Ferill 357. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1187  —  357. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um skatttekjur sem hlutfall af landsframleiðslu.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvar stendur Ísland í samanburði við önnur ríki OECD hvað varðar skatttekjur sem hlutfall af landsframleiðslu þegar horft er til álits fjármálaráðs frá apríl 2021 þar sem alþjóðlegur samanburður á umfangi hins opinbera miðast við skatttekjur og lífeyrisgjöld?
     2.      Hvar stendur Ísland í samanburði við Norðurlöndin hvað varðar skatttekjur sem hlutfall af landsframleiðslu, sbr. ofangreint?


    Skatttekjur hins opinbera í hlutfalli við verga landsframleiðslu er algengur mælikvarði skattbyrði og sem slíkur góður til samanburðar milli landa enda einfaldur og auðskiljanlegur. Einfaldleikinn er þó á kostnað þess að ekki er tekið tillit til þátta á borð við ólíka aldursdreifingu milli ríkja eða annarra sérstakra aðstæðna sem áhrif geta haft á umfang opinberra kerfa. Annar galli er að ekki er tekið tillit til ólíks fyrirkomulags við fjármögnun lífeyristrygginga og skekkir það samanburðinn.
    Það sem helst skekkir samanburðinn, sér í lagi við samanburð á Íslandi og öðrum Evrópuríkjum, er að misjafnt er milli landa hvort lífeyriskerfi eru fjármögnuð innan eða utan skattkerfis. Á Íslandi er lögboðinn skyldusparnaður í lífeyrissjóði utan skattkerfis en algengt er í öðrum ríkjum að fjármagna lífeyristryggingar með sköttum, t.d. í svokölluðum gegnumstreymiskerfum. Skattbyrði mælist því, án leiðréttinga, óhjákvæmilega meiri í ríkjum þar sem lífeyristryggingar eru fjármagnaðar með sköttum ef vegnar eru saman skatttekjur og landsframleiðsla. Leiðrétting á þessari skekkju er einkar mikilvæg í samanburði Norðurlandaþjóða þar sem að Ísland sker sig úr með sjóðasöfnunarkerfi en hin Norðurlöndin notast í meira mæli við gegnumstreymiskerfi.
    Í gögnum OECD yfir skatttekjur eru greiðslur vegna lífeyris ekki aðgreindar sérstaklega en við samanburð á skattbyrði hefur hér verið farin sú leið að undanskilja frá samanburðinum tryggingagjöld (e. Social Security Contributions) eða þann flokk skatta sem framlög til lífeyriskerfa falla alla jafna undir. Sú aðferð er ekki gallalaus þar sem fleira fellur þar undir en greiðslur til að standa undir lífeyri. Má þar nefna að hér á landi er einnig um að ræða greiðslur vegna atvinnuleysistrygginga, fæðingarorlofs og hluta annarra almannatrygginga.
    Á mynd 1 er borin saman skattbyrði á Íslandi og annarra ríkja OECD miðað við þessa aðferðafræði. Í þeim samanburði er skattbyrði á Íslandi sú fimmta mesta meðal ríkja OECD árið 2021 en um leið önnur minnsta meðal Norðurlanda. Danmörk sker sig úr í samanburðinum enda er lífeyrir þar fjármagnaður með öðrum sköttum en tryggingagjaldi og af þeim sökum er súla Danmerkur sérstaklega merkt og haldið utan við meðaltalið sem birtist sem lárétt lína þvert yfir grafið.

Mynd 1. Hlutfall skatttekna af VLF OECD-ríkja árið 2021. Tryggingagjöld undanskilin (SSC).


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Heimild: OECD Revenue Statistics.

    Framangreind nálgun gengur út á að undanskilja frá samanburðinum þann hluta skatttekna sem ekki er sambærilegur milli landa vegna þess að í sumum ríkjum fjármagna þær lífeyristryggingar. Önnur leið til að leiðrétta fyrrnefnda skekkju er að bæta við fjármögnun lífeyristrygginga sem fellur utan skattkerfis. Þeirri aðferð var beitt í áliti fjármálaráðs í apríl 2021 og notast við gagnagrunn OECD yfir greiðslur til lífeyrissjóða. Sá samanburður er heldur ekki gallalaus þar sem ekki er gerður greinarmunur á skyldugreiðslum og valkvæðum, svo sem viðbótarlífeyrissparnaði, í gögnum OECD.
    Á mynd 2 eru aftur vegnar saman skatttekjur og verg landsframleiðsla. Ólíkt fyrri samanburði er tryggingagjöldum haldið inni og búið að bæta við greiðslum í lífeyrissjóði. Tölurnar eru sóttar af vefsíðu OECD og varða árið 2021 en ekki liggja fyrir nýrri tölur á vef stofnunarinnar yfir inngreiðslur í lífeyrissjóði. Niðurstaðan breytist nokkuð frá fyrri samanburði þegar þessari aðferð er beitt þó enn tróni Danmörk á toppnum sem það land þar sem skattbyrði er mest. Ísland er í þessum samanburði með fjórðu mestu skattbyrðina innan OECD og þriðju mestu meðal Norðurlandanna.


Mynd 2. Hlutfall skatttekna og greiðslna í lífeyrissjóði af VLF OECD-ríkja árið 2021.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     Heimild: OECD Revenue Statistics og OECD Pension Statistics.