Ferill 622. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1346  —  622. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um kostnað vegna skemmda á húsnæði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.


     1.      Hver var kostnaður ríkissjóðs, frá 1. janúar 2019 til 1. janúar 2024, vegna skemmda sem unnar voru á húsnæði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
     2.      Hver er fjöldi reikninga á fyrrgreindu tímabili sem ríkissjóði hafa borist frá rekstraraðilum eða eigendum þessa húsnæðis vegna skemmda? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
     3.      Eru þessir reikningar sannreyndir af hálfu greiðanda með einhverjum hætti? Ef svo er, hvaða mat fer fram á skemmdu húsnæði af hálfu greiðanda áður en reikningar eru greiddir og hver framkvæmir það mat?
     4.      Í hve mörgum tilfellum á tímabilinu var fjárhæðin sem ríkið greiddi frábrugðin upphaflegri fjárhæð reiknings og hvaða ástæður lágu að baki því? Svar óskast sundurliðað eftir hverju tilviki.

    Þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd færðist í júlí 2022 frá Útlendingastofnun til Vinnumálastofnunar. Upplýsingar fyrir þann tíma um kostnað vegna skemmda á húsnæði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd liggja því hvorki fyrir hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu né Vinnumálastofnun og miðast svör við fyrstu fjórum töluliðum fyrirspurnarinnar því við seinni helming ársins 2022 og allt árið 2023.
    Kostnaður á árinu 2022 vegna skemmda sem unnar voru á húsnæði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd nam 13.888.955 kr. og var um að ræða einn reikning á því ári. Kostnaður á árinu 2023 er áætlaður tæplega 3.000.000 kr. en um er að ræða einn reikning sem enn er ógreiddur þar sem mat á kostnaði vegna viðgerða á umræddu húsnæði er enn til skoðunar.
    Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun eru skemmdir sem verða á húsnæði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd metnar af umsjónarmanni húsnæðisins hjá stofnuninni í samráði við eiganda eða rekstraraðila viðkomandi húsnæðis. Reikningar eru í framhaldi sannreyndir af hálfu greiðanda í samræmi við framangreint mat. Fjárhæðin sem greidd var vegna ársins 2022 var ekki frábrugðin upphaflegri fjárhæð reiknings en í því tilviki var fjárhæð reiknings í samræmi við samkomulag milli aðila. Reikningur vegna ársins 2023 er sem áður segir enn ógreiddur þar sem mat á kostnaði vegna viðgerða á umræddu húsnæði er enn til skoðunar og því er enn óljóst hvort greidd fjárhæð verði frábrugðin upphaflegri fjárhæð reiknings.

     5.      Hverjar eru afleiðingar fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd ef þeir valda tjóni á húsnæði sem þeir dvelja í?
    Samkvæmt 4. málsl. 1. mgr. 29. gr. reglugerðar nr. 540/2017, um útlendinga, skal Vinnumálastofnun draga af framfærslufé einstaklinga útlagðan kostnað sem stofnunin þarf að standa undir vegna skemmda á húsnæði eða innanstokksmunum eða annarra útgjalda sem ekki eru tilkomin vegna eðlilegrar notkunar viðkomandi einstaklings á húsnæðinu. Auk þess kunna alvarleg tilfelli að vera kærð til lögreglu.