Ferill 891. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1330  —  891. mál.




Beiðni um skýrslu


frá dómsmálaráðherra um áhrif breytinga á 194. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og um opinbera framkvæmd í kjölfar breytinganna.


Frá Jóni Steindóri Valdimarssyni, Hönnu Katrínu Friðriksson, Guðbrandi Einarssyni, Rafni Helgasyni, Sigmari Guðmundssyni, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, Andrési Inga Jónssyni, Gísla Rafni Ólafssyni, Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, Loga Einarssyni, Dagbjörtu Hákonardóttur, Ingu Sæland, Guðmundi Inga Kristinssyni, Tómasi A. Tómassyni, Sigurjóni Þórðarsyni, Jakobi Frímanni Magnússyni og Ásthildi Lóu Þórsdóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, er þess óskað að dómsmálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um áhrif þess að lög nr. 16/2018, um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, voru samþykkt og um opinbera framkvæmd í kjölfar breytinganna. Í skýrslunni komi m.a. fram:
     1.      Fjöldi tilkynninga til lögreglu vegna nauðgunarbrota á hverju 12 mánaða tímabili frá því að lögin tóku gildi þar til nú og á hverju 12 mánaða tímabili í 5 ár fram að samþykkt laganna.
     2.      Hlutfall þeirra tilkynninga sem hafa leitt annars vegar til þess að gefin er út ákæra og hins vegar til sakfellingar sömu tímabil.
     3.      Umfjöllun um hvort verklagi hafi verið breytt hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum í kjölfar þess að lögin voru samþykkt og hvort starfsfólk lögreglu, ákæruvalds og dómstóla hafi fengið sérstaka fræðslu um umræddar breytingar á 194. gr. almennra hegningarlaga.
     4.      Samantekt á því hvernig atriðin sem talin eru í 1.–3. tölul. hafa verið í Svíþjóð með tilliti til sambærilegrar löggjafar þar í landi.
     5.      Samanburður á breytingum á fjármagni sem varið er til forvarna og fræðslu um samþykki í kynferðislegum samskiptum á Íslandi og í Svíþjóð með sérstakri áherslu á fræðslu fyrir lögreglu, ákæruvald og dómstóla.
     6.      Yfirlit yfir nauðgunarákvæði hegningarlaga í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Sérstaklega verði fjallað um ákvæði um samþykki, þar sem slík ákvæði hafa verið leidd í lög eða löggjöf boðuð, og um skilyrði um ásetning og mismunandi stig gáleysis.
     7.      Rök með og á móti því að rýmka nauðgunarákvæði almennra hegningarlaga þannig að það taki einnig til gáleysis eða stórfellds gáleysis og greining á áhrifum þess á sönnunarfærslu, með hliðsjón af reynslu annarra ríkja sem hafa þegar innleitt slíka reglu.

Greinargerð.

    Beiðni þessi var áður flutt á 153. löggjafarþingi ( 346. mál).
    Árið 2018 voru samþykkt lög nr. 16/2018, um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum. Með lögunum voru gerðar breytingar á 194. gr. hegningarlaga þess efnis að samþykki var fært í forgrunn skilgreiningar á nauðgunarbrotum og horfið frá megináherslu á verknaðaraðferð. Eftir gildistöku laganna þarf samþykki fyrir samræði eða öðrum kynferðismökum að hafa legið fyrir og án þess teljist þau varða refsingu. Samþykki þarf jafnframt að hafa verið tjáð af frjálsum vilja.
    Um sex ár eru nú liðin frá því að lögin voru samþykkt og tóku gildi og er því komin nokkur reynsla á beitingu þeirra. Markmið skýrslubeiðninnar er að safna upplýsingum um áhrif framangreindra breytinga á 194. gr. almennra hegningarlaga og bera þau saman við reynslu annarra ríkja.
    Í fyrsta lagi óska skýrslubeiðendur eftir upplýsingum sem varpað geta ljósi á það hvort breytingarnar hafi haft áhrif á fjölda þeirra brota sem tilkynnt eru til lögreglu, sem væri til marks um að samþykki í forgrunni nauðgunarákvæðis sé til þess fallið að auka traust í garð réttarvörslukerfisins. Í öðru lagi óska þeir upplýsinga um hvort hlutfall útgefinna ákæra eða sakfellinga fyrir dómi hafi breyst í kjölfar breytinga á ákvæðinu. Í þriðja lagi er óskað umfjöllunar um hvort verklag hafi verið uppfært og fræðsla veitt um hið nýja ákvæði hjá þeim stofnunum sem bera ábyrgð á meðferð þess. Í fjórða lagi er farið fram á að framangreind áhrif verði borin saman við árangur sænska ríkisins af sambærilegum breytingum, sem voru leidd í lög þar í landi 1. júlí 2018. Í fimmta lagi er óskað samanburðar á þeim breytingum sem hafa orðið á fjárframlögum til fræðslu- og forvarnamála um kynferðisleg samskipti á Íslandi og í Svíþjóð undanfarin 5 ár, með sérstakri áherslu á fræðslu fyrir lögreglu, ákæruvald og dómstóla. Í sjötta lagi óska skýrslubeiðendur yfirlits yfir nauðgunarlöggjöf annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins þar sem annars vegar verði fjallað sérstaklega um samþykkisákvæði og hins vegar um það hvernig skilyrðum um ásetning eða mismunandi stig gáleysis í nauðgunarmálum sé háttað í þeim ríkjum. Að lokum óska skýrslubeiðendur mats ráðherra á kostum og göllum þess að nauðgunarákvæði almennra hegningarlaga verði rýmkað svo að það taki einnig til brota sem framin eru af gáleysi eða stórfelldu gáleysi.