Ferill 549. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1271  —  549. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um kostnað vegna réttargæslu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.


     1.      Hver voru útgjöld ríkissjóðs á ári frá 1. janúar 2018 til 1. október 2023 vegna réttargæslu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd? Svar óskast sundurliðað eftir því hvar umsókn er stödd í umsóknarferlinu, þ.e. hvort hún sé fyrir Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála eða dómstólum.
    Eftirfarandi upplýsingar miðast við kostnað við réttaraðstoð í málum um alþjóðlega vernd á grundvelli 30. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016. Líkt og þar greinir á umsækjandi um alþjóðlega vernd rétt á að Útlendingastofnun skipi honum talsmann við meðferð málsins hjá stjórnvöldum, þ.e. hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála. Rétturinn nær því ekki til málsmeðferðar fyrir dómstólum. Ekki er unnt að aðgreina kostnað vegna talsmannaþjónustu milli Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála. Vikið er að hámarksfjölda tíma sem greitt er fyrir talsmannaþjónustu á hvern umsækjanda á báðum stjórnsýslustigum hér á eftir.
    Árið 2018 var undirritaður samningur dómsmálaráðuneytis, Útlendingastofnunar og Rauða kross Íslands vegna aðstoðar og þjónustu við einstaklinga sem sótt höfðu um alþjóðlega vernd á Íslandi. Samningurinn var gerður að undangengnu útboði og var gildistími samningsins til þriggja ára, nánar tiltekið frá 1. mars 2018 til 28. febrúar 2021. Í febrúar 2021 var samningurinn framlengdur til eins árs og í upphafi árs 2022 var hann framlengdur síðasta sinn til 30. apríl það ár. Á grundvelli samningsins fékk Rauði krossinn greiddan fastan kostnað fyrir stöðugildi 15 lögfræðinga sem sinntu hlutverki talsmanna og 6,25 stöðugildi þeirra sem sinntu félagsþjónustu. Miðuðust árlegar greiðslur við þjónustu allt að 1.200 umsækjenda um alþjóðlega vernd, eða um 400. millj. kr. á ársgrundvelli.
    Kostnaður vegna samnings stjórnvalda við Rauða krossinn frá árinu 2018 til og með apríl 2022 var eftirfarandi:

Ár 2018 2019 2020 2021 Jan–apr 2022
Fjárhæð (kr.) 419.635.729 366.939.109 319.128.326 338.782.949 123.305.752
Afgreidd mál 790 1.123 904 794 1.192*
* Þar af 832 mál vegna fjöldaflótta frá Úkraínu.

    Vakin er athygli á að framangreindur kostnaður tekur til samningsins í heild en ekki bara talsmannaþjónustu.
    Í auglýsingu sem birtist 3. mars 2022 á vefsíðunni utbodsvefur.is var talsmannaþjónusta fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd boðin út. Var lögfræðingum/lögmönnum boðið að sækja um að sinna hlutverki talsmanns í gegnum heimasíðu Útlendingastofnunar þar sem nánari samningsskilmála er að finna. Var hámarksfjöldi tíma þannig tilgreindur í skilmálum útboðsins og settur af Útlendingastofnun sem greiðanda þjónustunnar. Um 100 talsmenn eru að jafnaði skráðir á lista Útlendingastofnunar.
    Kostnaður vegna starfa talsmanna greiðist úr ríkissjóði skv. 5. mgr. 13. gr. laga um útlendinga og nemur þóknunin 16.500 kr. fyrir hverja byrjaða klukkustund að viðbættum virðisaukaskatti, sbr. 1. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga, nr. 540/2017. Í reglugerðinni kemur einnig fram að miða skuli við að eðlilegt umfang á þjónustu talsmanns sé sjö klukkustundir. Út frá því viðmiði hefur Útlendingastofnun mótað eftirfarandi töflur fyrir hámarksfjölda tíma sem greitt er fyrir talsmannaþjónustu á hvern umsækjanda á báðum stjórnsýslustigum. Hámarksfjöldi tíma er þannig misjafn og tekur mið af umsækjanda og þeirri málsmeðferð sem umsóknin hlýtur.

Mál hjá Útlendingastofnun
Fullorðinn umsækjandi Barn (6–12 ára) í fylgd einstæðs foreldris Barn (13–17 ára) í fylgd einstæðs foreldris Fylgdarlaust barn
Forgangsmeðferð 7 klst. 1 klst. 2 klst. 15 klst.
36. gr. mál 10 klst. 1 klst. 2 klst. 15 klst.
Efnismeðferð 15 klst. 1 klst. 2 klst. 15 klst.

    Í þeim tilvikum þegar hámarksfjöldi tíma er fullnýttur á lægra stjórnsýslustigi greiðir Útlendingastofnun í samræmi við eftirfarandi tímatöflu samkvæmt vinnuframlagi talsmanns á æðra stjórnsýslustigi.

Mál hjá kærunefnd útlendingamála
Fullorðinn umsækjandi Fylgdarlaust barn
Forgangsmeðferð 4 klst. 10 klst.
36. gr. mál 8 klst. 10 klst.
Efnismeðferð 10 klst. 10 klst.

    Kostnaður vegna talsmannaþjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd á tímabilinu maí til desember 2022 var um 180 millj. kr. (heildarfjöldi afgreiddra mála var 2.811, þar af 1.489 vegna fjöldaflótta frá Úkraínu). Vegna breytinga á skráningu hjá Útlendingastofnun liggur ekki nákvæmlega fyrir hver heildarkostnaður árið 2023 var. Frá júní til desember það ár var kostnaðurinn þó um 345 millj. kr. og því má áætla að kostnaður yfir allt árið hafi verið um 700 millj. kr. (heildarfjöldi afgreiddra mála var um 3.500, þar af um 1.500 vegna fjöldaflótta frá Úkraínu).

     2.      Hvaða lögaðilar hafa fengið greitt fyrir að veita framangreinda þjónustu og hversu háar voru þær greiðslur á hverju ári fyrir sama tímabil?
    Í þessum þætti fyrirspurnarinnar er spurt hvaða lögaðilar hafi fengið greitt fyrir að veita talsmannaþjónustu og hversu háar þær greiðslur hafi verið á hverju ári fyrir sama tímabil. Í svari við spurningu 1 er fjallað um samninginn sem gerður var við Rauða krossinn árið 2018 en hann fól í sér um 400 millj. kr. kostnað á ársgrundvelli, þ.m.t. fyrir félagsþjónustu.
    Hvað varðar aðra lögaðila en Rauða krossinn og nánar afmarkaða reikninga fyrir tímabilið 1. maí 2022 til dagsins í dag er sá þáttur fyrirspurnarinnar það viðamikill að ekki er hægt að svara honum með einföldum hætti og í stuttu máli í samræmi við 1. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991. Í því samhengi bendir ráðuneytið á að fyrir tímabilið 12. maí til 5. desember 2022 voru gefnir út 684 reikningar vegna talsmannaþjónustu og fyrir tímabilið 5. júní til 30. nóvember 2023 voru gefnir út 10.082 reikningar. Er því of umfangsmikið verk að taka saman þær greiðslur sem hver og einn lögaðili hefur fengið á grundvelli talsmannaþjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Eins og nánar greinir í svari við spurningu 1 eru um 100 talsmenn skráðir á lista Útlendingastofnunar en hann er aðgengilegur á vefsíðu stofnunarinnar. Þá er til hliðsjónar vísað til svars dómsmálaráðherra við fyrirspurn um skipun og störf talsmanna frá 13. desember 2023, sbr. þingskjal 772 – 297. mál á 154. löggjafarþingi, um hvaða verklagsreglur og viðmið gilda um skipun talsmanna.