Ferill 761. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1398  —  761. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um teymi sérfræðinga um börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni.


     1.      Hefur ráðherra tekið til skoðunar í samráði við heilbrigðisráðherra hvort tilefni sé til að samræma fyrirkomulag við val á sérfræðingum í þverfaglega hópa samkvæmt lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, eins og meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar beindi til ráðherra á 151. löggjafarþingi (þskj. 564) að gera?
    Alls eru þrjú teymi og ein sérfræðinefnd að störfum á grundvelli laga nr. 80/2019, um kynrænt sjálfræði:
     1.      Sérfræðinefnd skv. 9. gr. laganna. Forsætisráðherra skipar sérfræðinefnd um breytingar á kynskráningu barna og breytingar á ódæmigerðum kyneinkennum á grundvelli 9. gr. laga nr. 80/2019.
     2.      Teymi Landspítala skv. 12. gr. laganna. Forstjóri Landspítala skipar í teymi barna- og unglingageðdeildar um kynvitund á grundvelli 12. gr. laga nr. 80/2019.
     3.      Teymi Landspítala skv. 13. gr. laganna. Forstjóri Landspítala skipar í teymi Landspítala um kynvitund og breytingar á kyneinkennum á grundvelli 13. gr. laga nr. 80/2019.
     4.      Teymi sérfræðinga skv. 13. gr. a laganna. Heilbrigðisráðherra skipar í teymi sérfræðinga um börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni á grundvelli 13. gr. a laga nr. 80/2019.
    Við undirbúning að breytingum á lögum nr. 80/2019, sbr. lög nr. 154/2020, var kannað hvort heppilegt væri að málefni barna með ódæmigerð kyneinkenni féllu undir teymi Landspítala um kynvitund og breytingar á kyneinkennum. Eftir nánari skoðun var talið betra að stofna nýtt teymi sem skipað væri af heilbrigðisráðherra.
    Forsætisráðuneyti óskaði nýverið eftir upplýsingum frá heilbrigðisráðuneyti og Landspítala um skipan í ofangreind teymi í því skyni að rýna betur samsetningu sérfræðinga í tilvísuðum hópum. Enn fremur hefur verið óskað eftir frekari upplýsingum um starf teymis sérfræðinga skv. 13. gr. a. Í framhaldinu verður metið hvort rétt sé að leggja til breytingar á fyrirkomulaginu með það að leiðarljósi að ávallt sé veitt þjónusta í samræmi við nýjustu rannsóknir og þekkingu á því sviði sem um ræðir.
    Komið hafa fram sjónarmið um að æskilegt væri að forstjóri Landspítala skipaði í teymi sérfræðinga um börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni og að tekið yrði meira tillit til félagslegra þátta og þekkingar á kynvitund við skipun í teymið. Mun það vera eitt af þeim atriðum sem tekin verða til athugunar í forsætisráðuneyti að lokinni upplýsingaöflun og kortlagningu, sbr. framangreint.

     2.      Lítur ráðherra svo á að teymi sérfræðinga um börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni, sem heilbrigðisráðherra skipaði 21. október 2022, uppfylli það að teljast þverfaglegt í ljósi þess að í teymið voru skipaðir sérfræðingar í innkirtla- og skurðlækningum en engir sérfræðingar í sálfræði, félagsráðgjöf og/eða kynjafræði sem ráðherra sagði að kynni að vera þörf á í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 154/2020?
    Í greinargerð með lögum nr. 154/2020, um breytingu á lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, kemur fram að við skipun teymisins sé mikilvægt að tryggja nauðsynlega sérþekkingu og að þörf kunni að vera á sérfræðingum í sálfræði, félagsráðgjöf og kynjafræði í teyminu. Ekki er á hinn bóginn mælt fyrir um nákvæma samsetningu teymisins í lögunum. Að öðru leyti er vísað til svars við 1. tölul. fyrirspurnarinnar um þá vinnu sem nú stendur yfir í ráðuneytinu við upplýsingaöflun um skipan og störf teyma á grundvelli laga um kynrænt sjálfræði og fyrirhugaða skoðun á núverandi fyrirkomulagi.