Ferill 138. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 138  —  138. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (aldursviðbót).

Flm.: Guðmundur Ingi Kristinsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Oddný G. Harðardóttir, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    Við 29. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þegar réttur til örorkulífeyris fellur niður og taka ellilífeyris hefst skal réttur til aldursviðbótar haldast óbreyttur.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 150., 151., 152. og 153. löggjafarþingi (54. mál). Efni þess hefur verið uppfært til samræmis við breytta framsetningu á lögum um almannatryggingar. Á 152. löggjafarþingi bárust umsagnir um frumvarpið frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Öryrkjabandalagi Íslands, Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni og Landssambandi eldri borgara. Umsagnaraðilar lýstu allir yfir stuðningi við frumvarpið. Öryrkjabandalag Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp ítrekuðu stuðning sinn við frumvarpið með umsögnum sem bárust á 153. löggjafarþingi.
    Þegar örorkulífeyrisþegi verður 67 ára, og öðlast rétt til töku ellilífeyris, fellur niður réttur hans til aldursviðbótar. Við þetta tímamark skerðast greiðslur viðkomandi um þá upphæð sem nemur aldursviðbót hans. Þessi skerðing hefur mikil áhrif á ráðstöfunartekjur öryrkja og íþyngir þeim verulega. Rökin fyrir því að greiða aldursviðbót eru þau að aflahæfi viðkomandi skerðist til lengri tíma allt eftir því hve ungur viðkomandi er þegar hann er metinn til 75% örorku. Þau rök eiga við óháð því hvort viðkomandi er 66 eða 67 ára, enda er það svo að með fullkomnari læknavísindum hefur aflahæfi fólks aukist vel fram yfir 67 ára aldur. Þeir sem eru vinnufærir geta nýtt sér úrræði laganna til töku hálfs lífeyris eða nýtt sér frítekjumörk ellilífeyris en þeir sem eru óvinnufærir njóta þá engra slíkra úrræða. Því á aldursviðbótin ekki að falla niður við upphaf töku ellilífeyris.