Ferill 848. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1269  —  848. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á myndlistarlögum, nr. 64/2012 (framlag til listaverka í nýbyggingum).

Flm.: Jón Gunnarsson, Óli Björn Kárason, Diljá Mist Einarsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Njáll Trausti Friðbertsson.


1. gr.

    14. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í IV. kafla myndlistarlaga er að finna ákvæði um listaverk í opinberum byggingum. Má þar nefna 13. gr. sem kveður á um að opinberar byggingar og umhverfi þeirra skuli fegra með listaverkum. Jafnframt er í 14. gr. mælt fyrir um skyldu hins opinbera til að verja að minnsta kosti 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar til listaverka í henni og umhverfi hennar. Í lögunum er hvergi að finna undantekningu frá kröfum 14. gr. og gildir hún því ávallt, óháð eðli og hlutverki nýbyggingarinnar.
    Heildarbyggingarkostnaður nýbygginga getur verið mjög hár, en sem dæmi má nefna að áætlaður heildarbyggingarkostnaður nýs Landspítala er 210 ma.kr. Í því tilviki er hinu opinbera skylt að fjárfesta í listaverkum fyrir spítalann fyrir að lágmarki 2,1 ma.kr. Að mati flutningsmanna er ekki unnt að réttlæta slík fjárútlát til listaverkakaupa fyrir eina byggingu.
    Kaup á listaverkum eru í eðli sínu mjög frábrugðin hefðbundnum fjárútlátum hins opinbera vegna nýbygginga. Í fyrsta lagi hafa listaverkin hvorki áhrif á notkunarmöguleika byggingarinnar eða þá starfsemi sem byggingin hýsir. Í öðru lagi eru gæði listaverka eingöngu byggð á huglægu mati. Fagurfræðilegt mat er alltaf háð persónulegri skoðun hvers og eins og því ómögulegt að slá því föstu að tiltekið listaverk sé betra eða fegurra en önnur. Þegar um fjárfestingu sem grundvallast á slíku mati er að ræða er það álit flutningsmanna að óeðlilegt sé að miða við tiltekna lágmarksfjárhæð, að hinu opinbera sé skylt að verja einhverri fyrir fram ákveðinni upphæð, óháð þörfum nýbyggingarinnar og gæðum hins keypta. Fjárfesting af þessum toga samræmist illa kröfum laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, um hagkvæma opinbera fjárstjórn, þar sem hinu opinbera getur í reynd verið skylt að velja óhagkvæmasta kostinn til þess að uppfylla skilyrði 14. gr. myndlistarlaga um lágmarksfjárútlát.
    Í ljósi fjölbreytileika opinberra stofnana og mismikils byggingarkostnaðar nýbygginga er að mati flutningsmanna ekki hægt að láta eina reglu gilda um kaup á listaverkum, til að mynda hýsa sumar opinberar byggingar starfsemi sem er með öllu opin almenningi sem eðlilegt er að skreyta með nokkrum fjölda listaverka. Aðrar opinberar byggingar eru þess eðlis að almenningi er þar bannaður aðgangur, svo sem fangelsi eða varnarmannvirki. Í slíkum byggingum er bersýnilega ekki jafn mikil þörf á listaverkum og í öðrum nýbyggingum. Þá getur byggingarkostnaður einstakra bygginga verið gríðarlega hár og hlaupið á hundruðum milljarða. Fyrir slíkar byggingar bæri hinu opinbera að kaupa listaverk fyrir nokkra milljarða.
    Ekki er tilefni til þess að binda hendur hins opinbera hvað listaverkakaup varðar líkt og er gert í 14. gr. myndlistarlaga. Við slíkar ákvarðanir er eðlilegt að litið sé til starfsemi og eðlis byggingarinnar, sem og stöðu ríkisfjármála hverju sinni. Í frumvarpinu er því lagt til að 14. gr. myndlistarlaga, um að verja skuli að minnsta kosti 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar til listaverka í henni og umhverfi hennar, verði felld brot. Eftir sem áður verður þó skylt að fegra nýbyggingar með listaverkum, sbr. 13. gr. laganna, sem stendur óbreytt.