Ferill 713. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1186  —  713. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ágústi Bjarna Garðarssyni um mat Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna (FSRE) á húsnæðisþörf stofnana ríkisins.


     1.      Getur ráðherra upplýst nánar um kröfur FSRE sem lægstbjóðandi uppfyllti ekki, sbr. svar ráðherra við 3. tölul. fyrirspurnar á þskj. 1651 á 153. löggjafarþingi? Hverjar voru kröfur húslýsingar? Svar óskast sundurliðað eftir hverju verkefni fyrir sig.
    Í samræmi við hefðbundið verklag hjá FSRE er byrjað á því að greina húsnæðisþarfir stofnana ríkisins áður en ráðist er í auglýsingu leiguhúsnæðis undir starfsemi þeirra. Húsnæðisþarfir hlutaðeigandi stofnunar koma fram í sérstakri húslýsingu og rýmisáætlun þannig að tilboðsgjafar geti áttað sig með ítarlegum hætti á þeirri þörf sem verið er að óska eftir aðstöðu undir og sett fram það leiguverð sem þarf til að uppfylla þær kröfur. Í húslýsingu er því að finna almennar og sértækar lýsingar á aðstöðuþörf hlutaðeigandi stofnunar sem endurspegla starfsemi og eðli hennar. Þar er einkum að finna kröfur um tiltekna stærð eða fermetrafjölda, skipulag aðstöðunnar út frá fyrirhugaðri starfsemi, afhendingartíma, staðsetningu, aðkomu og fjölda bílastæða auk annarra sérþarfa sem kunna að vera fyrir hendi.

Samgöngustofa.
    Í tilfelli húsnæðis fyrir Samgöngustofu bauð lægstbjóðandi ekki fram nægjanlega stórt húsnæði miðað við húslýsingu og því ekki um gilt tilboð að ræða. Af öðrum tilboðum voru þrjú svipuð og þótti það húsnæði sem valið var hentugast að teknu tilliti til staðsetningar og innra fyrirkomulags húsnæðisins.

Fiskistofa, Akureyri.
    Í tilfelli Fiskistofu á Akureyri var upphaflega gengið til samninga við lægsta tilboðsgjafa en samningum var slitið með samkomulagi við tilboðsgjafa þar sem hann gat ekki uppfyllt ákvæði samninga og því gengið til samninga við næsta tilboðsgjafa.

Hafrannsóknastofnun.
    Í húslýsingu var gerð krafa um að rannsóknarskip stofnunarinnar gæti verið innan vissrar fjarlægðar frá höfuðstöðvum stofnunarinnar en í tilboði lægstbjóðanda var staðsetning fjarri höfn og uppfyllti það því ekki kröfur húslýsingar. Lægsta tilboði þess sem uppfyllti þá kröfu auk annarra í húslýsingu var tekið.

Vegagerðin.
    Lægstbjóðandi uppfyllti ekki kröfur húslýsingar um staðsetningu og nálægð við stofnbrautir og aðgengi að húsnæðinu. Auk þess voru kröfur um skipulag lóðar, útisvæðis og innra fyrirkomulag ekki uppfylltar.

Heilsugæsla Mosfellsumdæmis.
    Lægsta tilboð var ekki aðgengilegt þar sem að tilboðsverð fól ekki í sér þær verulegu breytingar sem gera þurfti á húsnæðinu og uppfyllti þar með ekki kröfur húslýsingar. Enn fremur lágu ekki fyrir tillöguteikningar til að hægt væri að leggja mat á skipulag húsnæðis og hentugleika þess.

Skatturinn.
    Auglýsing fyrir húsnæði fyrir Skattinn byggði á vallíkani þar sem fram kom að tilboð yrðu metin út frá hlutfalli verðs og gæða. Sá aðili sem bauð lægsta fermetraverð gat ekki staðið skil á þeim gögnum sem óskað var eftir samkvæmt auglýsingu og kom því ekki til greina. Samið var við þann aðila sem hlaut flest stig í auglýstu vallíkani.

Miðstöð fyrir geðheilsuteymi í austurhluta höfuðborgarsvæðis.
    Það tilboð sem fól í sér lægsta fermetraverðið kom ekki til frekara mats þar sem það uppfyllti ekki kröfur um staðsetningu en húslýsing kvað á um að krafa væri um nálægð við helstu stofnbrautir og almenningssamgöngur enda um þjónustustofnun að ræða.

Heilsugæslan Hlíðum.
    Það tilboð sem fól í sér lægsta boðna verð á fermetra kom ekki til frekara mats þar sem það var ekki talið uppfylla almennar kröfur um vinnuskilyrði, m.a. vegna takmarkaðra birtuskilyrða, og uppfyllti því ekki tilskildar kröfur húslýsingar.

Miðstöð fyrir geðheilsuteymi í suðurhluta höfuðborgarsvæðis.
    Það tilboð sem fól í sér lægsta boðna fermetraverðið kom ekki til frekara mats þar sem það uppfyllti ekki kröfur húslýsingar um staðsetningu. Húslýsing kvað á um að krafa væri um nálægð við helstu stofnbrautir og almenningssamgöngur enda um þjónustustofnun við almenning að ræða.

Heilsugæsla á Akureyri.
    Í húslýsingu var gerð krafa um húsnæði á einni hæð en það húsnæði sem lægstbjóðandi bauð uppfyllti ekki þá kröfu.

     2.      Hver var upphæð tilboðs lægstbjóðanda og þess tilboðs sem var tekið? Svar óskast sundurliðað eftir hverju verkefni fyrir sig.
    Þegar horft er á upphæð tilboða er bæði litið til fermetraverðs og heildarverðs en heildarverð tekur tillit til fermetraverðs og heildarstærðar rýmis. Í meðfylgjandi töflu eru borin saman lægstu tilboð og tilboð sem tekin voru í hvert sinn, bæði fermetraverð og heildarverð.

Lægsta boð Tekið boð
Stofnun Ár Fermetraverð Stærð Heildarverð Fermetraverð Stærð Heildarverð
Samgöngustofa 2013 1.500 1.070 1.605.150 2.050 3.624 7.429.200
Fiskistofa, Akureyri 2016 1.700 670 1.139.000 2.260 715 1.615.900
Hafrannsóknastofnun 2016 1.790 5.150 9.218.500 2.200 5.089 11.195.800
Vegagerðin 2018 2.262 5.969 13.501.878 2.650 5.963 15.801.950
Heilsugæsla Mosfellsumdæmis 2018 2.550 1.200 3.060.000 2.700 1.200 3.240.000
Skatturinn 2021 2.976 9.867 29.362.704 3.459 9.705 33.569.595
Geðheilsa austur 2018 2.050 420 861.000 2.900 422 1.223.800
Heilsugæslan Hlíðum 2021 4.898 1.253 6.138.663 4.960 1.300 6.448.000
Geðheilsa suður 2019 2.500 420 1.050.000 2.950 420 1.239.000
Heilsugæslan Akureyri 2021 2.690 1.662 4.470.780 2.990 1.662 4.969.380