Ferill 817. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1391  —  817. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Brynju Dan Gunnarsdóttur um hatursorðræðu og kynþáttahatur.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hafa ráðuneytið og stofnanir þess boðið upp á fræðslu fyrir starfsfólk um hatursorðræðu og kynþáttahatur og ef svo er, hvernig hefur henni verið háttað? Ef svo er ekki, hyggst ráðherra sjá til þess að starfsmenn ráðuneytisins og stofnana þess fái slíka fræðslu?

    Forsætisráðuneyti er í samstarfi við Samtökin ’78 um að öðlast hinsegin vottun sem vinnustaður, fyrst ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Í tengslum við það verkefni hefur öllu starfsfólki og stjórnendum verið boðin fræðsla um hatursorðræðu sem beinist sérstaklega að hinsegin fólki. Að öðru leyti hefur ekki verið boðin sérstök fræðsla um hatursorðræðu og kynþáttahatur fyrir vinnustaðinn en markvisst hefur verið stuðlað að því að aukin þekking um málefnið myndist innan ráðuneytisins. Ráðuneytið hefur staðið fyrir þó nokkrum fræðsluerindum um hatursorðræðu á fundum og viðburðum sem ætlaðir hafa verið almenningi eða tilteknum hópum. Margt starfsfólk ráðuneytisins hefur tekið þátt og hlotið fræðslu þar. Einnig hafa einstaka starfsmenn ráðuneytisins sótt sér sérstaka fræðslu um hatursorðræðu vegna verkefna sinna í ráðuneytinu. Að aftan verða nefnd nokkur dæmi.
    Við gerð tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar gegn hatursorðræðu fyrir árin 2023–2026, sem lögð var fram á 153. löggjafarþingi (795. mál) en náði ekki fram að ganga, varð til aukin þekking um málefnið. Af því tilefni bauð forsætisráðherra til samráðsfundar um aðgerðir gegn hatursorðræðu í Björtuloftum í Hörpu í október árið 2022 vegna vinnu starfshóps gegn hatursorðræðu sem þá var að störfum og forsætisráðherra skipaði 16. júní sama ár. Dr. María Rún Bjarnadóttir, verkefnisstjóri gegn stafrænu ofbeldi hjá ríkislögreglustjóra, flutti þar fræðsluerindi um hatursorðræðu. Samráðsfundurinn var opinn öllum og var starfsfólk ráðuneytisins sérstaklega hvatt til að sækja fundinn. Að loknu fræðsluerindi var fundargestum skipt í umræðuhópa sem ræddu sín á milli um aðgerðir sem grípa mætti til í því augnamiði að vinna gegn hatursorðræðu og haturstjáningu í íslensku samfélagi. Skrifstofa jafnréttis- og mannréttindamála í ráðuneytinu skipulagði og sá um fundinn. Þátttakendur voru um 100 talsins, þ.m.t. þó nokkrir starfsmenn ráðuneytisins.
    Hinn 8. febrúar 2023 sótti starfsmaður forsætisráðuneytis námskeið á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands hjá dr. Eyrúnu Eyþórsdóttur, lektor við Háskólann á Akureyri, um hatursorðræðu og hatursglæpi.
    Heimsráð kvenleiðtoga ( Council of Women World Leaders, CWWL) hélt ársfund sinn 13. nóvember 2023 í Hörpu en forsætisráðherra hefur gegnt þar formennsku frá árinu 2020. Þema ársfundarins var hatursorðræða, m.a. það áreiti sem konur í stjórnmálum og konur í fjölmiðlum verða fyrir, sérstaklega á netinu, og kælingaráhrif sem áreitið hefur á þátttöku kvenna í opinberri umræðu. Linda Robinson, sérfræðingur frá Ráði um erlend samskipti ( Council on Foreign Relations, CFR), flutti fræðsluerindi. Starfsmaður forsætisráðuneytisins sótti fundinn.
    Starfsfólk forsætisráðuneytisins sótti jafnframt rafrænt námskeið um hatursglæpi á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) 5. desember 2023, nánar tiltekið á vegum skrifstofu ÖSE fyrir lýðræðislegar stofnanir og mannréttindi (ODIHR). Um hálfs dags námskeið var að ræða sem var ætlað starfsfólki Stjórnarráðsins og undirstofnana þess sem hefur með málefni hatursglæpa að gera.
    Hinn 6. desember 2023 bauð forsætisráðherra til þriðja fundar samráðsvettvangs um jafnréttismál sem haldinn var í Hannesarholti, á grundvelli laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Hlutverk samráðsvettvangsins er að vera forsætisráðherra til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málum sem tengjast jafnrétti kynjanna. Hatursorðræða var meginumræðuefni og þema fundarins að þessu sinni. Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, og dr. María Rún Bjarnadóttir, verkefnisstjóri gegn stafrænu ofbeldi hjá ríkislögreglustjóra, héldu fræðsluerindi um hatursorðræðu og við tóku hringborðsumræður í nokkrum hópum um málefnið. Þátttakendur á fundinum voru fulltrúar frá aðilum vinnumarkaðarins, fræðasamfélaginu og samtökum sem vinna að kynjajafnrétti. Þó nokkrir úr starfsliði forsætisráðuneytisins voru viðstaddir fundinn og hlutu fræðslu um hatursorðræðu. Skrifstofa jafnréttis- og mannréttindamála í ráðuneytinu skipulagði fundinn. Samantekt frá fundinum hefur verið birt á vef forsætisráðuneytis.
    Hinn 2. febrúar 2024 hleypti Jafnréttisstofa af stokkunum herferðinni Orðin okkar með stuðningi forsætisráðuneytis. Herferðinni var ætlað að hvetja fólk til umhugsunar um áhrifamátt orða sinna. Herferðin er liður í að stuðla að auknu jafnrétti í íslensku samfélagi og berjast á heildrænan hátt gegn hatursorðræðu í samræmi við tilmæli Evrópuráðsins um baráttu gegn hatursorðræðu frá árinu 2022. Herferðina er að finna á vefnum ordinokkar.is. Þar eru einnig upplýsingar um hatursorðræðu, lagaumhverfi hennar og það hvernig bregðast megi við henni. Starfsfólk á skrifstofu jafnréttis- og mannréttindamála fékk greinargóða yfirferð yfir verkefnið auk þess sem herferðin var kynnt sérstaklega á starfsmannafundi forsætisráðuneytisins. Í lok febrúar sl. fékk forsætisráðuneytið rannsóknarfyrirtækið Maskínu til að kanna áhrif herferðarinnar á almenning. Samkvæmt könnuninni tóku 67% að einhverju leyti eftir vitundarvakningunni. Um 55% þeirra sem urðu vör við hana hugsuðu meira um áhrif orða sinna. Vitundarvakningin hafði þar af leiðandi þau áhrif að 34,5% svarenda könnunarinnar hugsuðu meira um áhrif orða sinna
    Starfsfólk Jafnréttisstofu hefur auk þess öðlast aukna þekkingu um hatursorðræðu vegna samstarfs við m.a. Samtökin ’78, Þroskahjálp og Hennar rödd og við gerð vitundarvakningarherferðanna Meinlaust og Orðin okkar. Enn fremur tók starfsfólk Jafnréttisstofu þátt í starfshópi sem forsætisráðherra skipaði 16. júní 2022, og fjallað var um að framan, sem tók þátt í samráðsfundi um aðgerðir gegn hatursorðræðu í Björtuloftum í Hörpu í október árið 2022 og hlaut þar fræðslu.
    Í mars árið 2023 fundaði umboðsmaður barna og starfsfólk embættisins með samtökunum Children’s Rights Alliance, regnhlífarsamtökum sem sameina fleiri en 100 mannréttindasamtök sem vinna að réttindum barna á Írlandi. Hópurinn fékk kynningu á starfseminni frá framkvæmdastjóra samtakanna, Tönyu Ward. Sérstaklega var fjallað um aukna hatursorðræðu í samfélaginu sem beinist gegn minnihlutahópum, einkum trans börnum. Rætt var um hvernig samtökin vinna að því að koma í veg fyrir hatursorðræðu og upplýsingaóreiðu sem beitt er með markvissum hætti í þeim tilgangi að kynda undir fordómum og hatursorðræðu í samfélaginu.
    Hinn 24. maí 2023 sótti starfsfólk embættisins opinn fræðslufund á vegum samtakanna Náum áttum er bar heitið „Hvernig má bæta líðan og umhverfi barna – Orðum fylgir ábyrgð“. Þar flutti Sema Erla Serdaroglu erindi um fordóma og meiðandi orðræðu meðal barna og unglinga. Þá flutti Aníta Sóley Scheving Þórðardóttir erindi um hvað menntakerfið geti gert betur til að sporna við hatursorðræðu. Í júlí sama ár sóttu lögfræðingar embættisins námskeið um réttindi barna í Leiden í Hollandi. Þar var m.a. fjallað um hatursorðræðu sem beint er að ákveðnum hópum barna. Hinn 22. september 2023 fékk umboðsmaður barna og starfsfólk embættisins fræðslu frá fræðslustýru og starfsfólki skrifstofu Samtakanna ’78. Þar var farið yfir bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks og hatursorðræðu sem beint hefur verið að þessum hópi samfélagsins. Loks tók embætti umboðsmanns barna þátt í samstarfsverkefni sem bar heitið „Trans börn – skilvirkt stuðningskerfi í skóla“. Markmið verkefnisins var að sporna við mismunun og ofbeldi sem á rætur sínar að rekja til fordóma gagnvart LGBTQIA+ börnum í pólskum grunn- og framhaldsskólum. Hluti af þeirri vinnu er að sporna við hatursorðræðu í samfélaginu og greina birtingarmyndir hennar og áhrif á réttindi barna. Í október árið 2023 var haldin ráðstefna um þetta verkefni sem embættið sótti og tók þátt í.
    Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands er fyrirhugað að starfsfólk bankans fái fræðslu um málefnið í apríl 2024.
    Forsætisráðuneyti hefur sett hatursorðræðu á dagskrá og nýtt hvern þann vettvang sem ráðuneytið býr yfir til að búa til farveg fyrir málefnalega umræðu um hatursorðræðu og mun gera það áfram.
    Til að koma í veg fyrir hatursorðræðu og berjast gegn henni á skilvirkan hátt er mikilvægt að greina og skilja undirrót hennar og víðara samfélagslegt samhengi, ýmsar birtingarmyndir hennar og mismunandi áhrif sem hún hefur á þá sem hún beinist að. Enn fremur er mikilvægt að gæta ávallt jafnvægis milli tjáningar- og skoðanafrelsis annars vegar og friðhelgi einkalífs, jafnréttis og banns við mismunun hins vegar. Fræðsla er því mikilvæg í þessu samhengi.
    Forsætisráðuneyti hefur látið íslenska tilmæli Evrópuráðsins gegn hatursorðræðu frá árinu 2022 (e. CM/Rec (2022) 16 on Combating Hate Speech) sem og greinargerð með tilmælunum. Tilmælin hafa verið birt á íslensku og ensku á vef forsætisráðuneytis um jafnréttismál. Tilgangurinn með þýðingu og birtingu er að gera tilmælin aðgengileg almenningi en einnig er hugsunin sú að unnt verði að nýta tilmælin til fræðslu, m.a. á vinnustöðum (þar á meðal í ráðuneytum og undirstofnunum þeirra), í skólum, hjá sveitarfélögum og frjálsum félagasamtökum. Mikilvægt er að halda áfram að leitast við að finna leiðir til að sporna við hatursorðræðu í samfélaginu með fræðslu um þessi málefni, að virtum mörkum tjáningar- og skoðanafrelsis.