Ferill 1087. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1593  —  1087. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld o.fl., nr. 102/2023 (persónuafsláttur lífeyrisþega).

Flm.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    A-liður 11. gr. fellur brott.

2. gr.

    Orðin „og a-liður 11. gr.“ í 1. mgr. 36. gr. falla brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að fella úr gildi ákvæði sem mun að óbreyttu fella niður persónuafslátt lífeyrisþega sem búsettir eru erlendis hinn 1. janúar næstkomandi.
    Hinn 16. desember 2023 samþykkti Alþingi breytingu á 70. gr. laga um tekjuskatt sem fellir niður persónuafslátt lífeyrisþega sem búsettir eru erlendis. Umrædd breyting var hluti af gistináttabandorminum svokallaða en í því frumvarpi var fjallað um fyrirkomulag gistináttaskatts auk þess sem gerðar voru ýmsar breytingar á öðrum lögum. Sú breyting sem felldi niður persónuafslátt lífeyrisþega, a-liður 11. gr. frumvarpsins, hlaut ekki mikla umfjöllun í greinargerð frumvarpsins og vakti ekki athygli nefndarmanna efnahags- og viðskiptanefndar fyrr en umsögn barst frá ÖBÍ réttindasamtökum hinn 7. desember en þá var efnislegri umfjöllun um efni frumvarpsins lokið og strax á næsta fundi nefndarinnar var það afgreitt til 2. umræðu. ÖBÍ benti á í umsögn sinni að engin greining á áhrifum breytingarinnar lægi fyrir og jafnframt að umrædd breyting kynni að hafa veruleg áhrif á fjárhag fjölda lífeyrisþega. Þingmenn Flokks fólksins vöktu athygli á umsögn ÖBÍ við 2. umræðu málsins á Alþingi og kölluðu eftir því að frumvarpið gengi aftur til nefndar milli 2. og 3. umræðu til að ræða nánar a-lið 11. gr. þess. Eftir umræðu í nefndinni milli 2. og 3. umræðu náðist samkomulag um að fresta gildistöku a-liðar 11. gr. þar til 1. janúar 2025, eða um eitt ár. Frumvarpið, svo breytt, var samþykkt hinn 16. desember.
    Skömmu síðar, hinn 27. desember, sendi Tryggingastofnun ríkisins tilkynningu til lífeyrisþega sem búsettir voru erlendis þess efnis að um áramótin myndi persónuafsláttur þeirra falla niður. Svo virðist sem stjórnvöld hafi ekki tekið eftir því að gildistöku áðurnefnds ákvæðis hafði verið frestað um ár. Þá kom í ljós hver áhrifin hefðu orðið, ef ekki hefði verið fyrir baráttu þingmanna Flokks fólksins gegn gildistöku ákvæðisins. Um 3.000 manns hefðu orðið fyrir tekjuskerðingu sem nemur rúmlega 700.000 kr. á ársgrundvelli. Ljóst er að miklu tjóni var afstýrt þegar gildistöku ákvæðisins var frestað um ár. Eftir stendur að umrætt ákvæði mun taka gildi næstu áramót. Því þarf að breyta.
    Samkvæmt umfjöllun í greinargerð um a-lið 11. gr. átti breytingin ekki að hafa mikil áhrif og var hún lögð til vegna þess að almennt eru persónuívilnanir vegna skattskyldu aðeins veittar í búseturíki. Þá kom fram í svari fjármála- og efnahagsráðuneytis við fyrirspurn Ríkisútvarpsins að breytingin hefði þótt nauðsynleg vegna þess að dæmi væru um að einstaklingar fengju persónuafslátt af skatttekjum sínum í bæði heimaríki og búseturíki. Loka þyrfti fyrir slíka tvöfalda ívilnun.
    Það skal tekið fram að ekki liggja fyrir gögn um hve margir njóta slíkrar tvöfaldrar ívilnunar. Þá er persónuafsláttur ekki styrkur, heldur afsláttur af greiðslu skatta. Það fær því enginn að njóta slíks afsláttar nema hann greiði skatta til Íslands. Flestir lífeyrisþegar sem búsettir eru erlendis eru almannatryggingaþegar sem hafa flutt þangað vegna bágra kjara á Íslandi. Fólk sem lifir á lífeyristekjum er í viðkvæmri stöðu fyrir breytingum sem skyndilega minnka tekjur þeirra um allt að 30% á einni nóttu.
    Ýmsir hafa bent á að þegar ákvæðið tekur gildi um næstu áramót geti lífeyrisþegar sótt um undanþágu og haldið persónuafslætti sínum, ef 75% af tekjum þeirra koma frá Íslandi. En sú undanþáguregla hefur ekki verið kynnt lífeyrisþegum, sem er afar sérstakt í ljósi þess að á hana hefði reynt strax um áramótin ef ekki hefði tekist að fresta gildistöku a-liðar 11. gr. Þá er ljóst að margir öryrkjar og eldri borgarar sem búsettir eru erlendis þurfa aðstoð við að gæta réttar síns að þessu leyti, fylla út eyðublöð og koma þeim á réttan stað í stjórnsýslunni í tæka tíð. Þá má vel hugsa sér fjölmörg dæmi þar sem lífeyrisþegar falla ekki innan þeirrar undanþágu, án þess að eiga rétt á sambærilegri persónuívilnun erlendis frá, svo sem ef lífeyrisþegi hefur hóflegar tekjur af útleigu hluta fasteignar í því landi sem hann hefur flutt til.
    Sagan sýnir að stjórnvöld gera oft breytingar sem íþyngja fólki mjög, án þess að þeim fylgi nokkur ábati. Flutningsmenn þessa frumvarps telja að nauðsynlegt sé að afstýra því að þúsundir Íslendinga sem búsettir eru erlendis missi persónuafslátt um næstu áramót.