Ferill 674. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1144  —  674. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ásthildi Lóu Þórsdóttur um nauðungarsölu.


     1.      Hversu oft á ári hverju árin 2013–2023 fór nauðungarsala á fasteign fram á almennum markaði og hversu oft fór nauðungarsala á fasteign fram með uppboði á sama tímabili?
    Eftirfarandi upplýsingar eru fengnar úr starfskerfi sýslumanna, Sýslu, með vélrænni talningu í samstarfi við sýslumannaráð. Samtals voru gefin út 4.140 afsöl vegna fasteigna sem seldar voru á framhaldsuppboði á árunum 2013–2023. Á sama tímabili voru gefin út átta afsöl vegna fasteigna sem seldar voru nauðungarsölu á almennum markaði.
    Sérstök athygli er vakin á því að tölfræði embættis sýslumannsins á Vesturlandi var ekki aðgengileg í Sýslu fyrir árin 2013 og 2014. Núverandi embætti sýslumanna tóku til starfa hinn 1. janúar 2015 á grundvelli laga nr. 50/2014, um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Upplýsingar frá þessum tíma virðast ekki hafa verið færðar yfir í Sýslu úr fyrra málaskrárkerfi og eru því ekki aðgengilegar embætti sýslumannsins á Vesturlandi.
    Neðangreint er sundurliðun á framangreindum svörum eftir árum.

Alm. sala Uppboð
2013 0 1459
2014 0 608
2015 1 722
2016 1 589
2017 2 246
2018 1 114
2019 1 123
2020 0 112
2021 1 83
2022 1 48
2023 0 36
Samtals 8 4140

     2.      Hversu oft á ári hverju árin 2013–2023 neituðu sýslumenn beiðni gerðarþola nauðungarsölu um að fasteign yrði seld á almennum markaði?
    Eftirfarandi upplýsingar eru fengnar með yfirferð gagna úr starfskerfi sýslumanna, Sýslu, í samstarfi við Sýslumannaráð. Á tímabilinu 2013–2023 var, samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum, beiðni gerðarþola nauðungarsölu um sölu á almennum markaði aldrei synjað.

     3.      Hversu oft voru fasteignir seldar á nauðungaruppboði fyrir lægra verð en sem nam fasteignamati á ári hverju árin 2013–2023?

    Umbeðnar upplýsingar eru ekki aðgengilegar úr starfskerfi sýslumanna, Sýslu. Þá er jafnframt bent á að upplýsingar um fasteignamat eru hvorki sóttar úr fasteignaskrá né skráðar sérstaklega inn í starfskerfi sýslumanna við nauðungarsölu. Skýrist það af því að fasteignamat er ekki meðal þess sem fram kemur í beiðni um nauðungarsölu, sbr. 11. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu.