildarkostnaður ISAVIA á Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvöllum 22 millj. kr.
Utanríkisráðuneytinu er ekki kunnugt um að kostnaður hafi fallið á aðra opinbera aðila vegna leiðtogafundarins.

     3.      Hvaða mismunandi kostnaðarþættir féllu undir öryggisgæslu við leiðtogafundinn?
    Embætti ríkislögreglustjóra annaðist öryggisgæslu í tengslum við leiðtogafundinn. Undirbúningur lögreglu hófst formlega í september 2022.
    Ljóst var frá upphafi að virkja þyrfti löggæsluna í heild sinni til að sinna þessu stóra verkefni og að nauðsynlegt yrði að virkja einnig norrænu viðbragðsáætlunina (e. Nordic Contingency Plan) og óska eftir aðstoð frá hinum Norðurlöndunum. Mikilvægt var að tryggja að lögreglan uppfyllti þær öryggiskröfur og staðla sem krafist er fyrir alþjóðlega fundi af þessu tagi, og jukust þær kröfur umtalsvert um leið og ljóst varð að um leiðtogafund yrði að ræða. Á sama tíma varð að huga að skipulagningu löggæslu á landsvísu í heild.
    Umfangsmikil þjálfun lögreglumanna fór fram á undirbúningstíma fyrir fundinn vegna öryggishlutverks þeirra og lögðu öll lögregluembætti landsins fram lögreglumenn í þessa þjálfun. Hver og ein sendinefnd sem sótti fundinn naut sérstakrar öryggisgæslu lögreglu á ferðum og gististöðum. Umfang öryggisgæslu var í samræmi við áhættumat greiningardeildar embættis ríkislögreglustjóra. Þar má nefna öryggisgæslu leiðtoga sendinefnda, umferðarfylgd, lokanir við Hörpu og í miðbænum, ytri- og innri gæslu við Hörpu og á gististöðum leiðtoganna og ýmsar aðrar öryggisráðstafanir.
    Auk þess viðbúnaðar sem tengdist beint lög- og öryggisgæslu vegna fundarins jók lögreglan almennt eftirlit með mikilvægum innviðum landsins svo sem raforku- og fjarskiptamannvirkjum.
    Verkþættir sem mynduðu kostnað við öryggisgæslu voru eftirtaldir:
     *      lífvarsla og akstur bifreiða sem hverri sendinefnd var úthlutað,
     *      undanfarandi öryggisleitir í Hörpu, á gististöðum, flugvöllum, akstursleiðum og í þeim bifreiðum sem sendinefndir höfðu til afnota,
     *      tæknileg löggæsla (löggæslueftirlit með drónum, drónavarnir og eftirlitsmyndavélar),
     *      lögregluaðstoð frá Norðurlöndunum,
     *      hreyfanlegir aðgerðarhópar sérsveitar og almennrar lögreglu,
     *      upplýsinga- og rannsóknarhópur greiningardeildar embættis ríkislögreglustjóra,
     *      viðbúnaður vegna CBRN-árása (hættuleg efni),
     *      varnir vegna net- og upplýsingaöryggis,
     *      uppsetning og rekstur stjórnstöðvar vegna sérstakra lögregluaðgerða,
     *      þjálfun lögreglumanna vegna undirbúnings fyrir leiðtogafundinn,
     *      umferðarfylgd og umferðarlokanir,
     *      uppsetning og hönnun umferðar- og götulokana og lokun öryggissvæðis við Hörpu og í miðbænum,
     *      vettvangsstjórnstöð í Hörpu,
     *      innri- og ytri öryggisgæsla í og við Hörpu,
     *      innri- og ytri öryggisgæsla í og við gististaði sendinefnda,
     *      löggæsla og öryggisráðstafanir við komur og brottfarir einkaflugvéla sendinefnda á Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvöllum, þ.m.t. öryggisvarsla einkaflugvéla sendinefnda á flugvöllunum,
     *      aðstoð frá öðrum stofnunum og aðilum vegna undirbúnings og framkvæmdar öryggisgæslu.

     4.      Hversu mikill kostnaður fór í kaup á bifreiðum fyrir leiðtogafundinn? Hversu miklum tekjum skilaði sala umræddra bifreiða ríkissjóði eftir lok fundarins?
    Engar bifreiðir voru keyptar fyrir leiðtogafund Evrópuráðsins í Hörpu. Allar bifreiðir sem notaðar voru til fólksflutninga og aðfanga voru leigðar af bílaleigum og bílaumboðum, utan 10 bifreiða í eigu Stjórnarráðsins sem lánaðar voru í verkefnið.

    Alls fóru 21 klst. í að taka þetta svar saman.