Ferill 909. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1354  —  909. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum vegna samstarfs og eftirlits á vinnumarkaði.

Frá félags- og vinnumarkaðsráðherra.I. KAFLI

     Breyting á lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.

1. gr.

    Á eftir 8. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, 8. gr. a – 8. gr. c, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (8. gr. a.)

Samstarfsnefnd um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði.

    Ráðherra skal skipa samstarfsnefnd stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Nefndin skal skipuð til þriggja ára í senn og skal hún koma saman fullskipuð einu sinni á ári eða oftar ef þörf krefur. Ráðherra sem fer með mál er varða þjóðhagsmál, ráðherra sem fer með mál er varða vinnumál, ráðherra sem fer með mál er varða skattamál og ráðherra sem fer með mál er varða ákæruvald skulu eiga fast sæti í samstarfsnefndinni.
    Auk þeirra sem tilgreindir eru í 1. mgr. skal ráðherra skipa einn fulltrúa án tilnefningar, sem og einn fulltrúa tilnefndan af Alþýðusambandi Íslands, einn tilnefndan af Bandalagi háskólamanna, einn tilnefndan af BSRB, einn tilnefndan af ríkislögreglustjóra, einn tilnefndan af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einn tilnefndan af Samtökum atvinnulífsins, einn tilnefndan af Skattinum, einn tilnefndan af Útlendingastofnun og einn tilnefndan af Vinnueftirliti ríkisins.
    Ráðherra annast stjórnsýslu fyrir samstarfsnefndina. Fulltrúum í samstarfsnefndinni er skylt að gæta þagmælsku um atriði er þeir fá vitneskju um í starfi sínu fyrir nefndina og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls.

    b. (8. gr. b.)

Verkefni samstarfsnefndar.

    Ráðherra skal fela samstarfsnefnd um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði, sbr. 8. gr. a, að koma með tillögu að stefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda hvað varðar áherslur og aðgerðir gegn brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði og skal nefndin afhenda ráðherra tillögu sína innan árs frá alþingiskosningum. Jafnframt skal nefndin afhenda ráðherra skýrslur, eftir því sem þörf krefur að mati nefndarinnar og einnig ef ráðherra óskar sérstaklega eftir því, um stöðuna hvað varðar brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði.

    c. (8. gr. c.)

Samstarfsvettvangur eftirlitsaðila.

    Lögreglustjórar, Skatturinn og Vinnueftirlit ríkisins skulu gera með sér samning um samstarfsvettvang eftirlitsaðila gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði undir forystu Vinnueftirlits ríkisins. Framangreindum aðilum er heimilt að stækka samstarfsvettvanginn með samningum við aðrar stofnanir ef þörf krefur, að fengnu samþykki ráðherra.
    Þeim stofnunum sem mynda samstarfsvettvang skv. 1. mgr. er heimilt að óska eftir ráðgjöf og aðstoð frá utanaðkomandi aðilum ef þörf krefur.
    Markmiðið með samstarfsvettvangi skv. 1. mgr. er að efla og samræma eftirlit með því að allir aðilar á vinnumarkaði fari að ákvæðum laga, reglugerða og kjarasamninga sem gilda á innlendum vinnumarkaði.
    Þær stofnanir sem mynda samstarfsvettvang skv. 1. mgr. skulu standa fyrir sameiginlegum aðgerðum gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði með eftirliti og virkri eftirfylgni, greiningarvinnu og upplýsingamiðlun milli aðila innan þeirra marka sem lög heimila.
    Starfsmönnum sem starfa á grundvelli samstarfsvettvangs skv. 1. mgr. og öðrum þeim sem kallaðir eru til samstarfs er skylt að gæta þagmælsku um atriði er þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls.
    Þær stofnanir sem mynda samstarfsvettvang skv. 1. mgr. skulu formbinda reglulegt samráð og samstarf við samtök aðila vinnumarkaðarins um stöðumat, greiningu og sameiginlegt vinnustaðaeftirlit, eftir því sem við á. Þrátt fyrir 5. mgr. er starfsmönnum samstarfsvettvangs skv. 1. mgr. heimilt að miðla þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru hverju sinni til samtaka aðila vinnumarkaðarins á grundvelli formlegs samráðs og samstarfs, sbr. 1. málsl.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 8. gr. b skal samstarfsnefnd um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði, sbr. 8. gr. a, afhenda ráðherra tillögu sínar innan árs frá því að nefndin er skipuð í fyrsta sinn.

II. KAFLI

Breyting á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980.

3. gr.

    Við 45. gr. laganna bætast við tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Stjórnandi vélar, sbr. 6. mgr., skal vera líkamlega og andlega fær um að stjórna vélinni og því má enginn stjórna eða reyna að stjórna slíkri vél ef hann, svo sem vegna veikinda, hrörnunar, ofreynslu, svefnleysis, neyslu áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna eða annarra orsaka, er þannig á sig kominn að hann er ekki fær um að stjórna vélinni örugglega.
    Enginn má stjórna eða reyna að stjórna tiltekinni vél, sbr. 1.–5. mgr. og 1. mgr. 46. gr., sem er skráningarskyld skv. 49. gr. en telst ekki vera vélknúið ökutæki skv. 42. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, sem vegna neyslu lyfja telst óhæfur til að stjórna vélinni, sbr. 48. gr. umferðarlaga eða er undir áhrifum áfengis eða ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru hér á landi samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni eða reglugerðum settum samkvæmt þeim, ef magn áfengis eða ávana- og fíkniefna er yfir þeim mörkum sem kveðið er á um í 49. og 50. gr. umferðarlaga.

4. gr.

    68. gr. laganna orðast svo:
    Vinnueftirlit ríkisins skal skipuleggja og halda skrár á landsvísu þar sem fram koma upplýsingar um eitranir, vinnuslys og atvinnusjúkdóma sem tilkynntir eru til stofnunarinnar skv. 79. og 80. gr. í þeim tilgangi að afla upplýsinga um tíðni og orsakir eitrana á vinnustöðum sem og vinnuslysa og atvinnusjúkdóma og að auka þannig þekkingu í því skyni að efla forvarnarstarf á vinnustöðum. Vinnueftirlit ríkisins skal einnig vinna upplýsingar úr skrám skv. 1. málsl. til notkunar í forvarnarstarfi, við áætlanagerð, við stefnumótun og önnur verkefni stjórnvalda.
    Vinnueftirliti ríkisins er heimilt, meðal annars í samstarfi við Sjúkratryggingar Íslands, að nýta stafræna innviði stjórnvalda við söfnun nauðsynlegra upplýsinga í skrár skv. 1. mgr. með það að markmiði að auðvelda og einfalda tilkynningar til stofnunarinnar um eitranir, vinnuslys og atvinnusjúkdóma skv. 79. og 80. gr.
    Vinnsla Vinnueftirlits ríkisins á persónugreinanlegum upplýsingum í tengslum við skrár skv. 1. mgr. skal vera í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, þar sem meðal annars er kveðið nánar á um skipulagningu og gerð skráa, sem og um vinnslu upplýsinga úr þeim í forvarnarskyni.

5. gr.

    Í stað 2. málsl. 8. mgr. 87. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður eftir síðasta sektardag nema Vinnueftirlit ríkisins ákveði slíkt sérstaklega. Heimilt er að innheimta dagsektir eftir síðasta sektardag með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar.

6. gr.

    Við 81. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Skýrslum Vinnueftirlits ríkisins um rannsókn einstakra vinnuslysa, óhappa og mengunar, sbr. 1. mgr., skal ekki beitt sem sönnunargögnum í dómsmálum auk þess sem rannsókn stofnunarinnar skal ekki miða að því að ákvarða sök eða ábyrgð.

7. gr.

    Á eftir 1. mgr. 99. gr. laganna koma fimm nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að:
     1.      brjóta gegn 27. gr. sem og brjóti atvinnurekandi eða verkstjóri gegn 1. eða 2. mgr. 86. gr.,
     2.      brjóta með stórfelldum hætti eða ítrekað gegn 1. mgr. 14. gr., 2. mgr. 23. gr. eða 3. mgr. 80. gr.,
     3.      brjóta gegn 8. mgr. 45. gr. en við ákvörðun refsingar skal fara eftir 1. mgr. 95. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019,
     4.      brjóta gegn ákvæðum laga þessara og/eða ákvæðum reglna eða reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra leiði brotið til alvarlegs slyss eða dauða starfsmanns eða annarra eða alvarlegs óhapps þar sem verulegar líkur hafa verið á því að afleiðingarnar hefðu getað orðið þær sömu.
    Heimilt er að ákvarða atvinnurekendum sektir í samræmi við II. kafla A almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, fyrir þau brot sem tilgreind eru í 2. mgr.
    Vinnueftirliti ríkisins er heimilt að banna stjórnanda að nota tiltekna vél, sbr. 1.–5. mgr. 45. gr., sem er skráningarskyld skv. 49. gr., ef grunur er um að hann sé undir áhrifum áfengis, ávana- og fíkniefna eða lyfja, sbr. 8. mgr. 45. gr., en þá skal lögregla jafnframt kölluð til. Lögregla hefur sömu heimildir til rannsókna á öndunar-, svita-, munnvatns-, blóð- og þvagsýnum frá stjórnanda vinnuvélar vegna gruns um brot sem tilgreint er í 3. tölul. 2. mgr. og hún hefur skv. 1.–4. mgr. 52. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, gagnvart ökumanni vélknúins ökutækis, sbr. 42. tölul. 1. mgr. 3. gr. sömu laga. Kostnaður vegna slíkra rannsókna telst til sakarkostnaðar með sama hætti og skv. 2. málsl. 6. mgr. 52. gr. umferðarlaga.
    Ef stjórnandi vélar skv. 1.–5. mgr. 45. gr., sem er skráningarskyld skv. 49. gr. en telst ekki til vélknúins ökutækis, sbr. 42. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, hefur brotið gegn ákvæðum laga þessara og brotið er tilgreint í 3. tölul. 2. mgr. eða stjórnandinn hefur neitað að veita atbeina sinn við rannsókn máls skv. 4. mgr. er Vinnueftirliti ríkisins heimilt að svipta hann vinnuvélaréttindum. Svipting vinnuvélaréttinda skv. 1. málsl. skal annaðhvort vara í tiltekinn tíma og þá eigi skemur en einn mánuð eða vara ótímabundið ef sakir eru miklar eða brot er endurtekið öðru sinni eða oftar. Svipting vinnuvélaréttinda felur í sér sviptingu tiltekinna réttinda sem tilgreind eru í vinnuvélaskírteini sem og réttar til að öðlast vinnuvélaréttindi. Ef svipting vinnuvélaréttinda er ótímabundin getur sá sem sviptur er réttindum ekki sótt að nýju um vinnuvélaréttindi fyrr en fimm ár eru liðin frá sviptingunni að undangengnu verklegu og bóklegu prófi á viðkomandi vél.
    Ef stjórnandi vélar skv. 1.–5. mgr. 45. gr., sem er skráningarskyld skv. 49. gr. en telst ekki vera vélknúið ökutæki, sbr. 42. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, hefur brotið gegn 48.–50. gr. umferðarlaga er Vinnueftirliti ríkisins heimilt að svipta hann vinnuvélaréttindum í sama tíma og ökuréttarsviptingin varir.

8. gr.

    Á eftir 99. gr. laganna kemur ný grein, 99. gr. a, svohljóðandi:
    Vinnueftirliti ríkisins er heimilt að leggja stjórnvaldssekt á atvinnurekanda og eftir atvikum verkkaupa eða fulltrúa verkkaupa og framleiðanda, innflutningsaðila og dreifingaraðila varnings, sbr. 4. gr. laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, nr. 134/1995, sem:
     a.      brýtur gegn fyrirmælum stofnunarinnar um stöðvun vinnu eða lokun starfsemi eða hluta hennar eða um bann við notkun vélar skv. 84. eða 85. gr.,
     b.      brýtur gegn fyrirmælum stofnunarinnar um bann við markaðssetningu eða um bann við notkun sem og afturköllun eða eyðileggingu á vélum, tækjum og öðrum búnaði skv. 48. gr. a,
     c.      brýtur gegn fyrirmælum stofnunarinnar um bann við framleiðslu, flutningi eða notkun hættulegra efna og efnavara skv. 2. mgr. 51. gr.,
     d.      brýtur ítrekað gegn fyrirmælum stofnunarinnar um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum skv. 37. gr., 42. gr. eða 46. gr., sem veitt hafa verið vegna sambærilegrar háttsemi eða brots,
     e.      brýtur gegn ákvæðum reglugerðar um bann við notkun asbests á vinnustöðum,
     f.      brýtur gegn 5. mgr. 36. gr., 60. gr. eða 1. eða 2. mgr. 80. gr.,
     g.      brýtur með stórfelldum hætti og alvarlega gegn 1. eða 2. mgr. 53. gr., 1. eða 2. mgr. 54. gr. eða 55. gr.,
     h.      brýtur með stórfelldum hætti eða ítrekað gegn 1. mgr. 48. gr., 1. mgr. 50. gr. eða 1. mgr. 51. gr. a,
     i.      brýtur gegn ákvæðum laga þessara og/eða ákvæðum reglna eða reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra og brotið veldur loftmengun eitraðra eða eldfimra eða hættulegra efna, sprengihættu, klemmihættu, skurðhættu, fallhættu eða hættu á hruni jarðvegs, verkpalls, vörustæðu, gáma, kerja eða burðarvirkis sem skapar verulega hættu fyrir líf eða heilbrigði starfsmanna,
     j.      sinnir ekki tilkynningarskyldu skv. 1. mgr. 79. gr. eða veitir rangar eða villandi upplýsingar um vinnuslys sem leiðir til dauða eða langvinns eða varanlegs heilsutjóns starfsmanns,
     k.      ræður börn eða ungmenni til vinnu við þær aðstæður sem kveðið er á um í 62. gr.,
     l.      veitir stofnuninni rangar eða ófullnægjandi upplýsingar að mati stofnunarinnar um þau atriði sem veita skal stofnuninni upplýsingar um skv. 5. mgr. 36. gr., 58. gr., 1. og 2. mgr. 80. gr., 2., 3., 5. eða 10. mgr. 82. gr.
    Vinnueftirliti ríkisins er heimilt að leggja stjórnvaldssekt á starfsmann sem:
     a.      brýtur gegn 6. mgr. 45. gr., eða
     b.      brýtur gegn fyrirmælum stofnunarinnar um bann við notkun tiltekins tækis, sbr. 1. málsl. 4. mgr. 99. gr.
    Stjórnvaldssekt sem lögð er á starfsmann getur numið allt að 1 millj. kr.
    Stjórnvaldssekt sem lögð er á atvinnurekanda getur numið allt að 15 millj. kr.
    Við ákvörðun stjórnvaldssektar skal Vinnueftirlit ríkisins meðal annars líta til alvarleika brots, til þess hve lengi það hefur staðið yfir, hvort um ítrekað brot hafi verið að ræða sem og samstarfsvilja hins brotlega aðila og umfangs atvinnurekstrar aðilans, sé um atvinnurekanda að ræða.
    Stjórnvaldssekt skal beitt óháð því hvort brotið var framið af ásetningi eða gáleysi.
    Ekki skal leggja stjórnvaldssekt á starfsmann og atvinnurekanda fyrir sama brot. Ef stjórnvaldssekt er lögð á verður öðrum viðurlögum samkvæmt lögum þessum ekki beitt.
    Ákvörðun um stjórnvaldssekt skal tilkynnt skriflega á sannanlegan hátt þeim aðila sem sektin beinist að og skal ákvörðuninni fylgja skriflegur rökstuðningur.
    Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer samkvæmt ákvæðum laga um vexti og verðtryggingu.
    Heimild Vinnueftirlits ríkisins til þess að leggja á stjórnvaldssekt samkvæmt ákvæði þessu fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi skv. 1. og/eða 2. mgr. lauk.
    Stjórnvaldssekt rennur í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu sektarinnar.
    Ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins um stjórnvaldssekt er aðfararhæf.
    Að öðru leyti fer um ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins um stjórnvaldssekt samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

9. gr.

    Fyrirsögn XV. kafla laganna verður: Viðurlög og refsiákvæði.

III. KAFLI

Breyting á lögum um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda,

nr. 45/2007.

10. gr.

     a.      Í stað orðsins „Vinnumálastofnun“ í 1. mgr., 2. mgr. og 1., 2. og 3. málsl. 3. mgr. 2. gr., inngangsmálslið og 4. tölul. 1. mgr., 2. og 4. mgr. og 1. málsl. 5. mgr. 7. gr., inngangsmálslið og 9. tölul. 1. mgr., 2. mgr., tvívegis í 3. mgr., 3. málsl. 5. mgr., 6. mgr. og 1. málsl. 7. mgr. 8. gr., 1. og 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 9. gr., 1. málsl. 2. mgr. 10. gr., 1. mgr. og 1. málsl. 3. mgr. 12. gr., 1. mgr., 2. mgr., 3. mgr., 1. og 2. málsl. 4. mgr., 5. mgr., 6. mgr., tvívegis í 1. málsl. og 2. málsl. 7. mgr. og 8. mgr. 13. gr., 1. mgr. og tvívegis í 2. mgr. 14. gr., tvívegis í 15. gr., 1. mgr. 15. gr. a og 1. mgr. og 2. mgr. 15. gr. b laganna kemur: Vinnueftirlit ríkisins.
     b.      Í stað orðsins „Vinnumálastofnunar“ í 3. mgr. 7. gr., 4. mgr. og 2. málsl. 5 mgr. 8. gr., 2. mgr. 10. gr., 1. mgr., 1. málsl. 3. mgr. og 5. mgr. 11. gr., 1. og 3. málsl. 2. mgr. 12. gr., 1. og 2. málsl. 9. mgr. 13. gr., 2. málsl. 2. mgr., 2. málsl. 4. mgr., 7. mgr. og 8. mgr. 15. gr. a, 7. mgr., 9. mgr. og 10. mgr. 15. gr. b, 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. laganna kemur: Vinnueftirlits ríkisins.


11. gr.

    Í stað orðanna „Vinnueftirliti ríkisins“ í 4. mgr. 7. gr. og í 6. mgr. 8. gr. laganna kemur: Vinnumálastofnun.

12. gr.

    Við 7. mgr. 15. gr. a laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður eftir síðasta sektardag nema Vinnueftirlit ríkisins ákveði slíkt sérstaklega. Heimilt er að innheimta dagsektir eftir síðasta sektardag með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um starfsmannaleigur, nr. 139/2005.

13. gr.

     a.      Í stað orðsins „Vinnumálastofnun“ í 1. gr. b, 1. málsl. 3. mgr. og 4. mgr. 2. gr., 1. málsl. 2. mgr. 3. gr., inngangsmálslið og 6. tölul. 1. mgr., 2. mgr., tvívegis í 3. mgr., 3. málsl. 5. mgr. og 6. mgr. 4. gr., 2. mgr. 6. gr., 1. mgr. og 1. málsl. 3. mgr. 9. gr., 1. mgr., 2. mgr., 1. og 3. málsl. 3. mgr., 4. mgr., 5. mgr., tvívegis í 1. málsl. og 2. málsl. þrívegis í 6. mgr. 10. gr., 1. mgr. og tvívegis í 2. mgr. 10. gr. a, tvívegis í 11. gr., 1. mgr. 11. gr. a, og 1. mgr. 11. gr. b. laganna kemur: Vinnueftirlit ríkisins.
     b.      Í stað orðsins „Vinnumálastofnunar“ í 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. 2. gr., 4. mgr. og 2. málsl. 5. mgr. 4. gr., 1.mgr., 1. málsl. 2. mgr. og 4. mgr. 4. gr. a, 1. og 3. málsl. 2. mgr. 9. gr., 1. og 2. málsl. 7. mgr. 10. gr., 2. málsl. 2. mgr., 2. málsl. 4. mgr., 6. mgr. og 8. mgr. 11. gr. a, 6. mgr., 8. mgr. og 9. mgr. 11. gr. b og 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laganna kemur: Vinnueftirlits ríkisins.

14. gr.

    Í stað orðanna „Vinnueftirliti ríkisins“ í 6. mgr. 4. gr. laganna kemur: Vinnumálastofnun.

15. gr.

    Við 6. mgr. 11. gr. a laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður eftir síðasta sektardag nema Vinnueftirlit ríkisins ákveði slíkt sérstaklega. Heimilt er að innheimta dagsektir eftir síðasta sektardag með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar.

V. KAFLI

Breyting á lögum um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, nr. 42/2010.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Vinnumálastofnunar“ í 1. málsl. 1. mgr., 2. málsl. 2. mgr., 2. málsl. 4. mgr., 6. mgr. og 8. mgr. og „Vinnumálastofnun“ í 2. og 3. málsl. 1. mgr. kemur: Vinnueftirlits ríkisins; og: Vinnueftirlit ríkisins.
     b.      Við 6. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður eftir síðasta sektardag nema Vinnueftirlit ríkisins ákveði slíkt sérstaklega. Heimilt er að innheimta dagsektir eftir síðasta sektardag með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar

17. gr.

    Í stað orðsins „Vinnumálastofnunar“ í 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 7. gr. laganna kemur: Vinnueftirlits ríkisins.

18. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2025.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Undirbúning þessa frumvarps má rekja aftur til október 2018 en þá skipaði þáverandi félags- og jafnréttismálaráðherra samstarfshóp í því skyni að sporna gegn félagslegum undirboðum á innlendum vinnumarkaði. Í hópnum áttu sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Bandalagi háskólamanna, BSRB, dómsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, forsætisráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins. Jafnframt áttu sæti í hópnum fulltrúar frá þáverandi velferðarráðuneyti (síðar félagsmálaráðuneyti og nú félags- og vinnumarkaðsráðuneyti), embætti ríkislögreglustjóra, ríkisskattstjóra, Vinnueftirliti ríkisins og Vinnumálastofnun en formaður hópsins var skipaður án tilnefningar. Var samstarfshópnum meðal annars ætlað að leggja til aðgerðir sem vænlegar þættu til árangurs í baráttunni gegn félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði þar sem samstarf þeirra aðila sem fara með eftirlit á vinnumarkaði væri meðal annars tryggt. Í lok janúar 2019 skilaði samstarfshópurinn skýrslu sinni, Skýrsla samstarfshóps félags- og barnamálaráðherra um félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði.
    Í september 2019 skipaði þáverandi félags- og barnamálaráðherra nýja nefnd í því skyni að vinna málið áfram. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, félagsmálaráðuneyti (nú félags- og vinnumarkaðsráðuneyti), Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins. Þá áttu Vinnueftirlit ríkisins og Vinnumálastofnun einnig fulltrúa í nefndinni og var formaður nefndarinnar skipaður án tilnefningar. Afurð nefndarinnar var frumvarp til starfskjaralaga sem lagt var fram á 152. löggjafarþingi (mál nr. 589) en Alþingi lauk ekki afgreiðslu frumvarpsins á því þingi.
    Á haustmánuðum 2023 kallaði félags- og vinnumarkaðsráðherra framangreinda nefnd til starfa að nýju og fól nefndinni að endurskoða það frumvarp sem áður hafði verið lagt fram á Alþingi og koma með tillögur að breytingum, eftir því sem við ætti. Er frumvarp það sem hér um ræðir afrakstur þeirrar vinnu.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Vinnumarkaður hér á landi er vel skipulagður með öflugum samtökum launafólks og atvinnurekenda sem semja sín á milli í kjarasamningum um laun og önnur starfskjör launafólks sem og um aðra þætti er varða hagsmuni launafólks og atvinnurekenda. Þá hafa verið settar reglur og mótuð framkvæmd í samskiptum samtaka aðila vinnumarkaðarins sem gefur stéttarfélögum og samtökum atvinnurekenda ríkt umboð til að koma fram fyrir hönd og gæta hagsmuna launafólks, fyrirtækja og stofnana, hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða stofnanir á almennum eða opinberum vinnumarkaði.
    Opinberum aðilum hefur einnig verið falið að fara með afmarkað eftirlit á innlendum vinnumarkaði og fara Vinnumálastofnun og Vinnueftirlit ríkisins meðal annars með slíkt eftirlit, svo sem á grundvelli laga um starfsmannaleigur, nr. 139/2005, laga um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda, nr. 45/2007, laga um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, nr. 42/2010, og laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980.
    Tilefni frumvarpsins er fyrst og fremst að styrkja samstarf þeirra aðila sem fara með eftirlit á vinnumarkaði sem og stefnumörkun hvað varðar aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði í því skyni að auka samlegð og skilvirkni við eftirlitið þannig að auknar líkur séu á að eftirlitið skili tilætluðum árangri.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með þeim breytingum á lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, sem lagðar eru til í frumvarpi þessu, er komið á laggirnar sérstakri samstarfsnefnd stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Gert er ráð fyrir að verkefni nefndarinnar verði að koma með tillögu að stefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda hvað varðar áherslur og aðgerðir gegn brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði. Er jafnframt gert ráð fyrir að nefndin skuli afhenda ráðherra tillögu sína innan árs frá alþingiskosningum hverju sinni en slíkt þykir mikilvægt svo hver ríkisstjórn hafi tækifæri til marka sér stefnu og grípa til nauðsynlegra aðgerða innan hvers kjörtímabils. Þó er gert ráð fyrir að nefndin skuli afhenda ráðherra tillögu sína innan árs frá því hún er skipuð í fyrsta skipti þannig að ekki komi til þess að of langur tími líði frá fyrstu skipun nefndarinnar og þar til ráðherra fær afhentar tillögur hennar. Enn fremur er gert ráð fyrir að nefndin afhendi ráðherra skýrslu, eftir því sem þörf krefur að mati nefndarinnar og einnig ef ráðherra óskar sérstaklega eftir því, um stöðuna hvað varðar brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði hverju sinni.
    Þá er lagt til að með sérstökum samningi verði komið á fót samstarfsvettvangi opinberra eftirlitsaðila gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði undir forystu Vinnueftirlits ríkisins. Fram kemur í frumvarpinu að markmiðið með slíkum samstarfsvettvangi sé að efla og samræma eftirlit með því að allir aðilar á innlendum vinnumarkaði fari að ákvæðum laga, reglugerða og kjarasamninga sem gilda á vinnumarkaðnum. Enn fremur er lagt til að kveðið verði á um að þær stofnanir sem mynda samstarfsvettvanginn skuli standa fyrir sameiginlegum aðgerðum gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði með eftirliti og virkri eftirfylgni, greiningarvinnu og upplýsingamiðlun milli aðila innan þeirra marka sem lög heimili. Þá er gert ráð fyrir að þeir opinberu aðilar sem fara með eftirlit á vinnumarkaði skuli formbinda reglulegt samráð og samstarf við samtök aðila vinnumarkaðarins um stöðumat, greiningu og sameiginlegt vinnustaðaeftirlit eftir því sem við á.
    Með breytingum á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, er lagt til að heimildir Vinnueftirlitsins til að beita viðurlögum verði auknar á grundvelli laganna, meðal annars í því skyni að gera stofnuninni kleift að bregðast á viðeigandi hátt við alvarlegum brotum gegn ákvæðum laganna, sem geta ógnað öryggi og vellíðan starfsfólks á vinnustöðum. Í frumvarpinu felast einnig breytingar sem hafa það að markmiði að auka öryggi við stjórn vinnuvéla utan sem innan vinnustaða. Enn fremur eru lagðar til breytingar til að skýra betur hlutverk Vinnueftirlitsins við að skipuleggja og halda skrár á landsvísu um vinnuslys, atvinnusjúkdóma og eitranir þannig að unnt sé að vinna markvisst að því að koma í veg fyrir að slík tilvik endurtaki sig á sömu eða sambærilegum vinnustöðum. Þá er lagt til að skýrt verði kveðið á um að skýrslum Vinnueftirlits ríkisins um rannsókn einstakra vinnuslysa, óhappa og mengunar skuli ekki beitt sem sönnunargögnum í dómsmálum auk þess sem rannsókn stofnunarinnar skuli ekki miða að því að ákvarða sök eða ábyrgð.
    Þau verkefni sem falla undir málefnasvið Vinnumálastofnunar hafa á undanförnum árum tekið ýmsum breytingum en í því sambandi má nefna að stofnunin sameinaðist Fjölmenningarsetri í mars 2023 með lögum nr. 13/2023, um breytingu á lögum um málefni innflytjenda og lögum um vinnumarkaðsaðgerðir. Auk þess var þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd færð frá Útlendingastofnun til Vinnumálastofnunar í júlí 2022. Verkefni stofnunarinnar hafa því í auknum mæli verið að færast yfir í það að stofnunin veiti einstaklingum þjónustu í stað þess að stofnunin hafi eftirlit á vinnumarkaði. Í ljósi þessara breytinga á málefnasviði Vinnumálastofnunar er í frumvarpi þessu gert ráð fyrir að það hlutverk sem Vinnumálastofnun hefur haft samkvæmt lögum, hvað varðar eftirlit á vinnumarkaði, verði flutt til Vinnueftirlits ríkisins sem fer þegar með eftirlit á vinnumarkaði á grundvelli laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, og reglugerðum settum á grundvelli þeirra laga. Flutningur til Vinnueftirlits ríkisins á því hlutverki sem Vinnumálastofnun hefur haft á grundvelli laga um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda, laga um starfsmannaleigur og laga um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum þykir vera til þess fallinn að auka skilvirkni eftirlits á vinnumarkaði, enda má ætla að með flutningnum náist mikilvæg samlegð með opinberu eftirliti sem verið hefur hjá Vinnumálastofnun og eftirliti sem Vinnueftirlit ríkisins hefur nú þegar hvað varðar brotastarfsemi á vinnumarkaði. Gera má ráð fyrir að sú samlegð hafi það meðal annars í för með sér að eftirlit á vinnumarkaði verði markvissara en nú er þannig að auknar líkur séu á að eftirlitið skili tilætluðum árangri í tengslum við aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði og stuðli þannig að bættri samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem fara að lögum og reglum sem hér gilda á vinnumarkaði. Þá má geta þess að í Noregi hefur þeirri stofnun sem fer með eftirlit á vinnumarkaði verið falið umrætt eftirlit og þykir sú ráðstöfun hafa skilað góðum árangri.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarps þessa þykir ekki vera þess eðlis að það kalli á sérstaka umfjöllun um samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið var samið í nefnd sem var skipaður fulltrúum frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Vinnueftirliti ríkisins og Vinnumálastofnun. Auk þess var haft samráð við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við fyrirhugaðar breytingar á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, hvað varðar viðurlög og/eða refsingar við brotum gegn tilteknum ákvæðum laganna.
    Þau ákvæði frumvarps þessa sem áður hafa verið lögð fram á Alþingi í frumvarpi til starfskjaralaga sem lagt var fram á 152. löggjafarþingi, sbr. umfjöllun í 1. kafla, voru kynnt öðrum ráðuneytum í sérstöku áformaskjali í samræmi við verklag hvað varðar innra samráð Stjórnarráðsins. Þau ákvæði frumvarps þessa þar sem gert er ráð fyrir að það hlutverk sem Vinnumálastofnun hefur haft samkvæmt lögum, hvað varðar eftirlit á vinnumarkaði, verði flutt til Vinnueftirlits ríkisins hafa hins vegar ekki verið kynnt öðrum ráðuneytum á sama hátt þar sem þau ákvæði komu til eftir að frumvarp til starfskjaralaga var lagt fram á 152. löggjafarþingi.
    Drög að frumvarpi þessu voru kynnt í opnu umsagnarferli í samráðsgátt stjórnvalda 11. mars 2024 á vefnum Ísland.is (mál nr. S-80/2024) þar sem almenningi gafst kostur á að koma á framfæri athugasemdum við drögin. Tvær umsagnir bárust auk þess sem ein umsögn var send til ráðuneytisins en umsagnirnar leiddu ekki til efnislegra breytinga á frumvarpinu.

6. Mat á áhrifum.
    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir breytingum á lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, lögum um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda, lögum um starfsmannaleigur og lögum um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum. Þeim breytingum sem frumvarpið gerir ráð fyrir á framangreindum lögum, sem öll gilda á vinnumarkaði hér á landi, er meðal annars ætlað að styrkja samvinnu stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins við að sporna gegn brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði. Breytingunum er jafnframt ætlað að styrkja samstarf þeirra aðila sem fara með opinbert eftirlit á vinnumarkaði. Enn fremur er í frumvarpinu gert ráð fyrir að það hlutverk sem Vinnumálastofnun hefur haft samkvæmt lögum, hvað varðar eftirlit á vinnumarkaði, verði flutt til Vinnueftirlits ríkisins en í því sambandi er ekki gert ráð fyrir að um verði að ræða kostnaðaraukningu fyrir ríkissjóð, enda einungis um að ræða flutning verkefna, stöðugilda og fjármuna sem þeim verkefnum tengjast á milli stofnana. Þá er í frumvarpinu lagt til að heimildir Vinnueftirlits ríkisins verði auknar hvað varðar beitingu viðurlaga á grundvelli laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Gert er ráð fyrir að framangreindar breytingar hafi í för með sér þörf fyrir viðbótarstöðugildi hjá Vinnueftirlitinu.
    Ekki verður séð að þær breytingar sem frumvarpið felur í sér muni hafa mismunandi áhrif á stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Þó má gera ráð fyrir að efni frumvarpsins hafi meiri áhrif á karla en konur þar sem fleiri karlar en konur voru starfandi á innlendum vinnumarkaði á árinu 2023 samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Enn fremur voru samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun rúmlega 1.400 einstaklingar starfandi á innlendum vinnumarkaði á árinu 2023 á grundvelli laga um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda, þar af rúmlega 1.330 karlar og rúmlega 70 konur. Þá var starfsfólk starfsmannaleigna hér á landi á árinu 2023 rúmlega 1.570 samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun, þar af var um að ræða tæplega 1.500 karla og tæplega 80 konur.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Um a-lið (8. gr. a).
    Hér er lagt til að í lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, verði kveðið á um að koma skuli á laggirnar sérstakri samstarfsnefnd stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði en sambærileg nefnd hefur gefið góða raun í Noregi. Er gert ráð fyrir að ráðherra sem fer með mál er varða vinnumál hverju sinni skipi nefndina til þriggja ára í senn. Miðað við gildandi forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, er gert ráð fyrir að í samstarfsnefndinni eigi fast sæti forsætisráðherra, sem ráðherra sem fer með mál er varða þjóðhagsmál, félags- og vinnumarkaðsráðherra, sem ráðherra sem fer með mál er varða vinnumál, fjármála- og efnahagsráðherra, sem ráðherra sem fer með mál er varða skattamál, og dómsmálaráðherra, sem ráðherra sem fer með mál er varða ákæruvald. Jafnframt er gert ráð fyrir að fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, ríkislögreglustjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Skattinum, Útlendingastofnun, og Vinnueftirliti ríkisins eigi sæti í nefndinni. Þá er lagt til að ráðherra skipi einn fulltrúa í samstarfsnefndina án tilnefningar.
    Gert er ráð fyrir að samstarfsnefndin komi saman fullskipuð einu sinni á ári eða oftar ef þörf krefur. Með því er átt við að þeir ráðherrar sem skipaðir eru hverju sinni til setu í samstarfsnefndinni fundi með nefndinni í það minnsta einu sinni á ári en aðrir fulltrúar í nefndinni geti fundað ofar, eftir því sem þörf krefur, meðal annars í því skyni að vinna tillögu að stefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda hvað varðar áherslur og aðgerðir gegn brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði, sbr. verkefni samstarfsnefndarinnar sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir að kveðið verði á um í nýrri 8. gr. b laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.
    Lagt er til að ráðherra, sem fer með mál er varða vinnumál hverju sinni, annist stjórnsýslu fyrir samstarfsnefndina en með því er meðal annars átt við að hann leggi nefndinni til aðstöðu til funda og starfsmann.
    Þá er gert ráð fyrir að fulltrúum í samstarfsnefndinni verði skylt að gæta þagmælsku um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu fyrir nefndina og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls.
    Um b-lið (8. gr. b).
    Hér er lagt til að í lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, verði kveðið á um að ráðherra, sem fer með mál er varða vinnumál hverju sinni, feli samstarfsnefnd, sem honum er jafnframt ætlað að skipa líkt og frumvarp þetta gerir ráð fyrir að kveðið verði á um í nýrri 8. gr. a laganna, að koma með tillögu að stefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda hvað varðar áherslur og aðgerðir gegn brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði. Er jafnframt gert ráð fyrir að nefndin skuli afhenda ráðherra tillögu sína innan árs frá alþingiskosningum hverju sinni en slíkt þykir mikilvægt þannig að hver ríkisstjórn hafi tækifæri til marka sér stefnu og grípa til nauðsynlegra aðgerða innan hvers kjörtímabils.
    Jafnframt er gert ráð fyrir að nefndin afhendi ráðherra skýrslur, eftir því sem þörf krefur að mati nefndarinnar og einnig ef ráðherra óskar sérstaklega eftir því, um stöðuna hvað varðar brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði hverju sinni. Ætla má að þörf fyrir slíkar skýrslur geti verið mismunandi eftir stöðunni á vinnumarkaði á hverjum tíma og því þykir mikilvægt að ekki sé tæmandi talið í ákvæðinu hvenær samstarfsnefndin skili slíkum skýrslum til ráðherra.
    Um c-lið (8. gr. c).
    Hér er lagt til að í lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, verði kveðið á um að með sérstökum samningi verði komið á fót samstarfsvettvangi opinberra eftirlitsaðila gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Fyrsti samningur þess efnis milli lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, Skattsins, Vinnueftirlits ríkisins og Vinnumálastofnunar hefur þegar verið undirritaður og var það gert 15. nóvember 2019. Hér er hins vegar lagt til að lögfest verði að lögreglustjórar, Skatturinn og Vinnueftirlit ríkisins skuli gera með sér slíkan samning og að Vinnueftirlit ríkisins skuli veita vettvanginum forystu en í því sambandi er meðal annars gengið út frá því að Vinnueftirlitið hafi forgöngu um að umræddir aðilar geri með sér framangreindan samning. Í ljósi þess að í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að það hlutverk sem Vinnumálastofnun hefur haft samkvæmt lögum, hvað varðar eftirlit á vinnumarkaði, verði flutt til Vinnueftirlits ríkisins er þó ekki gert ráð fyrir að lögfest verði að Vinnumálastofnun skuli vera aðili að slíkum samningi. Lagt er til að framangreindum aðilum verði jafnframt heimilt að stækka samstarfsvettvanginn með samningum við aðrar stofnanir ef þeir telja þörf á, að fengnu samþykki ráðherra, sem og að óska eftir ráðgjöf og aðstoð frá aðilum sem standa utan við samstarfsvettvanginn telji þeir þörf á því. Er þetta meðal annars lagt til svo að starfsfólk sem starfar á grundvelli samstarfsvettvangsins sem fulltrúar þeirra stofnana sem mynda vettvanginn geti aflað þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru hverju sinni í því skyni að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Þannig er gert ráð fyrir að kveðið verði á um að markmiðið með samstarfsvettvangi sé að efla og samræma eftirlit með því að allir aðilar á vinnumarkaði fari að ákvæðum laga, reglugerða og kjarasamninga sem gilda á innlendum vinnumarkaði.
    Enn fremur er lagt til að kveðið verði á um að þær stofnanir sem mynda samstarfsvettvanginn skuli standa fyrir sameiginlegum aðgerðum gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði með eftirliti og virkri eftirfylgni, greiningarvinnu og upplýsingamiðlun milli aðila innan þeirra marka sem lög heimili.
    Jafnframt er lagt til að kveðið verði á um þagnarskyldu starfsfólks hlutaðeigandi stofnana sem starfa á grundvelli samstarfsvettvangsins, sem og annarra sem kallaðir eru til samstarfs. Er þetta lagt til í ljósi þess að mikilvægt þykir að þær upplýsingar sem fyrrgreint starfsfólk vinnur með hverju sinni séu ekki nýttar í öðrum tilgangi en þeim sem snýr að samstarfinu innan samstarfsvettvangsins, enda má ætla að í það minnsta í einhverjum tilvikum geti verið um viðkvæmar upplýsingar að ræða.
    Þá er gert ráð fyrir að þær stofnanir sem mynda samstarfsvettvanginn skuli formbinda reglulegt samráð og samstarf við samtök aðila vinnumarkaðarins um stöðumat, greiningu og sameiginlegt vinnustaðaeftirlit, eftir því sem við á. Þykir slíkt nauðsynlegt þar sem frumvarp þetta gerir ekki ráð fyrir breytingu hvað varðar þá meginreglu að aðilar vinnumarkaðarins hafi eftirlit með því að farið sé að ákvæðum kjarasamninga á innlendum vinnumarkaði.

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að við lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið verði á um að samstarfsnefnd, sbr. 8. gr. b, skuli afhenda ráðherra tillögur sínar innan árs frá því að nefndin er skipuð í fyrsta sinn. Er þetta lagt til í því skyni að tryggja að nefndin afhendi ráðherra tillögur sínar innan eins árs frá því hún er skipuð í fyrsta sinn óháð því hvenær alþingiskosningar fram eftir að nefndin er skipuð í fyrsta sinn.

Um 3. gr.

    Hér er gert ráð fyrir að við 45. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum bætist tvær nýjar málsgreinar sem miði að því að auka öryggi við stjórn vinnuvéla og tækja. Í því sambandi er gengið út frá því að um sé að ræða öryggi og stjórn vinnuvéla og tækja, hvort sem þau eru í notkun innan eða utan vinnustaða. Er þannig gert ráð fyrir að kveðið verði á um að stjórnandi vélar skuli vera líkamlega og andlega fær um að stjórna þeirri vél sem um ræðir hverju sinni auk þess sem lagt er bann við því að einstaklingur stjórni eða reyni að stjórna vél í ástandi sem ætla má að dragi mjög úr hæfni hans til þess að stjórna vélinni. Er gert ráð fyrir að reglan verði fortakslaus, enda getur það ógnað öryggi starfsfólks sem og annarra sem eru í nálægð við vél ef stjórnandi hennar er ekki hæfur til að stjórna vélinni. Ekki er gert ráð fyrir að þau tilvik verði tæmandi talin í ákvæðinu sem geta gert það að verkum að einstaklingur sé ófær um að stjórna tiltekinni vél.
    Enn fremur er gert ráð fyrir að skýrt verði kveðið á um að enginn megi stjórna eða reyna að stjórna tiltekinni vél, sbr. 1.–5. mgr. ákvæðisins og 1. mgr. 46. gr., sem er skráningarskyld skv. 49. gr. en telst ekki vera vélknúið ökutæki skv. 42. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, sem vegna neyslu lyfja telst óhæfur til að stjórna vélinni, sbr. 48. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, eða er undir áhrifum áfengis eða ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru hér á landi samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni eða reglugerðum settum samkvæmt þeim. Gert er ráð fyrir að þetta eigi við í þeim tilvikum þegar magn áfengis eða ávana- og fíkniefna er yfir þeim mörkum sem kveðið er á um í 49. og 50. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019. Er þetta lagt til þar sem mikilvægt þykir að skýrt sé að sömu viðmið gildi hvað varðar neyslu lyfja eða áfengis eða ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru hér á landi, samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim, í tengslum við stjórnun framangreindra véla og stjórnun vélknúinna ökutækja.

Um 4. gr.

    Vinnuumhverfi á vinnustöðum hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum þar sem verkefni verða oft og tíðum flóknari og sérhæfðari en áður var á meðan önnur verkefni hverfa með aukinni tækniþróun og sjálfvirknivæðingu. Verkefni opinberra stofnana eru þar engin undantekning og hefur stafræn þróun í tengslum við ýmis verkefni verið mikil á undanförnum árum. Þykir því eðlilegt að stofnanir hafi svigrúm til að meta hverju sinni hvers konar sérþekkingu þær þurfa á að halda til að sinna lögbundnum verkefnum sínum. Á það ekki síst við á tímum hraðra tækniframfara og tilkomu nýrrar þekkingar á ýmsum sviðum samhliða breyttum samfélagsháttum.
    Ljóst er að starfsemi Vinnueftirlitsins krefst þverfaglegrar sérþekkingar ýmissa sérfræðinga og meðal annars í ljósi þess má ætla að mörg þeirra verkefna sem áður þóttu falla í hlut læknis fari betur í höndum annarra sérfræðinga. Má nefna sem dæmi að allar tilkynningar um slys sem verða á vinnustöðum berast rafrænt til stofnunarinnar og er því með einföldum hætti unnt að kalla fram nauðsynlegar upplýsingar um tíðni slysa og þróun þeirra í því skyni að efla forvarnarstarf. Rannsóknir vinnuslysa, forvarnarstarf og eftirlit á vinnustöðum krefst sjaldnast læknisfræðilegrar þekkingar heldur reynir frekar á sérþekkingu á vinnuumhverfinu þar sem slys á sér stað.
    Starfsfólk sem hefur orðið fyrir slysi eða líður illa leitar sér aðstoðar innan heilbrigðis- eða félagskerfisins en Vinnueftirlit ríkisins metur hvernig vinnuumhverfið sem slíkt hefur áhrif á starfsfólk og hvaða úrbætur þurfi að gera þannig að öryggi, heilsa og vellíðan þess sé sem best tryggð. Hið sama á við um rannsóknir á orsökum einstakra atvinnusjúkdóma, enda þótt sú vinna geti krafist fagþekkingar ólíkra sérgreinalækna eftir eðli sjúkdóma hverju sinni en ekki síður þekkingar annarra sérfræðinga, svo sem efnafræðinga, lífeðlisfræðinga eða þekkingar á sviði líftækni. Í slíkum rannsóknum er tilgangurinn að koma í veg fyrir að starfsfólk verði fyrir neikvæðum áhrifum starfsumhverfis sem talið er valda sjúkdómi.
    Í ljósi framangreinds er því lagt til að ekki verði lengur í 68. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum kveðið á um að Vinnueftirlit ríkisins skuli hafa lækni í þjónustu sinni. Þurfi Vinnueftirlitið á læknisfræðilegri þekkingu að halda við úrlausn einstakra verkefna þykir eðlilegra að stofnunin leiti til viðeigandi sérgreinalækna eða eftir atvikum heilbrigðisstofnana vegna þeirra verkefna. Enn fremur þykir ekki hæfa nútímarekstrarfyrirkomulagi stofnana að kveða í lögum á um innra skipulag þeirra. Þess í stað þykir mikilvægt að hægt sé að aðlaga innra skipulag stofnana að þörfum samfélagsins hverju sinni þannig að þeim sé ávallt kleift að veita almenningi skilvirka og markvissa þjónustu.
    Mikilvægt þykir fyrir störf Vinnueftirlits ríkisins að hafa nákvæmar upplýsingar um vinnuslys, atvinnusjúkdóma og eitranir á vinnustöðum til að stofnunin geti gripið til ráðstafana í samstarfi við aðra aðila í því skyni að koma í veg fyrir eða draga úr hættu á að upp komi slík tilvik á vinnustöðum. Með áherslu á forvarnir þykir því mikilvægt að Vinnueftirlitið geti fylgst vel með þróun á innlendum vinnumarkaði þannig að stofnuninni sé unnt að tryggja að vinnuslys, atvinnusjúkdómar eða eitranir á vinnustöðum endurtaki sig ekki.
    Söfnun upplýsinga um vinnuslys á vinnustöðum hefur tekið hröðum breytingum og sem dæmi má nefna að atvinnurekendur tilkynna nú rafrænt um framangreind tilvik til Vinnueftirlitsins. Þýðingarmikið er því að kveða skýrt á um í lögum hvernig söfnun slíkra upplýsinga skuli háttað til að vernd persónugreinanlegra upplýsinga verði tryggð. Hér er því lagt til að í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum verði kveðið á um skyldu Vinnueftirlitsins til að skipuleggja og halda skrár á landsvísu um eitranir, vinnuslys og atvinnusjúkdóma sem tilkynntir eru til stofnunarinnar skv. 79. og 80. gr. laganna.
    Enn fremur er gert ráð fyrir að skýrt verði kveðið á um að tilgangur framangreindra skráa sé að afla upplýsinga um tíðni og orsakir eitrana á vinnustöðum sem og vinnuslysa og atvinnusjúkdóma og að auka þannig þekkingu í því skyni að efla forvarnarstarf á vinnustöðum.
    Gert er ráð fyrir að Vinnueftirlitið vinni upplýsingar úr framangreindum skrám til notkunar í forvarnarstarfi, við áætlanagerð sem og við stefnumótun og önnur verkefni stjórnvalda. Í þessu sambandi er jafnframt lagt til að í ákvæðinu verði skýrt kveðið á um að vinnsla Vinnueftirlitsins á persónugreinanlegum upplýsingum í tengslum við framangreindar skrár skuli vera í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Er þetta lagt til í því skyni að tryggja vernd persónugreinanlegra gagna við vinnslu Vinnueftirlitsins á upplýsingum sem stofnuninni er heimil samkvæmt ákvæðinu.
    Þá er lagt til að Vinnueftirliti ríkisins verði heimilt, meðal annars í samstarfi við Sjúkratryggingar Íslands, að nýta stafræna innviði stjórnvalda við söfnun nauðsynlegra upplýsinga í skrár skv. 1. mgr. ákvæðisins með það að markmiði að auðvelda og einfalda tilkynningar til stofnunarinnar um eitranir, vinnuslys og atvinnusjúkdóma skv. 79. og 80. gr. laganna. Er það lagt til þar sem mikilvægt þykir að Vinnueftirlitinu og Sjúkratryggingum Íslands verði heimilað að eiga samstarf sín á milli um nýtingu stafrænna innviða til að samræma vefþjónustur sínar með það að markmiði að auðvelda og um leið einfalda almenningi samskipti við stofnanirnar. Þannig er gert ráð fyrir að með því að heimila Vinnueftirliti ríkisins og Sjúkratryggingum Íslands framangreint samstarf um nýtingu stafrænna innviða við söfnun nauðsynlegra upplýsinga þurfi einungis að tilkynna einu sinni til stjórnvalda um eitrun á vinnustað sem og vinnuslys og atvinnusjúkdóm. Er þannig gengið út frá því að þegar tilkynnt er um eitranir á vinnustöðum sem og vinnuslys og atvinnusjúkdóma verði með nýtingu stafrænna innviða þessara stofnana unnt að senda þann hluta tilkynningarinnar sem er nauðsynlegur til að halda skrár yfir eitranir, vinnuslys og atvinnusjúkdóma á vinnustöðum til Vinnueftirlitsins annars vegar og þær upplýsingar sem eru nauðsynlegar í tengslum við viðeigandi bætur, eftir því sem við á, til Sjúkratrygginga Íslands hins vegar. Með nýtingu stafrænna innviða í gegnum Ísland.is verði þannig komið í veg fyrir að upplýsingar þurfi að fara frá einni stofnun til annarrar eða að tilkynnandi þurfi að fylla út tvö óskyld eyðublöð sem hvor stofnun fyrir sig gefur út líkt og gildandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir. Gert er ráð fyrir að með breyttu fyrirkomulagi, líkt og kveðið er á um í frumvarpinu, verði tryggt að umræddum stofnunum berist ekki upplýsingar sem eru þeim óviðkomandi og þær þurfa ekki á að halda til að geta sinnt lögbundnum skyldum sínum.
    Þá er gert ráð fyrir að ráðherra verði heimilt að setja reglugerð, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, þar sem meðal annars verði kveðið nánar á um skipulagningu og gerð skráa, sem og um vinnslu upplýsinga úr þeim í forvarnarskyni.

Um 5. gr.

    Í 1. málsl. 8. mgr. 87. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er kveðið á um að ákvarðanir Vinnueftirlits ríkisins um dagsektir séu aðfararhæfar. Í 2. málsl. sama ákvæðis er kveðið á um að málskot til ráðuneytisins fresti aðför. Hér er lagt til að í stað 2. málsl. 8. mgr. 87. gr. laganna komi tveir nýir málsliðir þar sem kveðið verði á um að óinnheimtar dagsektir falli ekki niður eftir síðasta sektardag nema Vinnueftirlitið ákveði slíkt sérstaklega. Er þannig gert ráð fyrir að eftir að atvinnurekandi hefur bætt úr annmörkum þurfi hann engu að síður að greiða þær dagsektir sem lagðar hafa verið á frá og með fyrsta dagsektardegi og þar til bætt hefur verið úr annmörkum að mati Vinnueftirlitsins. Þykir þetta mikilvægt til að atvinnurekendur sjái hag sinn í því að verða sem fyrst við fyrirmælum Vinnueftirlitsins um úrbætur svo að úrræðið þjóni tilgangi sínum. Með þessum breytingum er enn fremur verið að samræma ákvæði um dagsektir í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum við ákvæði um dagsektir í ýmsum öðrum lögum, svo sem efnalögum, nr. 61/2013, og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Þá er gert ráð fyrir að heimilt verði með fjárnámi að innheimta dagsektir eftir síðasta sektardag án undangengins dóms eða sáttar.

Um 6. gr.

    Í 1. mgr. 81. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er kveðið á um að Vinnueftirlit ríkisins skuli rannsaka orsakir slysa, óhappa og mengunar sem tilkynnt er um skv. 79. og 80. gr. laganna í þeim tilgangi að stuðla að því að komið sé í veg fyrir að slíkt endurtaki sig á vinnustöðum.
    Hér er lagt til að nýrri málsgrein, 3. mgr. verði bætt við fyrrnefnda 81. gr. þar sem kveðið verði skýrt á um að skýrslum Vinnueftirlits ríkisins um rannsókn einstakra vinnuslysa, óhappa og mengunar, sbr. 1. mgr. ákvæðisins, skuli ekki beitt sem sönnunargögnum í dómsmálum auk þess sem rannsókn stofnunarinnar skuli ekki miða að því að ákvarða sök eða ábyrgð. Er þetta lagt til þar sem tilgangur rannsókna stofnunarinnar er ekki að benda á sök eða ábyrgð þegar um er að ræða slys, óhöpp eða mengun á vinnustöðum heldur eingöngu að leiða í ljós orsakir slíkra atburða með það að markmiði að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig á vinnustöðum, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Í þessu sambandi má jafnframt nefna að þessi fyrirhugaða nýja 3. mgr. í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er í samræmi við 5. mgr. 4. gr. laga um rannsókn samgönguslysa, nr. 18/2013, þar sem kveðið er á um að skýrslum rannsóknarnefndar samgönguslysa um rannsókn einstakra slysa og atvika skuli ekki beitt sem sönnunargögnum í dómsmálum sem og að rannsókn nefndarinnar skuli ekki miða að því að ákvarða sök eða ábyrgð.

Um 7. gr.

    Hér er lagt til að á eftir 1. mgr. 99. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, bætist við fimm nýjar málsgreinar og að í fyrstu þeirra, nýrri 2. mgr., verði kveðið á um það nýmæli að það varði sektum eða fangelsi, allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum að brjóta gegn tilteknum ákvæðum laganna. Er hér gert ráð fyrir að tiltekin brot á lögunum varði auknum viðurlögum umfram það sem kveðið er á um í 1. mgr. 99. gr. gildandi laga. Er þetta lagt til svo að alvarlegustu brotin gegn ákvæðum laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum varði þyngri viðurlögum en sektum. Fordæmi fyrir slíkum viðurlögum má meðal annars finna í 67. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, 65. gr. efnalaga, nr. 61/2013 og 58. gr. laga um mannvirki, nr. 160/2010. Með þessum breytingum er jafnframt verið að tryggja að brot á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum fyrnist ekki á tveimur árum líkt og nú er skv. 81. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, en meginreglan er sú að fyrningartími brota ræðst af því hve langur refsiramminn er hverju sinni. Í 1. mgr. 99. gr. er kveðið á um að brot gegn lögunum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim varði sektum, nema þyngri refsing liggi við að öðrum lögum, og fyrnast því brot gegn ákvæðum laganna á tveimur árum samkvæmt gildandi lögum.
    Gert er ráð fyrir að í 1. tölul. 2. mgr. 99. gr. verði kveðið á um að það varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn 27. gr. Jafnframt er gert ráð fyrir að hið sama gildi brjóti atvinnurekandi eða verkstjóri gegn 1. eða 2. mgr. 86. gr. Brot gegn ákvæðum þessum þykja það alvarleg að eðlilegt þykir að þyngri refsing liggi við brotum en nú er. Er sú tilhögun í samræmi við framkvæmd annars staðar á Norðurlöndum. Í 27. gr. er kveðið á um að þurfi að fjarlægja öryggishlífar eða annað tilsvarandi vegna viðgerðar eða niðursetningar á tæki eða vél skuli sá sem verkið framkvæmir umsvifalaust setja öryggisbúnað á sinn stað aftur eða gera aðrar ráðstafanir, sem jafngildar eru, að verki loknu. Í 1. mgr. 86. gr. er kveðið á um að verði atvinnurekanda eða starfsmönnum, sem falin hefur verið verkstjórn, öryggisvarsla eða öryggistrúnaðarstarf, sbr. tiltekin ákvæði laganna, ljóst að skyndilega hafi komið upp bráð hætta á heilsutjóni eða vinnuslysum starfsmanna á vinnustað, svo sem vegna loftmengunar, eitraðra, eldfimra eða hættulegra efna, hættu á hruni jarðvegs, vörustæðu eða burðarvirkis, fallhættu, sprengihættu eða annarrar alvarlegrar hættu, sé þeim skylt að hlutast til um að starfsemin verði stöðvuð strax og/eða að starfsfólk hverfi frá þeim stað þar sem hættuástand ríkir. Enn fremur er í 2. mgr. 86. gr. kveðið á um að atvinnurekanda beri jafnframt að tryggja að starfsmenn geti sjálfir, ef öryggi þeirra eða annarra er stefnt í bráða hættu, gripið til viðeigandi ráðstafana til að komast hjá afleiðingum hættunnar þegar ekki er unnt að ná sambandi við yfirmann eða starfsmann sem falin hefur verið öryggisvarsla eða öryggistrúnaðarstarf.
    Lagt er til að í 2. tölul. 2. mgr. 99. gr. verði gert refsivert að brjóta með stórfelldum hætti eða ítrekað gegn 1. mgr. 14. gr., 2. mgr. 23. gr. eða 3. mgr. 80. gr. Ákvæðin varða leiðbeiningarskyldu atvinnurekanda eða verkstjóra gagnvart starfsmönnum í tengslum við hvers kyns hættu í vinnuumhverfinu sem getur valdið slysi eða sjúkdómi. Er lagt til að stórfelld eða ítrekuð brot gegn ákvæðunum skuli varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum. Í 1. mgr. 14. gr. er kveðið á um að atvinnurekandi skuli gera starfsmönnum sínum ljósa slysa- og sjúkdómshættu sem kunni að vera bundin við starf þeirra. Auk þess skuli atvinnurekandi sjá um að starfsmenn hans fái nauðsynlega kennslu og þjálfun í að framkvæma störf sín á þann hátt að ekki stafi hætta af. Í 2. mgr. 23. gr. er kveðið á um að verði verkstjóri var við einhver þau atriði sem leitt geti til hættu á slysum eða sjúkdómum skuli hann tryggja að hættunni sé afstýrt. Sé ekki hægt að afstýra hættunni með því sem tiltækt er á staðnum skuli hann umsvifalaust gera vinnuveitanda viðvart. Í 3. mgr. 80. gr. er kveðið á um að atvinnurekandi skuli án tafar upplýsa þá starfsmenn sem er hætta búin eða fulltrúa þeirra um öll slys eða óhöpp þar sem vera kann að hættuleg efni og efnavörur geti valdið mengun.
    Lagt er til að í 3. tölul. 2. mgr. 99. gr. verði gert refsivert að brjóta gegn 8. mgr. 45. gr. en við ákvörðun refsingar skuli fara eftir 1. mgr. 95. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019. Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að í 8. mgr. 45. gr. verði kveðið á um að enginn megi stjórna eða reyna að stjórna tiltekinni vél, sbr. 1.–5. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 46. gr., sem er skráningarskyld skv. 49. gr. en telst ekki vera vélknúið ökutæki skv. 42. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, sem vegna neyslu lyfja telst óhæfur til að stjórna vélinni, sbr. 48. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, eða er undir áhrifum áfengis eða ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru hér á landi samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni eða reglugerðum settum samkvæmt þeim, ef magn áfengis eða ávana- og fíkniefna er yfir þeim mörkum sem kveðið er á um í 49. og 50. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019. Í samræmi við gildandi löggjöf hefur Vinnueftirlit ríkisins beitt 9. gr. reglna nr. 198/1983, um réttindi til að stjórna vinnuvélum, við eftirlit með þeim sem stjórna vinnuvélum en samkvæmt þeim reglum er heimilt að svipta stjórnanda vinnuvélar réttindum í tilteknum tilvikum og að undangenginni rannsókn. Þessu ákvæði hefur hins vegar einungis verið unnt að beita hafi lögreglan jafnframt svipt þann stjórnanda vinnuvélar sem um ræðir ökuréttindum fyrir að hafa stjórnað vélinni í almennri umferð undir áhrifum áfengis eða fíkniefna og er beiting reglnanna jafnframt háð því að lögreglan sendi Vinnueftirlitinu upplýsingar um brotið. Hins vegar er það refsilaust samkvæmt gildandi löggjöf að stjórna skráningarskyldri vinnuvél við þær aðstæður sem lýst er í ákvæðinu ef vélin telst ekki vera vélknúið ökutæki skv. 42. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, svo sem þegar um er að ræða byggingakrana. Er sú framkvæmd í samræmi við niðurstöðu í dómi Hæstaréttar 18. nóvember 2004 í máli nr. 236/2004 þar sem kom fram að verknaðarlýsing í reglum nr. 198/1983 væri ekki fullnægjandi refsiheimild. Í ljósi framangreinds er hér lögð til sú breyting að umrædd háttsemi varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum.
    Lagt er til að í 4. tölul. 2. mgr. 99. gr. verði kveðið á um að leiði brot gegn ákvæðum laganna og/eða ákvæðum reglna eða reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra til alvarlegs slyss, dauða starfsmanns eða annarra eða alvarlegs óhapps þar sem verulegar líkur hafi verið á því að afleiðingarnar hefðu getað orðið þær sömu skuli brotið teljast það alvarlegt að það geti varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum. Í því sambandi er gengið út frá því að ekki verði gerður greinarmunur á því hvort slys eða dauði hljótist af broti ef verulegar líkur hafa verið á því að afleiðingarnar brots hefðu getað orðið dauði.
    Lagt er til að í nýrri 3. mgr. 99. gr verði heimilt að ákvarða atvinnurekendum sektir í samræmi við II. kafla A almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, fyrir þau brot sem tilgreind séu í 2. mgr. 99. gr.
    Lagt er til að í nýrri 4. mgr. 99. gr. verði kveðið á um, í samræmi við 3. tölul. 2. mgr. 99. gr., að Vinnueftirlit ríkisins hafi heimild til að banna stjórnanda að nota skráningarskylda vinnuvél, sbr. 1.–5. mgr. 45. gr., sbr. einnig 49. gr., ef grunur er um að hann sé undir áhrifum áfengis, ávana- og fíkniefna eða lyfja, en þá skuli lögregla jafnframt kölluð til. Enn fremur er lagt til að lögreglu verði veittar sömu heimildir til rannsókna á öndunar-, svita-, munnvatns-, blóð- og þvagsýnum frá stjórnanda skráningarskyldrar vinnuvélar vegna gruns um brot sem tilgreint er í 3. tölul. 2. mgr. 99. gr. og hún hefur skv. 1.–4. mgr. 52. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, gagnvart ökumanni vélknúins ökutækis, sbr. 42. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019. Auk þess er gert ráð fyrir að kostnaður vegna slíkra rannsókna skuli teljast til sakarkostnaðar með sama hætti og skv. 2. málsl. 6. mgr. 52. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019.
    Lagt er til að í 5. mgr. 99. gr. verði kveðið á um heimild Vinnueftirlits ríkisins til að svipta stjórnendur skráningarskyldra vinnuvéla, sbr. 1.–5. mgr. 45. gr., sbr. einnig 49. gr., sem jafnframt eru ekki vélknúin ökutæki, sbr. 42. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, vinnuvélaréttindum hafi þeir brotið gegn ákvæðum laganna og brotið er tilgreint í 3. tölul. 2. mgr. 99. gr., eða stjórnandinn hefur neitað að veita atbeina sinn við rannsókn máls, skv. 4. mgr. Jafnframt er lagt til að svipting vinnuvélaréttinda skuli annaðhvort vara í tiltekinn tíma og þá eigi skemur en einn mánuð eða vara ótímabundið ef sakir eru miklar eða brot er endurtekið öðru sinni eða oftar. Enn fremur er lagt til að skýrt verði kveðið á um að svipting vinnuvélaréttinda feli í sér sviptingu tiltekinna réttinda sem tilgreind séu í vinnuvélaskírteini sem og réttar til að öðlast vinnuvélaréttindi. Þá er lagt til að sé svipting vinnuvélaréttinda ótímabundin geti sá sem sviptur er réttindum ekki sótt að nýju um vinnuvélaréttindi fyrr en fimm ár eru liðin frá sviptingunni að undangengnu verklegu og bóklegu prófi á viðkomandi vél. Er ákvæðið í samræmi við 99.–101. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, eftir því sem við á, til að tryggja að sömu reglur gildi um sviptingu vinnuvélaréttinda á grundvelli laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og um sviptingu ökuréttinda á grundvelli umferðarlaga.
    Loks er lagt til að í 6. mgr. 99. gr. verði kveðið á um heimild Vinnueftirlits ríkisins til að svipta stjórnanda skráningarskyldrar vinnuvélar, sbr. 1.–5. mgr. 45. gr., sbr. einnig 49. gr., sem jafnframt er vélknúið ökutæki, sbr. 42. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, vinnuvélaréttindum ef lögregla hefur svipt stjórnandann ökuréttindum. Er þá gert ráð fyrir að svipting vinnuvélaréttinda gildi í sama tíma og ökuréttarsviptingin varir.

Um 8. gr.

    Lagt er til að á eftir 99. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum komi nýtt ákvæði, 99. gr. a, þar sem kveðið verði á um það nýmæli að Vinnueftirlit ríkisins hafi heimild til að leggja á stjórnvaldssekt vegna brota gegn tilteknum ákvæðum laganna. Mikilvægt þykir að kveðið verði á um heimild til stjórnvaldssekta vegna tiltekinna brota til að auka líkur á að farið sé að ákvæðum laganna.
    Lagt er til að Vinnueftirlitinu verði í tilteknum tilvikum heimilt að leggja stjórnvaldssekt á þá aðila sem bera tilteknar skyldur samkvæmt lögunum, nánar tiltekið atvinnurekendur, sbr. 1. mgr. 12. gr., verkkaupa eða fulltrúa verkkaupa, sbr. 1.–2. mgr. 36. gr., og framleiðanda, innflutningsaðila og dreifingaraðila varnings, sbr. 4. gr. laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, nr. 134/1995. Þau lög eru að hluta til rammalög og gilda um öll markaðseftirlitsstjórnvöld, þ.m.t. Vinnueftirlit ríkisins. Í 4. gr. þeirra laga er að finna samræmda skilgreiningu á því hverjir teljast til framleiðenda, innflytjenda og dreifingaraðila varnings og er því vísað til þeirra laga varðandi þær skilgreiningar. Samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum hvíla ákveðnar skyldur á framangreindum aðilum, sbr. 48. gr. og 48. gr. a. Allir framangreindir aðilar geta verið annaðhvort atvinnurekandi eða einstaklingur, eftir atvikum.
    Lagt er til að í a-lið 1. mgr. 99. gr. a verði kveðið á um að það geti varðað stjórnvaldssekt að brjóta gegn fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins um stöðvun vinnu eða lokun starfsemi eða hluta hennar eða um bann við notkun vélar skv. 84. og 85. gr. Í framkvæmd hefur Vinnueftirlitið ekki beitt slíku banni nema mögulega sé fyrir hendi veruleg hætta fyrir líf og/eða heilbrigði starfsmanna og því þykir rétt að brot gegn slíkum fyrirmælum stofnunarinnar geti varðað stjórnvaldssektum.
    Gert er ráð fyrir að í b-lið 1. mgr. 99. gr. a verði kveðið á um að það geti varðað stjórnvaldssekt að brjóta gegn fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins um bann við markaðssetningu eða um bann við notkun sem og afturköllun eða eyðileggingu á vélum, tækjum og öðrum búnaði skv. 48. gr. a. Um er að ræða brot þar sem starfsmönnum og/eða öðrum getur verið hætta búin ef ekki er farið að slíkum fyrirmælum Vinnueftirlitsins. Ákvæðinu er meðal annars ætlað tryggja með fullnægjandi hætti innleiðingu á ýmsum gerðum Evrópusambandsins í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Um er að ræða innleiðingu á 45. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/424 frá 9. mars 2016 um togbrautabúnað og niðurfellingu á tilskipun 2000/9/EB, 45. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/425 frá 9. mars 2016 um persónuhlífar og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 89/686/EBE, 43. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/426 frá 9. mars 2016 um tæki sem brenna loftkenndu eldsneyti og niðurfellingu á tilskipun 2009/142/EB, 47. gr. tilskipunar 2014/68/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna um að bjóða þrýstibúnað fram á markaði, 40. gr. tilskipunar 2014/29/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna um að bjóða einföld þrýstihylki fram á markaði og 43. gr. tilskipunar 2014/33/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna um lyftur og öryggisíhluti fyrir lyftur.
    Gert er ráð fyrir að í c-lið 1. mgr. 99. gr. a verði kveðið á um að það geti varðað stjórnvaldssekt að brjóta gegn fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins um bann við framleiðslu, flutningi eða notkun hættulegra efna og efnavara skv. 2. mgr. 51. gr. Brot gegn slíku banni getur leitt til hættu fyrir líf og/eða heilbrigði starfsmanna og því þykir rétt að brot gegn slíkum fyrirmælum Vinnueftirlitsins geti varðað stjórnvaldssektum.
    Lagt er til að í d-lið 1. mgr. 99. gr. a verði kveðið á um að það geti varðað stjórnvaldssekt að brjóta ítrekað gegn fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum skv. 37., 42. og 46. gr. sem gefin hafa verið vegna sambærilegrar háttsemi eða brots. Ítrekað brot gegn fyrirmælum Vinnueftirlitsins vegna sambærilegrar háttsemi eða brots teljast vera framin af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi atvinnurekenda þegar kemur að aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi starfsmanna. Markmið ákvæðisins er að stuðla að því að Vinnueftirlitið þurfi ekki að hafa ítrekuð afskipti af sama atvinnurekanda vegna sambærilegra brota gegn ákvæðum laganna og að stuðla að því að farið sé að fyrirmælum Vinnueftirlitsins þannig að koma megi í veg fyrir vinnuslys og/eða atvinnusjúkdóma. Sem dæmi má nefna að Vinnueftirlitið getur gefið atvinnurekanda fyrirmæli um skort á fallvörnum á verkpöllum á byggingarvinnustað og úrbætur eru síðan gerðar eftir að stofnunin bannar vinnu á verkpöllunum. Síðar kemur í ljós við aðra eftirlitsskoðun Vinnueftirlitsins að aftur er skortur á fallvörnum á verkpöllum hjá sama atvinnurekanda þannig að stofnunin þarf aftur að gefa sama atvinnurekanda fyrirmæli vegna sambærilegs brots. Til þess að minnka líkur á að slík háttsemi atvinnurekanda endurtaki sig ítrekað er hér mælt fyrir um að háttsemin geti varðað stjórnvaldssektum.
    Lagt er til að í e-lið 1. mgr. 99. gr. a verði kveðið á um að það geti varðað stjórnvaldssekt að brjóta gegn ákvæðum reglugerðar um bann við notkun asbests á vinnustöðum. Asbest er verulega hættulegt fyrir líf og heilbrigði starfsmanna og er því um að ræða alvarlegt brot þegar brotið er gegn ákvæðum reglugerðarinnar. Í reglugerðinni er kveðið á um þá meginreglu að notkun asbests sé óheimil á vinnustöðum. Heimilt er að veita undanþágu frá framangreindri meginreglu þegar um niðurrif asbests er að ræða, svo sem í byggingum, byggingarhlutum, vélum og öðrum búnaði sem inniheldur asbest. Samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar er niðurrif asbests eingöngu heimilt þegar Vinnueftirlitið hefur veitt leyfi fyrir hvert verk og þeir starfsmenn sem sinna niðurrifinu hafa gengist undir sérstakt námskeið og heilsufarsskoðun. Í reglugerðinni er einnig kveðið á um hvaða önnur skilyrði skuli vera uppfyllt þannig að Vinnueftirlitinu sé heimilt að veita framangreinda undanþágu, svo sem í tengslum við notkun viðeigandi persónuhlífa og hvernig standa eigi að verkinu að öðru leyti.
    Lagt er til að í f-lið 1. mgr. 99. gr. a verði kveðið á um að það geti varðað stjórnvaldssekt að brjóta gegn 5. mgr. 36. gr., 60. gr. eða 1. eða 2. mgr. 80. gr. Brot gegn framangreindum ákvæðum þykir það alvarlegt að ekki þurfi að kveða sérstaklega á um að brotið þurfi að vera alvarlegt eða ítrekað til að Vinnueftirlitinu sé heimilt að leggja á stjórnvaldssekt við broti.
    Í 5. mgr. 36. gr. er kveðið á um að verkkaupa eða fulltrúa verkkaupa sé skylt að tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins um vinnustað áður en vinna hefst þegar um er að ræða byggingarstarfsemi eða mannvirkjagerð og ráðgert er að vinna standi yfir lengur en í 30 daga og fleiri en 20 starfsmenn verði við vinnu samtímis. Hið sama á við þegar ráðgert er að vinna við slík verk taki lengri tíma en sem nemur 500 dagsverkum. Ákvæðið hefur verið útfært nánar í reglum nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð. Brýnt þykir að Vinnueftirlitið fái tilkynningar um verk í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð sem eru af þessari stærðargráðu svo að unnt sé að tryggja öryggi og heilbrigði þeirra starfsmanna sem um ræðir. Við ákvörðun stjórnvaldssekta, þegar um er að ræða brot gegn ákvæði þessu, er gert ráð fyrir að Vinnueftirlitinu beri að líta til þess hvort stofnunin hafi haft fullnægjandi vitneskju um starfsemina áður en framkvæmdir hófust, jafnvel þótt tilkynning hafi ekki borist stofnuninni, eða hvort verkkaupi eða fulltrúi hans hafi mátt sjá fyrir að umfang starfseminnar yrði með þeim hætti að tilkynna bæri starfsemina til Vinnueftirlitsins.
    Í 1. mgr. 60. gr. er kveðið á um að ekki megi ráða börn til vinnu en skv. 59. gr. eru börn skilgreind sem einstaklingar sem eru undir 15 ára aldri eða eru í skyldunámi. Í 2. mgr. 60. gr. koma síðan fram þrjú undanþágutilvik sem heimila frávik frá meginreglu 1. mgr. Í fyrsta lagi er heimilt að ráða börn til að taka þátt í menningar- eða listviðburðum og íþrótta- eða auglýsingastarfsemi en sá sem ræður börn sem ekki hafa náð 13 ára aldri skal afla leyfis frá Vinnueftirliti ríkisins áður en til ráðningar kemur. Í öðru lagi er heimilt að ráða börn 14 ára og eldri til vinnu sem er hluti af fræðilegu eða verklegu námsfyrirkomulagi. Í þriðja lagi er heimilt að ráða börn sem náð hafa 14 ára aldri til starfa af léttara tagi. Börn sem náð hafa 13 ára aldri má ráða til starfa af léttara tagi í takmarkaðan stundafjölda á viku, svo sem til léttra garðyrkju- eða þjónustustarfa eða annarra sambærilegra starfa. Í reglugerð nr. 426/1999 um vinnu barna og unglinga hafa framangreindar undanþágur verið nánar útfærðar samkvæmt heimild í 63. gr. f. Hér getur verið um að ræða einstaklinga í viðkvæmri stöðu og því afar mikilvægt að koma í veg fyrir að þeir verði fyrir vinnuslysum. Er því talið nauðsynlegt að Vinnueftirliti ríkisins verði heimilt að beita stjórnvaldssektum við brotum gegn þessum ákvæðum.
    Í 1. og 2. mgr. 80. gr. er kveðið á um að atvinnurekandi skuli tilkynna Vinnueftirliti ríkisins án ástæðulauss dráttar og eigi síðar en innan sólarhrings um öll slys eða óhöpp þar sem kunni að vera hvers konar hættuleg efni eða efnavörur sem geti valdið mengun. Skal atvinnurekandi veita upplýsingar um aðstæður á slysstað, um hvers konar efni er að ræða og hvaða ráðstafana gripið hafi verið til, eftir því sem frekast er unnt. Þá skal atvinnurekandi tilkynna skriflega um slysið eða óhappið til Vinnueftirlits ríkisins innan viku frá því að tilvikið átti sér stað. Þeir aðilar sem starfa að vinnuvernd innan fyrirtækja, sbr. 4.–6. gr., og þjónustuaðili, sbr. 66. gr. a, skulu fá afhent afrit af tilkynningunni. Mikilvægt þykir að atvinnurekendur sinni skyldu sinni samkvæmt þessum ákvæðum og tilkynni til Vinnueftirlitsins slys eða óhöpp þar sem vera kann að hvers konar hættuleg efni eða efnavörur geti valdið mengun. Þá þykir mikilvægt að Vinnueftirlitið fái vitneskju um slík slys og óhöpp án ástæðulausrar tafar til þess að unnt sé að grípa til viðeigandi ráðstafana til að vernda starfsmenn og rannsaka orsakir slíkra atvika í samræmi við 81. gr. og koma þannig í veg fyrir að sambærileg atvik endurtaki sig. Einnig þykir mikilvægt að framangreind slys og óhöpp séu skráð í slysagagnagrunn Vinnueftirlitsins til að unnt sé að greina áhættuþætti í atvinnulífinu og beina eftirliti þangað sem þörfin er mest hverju sinni.
    Gert er ráð fyrir að í g-lið 1. mgr. 99. gr. a verði lagt til að það geti varðað stjórnvaldssekt að brjóta með stórfelldum hætti og alvarlega gegn 1. eða 2. mgr. 53. gr., 1. eða 2. mgr. 54. gr. eða 55. gr.
    Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. skal vinnutíma hagað þannig að á hverjum 24 klukkustundum, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmenn að minnsta kosti 11 klukkustunda samfellda hvíld. Skv. 2. mgr. 53. gr. er heimilt með samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins að stytta samfelldan hvíldartíma í allt að átta klukkustundir ef eðli starfs eða sérstakir atvinnuhættir gera frávik nauðsynleg. Skv. 1. mgr. 54. gr. skal starfsmaður á hverju sjö daga tímabili fá a.m.k. einn vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma. Skv. 2. mgr. 54. gr. er heimilt að víkja frá framangreindri meginreglu með samningum samtaka aðila vinnumarkaðarins ef sérstök þörf er á, vegna eðlis hlutaðeigandi starfa, með því að fresta vikulegum frídegi þannig að starfsmaður fái samsvarandi hvíldartíma síðar en þó ávallt innan 14 daga. Þar sem sérstakar ástæður gera slík frávik nauðsynleg er þó heimilt með samkomulagi á vinnustað að fresta vikulegum hvíldartíma þannig að í stað vikulegs frídags komi tveir samfelldir frídagar á hverjum tveimur vikum. Skv. 1. mgr. 55. gr. skal hámarksvinnutími starfsmanna á viku að yfirvinnu meðtalinni ekki vera umfram 48 klukkustundir að meðaltali á hverju fjögurra mánaða tímabili. Skv. 2. mgr. 55. gr. er heimilt með samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins að reikna hámarksvinnutíma starfsmanna út frá viðmiðunartímabili sem má vera allt að sex mánuðir. Skv. 3. mgr. 55. gr. er samtökum aðila vinnumarkaðarins heimilt að ákveða með samningum að hámarksvinnutími starfsmanna skuli reiknaður út frá viðmiðunartímabili sem er allt að 12 mánuðir, að gættum meginreglum laganna um öryggis- og heilsuvernd starfsmanna, ef fyrir liggja hlutlægar eða tæknilegar ástæður eða vegna sérstaks eðlis þeirra starfa sem um ræðir. Samtök aðila vinnumarkaðarins hafa gert með sér samkomulag vegna frávika skv. 2. mgr. 53. gr., 2. mgr. 54. gr. og 2. og 3. mgr. 55. gr. og flestir kjarasamningar nýta sér undanþágurnar. Til að mynda er átta klukkustunda samfelld hvíld á sólarhring í raun meginreglan á innlendum vinnumarkaði. Í kjarasamningum er kveðið á um að atvinnurekandi skuli greiða starfsmanni bætur ef brotið er gegn lögum eða kjarasamningum hvað varðar daglegan hvíldartíma, vikulegan frídag eða hámarksvinnutíma og er því eingöngu gert ráð fyrir að Vinnueftirlitinu verði heimilt að beita stjórnvaldssektum þegar um er að ræða stórfelld og alvarleg brot. Með stórfelldu og alvarlegu broti er átt við að ekki getur verið um að ræða einfalt brot eða minni háttar frávik auk þess sem brotið verður að hafa í för með sér hættu fyrir líf og heilbrigði starfsmanna. Sem dæmi má nefna að þegar starfsmenn vinna við vélar og tæki getur skortur á hvíld leitt til alvarlegra afleiðinga fyrir starfsmenn sem og almannahagsmuni en einnig getur skortur á hvíld leitt til kulnunar í starfi ef brotið er stórfellt og alvarlegt.
    Gert er ráð fyrir að í h-lið 1. mgr. 99. gr. a verði lagt til að það geti varðað stjórnvaldssekt að brjóta með stórfelldum hætti eða ítrekað gegn 1. mgr. 48. gr., 1. mgr. 50. gr. eða 1. mgr. 51. gr. a. Er þetta lagt til þar sem stórfelld eða ítrekuð brot gegn framangreindum ákvæðum þykja vera það alvarleg að rétt þyki að Vinnueftirlitið geti beitt stjórnvaldssektum þegar um er að ræða slík brot. Í 1. mgr. 48. gr. er kveðið á um að óheimilt sé að setja á markað eða taka í notkun tegund véla, tækja eða annars búnaðar sem uppfyllir ekki reglur um öryggi og formskilyrði, svo sem um merkingar, leiðbeiningar, vottorð, yfirlýsingar um samræmi eða prófunarskýrslur, sem sett eru samkvæmt lögum þessum, sérreglum sem settar eru á grundvelli þeirra eða viðurkenndum stöðlum er gilda á sameiginlegum markaði ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu. Mikilvægt er að starfsmenn vinni með örugg tæki og vélar en ætla má að alvarlegustu vinnuslysin geti orðið í tengslum við slíkan búnað. Því þykir jafnframt mikilvægt að kveða á um að Vinnueftirlitið hafi heimild til að beita stjórnvaldssektum hafi atvinnurekendur, framleiðendur eða innflytjendur brotið með stórfelldum hætti eða ítrekað gegn þeirri skyldu sinni að framleiða og/eða flytja hingað til lands örugg tæki og vélar í samræmi við viðurkennda staðla. Einnig þykir nauðsynlegt að kveða á um heimild Vinnueftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssekt vegna framangreindra brota til að tryggja innleiðingu á ýmsum gerðum Evrópusambandsins í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Um er að ræða innleiðingu á 45. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/424 frá 9. mars 2016 um togbrautabúnað og niðurfellingu á tilskipun 2000/9/EB, 45. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/425 frá 9. mars 2016 um persónuhlífar og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 89/686/EBE, 43. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/426 frá 9. mars 2016 um tæki sem brenna loftkenndu eldsneyti og niðurfellingu á tilskipun 2009/142/EB, 47. gr. tilskipunar 2014/68/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna um að bjóða þrýstibúnað fram á markaði, 40. gr. tilskipunar 2014/29/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna um að bjóða einföld þrýstihylki fram á markaði og 43. gr. tilskipunar 2014/33/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna um lyftur og öryggisíhluti fyrir lyftur.
    Í 1. mgr. 50. gr. er kveðið á um að á vinnustöðum þar sem hættuleg efni eða efnavörur, efnaúrgangur eða spilliefni, þ.m.t. sprengifim efni, eldfim efni og sprengiefni, eru notuð eða kunna að vera notuð skuli atvinnurekandi gæta þess að þeim framleiðslu-, starfs- og vinnsluaðferðum sé beitt sem tryggja að starfsmenn séu varðir gegn slysum, mengun og sjúkdómum. Fjöldi reglna hefur verið settur um þær framleiðslu-, starfs- og vinnsluaðferðir sem beita skal til að tryggja að starfsmenn séu varðir gegn slysum, mengun og sjúkdómum og má þar nefna reglur nr. 530/2020 um verndun starfsmanna á vinnustöðum gegn hættu á heilsutjóni af völdum efna sem geta valdið krabbameini eða stökkbreytingu í kímfrumum, reglugerð nr. 553/2004 um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum efna á vinnustöðum og reglugerð nr. 390/2009 um mengunarmörk og aðgerðir til að draga úr mengun á vinnustöðum. Stórfellt eða ítrekað brot gegn þessu ákvæði þykir alvarlegt brot og því mikilvægt að Vinnueftirlitið hafi heimild til að leggja á stjórnvaldssekt ef brotið er gegn ákvæðinu með stórfelldum hætti eða ítrekað.
    Í 1. mgr. 51. gr. a er kveðið á um að á vinnustöðum þar sem hættuleg efni eða efnavörur eru notaðar eða kunna að vera notaðar í þeim mæli að við slys geti skapast umfangsmikil hætta fyrir fólk og umhverfi skuli atvinnurekandi gera öryggisráðstafanir til að koma í veg fyrir slík slys. Enn fremur skuli atvinnurekandi gera ráðstafanir til að unnt sé að bregðast við slíkum slysum svo að tafarlaust megi draga úr afleiðingum þeirra. Þessi skylda til að koma í veg fyrir og bregðast við stórslysum af völdum hættulegra efna hefur verið nánar útfærð í reglugerð nr. 1050/2017 um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna. Stórfellt eða ítrekað brot gegn þessu ákvæði þykir alvarlegt brot og því þykir jafnframt mikilvægt að Vinnueftirlitið hafi heimild til að leggja á stjórnvaldssekt ef brotið er gegn ákvæðinu.
    Gert er ráð fyrir að í i-lið 1. mgr. 99. gr. a verði kveðið á um að það geti varðað stjórnvaldssekt að brjóta gegn ákvæðum laganna og/eða reglum og reglugerðum sem settar hafa verið á grundvelli þeirra þegar brotið veldur loftmengun eitraðra eða eldfimra eða hættulegra efna, sprengihættu, klemmihættu, skurðhættu, fallhættu eða hættu á hruni jarðvegs, verkpalls, vörustæðu, gáma, kerja eða burðarvirkis sem skapi verulega hættu fyrir líf og heilbrigði starfsmanna. Á grundvelli 85. gr. getur Vinnueftirlitið bannað vinnu við þessar aðstæður en mikilvægt þykir að Vinnueftirlitið geti jafnframt lagt á stjórnvaldssektir við þessar aðstæður.
    Lagt er til að í j-lið 1. mgr. 99. gr. a verði kveðið á um að það geti varðað stjórnvaldssekt að tilkynna ekki í samræmi við 1. mgr. 79. gr. eða veita rangar eða villandi upplýsingar um vinnuslys sem leiðir til dauða eða veldur langvinnu eða varanlegu heilsutjóni starfsmanns. Mikilvægt þykir að Vinnueftirlitið fái ávallt réttar og greinargóðar upplýsingar svo að stofnuninni sé unnt að rannsaka orsök slyss þannig að unnt sé að koma í veg fyrir sambærileg slys síðar. Er því jafnframt talið mikilvægt í ljósi þeirra alvarlegu hagsmuna sem um er að ræða að Vinnueftirlit ríkisins geti beitt stjórnvaldssekt ef upplýsingar sem stofnunin fær eru rangar eða villandi eða henni er ekki tilkynnt um slys, sbr. framangreint. Við ákvörðun sekta samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir að Vinnueftirlitinu beri meðal annars að líta til þess hvort stofnunin hafi haft fullnægjandi vitneskju um það slys sem um ræðir jafnvel þó að henni hafi ekki borist tilkynning um slysið.
    Gert er ráð fyrir að í k-lið 1. mgr. 99. gr. a verði kveðið á um að það geti varðað stjórnvaldssekt að ráða börn eða ungmenni til vinnu við þær aðstæður sem kveðið er á um í 62. gr. en skv. 59. gr. eru börn skilgreind sem einstaklingar sem eru undir 15 ára aldri eða eru í skyldunámi. Í 62. gr. er kveðið á um að óheimilt sé að ráða ungmenni, þ.m.t. börn, til vinnu við tilteknar aðstæður. Er í því sambandi meðal annars átt við vinnu sem ætla má að sé ofvaxin líkamlegu eða andlegu atgervi viðkomandi einstaklings, vinnu sem veldur varanlegu heilsutjóni, vinnu þar sem hætta er á skaðlegri geislun, vinnu þar sem fyrir hendi er slysahætta sem gera má ráð fyrir að börn og ungmenni geti átt í erfiðleikum með að átta sig á eða forðast vegna andvaraleysis eða skorts á reynslu eða þjálfun, vinnu sem felur í sér hættu fyrir heilsu viðkomandi einstaklings vegna óvenju mikils kulda, hita, hávaða eða titrings og vinnu þar sem hætta er á ofbeldi og annarri sérstakri hættu að því undanskildu að ungmennin starfi með fullorðnum. Hér er um að ræða einstaklinga sem geta verið í viðkvæmri stöðu og því afar mikilvægt að koma í veg fyrir að þeir verði fyrir vinnuslysum. Er því talið nauðsynlegt að Vinnueftirliti ríkisins verði heimilt að beita stjórnvaldssektum sé um að ræða brot gegn þessum ákvæðum.
    Gert er ráð fyrir að í l-lið 1. mgr. 99. gr. a verði kveðið á um að það geti varðað stjórnvaldssekt að veita Vinnueftirliti ríkisins rangar eða ófullnægjandi upplýsingar að mati stofnunarinnar um þau atriði sem veita skal stofnuninni upplýsingar um skv. 5. mgr. 36. gr., 58. gr., 1. og 2. mgr. 80. gr. og 2., 3., 5. eða 10. mgr. 82. gr. Öll framangreind ákvæði eiga það sameiginlegt að í þeim er kveðið á um skyldur atvinnurekanda eða annarra aðila til að tilkynna Vinnueftirlitinu um tiltekin atriði eða veita stofnuninni upplýsingar um tiltekin atriði. Mikilvægt þykir að sá sem tilkynnir Vinnueftirlitinu um fyrirhugaða byggingarvinnustaði (5. mgr. 36. gr.), um úrbætur vegna fyrirmæla sem Vinnueftirlit hefur gefið honum (10. mgr. 82. gr.) eða veitir starfsmönnum Vinnueftirlitsins upplýsingar er tengjast eftirliti þeirra (2., 3. og 5. mgr. 82. gr. og 58. gr.), veiti Vinnueftirlitinu réttar upplýsingar og reyni ekki að villa um fyrir stofnuninni þannig að stofnuninni sé unnt að sinna lögbundnu hlutverki sínu.
    Gert er ráð fyrir að í 2. mgr. ákvæðisins verði kveðið á um að Vinnueftirlit ríkisins geti lagt stjórnvaldssekt á starfsmann sem brýtur gegn 6. mgr. 45. gr. eða gegn fyrirmælum stofnunarinnar um bann við notkun tiltekins tækis, sbr. 1. málsl. 4. mgr. 99. gr. Tilteknar skyldur samkvæmt lögunum eru þess eðlis að þær teljast vera skyldur starfsmanna en ekki atvinnurekenda en mikilvægt þykir að umræddir starfsmenn sinni þessum skyldum sínum.
    Lagt er til að í a-lið 2. mgr. 99. gr. a verði kveðið á um að það geti varðað stjórnvaldssekt þegar starfsmaður brýtur gegn 6. mgr. 45. gr. Í því ákvæði er kveðið á um að sá einn megi vera stjórnandi tiltekinnar vélar, sbr. 1.–5. mgr. ákvæðisins og 1. mgr. 46. gr., sem hefur öðlast fullgild réttindi til að stjórna þeirri vél sem um ræðir hverju sinni samkvæmt reglum sem hafa verið settar á grundvelli 3. mgr. 49. gr. Hér er um að ræða réttindi sem tengd eru starfsmanni og því eðlilegt að starfsmaðurinn beri ábyrgð brjóti hann gegn ákvæðinu. Í 6. mgr. 45. gr. er jafnframt verið að vísa til þess að stjórnandi vinnuvélar, sem er skráningarskyld samkvæmt gildandi reglum nr. 388/1989 um skráningu og skoðun farandvinnuvéla og vinnuvéla skuli hafa öðlast fullgild réttindi samkvæmt gildandi reglum nr. 198/1983 um réttindi til að stjórna vinnuvélum.
    Gert er ráð fyrir að í b-lið 2. mgr. 99. gr. a verði kveðið á um að það geti varðað stjórnvaldssekt þegar starfsmaður brýtur gegn fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins um bann við notkun tiltekins tækis, sbr. 1. málsl. 4. mgr. 99. gr. Er það í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til með nýrri 4. mgr. 99. gr., þar sem er meðal annars kveðið á um að Vinnueftirliti ríkisins verði heimilt að banna stjórnanda að nota tiltekna vél, sbr. 1.–5. mgr. 45. gr., sem er skráningarskyld skv. 49. gr., ef grunur sé um að hann sé undir áhrifum áfengis eða ávana- og fíkniefna en gert er ráð fyrir að þá skuli lögregla jafnframt kölluð til.
    Lagt er til að í 2. mgr. 99. gr. a verði kveðið á um að Vinnueftirlitið hafi heimild til að leggja stjórnvaldssekt á starfsmann sem geti numið allt að 1 millj. kr. og að stjórnvaldssekt sem stofnunin hafi heimild til að leggja á atvinnurekanda geti numið allt að 15 millj. kr., sbr. 3. mgr. 99. gr. a. Þá er gert ráð fyrir að í 4. mgr. 99. gr. a verði kveðið á um að við ákvörðun stjórnvaldssekta skuli Vinnueftirlitið meðal annars líta til alvarleika brots, til þess hve lengi það hefur staðið yfir, samstarfsvilja hins brotlega aðila sem og hvort um ítrekað brot hafi verið að ræða og til umfangs atvinnureksturs hins brotlega aðila sé um atvinnurekanda að ræða. Er því gert ráð fyrir að um misjafnlega alvarleg brot geti verið að ræða og í ljósi þess þykir nauðsynlegt að sektarfjárhæðin geti numið allt að 15 millj. kr. þegar um alvarlegustu brot atvinnurekanda er að ræða. Í þessu sambandi er gert ráð fyrir að við ákvörðun stjórnvaldssekta muni Vinnueftirlitið meðal annars líta til fordæma dómstóla og sektargerða ákæruvaldsins vegna brota á nýrri 2. mgr. 99. gr.
    Lagt er til í 5. mgr. 99. gr. a verði skýrt kveðið á um að Vinnueftirlitinu sé heimilt að beita stjórnvaldssekt óháð því hvort brotið sem um ræðir var framið af ásetningi eða gáleysi. Er það í samræmi við önnur sambærileg ákvæði um heimildir stjórnvalda til að leggja á stjórnvaldssekt í löggjöf hér á landi, meðal annars í efnalögum, nr. 61/2013, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og lögum um neytendasamninga, nr. 16/2016.
    Lagt er til að í 6. mgr. 99. gr. a verði skýrt kveðið á um að öðrum viðurlögum samkvæmt lögunum verði ekki beitt ef stjórnvaldssekt er lögð á. Er það lagt til í því skyni að tryggja að ekki komi til tvöfaldra viðurlaga fyrir sama brot. Einnig er lagt til að kveðið verði á um að ekki skuli leggja stjórnvaldssekt á starfsmann og atvinnurekanda fyrir sama brot. Er það lagt til þar sem það þykir ekki í samræmi við meðalhóf stjórnsýslulaga verði unnt að leggja stjórnvaldssekt á starfsmann og atvinnurekanda fyrir sama brot.
    Enn fremur er gert ráð fyrir að í 7. mgr. 99. gr. a verði kveðið á um að Vinnueftirliti ríkisins beri að tilkynna ákvörðun stofnunarinnar um stjórnvaldssekt skriflega á sannanlegan hátt þeim aðila sem sektin beinist að auk þess sem gert er ráð fyrir að ákvörðuninni skuli fylgja skriflegur rökstuðningur. Með sannanlegum hætti er meðal annars átt við að Vinnueftirlit ríkisins geti fært sönnur á að tilkynning stofnunarinnar um ákvörðun um stjórnvaldssekt hafi borist réttum aðila. Almennt má ætla að tilkynning Vinnueftirlit ríkisins um ákvörðun stofnunarinnar um stjórnvaldssekt geti verði með ýmsum hætti, svo sem send með hefðbundnum bréfpósti, með ábyrgðarpósti eða rafrænt með tölvubréfi. Í því sambandi má ætla að almennt sé erfiðara að færa sönnur á að tilkynning, sem send hefur verið rafrænt með tölvubréfi, hafi borist réttum aðila en tilkynning sem send hefur verið með ábyrgðarpósti.
    Gert er ráð fyrir að í 8. mgr. 99. gr. a verði kveðið á um að gjalddagi stjórnvaldssektar verði 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin en hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga skuli greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga í samræmi við ákvæði laga um vexti og verðtryggingu. Enn fremur er lagt til að í 9. mgr. 99. gr. verði sett ákveðin tímamörk í tengslum við heimild Vinnueftirlits ríkisins til að leggja á stjórnvaldssekt og gert er ráð fyrir að heimildin falli niður að fimm árum liðnum frá því að þeirri háttsemi sem um ræðir lauk. Þá er gert ráð fyrir að í 9. og 10. mgr. 99. gr. a verði kveðið á um að stjórnvaldssekt renni í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu sektarinnar auk þess sem slíkar sektir verði aðfararhæfar. Loks er lagt til að í 11. mgr. 99. gr. a verði tekið fram að um ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins um stjórnvaldssekt fari að öðru leyti samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

Um 9. gr.

    Lagt er til að XV. kafli laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum beri fyrirsögnina Viðurlög og refsiákvæði í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi þessu á ákvæðum kaflans.

Um 10. og 11. gr.

    Lagðar eru til breytingar á lögum um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda, nr. 45/2007, í ljósi þess að í frumvarpi þessu er lagt til að í stað Vinnumálastofnunar skuli Vinnueftirlit ríkisins annast framkvæmd laganna innan stjórnsýslunnar. Er þannig gert ráð fyrir að hvarvetna í lögunum þar sem vísað er til Vinnumálastofnunar verði vísað til Vinnueftirlits ríkisins. Að öðru leyti vísast til skýringa í 3. kafla frumvarpsins um meginefni þess.
    Í 4. mgr. 7. gr. sem og í 6. mgr. 8. gr. gildandi laga um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda er kveðið á um að Vinnumálastofnun skuli afhenda viðeigandi stjórnvöldum, svo sem lögreglu, skattyfirvöldum, tollyfirvöldum, Tryggingastofnun ríkisins, Útlendingastofnun, Vinnueftirliti ríkisins og Þjóðskrá Íslands tilteknar upplýsingar. Þar sem í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að í stað Vinnumálastofnunar skuli Vinnueftirlit ríkisins annast framkvæmd laganna innan stjórnsýslunnar er hér jafnframt gert ráð fyrir að ekki verði lengur vísað til þess að Vinnueftirlit ríkisins sé eitt af þeim stjórnvöldum sem því stjórnvaldi sem annast framkvæmd laganna beri að afhenda upplýsingar á grundvelli 4. mgr. 7. gr. sem og 6. mgr. 8. gr. laganna en í stað þess verði vísað til Vinnumálastofnunar. Er það lagt til meðal annars í ljósi þess að Vinnumálastofnun fer með framkvæmd laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, og laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og því kann að koma til þess að upplýsingar sem Vinnueftirlit ríkisins aflar við eftirlit á vinnustöðum geti í einhverjum tilvikum verið nauðsynlegar fyrir Vinnumálastofnun við framkvæmd framangreindra laga.

Um 12. gr.

    Lagt er til að tveimur nýjum málsliðum verði bætt við 7. mgr. 15. gr. a laga um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda þar sem kveðið verði á um að óinnheimtar dagsektir falli ekki niður eftir síðasta sektardag nema Vinnueftirlitið ákveði slíkt sérstaklega. Er þannig gert ráð fyrir að eftir að atvinnurekandi hefur bætt úr annmörkum þurfi hann engu að síður að greiða þær dagsektir sem lagðar hafa verið á frá og með fyrsta dagsektardegi og þar til bætt hefur verið úr annmörkum að mati Vinnueftirlitsins. Þykir þetta mikilvægt til að atvinnurekendur sjái hag sinn í því að verða sem fyrst við fyrirmælum Vinnueftirlitsins um úrbætur svo að úrræðið þjóni tilgangi sínum. Með þessum breytingum er enn fremur verið að samræma ákvæði um dagsektir í lögum um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda við ákvæði um dagsektir í ýmsum öðrum lögum, svo sem efnalögum, nr. 61/2013, og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Þá er gert ráð fyrir að heimilt verði með fjárnámi að innheimta dagsektir eftir síðasta sektardag án undangengins dóms eða sáttar.

Um 13. og 14. gr.

    Lagðar eru til breytingar á lögum um starfsmannaleigur, nr. 139/2005, í ljósi þess að í frumvarpi þessu er lagt til að í stað Vinnumálastofnunar skuli Vinnueftirlit ríkisins annast framkvæmd laganna innan stjórnsýslunnar. Er þannig gert ráð fyrir að hvarvetna í lögunum þar sem vísað er til Vinnumálastofnunar verði vísað til Vinnueftirlits ríkisins. Að öðru leyti vísast til skýringa í 3. kafla frumvarpsins um meginefni þess.
    Í 6. mgr. 4. gr. gildandi laga um starfsmannaleigur er kveðið á um að Vinnumálastofnun skuli afhenda viðeigandi stjórnvöldum, svo sem lögreglu, skattyfirvöldum, tollyfirvöldum, Tryggingastofnun ríkisins, Útlendingastofnun, Vinnueftirliti ríkisins og Þjóðskrá Íslands tilteknar upplýsingar. Þar sem í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að í stað Vinnumálastofnunar skuli Vinnueftirlit ríkisins annast framkvæmd laganna innan stjórnsýslunnar er hér jafnframt gert ráð fyrir að ekki verði lengur vísað til þess að Vinnueftirlit ríkisins sé eitt af þeim stjórnvöldum sem því stjórnvaldi sem annast framkvæmd laganna beri að afhenda upplýsingar á grundvelli 6. mgr. 4. gr. laganna en í stað þess verði vísað til Vinnumálastofnunar. Er það lagt til meðal annars í ljósi þess að Vinnumálastofnun fer með framkvæmd laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, og laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og því kann að koma til þess að upplýsingar sem Vinnueftirlit ríkisins aflar við eftirlit á vinnustöðum geti í einhverjum tilvikum verið nauðsynlegar fyrir Vinnumálastofnun við framkvæmd framangreindra laga.

Um 15. gr.

    Lagt er til að tveimur nýjum málsliðum verði bætt við 6. mgr. 11. gr. a laga um starfsmannaleigur þar sem kveðið verði á um að óinnheimtar dagsektir falli ekki niður eftir síðasta sektardag nema Vinnueftirlitið ákveði slíkt sérstaklega. Er þannig gert ráð fyrir að eftir að atvinnurekandi hefur bætt úr annmörkum þurfi hann engu að síður að greiða þær dagsektir sem lagðar hafa verið á frá og með fyrsta dagsektardegi og þar til bætt hefur verið úr annmörkum að mati Vinnueftirlitsins. Þykir þetta mikilvægt til að atvinnurekendur sjái hag sinn í því að verða sem fyrst við fyrirmælum Vinnueftirlitsins um úrbætur svo að úrræðið þjóni tilgangi sínum. Með þessum breytingum er enn fremur verið að samræma ákvæði um dagsektir í lögum um starfsmannaleigur við ákvæði um dagsektir í ýmsum öðrum lögum, svo sem efnalögum, nr. 61/2013, og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Þá er gert ráð fyrir að heimilt verði með fjárnámi að innheimta dagsektir eftir síðasta sektardag án undangengins dóms eða sáttar.

Um 16. og 17. gr.

    Lagðar eru til breytingar á lögum um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, nr. 42/2010, í ljósi þess að í frumvarpi þessu er lagt til að hlutverk Vinnumálastofnunar samkvæmt lögunum verði flutt til Vinnueftirlits ríkisins. Er þannig gert ráð fyrir að þar sem vísað er til Vinnumálastofnunar í 1., 2., 4., 6. og 8. mgr. 6. gr. sem og í 1. og 2. mgr. 7. gr. laganna verði vísað til Vinnueftirlits ríkisins. Að öðru leyti vísast til skýringa í 3. kafla frumvarpsins um meginefni þess.
    Enn fremur er lagt til að tveimur nýjum málsliðum verði bætt við 6. mgr. 6. gr. laga um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum þar sem kveðið verði á um að óinnheimtar dagsektir falli ekki niður eftir síðasta sektardag nema Vinnueftirlitið ákveði slíkt sérstaklega. Er þannig gert ráð fyrir að eftir að atvinnurekandi hefur bætt úr annmörkum þurfi hann engu að síður að greiða þær dagsektir sem lagðar hafa verið á frá og með fyrsta dagsektardegi og þar til bætt hefur verið úr annmörkum að mati Vinnueftirlitsins. Þykir þetta mikilvægt til að atvinnurekendur sjái hag sinn í því að verða sem fyrst við fyrirmælum Vinnueftirlitsins um úrbætur svo að úrræðið þjóni tilgangi sínum. Með þessum breytingum er enn fremur verið að samræma ákvæði um dagsektir í lögum um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum við ákvæði um dagsektir í ýmsum öðrum lögum, svo sem efnalögum, nr. 61/2013, og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Þá er gert ráð fyrir að heimilt verði með fjárnámi að innheimta dagsektir eftir síðasta sektardag án undangengins dóms eða sáttar.

Um 18. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.