Ferill 941. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1388  —  941. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um eflingu og uppbyggingu sögustaða.


Frá menningar- og viðskiptaráðherra.



    Alþingi ályktar að fela menningar- og viðskiptaráðherra að stuðla að eflingu og uppbyggingu sögustaða á Íslandi.

Greinargerð.

    Ferðaþjónusta er ein af stærstu atvinnugreinum á Íslandi og mikilvægur drifkraftur hagvaxtar. Fjöldi ferðamanna óx úr tæplega 500 þúsund árið 2010 í rúmar 2,3 milljónir árið 2018 þegar mest var. Samkvæmt spám má gera ráð fyrir að ferðamenn sem komi til Íslands árið 2024 verði um 2,4 milljónir og um 2,5 milljónir árið 2025. Náttúra landsins er eitt helsta aðdráttaraflið fyrir erlenda ferðamenn og þess vegna hafa stjórnvöld gert ýmsar ráðstafanir til að bregðast við aukinni ásókn ferðamanna. Þá eru fjölsóttustu ferðamannastaðirnir náttúrustaðir og því hefur fram að þessu verið lögð áhersla á vernd og uppbyggingu þeirra.
    Markmið laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, nr. 20/2016, er að móta og samræma stefnu um uppbyggingu, rekstur og viðhald innviða í þágu náttúruverndar og til verndar menningarsögulegum minjum vegna álags af völdum ferðamennsku og útivistar. Samkvæmt lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, nr. 75/2011, hefur sjóðurinn það markmið að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða og ferðamannaleiða um land allt og styðja með því við þróun ferðaþjónustu sem mikilvægrar og sjálfbærrar stoðar í íslensku atvinnulífi. Það er jafnframt markmið sjóðsins að stuðla að jafnari dreifingu ferðamanna um landið og styðja við svæðisbundna þróun.
    Eins og áður greinir er íslensk náttúra eitt helsta aðdráttaraflið sem laðar erlenda ferðamenn til landsins en hið sama má segja um íslenska menningu. Í gögnum Ferðamálastofu kemur fram að um 55% erlendra ferðamanna sem sóttu Ísland heim árið 2022 sögðu að Íslendingar og íslensk menning hefðu haft áhrif á ákvörðun þeirra að heimsækja Ísland.
    Eitt af verkefnum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er að vinna að aðgerðaáætlun á grundvelli framtíðarsýnar ferðaþjónustu til ársins 2030. Vorið 2023 lauk vinnu við uppfærslu á stefnuramma ferðaþjónustunnar til 2030. Framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu er að vera leiðandi í sjálfbærri þróun. Í því felst að ferðaþjónustan sé arðsöm og samkeppnishæf í sátt við land og þjóð, að ferðaþjónustan stuðli að bættum lífskjörum og hagsæld á Íslandi, og að ferðaþjónustan sé þekkt fyrir sjálfbæra þróun, gæði og einstaka upplifun.
    Sögustaðir gegna mikilvægu hlutverki í menningu þjóðarinnar og eru jafnframt hluti af umhverfinu og þar með ásýnd lands og náttúru. Sögustaðir eru til þess fallnir að varðveita mikilvæga sögu landsins og skipa sérstakan sess í hugum landsmanna. Nægir að nefna Þingvelli sem dæmi en staðurinn og náttúra hans eru samofin sögu og menningu landsins. Þingvellir voru árið 2004 skráðir á heimsminjaskrá UNESCO og þar með viðurkennt að staðurinn hafi einstakt gildi fyrir heimsbyggðina alla. Þingvellir njóta enda margvíslegrar lagaverndar, m.a. í lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum, nr. 47/2004, þar sem segir í 1. gr. að Þingvellir skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga sem þjóðgarður. Þingvellir er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins, hvort sem litið er til innlendra eða erlendra ferðamanna.
    Á Íslandi er að finna fleiri merka sögustaði sem dreifast vítt og breitt um landið. Sumir staðanna tengjast fornum stofnunum landsins, eins og biskupssetrin í Skálholti og á Hólum, margir hafa sterk tengsl við fornsögurnar og enn aðrir vísa til sögulegra atburða frá yngri tímum. Sögustaðir geta einnig tengst einstaklingum sem skipa sérstakan sess eða hafa leikið stórt hlutverk í sögu þjóðarinnar. Sögustaðir gegna þannig fjölbreyttu hlutverki og geta einnig haft ólíka merkingu. Þá getur staðurinn sem slíkur, landslagið og þær sögur sem því tengjast og hafa varðveist úr fortíðinni, gegnt mikilvægu hlutverki í því að fólk minnist liðinna atburða og læri að þekkja minni og gildi úr sögu þjóðar. Með orðinu sögustaður í þessari þingsályktunartillögu er átt við stað sem hefur gegnt mikilvægu hlutverki í sögunni og skipar sérstakan sess í sögu lands og þjóðar eða er á annan hátt til þess fallinn að gefa fólki kost á að minnast þess liðna og skapa samkennd meðal þjóðarinnar.
    Í öllum landshlutum starfa áfangastaðastofur. Þær eru svæðisbundnar þjónustueiningar, á vegum sveitarfélaga og fyrirtækja, sem hafa það meginhlutverk að styðja við ferðaþjónustu í viðkomandi landshluta og tryggja að hún þróist í samræmi við hagsmuni og vilja heimafólks með sjálfbærni að leiðarljósi. Áfangastaðastofur vinna áfangastaðaáætlanir fyrir landshluta og fylgja eftir framkvæmd þeirra. Í slíkri vinnu hafa orðið til áherslustaðir í héraði sem sumir geta jafnframt talist sögustaðir. Til viðbótar við þá staði sem að framan hafa verið nefndir, Þingvelli, Skálholt og Hóla, má t.d. nefna Reykholt í Borgarfirði, Odda á Rangárvöllum, Hraun í Öxnadal, Hrafnseyri við Arnarfjörð og Skriðuklaustur í Fljótsdal. Upptalning þessi er ekki tæmandi og fleiri staðir geta sannarlega komið til greina sem sögustaðir.
    Með auknum straumi ferðamanna til landsins er jafnt nauðsyn sem og tækifæri að huga betur að uppbyggingu sögustaða, m.a. í samræmi við áherslur áfangastaðastofa. Nú þegar eru slíkir staðir víða um land sem eiga það sameiginlegt að hafa ríka sögulega skírskotun og eru til þess fallnir að vera áhugaverðir áfangastaðir fyrir ferðamenn. Víða er einnig að finna starfsemi á slíkum stöðum og jafnvel nokkrir aðilar, opinberir sem og einkaaðilar, sem stunda starfsemi á staðnum.
    Markmið þessarar þingsályktunartillögu er að styðja enn frekar við uppbyggingu menningarferðaþjónustu á sögustöðum og móta slíkum áherslustöðum viðeigandi umgjörð. Það skal gert í samráði við viðeigandi ráðuneyti, áfangastaðastofur og aðra hagsmunaaðila, líkt og landeigendur, rekstraraðila og heimafólk. Uppbygging á sögustöðum getur verið með fjölbreyttum hætti, m.a. með upplifun, skapandi og stafrænni miðlun menningar og sögu. Með uppbyggingu sögustaða er markmiðið að standa vörð um staðinn sjálfan og þá sögu sem hann hefur að segja og miðla henni til komandi kynslóða. Með því að efla og festa sögustaði í sessi sem áhugaverða áfangastaði fyrir ferðamenn, jafnt innlenda sem erlenda, gefst einstakt tækifæri til að efla og auka þekkingu og miðlun um sögu og menningu landsins.