Ferill 12. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 12  —  12. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um velferð dýra, nr. 55/2013 (bann við blóðmerahaldi).

Flm.: Inga Sæland, Andrés Ingi Jónsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    Á eftir 2. mgr. 20. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Bannað er að taka blóð úr fylfullum merum í þeim tilgangi að selja það eða vinna úr því hormónið PMSG (Pregnant Mare Serum Gonadotropin) eða nokkra aðra vöru til sölu.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 45. gr. laganna:
     a.      Á eftir c-lið 1. mgr. kemur nýr stafliður, svohljóðandi: hann brýtur gegn bannákvæðum skv. 20. gr.
     b.      6. mgr. fellur brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var lagt fram á 151., 152. og 153. löggjafarþingi (53. mál) en náði ekki fram að ganga og er nú lagt fram að nýju óbreytt. Alls bárust 24 umsagnir um málið á 153. löggjafarþingi. Jafnframt barst fordæmalaus fjöldi umsagna um málið á 152. löggjafarþingi, alls 137. Einnig barst Alþingi undirskriftalisti þar sem 6.380 manns kölluðu eftir því að blóðmerahald yrði bannað. Meðal umsagnaraðila voru dýraverndunarsamtök, bæði innlend og alþjóðleg, dýralæknar, stjórnvöld, blóðmerabændur, almennir borgarar og fyrirtækið Ísteka. Ekki er hægt að fara í saumana á öllum þeim umsögnum sem bárust en rauði þráðurinn í afstöðu aðila er sá að þeir aðilar sem höfðu hagsmuna að gæta af blóðmerahaldi lögðust gegn frumvarpinu en almennir borgarar og dýraverndarsinnar studdu almennt markmið frumvarpsins. Þá bárust einnig á annað hundrað umsagnir til Matvælastofnunar vegna útgáfu starfsleyfis Ísteka, sem framleiðir PMSG úr merablóði, en þorri umsagnaraðila lagðist gegn endurnýjun starfsleyfisins og mótmælti blóðtöku úr fylfullum merum.
    Á Íslandi er stunduð blóðtaka úr fylfullum merum í því skyni að vinna úr blóðinu hormónið Pregnant Mare Serum Gonadotropin (PMSG), sem selt er til líftæknifyrirtækja svo að framleiða megi frjósemislyf, aðallega fyrir svínarækt. Blóðmerar eru látnar ganga með folöld eins oft og mögulegt er til að hámarka afköst hverrar merar, þar til hormónið finnst ekki lengur í blóði hennar. Þegar svo er komið er merunum slátrað. Folöldunum er að jafnaði slátrað. Umfang blóðtökunnar fer fram úr ráðlögðu hámarki, en samkvæmt ritrýndri fræðigrein Vilanova o.fl. er lagt til að við endurteknar blóðtökur skuli ekki taka meira blóð en sem nemur 7,5% af heildarblóðrúmmáli. 1 Gildandi reglugerð heimilar umtalsvert meiri blóðtöku, allt að 18,5% af heildarblóðrúmmáli vikulega, átta vikur í röð. 2
    Fylfullar merar sæta mismiklu og misgrófu ofbeldi við blóðtöku þegar verið er að ná úr þeim hormóninu PMSG. Það má glögglega sjá í heimildarmyndinni „Ísland – land 5.000 blóðmera“ sem var frumsýnd 22. nóvember 2021 og vakti sterk viðbrögð og mikla reiði um heim allan. Í myndinni er fjallað um blóðmerahald á Íslandi þar sem greinilega kemur í ljós sú illa meðferð, misþyrming og dýraníð sem hryssurnar þurfa að sæta við blóðtökuna. Í myndinni eru færð rök fyrir því að ætla megi að slíkt harðræði tíðkist almennt við blóðtökuna hér á landi. Sumarið 2022 var tilkynnt um átta fylfullar merar sem drápust í tengslum við blóðtöku og grunur er um að þar hafi verið að störfum dýralæknar sem voru ekki nógu þjálfaðir. 3 Blóðmerahald jókst til muna undangenginn áratug en í kjölfar aukinnar umfjöllunar um blóðmerahald hefur umfang þess farið minnkandi. Árið 2021 voru 119 starfsstöðvar með 5.383 blóðmerar, en árið 2022 voru starfsstöðvar 90 talsins og heildarfjöldi blóðmera 4.779.
    Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, sendi bréf til íslenskra stjórnvalda 10. maí 2023 þar sem færð voru rök fyrir því að blóðmerahald bryti í bága við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/63/ESB frá 22. september 2010 um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni. Samkvæmt ESA heyrir starfsemin undir tilskipunina, þar sem hún telst sem notkun dýra í öðrum vísindalegum tilgangi og kann að valda dýrum sársauka, þjáningu eða varanlegum skaða umfram þann þröskuld sem tilskipunin kveður á um. ESA telur jafnframt að hvorki lög um velferð dýra né sú reglugerð sem ráðherra setti um blóðtöku úr fylfullum hryssum, nr. 900/2022, uppfylli þær kröfur sem tilskipunin gerir og miði að því að vernda dýr sem nota á í vísindaskyni. Það er skilyrði samkvæmt tilskipuninni að stjórnvöld meti hvort notkun dýra á þennan hátt sé nauðsynleg til að ná fram þeim markmiðum sem að er stefnt eða hvort hægt sé að ná fram sömu markmiðum án notkunar dýra. Íslensk stjórnvöld hafa ekki framkvæmt slíkt mat. Í kvörtuninni sem barst til ESA vegna blóðmerahalds á Íslandi kom fram að nú þegar væru framleiddar staðkvæmdarvörur sem hefðu sömu notkunareiginleika og þau lyf sem framleidd eru úr hormóni fylfullra mera.
    Evrópuþingið hefur skorað á bæði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og aðildarríki þess að hætta innflutningi og framleiðslu á PMSG. Áskorun þingsins til aðildarríkja ESB er í raun einnig beint til Íslands sem aðildarríkis EES-samningsins. Ef framkvæmdastjórnin grípur til aðgerða til að framfylgja ályktun Evrópuþingsins, sem felur í sér bann við blóðmerahaldi í Evrópu, liggur ljóst fyrir að slíkt bann mun ná til Íslands á grundvelli EES-samningsins.
    Ísland er líklega eini framleiðandi PMSG í Evrópu, þrátt fyrir að hrossabúskapur sé stundaður í öllum löndum álfunnar. Það vekur furðu að starfsemi sem þessi sé jafn umfangsmikil hér á landi og raun ber vitni.
    Íslandsstofa hefur á undanförnum átta árum verið í sérstöku markaðsátaki til að kynna íslenska hestinn á erlendri grundu. Átakið felst í því að íslenski hesturinn verði þekktur á heimsvísu sem reiðhesturinn með góða geðslagið, sá sem færir fólk nær náttúrunni. Markmiðið með átakinu er að auka verðmætasköpun sem byggist á íslenska hestinum, styrkja ímynd hans í vitund fólks um heim allan og markaðssetja vörumerkið Horses of Iceland.
    Ísland ver á ári hverju miklum fjármunum í að draga fram jákvæða ímynd landsins á erlendri grund. Blóðmerahald stórskaðar þessa ímynd og hefur verið fordæmt um heim allan. Ef ekki verður gripið til aðgerða gegn blóðmerahaldi tafarlaust verður orðspor og ímynd Íslands fyrir óafturkræfu tjóni.
    Lög um velferð dýra hafa það að markmiði að stuðla að velferð dýra, að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að dýr geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt. Það má vera ljóst að blóðmerahald brýtur gegn framangreindum markmiðum laganna. Stjórnvöld hafa ekki tryggt vernd fylfullra mera gegn því ofbeldi og þeirri illu meðferð sem felst í blóðmerahaldi. Löggjafinn verður að grípa til aðgerða strax og banna með öllu blóðmerahald. Lagt er til að brot gegn því banni varði refsingu skv. 1. mgr. 45. gr. laga um velferð dýra. Þá er einnig lagt til að 6. mgr. 45. gr., sem kveður á um að brot gegn velferð dýra skuli aðeins sæta rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Matvælastofnunar, verði felld brott.

1    Vilanova o.fl.: Recommendations for Ensuring Good Welfare of Horses Used for Industrial Blood, Serum, or Urine Production. Animals, 11(5).
2    Guðrún Scheving Thorsteinsson o.fl.: Um blóðtökur úr fylfullum hryssum. Vísir.is, 11. ágúst 2023.
3    Átta fylfullar hryssur drápust í tengslum við blóðtöku. Heimildin.is, 14. júlí 2023.