Ferill 627. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.








Lög



um breytingu á lögum um fyrirtækjaskrá og fleiri lögum (samtengingarkerfi skráa).


________




I. KAFLI

Breyting á lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 4. gr. laganna:
     a.      6. tölul. orðast svo: Nafn, lögheimili og kennitölu stjórnar- og varamanna, prókúruhafa, framkvæmdastjóra, endurskoðenda og skoðunarmanna, félagsmanna í sameignar- og samlagsfélögum og annarra forráðamanna.
     b.      Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Í tilviki hlutafélaga, einkahlutafélaga, samlagsfélaga og útibúa erlendra hlutafélaga og einkahlutafélaga, einkvæmt evrópskt auðkenni.

2. gr.

    Á eftir 9. gr. a laganna koma tvær nýjar greinar, 9. gr. b og 9. gr. c, svohljóðandi:

    a. (9. gr. b.)
    Ríkisskattstjóra er heimilt að miðla og taka á móti upplýsingum og gögnum úr fyrirtækjaskrám annarra EES-ríkja í gegnum samtengingarkerfi skráa sem sett er á fót í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1132 frá 14. júní 2017 um tiltekna þætti félagaréttar (kerfisbinding). Upplýsingaskiptin skulu fara fram í samræmi við þær reglur sem kveðið er á um í tilskipuninni og framkvæmdarreglugerðum settum á grundvelli hennar.
    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1132 og framkvæmdarreglugerðir settar á grundvelli hennar um tækniforskriftir og verklagsreglur fyrir samtengingarkerfi skráa, þ.m.t. um upplýsingaskipti milli fyrirtækjaskrár og fyrirtækjaskráa annarra EES-ríkja og um gjaldtöku ef við á.
    Ráðherra setur með reglugerð ákvæði um almennan aðgang að upplýsingum og gögnum úr fyrirtækjaskrá sem birtast eða veittur er aðgangur að í vefgátt samtengingarkerfis skráa skv. 1. mgr. og veitingu upplýsinga og gagna úr henni, svo og um gjaldtöku fyrir upplýsingar og gögn úr skránni, svo sem fyrir útgáfu vottorða og staðfestinga og önnur afnot af upplýsingum og gögnum skrárinnar.
    Ríkisskattstjóri veitir upplýsingar sem um getur í 9. og 10. tölul. 1. mgr. 4. gr. í gegnum samtengingarkerfi skráa skv. 1. mgr. svo sem nánar er kveðið á um í lögum um skráningu raunverulegra eigenda.

    b. (9. gr. c.)
    Ríkisskattstjóra er heimilt að vinna með persónuupplýsingar að því marki sem honum er það nauðsynlegt til að sinna hlutverki sínu samkvæmt lögum þessum, svo sem vegna skráningar upplýsinga í fyrirtækjaskrá og við að veita aðgang að þeim upplýsingum.
    Heimildin nær til vinnslu almennra persónuupplýsinga, eins og nafns, kennitölu, heimilisfangs, aðseturs og fjárhagsupplýsinga einstaklinga. Þessar upplýsingar geta verið um einstaklinga sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, forsvarsmenn félaga og raunverulega eigendur.
    Ríkisskattstjóri skal veita aðgang að persónugreinanlegum upplýsingum úr fyrirtækjaskrá, sbr. 1. mgr. 8. gr., þar á meðal fylgigögnum tilkynninga til fyrirtækjaskrár og upplýsingum sem hafa verið skráðar úr þeim.
    Vinnsla persónuupplýsinga samkvæmt lögum þessum skal samræmast lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

3. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 11. gr. a, svohljóðandi:
    Lög þessi fela í sér innleiðingu á ákvæðum 16., 18., 19., 20., 22., 24., 29. og 130. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1132 frá 14. júní 2017 um tiltekna þætti félagaréttar (kerfisbinding), eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 200/2019, frá 10. júlí 2019, að því er varðar skráningu hlutafélaga, einkahlutafélaga og útibúa erlendra hlutafélaga og einkahlutafélaga.

II. KAFLI

Breyting á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995.

4. gr.

    Á eftir 147. gr. laganna kemur ný grein, 147. gr. a, svohljóðandi:
    Ríkisskattstjóra er heimilt að miðla og taka á móti upplýsingum og gögnum úr fyrirtækjaskrám annarra EES-ríkja í gegnum samtengingarkerfi skráa sem sett er á fót í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1132 frá 14. júní 2017 um tiltekna þætti félagaréttar (kerfisbinding). Upplýsingaskiptin skulu fara fram í samræmi við þær reglur sem kveðið er á um í tilskipuninni og framkvæmdarreglugerðum settum á grundvelli hennar.
    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1132 og framkvæmdarreglugerðir settar á grundvelli hennar um tækniforskriftir og verklagsreglur fyrir samtengingarkerfi skráa, þ.m.t. um upplýsingaskipti milli fyrirtækjaskrár og fyrirtækjaskráa annarra EES-ríkja og um gjaldtöku ef við á.
    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um almennan aðgang að upplýsingum og gögnum úr fyrirtækjaskrá sem birtast eða veittur er aðgangur að í vefgátt samtengingarkerfis skráa skv. 1. mgr. og hvaða upplýsingar og gögn skuli vera aðgengileg, svo og um gjaldtöku fyrir upplýsingar og gögn úr skránni, svo sem fyrir útgáfu vottorða og staðfestinga og önnur afnot af upplýsingum og gögnum skrárinnar.

5. gr.

    Á eftir 151. gr. laganna kemur ný grein, 151. gr. a, svohljóðandi:
    Ríkisskattstjóra er heimilt að vinna með persónuupplýsingar að því marki sem honum er það nauðsynlegt til að sinna hlutverki sínu samkvæmt lögum þessum, svo sem vegna skráningar upplýsinga í hlutafélagaskrá. Heimildin nær m.a. til þess að skrá upplýsingar skv. 148. gr., svo sem almennar persónuupplýsingar eins og nafn, kennitölu, heimilisfang, aðsetur og fjárhagsupplýsingar einstaklinga.
    Ríkisskattstjóri skal veita aðgang að persónugreinanlegum upplýsingum úr hlutafélagaskrá, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, þar á meðal fylgigögnum tilkynninga til hlutafélagaskrár og upplýsingum sem hafa verið skráðar úr þeim.
    Vinnsla persónuupplýsinga samkvæmt lögum þessum skal samræmast lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.


6. gr.

    Við lögin bætist ný grein, svohljóðandi:
    Lög þessi fela í sér innleiðingu á ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1132 frá 14. júní 2017 um tiltekna þætti félagaréttar (kerfisbinding), eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 200/2019, frá 10. júlí 2019.

III. KAFLI

Breyting á lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994.

7. gr.

    Á eftir 121. gr. laganna kemur ný grein, 121. gr. a, svohljóðandi:
    Ríkisskattstjóra er heimilt að miðla og taka á móti upplýsingum og gögnum úr fyrirtækjaskrám annarra EES-ríkja í gegnum samtengingarkerfi skráa sem sett er á fót með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1132 frá 14. júní 2017 um tiltekna þætti félagaréttar (kerfisbinding). Upplýsingaskiptin skulu fara fram í samræmi við þær reglur sem kveðið er á um í tilskipuninni og framkvæmdarreglugerðum settum á grundvelli hennar.
    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1132 og framkvæmdarreglugerðir settar á grundvelli hennar um tækniforskriftir og verklagsreglur fyrir samtengingarkerfi skráa, þ.m.t. um upplýsingaskipti milli fyrirtækjaskrár og fyrirtækjaskráa annarra EES-ríkja og um gjaldtöku ef við á.
    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um almennan aðgang að upplýsingum og gögnum úr fyrirtækjaskrá sem birtast eða veittur er aðgangur að í vefgátt samtengingarkerfis skráa skv. 1. mgr. og hvaða upplýsingar og gögn skuli vera aðgengileg, svo og um gjaldtöku fyrir upplýsingar og gögn úr skránni, svo sem fyrir útgáfu vottorða og staðfestinga og önnur afnot af upplýsingum og gögnum skrárinnar.

8. gr.

    Á eftir 125. gr. laganna kemur ný grein, 125. gr. a, svohljóðandi:
    Ríkisskattstjóra er heimilt að vinna með persónuupplýsingar að því marki sem honum er það nauðsynlegt til að sinna hlutverki sínu samkvæmt lögum þessum, svo sem vegna skráningar upplýsinga í hlutafélagaskrá. Heimildin nær m.a. til þess að skrá upplýsingar skv. 122. gr., svo sem almennar persónuupplýsingar eins og nafn, kennitölu, heimilisfang, aðsetur og fjárhagsupplýsingar einstaklinga.
    Ríkisskattstjóri skal veita aðgang að persónugreinanlegum upplýsingum úr hlutafélagaskrá, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, þar á meðal fylgigögnum tilkynninga til hlutafélagaskrár og upplýsingum sem hafa verið skráðar úr þeim.
    Vinnsla persónuupplýsinga samkvæmt lögum þessum skal samræmast lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

9. gr.

    Á undan 132. gr. laganna kemur ný grein, 131. gr. a, svohljóðandi:
    Lög þessi fela í sér innleiðingu á ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1132 frá 14. júní 2017 um tiltekna þætti félagaréttar (kerfisbinding), eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 200/2019, frá 10. júlí 2019.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 109. gr. laganna:
     a.      Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ríkisskattstjóra er heimilt að vinna með persónuupplýsingar að því marki sem honum er það nauðsynlegt til að sinna hlutverki sínu samkvæmt lögum þessum.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Vinnsla persónuupplýsinga samkvæmt lögum þessum skal samræmast lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

11. gr.

    Á eftir 109. gr. laganna kemur ný grein, 109. gr. a, svohljóðandi:
    Ríkisskattstjóra er heimilt að miðla og taka á móti upplýsingum og gögnum frá fyrirtækjaskrám annarra EES-ríkja í gegnum samtengingarkerfi skráa sem sett er á fót með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1132 frá 14. júní 2017 um tiltekna þætti félagaréttar (kerfisbinding). Upplýsingaskiptin skulu fara fram í samræmi við þær reglur sem kveðið er á um í tilskipuninni og framkvæmdarreglugerðum settum á grundvelli hennar.
    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1132 og framkvæmdarreglugerðir settar á grundvelli hennar um tækniforskriftir og verklagsreglur fyrir samtengingarkerfi skráa, þ.m.t. um upplýsingaskipti milli fyrirtækjaskrár og fyrirtækjaskráa annarra EES-ríkja.
    Ríkisskattstjóri veitir aðgang að ársreikningum og samstæðureikningum hlutafélaga, einkahlutafélaga, samlagsfélaga og útibúa erlendra hlutafélaga og einkahlutafélaga í vefgátt samtengingarkerfis skráa skv. 1. mgr.

12. gr.

    Við 128. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Lög þessi fela í sér innleiðingu á ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1132 frá 14. júní 2017 um tiltekna þætti félagaréttar (kerfisbinding), eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 200/2019, frá 10. júlí 2019, að því er varðar samtengingarkerfi skráa, sbr. 22. gr. tilskipunarinnar.

V. KAFLI

Breyting á lögum um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019.

13. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Upplýsingar um raunverulega eigendur skv. 4. gr. skulu vera aðgengilegar sem hér segir í gegnum samtengingarkerfi skráa sem sett er á fót með 1. mgr. 22. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1132 frá 14. júní 2017 um tiltekna þætti félagaréttar (kerfisbinding) í samræmi við ákvæði 10. mgr. 30. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/849 og framkvæmdarreglugerða settra á grundvelli síðarnefndu tilskipunarinnar:
     a.      lögbær yfirvöld og skrifstofur fjármálagreininga lögreglu í aðildarríkjum EES-ríkjanna skulu tímanlega hafa óheftan aðgang að öllum upplýsingum um raunverulega eigendur án þess að hlutaðeigandi aðilum sé gert viðvart,
     b.      tilkynningarskyldir aðilar skv. 2. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849 skulu við framkvæmd áreiðanleikakönnunar skv. II. kafla tilskipunarinnar tímanlega hafa aðgang að nauðsynlegum upplýsingum um raunverulega eigendur.

14. gr.

    Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Upplýsingar um fjárvörslusjóði og sambærilega aðila skv. 5. gr. skulu vera aðgengilegar sem hér segir í gegnum samtengingarkerfi skráa sem sett er á fót með 1. mgr. 22. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1132 frá 14. júní 2017 um tiltekna þætti félagaréttar (kerfisbinding) í samræmi við ákvæði 9. mgr. 31. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/849 og framkvæmdarreglugerða settra á grundvelli síðarnefndu tilskipunarinnar:
     a.      lögbær yfirvöld og skrifstofur fjármálagreininga lögreglu í aðildarríkjum EES-ríkjanna skulu tímanlega hafa óheftan aðgang að öllum skráðum upplýsingum um raunverulega eigendur án þess að hlutaðeigandi aðilum sé gert viðvart,
     b.      tilkynningarskyldir aðilar skv. 2. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849 skulu við framkvæmd áreiðanleikakönnunar skv. II. kafla tilskipunarinnar tímanlega hafa aðgang að nauðsynlegum upplýsingum.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
     a.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Lögin fela einnig í sér innleiðingu á ákvæðum g-liðar 15. mgr., j-liðar 16. mgr. og 17. mgr. 1. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/843 frá 30. maí 2018 um breytingu á tilskipun (ESB) 2015/849 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis eða til fjármögnunar hryðjuverka og um breytingu á tilskipunum 2009/138/EB og 2013/36/ESB, eins og tilskipunin var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 63/2020 frá 30. apríl 2020.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Innleiðing.

16. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu koma til framkvæmda 1. júní 2024.




_____________







Samþykkt á Alþingi 30. apríl 2024.